24. nóv. 2008

Þetta er aumt

Mikið óskaplega er þetta aumt. Ég er að hlusta á umræður um vantrauststillöguna.

Þar kemur svo berlega í ljós hvað hver einn og einasti þingflokkanna er gjörsamlega ónýtur. Hversu þingheimur allur er rotinn að innan. Ekkert nýtt, engin umræða, engin tækifæri notuð til eins eða neins.

Sjálfstæðisflokkurinn sakar stjórnarandstöðuna fyrir lýðskrum og segir tillöguna aðför að lýðræðinu.
Samfylkingin skammar framsóknarflokkinn fyrir að vera ónýtur og hafa verið í ríkisstjórn á undan þeim.
Framsóknarflokkurinn sakar samfylkinguna um lýðskrum og að vera ekki gjörsamlega sammála sjálfstæðisflokknum.
Vinstri græn skamma samfylkinguna fyrir að vilja fara í evrópusambandið, vera í stjórn með sjálfstæðisflokknum og hafa viljað aðkomu alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Frjálslyndir tala um fiskveiðistjórnunarkerfið

Úff

21. nóv. 2008

Orð dagsins

sammála


Verkefni helgarinnar:

Björgvin:
Stokka upp í fjármálaeftirlitinu
Segja af sér

Árni:
Segja af sér

Geir:
Stokka upp í seðlabankanum

Sólrún:
Segja upp ríkisstjórnarsamstarfi og boða þjóðstjórn fram að kosningum á vordögum.

sögur úr smáborg

Ég droppaði við dántán um daginn og kíkti í banka. Var í leit að íslenskum krónum.

Kerfið gekk eitthvað hægt og gjaldkerinn sagði stressaður:

Afsakaðu biðina, gamla fólkið fékk útborgað í dag.
Ekkert mál, sagði ég, mér liggur ekkert á. Ég á allt lífið framundan.


Gjaldkerinn laumaðist til að brosa.

Annars gekk leitin að íslenskum krónum. Enginn viðskiptabankanna fjögurra verslar með íslenskar krónur.

12. nóv. 2008

Fokkt opp

Þetta Bjarnamál Harðarsonar er merkilegt. Hann segir af sér vegna tilraunar til að senda bréf nafnlaust þar sem varaformaður flokksins hans er gagnrýndur. Bréf sem hann skrifaði ekki sjálfur og hafði áður verið sent öllum þingmönnum flokksins. Tilraun sem mistókst þannig að bréfið var sent undir nafni. Bréfið er ekki trúnaðarmál, það er ekki opinbert plagg og ekki í nafni hans sem þingmanns. Þurfti hann að segja af sér? Nei. Var tilefni til þess? Vissulega.


Hins vegar:
Heilt fjármálakerfi lands hrynur vegna þess að eftirlitsaðilar stóðu ekki vaktina, né ráðamenn sem hafa eiga umsjón með fjármálakerfinu. Með þeim afleiðingum að heil þjóð situr rækilega í súpunni. Enginn hefur axlað ábyrgð með því að víkja sæti, nema ein stjórnarkona í Seðlabankanum, sem ber mun minni ábyrgð en fjölmargir aðrir. Þarf einhver að segja af sér? Já, t.d. stjórn Seðlabankans, viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra og forstjóri fjármálaeftirlitsins.

11. nóv. 2008

Kveðist á

Sumarið 2003 bjó ég með frænda mínum, Guðlaugi Jóni, á Ásvallagötunni. Alls ekki svo fjarri uppeldisstöðvum okkar beggja. Var samvistin yndisleg og ástin okkar á milli óx með hverjum deginum. Það var því sárt þegar við fluttum í sundur, ég til Amsterdam og Gulli aftur í öruggt Sörlaskjól foreldra sinna. En við héldum sambandi þó á meðan vist minni erlendis stóð og flugu á milli landanna kvæði. Hér eru þau fáu sem ég man:

Orti Gulli JónTil vitnis um það hversu vist okkar saman var góð
ég vil að þú þyggir af mér örlitla borgun
Ég átti' ekki konfekt en orti í stað þetta ljóð
það óx eins og rós uppúr koddanum mínum í morgun


Orti Hjörtur
Ég ákvað að senda þér örlítið kvæði
engillinn minn í fjarlægri borg
því hryggðin er stór og sem hjarta mitt bræði
er harmurinn meiri en veraldar sorg

En senn birtir til og brátt munu slá mér
bjartsýnisdagar hamingju tón
því heldurðu ekki ég hafi þig hjá mér
í huganum mínum, Guðlaugur Jón?


Reit Guðlaugur
Frygðin er Guðlaugi fánýt sem lín
því frændi hans hvarf yfir sæinn
hamingjuóskir frá honum til þín
Hjörtur, á afmælisdaginn

Reit Hjörtur
Guðlaugur, ást mín á þér er sönn eins og sólin.
Ég sakna þín sem geislum hennar nemur.
Sú hugmynd að þú komir hingað til mín um jólin
mun hætta að virðast svo fjarlæg þegar þú kemur.

Hnífsdal fyrirgefiði

Ja svei. Þegar ég byrjaði á þessari getraun rann það upp fyrir mér að Kristján var ekki frá Ísafirði beinlínis heldur einhverri nágrannabyggðinni, en mundi bara ekki hverri. Svo ég hélt mínu striki og vonaði bara að hvorki Kristján né Ísfirðingar rækju nefið hér inn rétt á meðan. Kristján er vitanlega frá Hnífsdal, sem þó tilheyrir sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ, svo ég er ekki ýkja langt frá, fyrir utan að Kristján var virkur í bæjar- og félagsmálum á Ísafirði á sínum sokkabandsárum.

En svo fór að sjálft Ísafjarðarskáldið arkaði hér inn og kom með rétt svar við vitlausri spurningu.

Fjórða vísbending átti að vera: Fyrir utan trommuspil er maðurinn velþekktur sem bóksali og störfuðum við um stund saman í Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi þegar hann verkstýrði mér í íslenskubókadeildinni.

Það er Eiríkur Örn Norðdahl sem hlýtur verðlaunin sem eru ekki af óæðri endanum: Áður óútkomna ljóðabók mína, Ljóð og myndir. Hann má heimta bókin ef hann rekst á mig á vappinu einhvern daginn í desember.

Til hamingju
ruv.is Síðast uppfært: 11.11.2008 13:49
Loftrýmiseftirlit: Bretarnir koma


Innlent | mbl.is | 11.11.2008 | 12:58
Ólíklegt að Bretar komi - utanríkisráðuneytið sparar

Finnur gat

Finnur gat raunina. Það vantar samt nafn.

Sem aukagetraun má spyrja: Hvert var lagið vinsæla sem trommuleikarinn söng?

10. nóv. 2008

Föstudagsgetraun 4/5

Engin rétt svör hafa borist. Næst síðasta vísbending:

1. Spurt er um Íslending, nánar tiltekið frá Ísafirði
2. Hann hefur töluvert fengist við tónlist, þó það hafi ekki verið hans aðalstarfi.
3. Hann hefur spilað með mörgum hljómsveitum. Tvær þeirra eru þó þekktari og vinsælli en flestar hinna. Með annarri þeirra söng hann lag sem náði gríðarlegum vinsældum á sínum tíma. Söngur er þó ekki hans aðalhlutverk í hljómsveitunum.
4. Hann er trommuleikari

9. nóv. 2008

Íslenska leiðin

Grímur Atlason með góða samantekt

Fjármálaeftirlitið

Mér hefur frá 6. október sl. þótt merkilegt hversu lítil áhersla hefur verið lögð á að skipt verði um stjórnendur í fjármálaeftirlitinu. Allir vilja Davíð burt úr seðlabankanum og Geir af forsætisráðherrastóli.

En hvað með þann aðila sem greinlega brást hlutverki sínu fullkomlega, fjármálaeftirlitið? Og hvað með stöðu viðskiptaráðherra? Hversu mikið vissi viðskiptaráðherra? Viðskiptaráðherra segist ekki hafa vitað um stöðu bankanna fyrr enn í lok ágúst. Forstjóri fjármálaeftirlitsins segist ekki hafa upplýst viðskiptaráðherra um stöðu Icesave. Hann segir að viðskiptaráðherra hefði þó átt að vera það ljóst. Það þykja mér einstaklega undarlegar ásakanir. Hvaða hlutverki á þá fjármálaeftirlit að gegna ef ekki að vera sá aðili sem upplýsir viðskiptaráðherra um slík málefni? Er það ekki einmitt það sem er hlutverk fjármálaeftirlitsins?

Það er deginum ljósara að fjármálaeftirlitið brást og auðvitað eiga stjórnendur þess að segja af sér. En neeeiii: Jónas Fr. Jónsson segist hafa starfað af heilindum og muni ekki segja af sér. Skiptir bara ekki jackshit kallinn minn. Heilindi eða ekki. Þú brást og þú átt að fara.

Og viðskiptaráðherra líka, sem yfirmaður bankamála og fjármálaeftirlitsins. Auðvitað. Ekki spurning.

Komum þessari kröfu líka á framfæri. Ekki bara afsögn seðlabankasjóra, fjármálaráðherra og forsætisráðherra.

Bananalýðveldi

Að grýta

Það fer í taugarnar á mér þegar fólk tala um að grýta tómötum, eggjum, snjóboltum og öðrum hlutum. Sögnin að grýta merkir að kasta gjóti. Þannig var Alþingishúsið ekki grýtt í gær, né var eggjum grýtt í það. Grjót ku ekki hafa komið við sögu.

Hins vegar var kastað í það eggjum.

Föstudagsgetraun 3/5

Margar góðar tillögur en engin rétt.

1. Spurt er um Íslending, nánar tiltekið frá Ísafirði
2. Hann hefur töluvert fengist við tónlist, þó það hafi ekki verið hans aðalstarfi.
3. Hann hefur spilað með mörgum hljómsveitum. Tvær þeirra eru þó þekktari og vinsælli en flestar hinna. Með annarri þeirra söng hann lag sem náði gríðarlegum vinsældum á sínum tíma. Söngur er þó ekki hans aðalhlutverk í hljómsveitunum.

7. nóv. 2008

Föstudagsgetraun 2/5

Ómar Örn svarar Mugison. Það er ekki Ísfirðingurinn sem spurt er um. Önnur vísbending hefði geta skorið úr um það.


1. Spurt er um Íslending, nánar tiltekið frá Ísafirði
2. Hann hefur töluvert fengist við tónlist, þó það hafi ekki verið hans aðalstarfi.

Föstudagsgetraunin

Tekinn er upp á ný liðurinn Föstudagsgetraunin


1. Spurt er um Íslending, frá Ísafirði nánar tiltekið.

Fíkniefnaakstur

Vísir, 03. okt. 2008 07:13
Grunaður um fíkniefnaakstur


Rakst á þetta um daginn. Samkvæmt mínum málskilningi ætti þarna að vera um akstur á fíknefnum að ræða. Þ.e. viðkomandi var grunaður um að keyra um bæinn með fíkniefni. Svo var þó ekki tilfellið. Hann var sum sé grunaður um að keyra um undir áhrifum fíkniefna. Þetta er eins og að nota orðið áfengisakstur en ekki ölvunarakstur.
En hvað er rétt að nota í staðinn: "Akstur undir áhrifum fíkniefna" er langt og óþjált. "Vímuakstur" á svo sem alveg eins við um ölvunarakstur.

Þetta sá ég svo í dag:

Vísir, 07. nóv. 2008 07:17
Réttindalaus og efnaður á 124 km hraða

Snilld!

Samkvæmt þessu gæti maður talað um efnunarakstur. Kannski dálítið langsótt.

Á sænsku er ölvunarakstur kallaður "rattfylleri" sem þýða má sem "stýrisfyllerí".

Á svipuðum nótum:

Vísir, 26. sep. 2008 08:31
Unglingadrykkja tvöfaldast á milli grunn- og framhaldsskóla

Hins vegar sér maður aldrei fyrirsagnir á borð við: "Barnaát aukið vandamál á vesturlöndum"

31. okt. 2008

Nýi sáttmáli

Já, pælingin að taka upp norska krónu er merkileg og flippuð.

En hvers vegna að stoppa þar? Væri ekki bara hægt að stofna til Nýja sáttmála og setja landið undir norsku krúnuna.

Þá væri líka búið að leysa deilur eins og um fiskveiðiréttindi, deiluna um þjóðerni Snorra Sturlusonar og hvort Norðmaður eða Íslendingur hafi fundið ameríku.

Hægt væri að aðla Ólaf Ragnar og gera jarl yfir íslandi, jarl Olav Ragnar gengur vel upp á norsku.

30. okt. 2008

Misjöfn umfjöllun

Vísir, 30. okt. 2008 10:43
Skuldir þjóðarbúsins verða 100 prósent af landsframleiðslu

Innlent | mbl.is | 30.10.2008 | 10:55
85% af vergri landsframleiðslu

Vísir, 28. okt. 2008 18:30
90% treysta ekki Davíð sem seðlabankastjóra

Innlent | mbl.is | 28.10.2008 | 18:36
10% styðja Davíð í embætti seðlabankastjóra

21. okt. 2008

Hver er krútt?

Kannski í framhaldi af síðustu færslu:

Mér þótti áhugavert að hlusta á samtal Godds og Vals í Kastljósinu í gær. Ég er ekki alveg sammála fyrrum bekkjarbróður mínum, Vali, þegar hann segir að krúttkynslóðin svo kallaða myndi deyja út í kreppunni. Eða hvort hann hafi verið að segja það... hann virtist nú frekar vera að meina að krútt-hugtakið myndi deyja út. Hvað hann átti við með því veit ég svo sem ekki.

Það er engin þörf á að skilgreina krúttin og röfla um þessa nafngift. Það eru helst krúttin sjálf sem vilja ekki kannast við þá klassifíseríngu. Kannski það sé bara nafnið sem fari í taugarnar á þeim, eða að vera klassifíseruð. Lái þeim hver sem vill. Eða þeim... ætli ég tilheyri ekki sjálfur þessari krúttkynslóð, ásamt Elsu Maríu í Kastljósinu (sem einmitt þráspurði Val hvað hann ætti við með krútt) og fjölda fólks á okkar aldri.

Þau eru löt, hafa menn sagt um krúttin. Þau eru sökuð um samfélagslegt áhugaleysi eða heimóttaskap. Vegna þess að þau tóku ekki þátt í lífsgæðakapphlaupinu um bíl, íbúð og þvottavél og síðar flatskjá, heldur sóttu í annars konar lífsgæði eins og listir, ferðalög og náttúru. Eitthvað sem brennur ekki upp í verðbólgu eða læsist inn í gjaldþrota banka.
Krúttum hefur verið legið á hálsi að vera ópólitísk. Það er að vissu leyti rétt, mörg krútt hafa ekki tekið þátt í flokkspólitískum slagsmálum og þeirri hefðbundnu orrahríð sem þar dynur sífellt. Þykir kannski ekki nógu krúttlegt. En í staðinn hafa önnur málefni náð inn á þeirra pallborð, umhverfisvernd, verndun gamalla húsa í miðbænum, andstaða gegn neysluhyggju og klámvæðingu, svo fátt eitt sé nefnt.
Því mætti frekar segja að nú sé uppreisn krúttanna, ef satt reynist að neyslusamfélagið riði til falls. Eða hvað? Sagt hefur verið að krúttunum þyki kúl að vera hallærisleg. Nú, þegar hallærir, verða krúttin þá meinstrím? Er það það sem Valur á við er hann boðar dauða krúttsins? Þau lifi ekki af því þau hætti að vera altörnatív?

Ég mun a.m.k. ekki gráta það ef krúttin verða bara norm...

Breyttir tímar?

Ég man umræðuna dagana og vikurnar eftir 11. september 2001. Þá horfðu margir með bjartsýni á breytta heimsmynd. Nú myndu samskipti austurs og vestur gjörbreytast og það til hins betra. Áherslan yrði á að bæta samskipti á milli trúarhópa og menningarheima. Aukin virðing og auðmýkt hins „vestræna heims“ í garð annarra heimshluta. Þá var vissulega tækifæri til slíkrar byltingar. En hún varð fljótt að engu. Þvert á móti.

Nú aftur, í kjölfar hruns fjármálakerfisins, hefur mörgum verið tíðrætt um þá breyttu tíma sem það mun hafa í för með sér. Að nýr þankagangur muni ráða sér til rúms. Nýfrjálshyggjan hefur fallið um sjálfa sig, segja menn, lok bandarísks kapítalisma! Nú taki við tímar félagslegrar samkenndar, umhverfisverndar, sjálfbærrar þróunar og efnahagslegrar naumhyggju.

Ég er ekki svo bjartsýnn. Jú, vissulega stöndum við nú aftur á tímamótum, þar sem ofangreind gildi gætu svo sannarlega orðið ofan á. En það er ekki sjálfgefið. Vitanlega verður breyting á því neyslumynstri sem verið hefur ráðandi undanfarin ár, en fyrst og fremst vegna þess að við höfum einfaldlega ekki efni á því lengur. Hvað verður þegar ástandið tekur að skána á ný? Þegar við höfum náð að byggja upp efnahag landsins á ný? Því við munum líklega ná því furðu fljótt. Á ekki sama neysluhyggjan bara eftir að skjóta rótum á ný? Sama kaupæðið, sama græðgin, nema kannski í eitthvað smækkaðri mynd?

Það er a.m.k. ekki sjálfsagt mál að annað verði ofan á. Nema að við hlúum sérstaklega að þeim gildum. Og nú er tækifærið til þess. Á næstu árum. Í kreppunni, lægðinni. Á meðan tálsýnir og draumahallir ná ekki að villa um fyrir okkur. Nú, sem aldrei fyrr, er nauðsyn að þær raddir fái að hljóma sem áður voru hjóm eitt í „góðærinu“. Röfl bindindismannsins í neyslufylleríinu. Nú þarf að skipta úr röfltóninum í uppbyggilega jafningjafræðslu.

17. okt. 2008

Haða kona og hvaða menn?

Svona löguðu á að halda til haga:

Vísir, 17. okt. 2008 08:46:

Biðskylda sem ekki var virt kostaði 18 ára gamla danska stúlku lífið í umferðinni í Sønderborg í Danmörku í gærkvöldi.

Tvítugur farþegi í bíl konunnar slasaðist alvarlega þegar hún ók viðstöðulaust inn á aðalbraut og í veg fyrir bíl. Ökumaður hans slasaðist einnig alvarlega. Mennirnir tveir eru þó ekki í lífshættu.

15. okt. 2008

Ábyrgð hvers

Lýðurinn vill blóð. Það er skiljanlegt. Þannig er fólk.

Ég get ekki séð að það sé við einhvern einn að sakast. Bankaliðið, seðlabankinn, ríkisstjórnin, forsetinn, fjölmiðlar, Alþingi. Allir brugðust á einn hátt eða annan.

Fyrsta verk í endurreisninni hlýtur að vera að skipta um stjórn í seðlabankanum og skerpa á hæfniskröfum um starf seðlabankastjóra, og fækka þeim úr þrjá í einn. Það hefur eiginlega verið ljóst allt of lengi. Þar með er ég ekki að segja að það sé sérstaklega við Davíð Oddsson og félaga að sakast í þessum efnum (þó vissulega hafi mörg mistök komið úr þeirri áttinni) heldur líka því hvernig við höfum valið að skipa stjórnendur bankans og gert hann um leið að efirlaunasetri afdankaðra stjórnmálamanna sem er gjörsamlega ótrúverðugt sem einhverskonar hagstjórnartæki.

Hvort það sé mögulegt með Sjálfstæðisflokk í ríkisstjórn er hins vegar annað mál. Þess vegna er afar mikilvægt að þessi krafa komi skýrt fram hjá Samfylkingunni og raunar öðrum flokkum á alþingi. En furðu lítið hefur borið á þeirri kröfu hjá stjórnandstöðunni. Þögnin hjá Framsókn er kannski skiljanleg. Hún skipaði núverandi stjórn.

Koma svo á þingmannanefnd eða rannsóknarnefn þingsins þar sem farið verður í kjölinn á undangengnum hamförum. Þessa nefnd þarf að skipa núna. Ekki dugir að sitjandi viðskiptanefnd rannsaki mál sem gæti varðað hana sjálfa!

Svo mætti íhuga, þegar meiri stöðugleika hefur verið náð, að rjúfa þing og blása til kosninga. Þó að óvíst sé hvað sitjandi ríkisstjórn hefði geta gert er ljóst að hún ber höfðuábyrgð á stjórn landsins og það er eðlilegt að hún axli ábyrgð með því að víkja.

Þetta er svona það sem mér finnst.

10. okt. 2008

Ræðan

Mér er orðið tamt á því að spyrja: Hvernig gátu allir þessir hagfræðingar, viðskiptafræðingar, markaðfræðingar eða hvað þetta heitir, ekki vitað það sem lítli hugvísindamaður vissi fyrir löngu?

Þegar þýskur vinur minn spurði mig á haustdögum 2006 hvernig í ósköpunum þessi velgengni íslensku bankanna og annarra fyrirtækja væri möguleg, sagði ég: Hún gengur eiginlega ekki upp. Sannaðu til, eftir kannski tvö ár verða þeir örugglega í slæmum málum.

Þegar ég flutti heim frá Amsterdam haustið 2005 var allt í blússandi gangi. Bjartýnin ofar góðu hófi og græðgin að ná góðri undirstöðu sem ráðandi þankagangur landa minna. Leiguverð hækkaði og hækkaði og allir í kringum mig fullir kaupæði. Flestir vina minna stóðu t.d. í íbúðakaupum á 100% lánum. Kauptu, sögðu þeir, það er eina vitið.

Ég var efins. Eftir að ljóst var að ekki var möguleiki að leigja íbúð á sómasamlegu verði og eina leiðin virtist að kaupa íbúð á hæsta verði sáum við Jóhanna aðra lausn: Förum út. Bíðum með að markaðurinn kólni. Þetta ástand varir ekki að eilífu. Það er rugl að leigja og enn meiri vitleysa að kaupa íbúð sem gerir ábyggilega fátt annað en að lækka í verði úr þessu á lánum sem gera líklega fátt annað en að hækka.

Við fluttum út. Ég geymdi peningana mína í SPRON. Þar þótti mér þeir tryggir. Ég gat jafnan sagt með stolti að sparisjóðurinn minn væri ekki að taka þátt í þessu útrásarrugli. Ég keypti engin verðbréf fyrir milljónina tæpu sem ég fékk út fyrir íbúð einu sinni. Þaðan af síður hlutabréf. Nú er milljónin tæpa í rúmri milljón. Ég græddi ekki mikið. En ég tapaði engu.

Um daginn sagði hagfræðingur í sjónvarpinu: Þeir sem skulda lítið og eiga lítið tapa minnstu. Ég horfði á sjónvarpið og sagði: Er þetta sum sé hagfræði.

Þjóðin er alltaf að leita að sökudólgum þessa dagana. Hún má vel líta í eigin barm. Það tóku flestir þátt í þessu fylleríi sem er stundum kallað góðæri. Nokkrir menn högnuðust verulega, urðu skyndilega ríkir. Þjóðin hélt hún væri líka rík og keypti og keypti og keypti. Allt á lánum auðvitað. Því fæstir höfðu fengið hlutdeild í þessum ofsagróða. Það voru ekki bara þessir bankamenn sem stofnuðu til meiri skulda en þeir gátu mögulega greitt til baka. Það á við um ótal heimili í landinu.

Fæsta gæti hafa órað fyrir þeim hörmungum sem nú dynja yfir. En menn máttu nú alveg sjá að þetta gæti enda a.m.k. í þessa áttina: Niður. En á fylleríi er maður sjaldnast að hugsa um timburmennina sem fylgja í kjölfarið.

Mín mistök? Að halda tryggð við íslenska markaðinn með að vinna fyrir íslenskt fyrirtæki. Launin mín eru eiginlega horfin.

En pælingin með þessu öllu saman? Æi ég veit það ekki. Þetta ástand er ömurlegt, en það er amk ekki mér að kenna...

9. okt. 2008

Breyttir tímar

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/10/09/faglegan_sedlabanka/

Ef framsóknarflokkurinn er farinn að álykta svona þá er óhætt að segja að nýir vindar séu farnir að blása í íslenskum stjórnmálum.

Rugl

„Með því að velja stjórnendur út frá pólitískum bakgrunni fremur en sérfræðiþekkingu á hagfræði og fjármálum geta menn litið svo á að bankinn sé ekki í stakk búinn til takast á við efnahagslíf í kreppu,"

Það þarf engan hagfræðing til að átta sig á þessu. Ég, íslenskufræðingurinn, hef margoft röflað um þetta. Hvers vegna í ósköpunum...

Bananalýðveldi

Undarlegt

Undarlegt þykir mér að íslendingum standi lán til boða frá Norðmönnum og líklega fleiri Norðurlandaþjóðum, og hafi um nokkurt skeið, en engu síður sé ætlunin að þiggja lán frá Rússum. Hvers vegna ósköpunum er ekki stokkið á lán sem Norðmenn hafa ítrekað boðið okkur. Er okkur virkilega betur borgið með að halla okkur upp að Rússum á ögurstundu?

Ég fanga því að Ágúst Ólafur lýsi yfir að seðlabankastjórar þurfi að víkja. Þetta þarf að heyrast frá mun fleiri þingmönnum og í raun öllum landsmönnum, því krafan er eðlileg. Hvers vegna er það alltaf þannig í íslenskri þjóðarsál að embættismenn mega komast upp með hvaða mistök sem er og vera hur óvinsælir sem helst án þess að spurningin um afsögn komi einu sinni upp?

Bananalýðveldi

8. okt. 2008

Trúnaðarbrestur

Seðlabankastjóri sagði nokkuð hreint út í gær að Íslendingar myndu ekki standa við skuldbindingar íslensku bankanna í útlöndum.

Bæði forsætisráðherra og viðskiptaráðherra þvertaka fyrir að nokkuð slíkt hafi verið ákveðið.

Er þetta ekki það sem kallast trúnaðarbrestur? Myndu ekki menn í stöðu Davíðs Oddssonar alls staðar annars staðar í heiminum neyðast til að segja af sér? Nauðugir viljugir?

Það er lítil von til þess að Davíð íhugi á nokkurn hátt að segja af sér og engin von að aðrir neyði hann til þess. Það er akkúrat svoleiðis attitjú sem er búið að koma okkur í þá stöðu sem við glímum nú við.

Bananalýðveldi

7. okt. 2008

Back to 1989

Miðað við fréttirnar í kvöld fæ ég ekki betur séð en að flestar aðgerðir sem gerðar hafa verið í valdatíð Sjálfstæðisflokksins hafið verið þurrkaðar út.

Viðtengingarháttur

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/10/07/leidretti_frettir_danskra_fjolmidla_af_bankakreppu/

„sú hætta er raunveruleg, góðir landsmenn, að íslenska þjóðarbúið myndi, ef allt færi á versta veg, sogast með bönkunum inn í brimrótið og afleiðingin yrði þjóðargjaldþrot."

„sú hætta er raunveruleg að íslenska þjóðarbúið sogist með bönkunum inn í brimrótið og afleiðingin verði þjóðargjaldþrot."

(„Vi står over for den mulighed, at den nationale økonomi suges ind i den globale bankkrises dyb, og at nationen kan ende med at gå bankerot,")


Afhverju er "myndi sogast" eitthvað meiri viðtengingarháttur en "sogist"?

Kreppan

Sjónvarpið hefur verið sett upp á háaloft. Frystikistan fyllt og allur peningur tekinn út úr íslenskum bönkum.

Landbankinn aftur orðinn Landsbanki Íslands. Fljótandi gengi afnumið.

Tilraun með frjálst markaðshagkerfi misheppnaðist. Við taka tímar miðstýringar og ríkiseinokunar.

Rússar koma nauðstöddu Íslandi til bjargar.

Byltingin heldur áfram.

22. ágú. 2008

Hehe - maður heyrir í Adolf Inga þarna á bak við sænsku þulina.

Þeir flissa dáldið að honum

Handbolti

Útsendingin á landsleiknum er að hefjast hér í Svíþjóð. Að venju gera sænsku þulirnir fátt annað en að dásama íslenska liðið. Það er nú eiginlega nóg komið. Þetta er farið að vera vandræðalegt.

21. ágú. 2008

visir.is í dag

Dóttir Rod Stewart, Kimberly, nýja kærasta leikarans Rhys Ifans, sem virðist vera á góðri leið með að komast yfir erfiðan söknuðinn eftir sambandsslitin við leikkonuna Siennu Miller, er yfir sig ásfangin af leikaranum.


Þetta væri gráupplagt dæmi í kennslubók um setningafræði. Merkingarfræði. Nú eða um málfar í fjölmiðlum.
Úff maður - ræðan hans Óskars Bergssonar er helvíti flott maður...

Djöfull

20. ágú. 2008

Varaforsetaefni?

Mér skilst að það megi vænta tíðinda í dag af kosningabaráttu Obama. Menn leiða líkum að því að hann tilkynni um varaforsetaefni jafnvel á næstu klukkustundum (Þegar fer að morgna á austurströnd Bandaríkjanna). Spennandi ef satt reynist.

Hvur skyldi verða fyrir valinu?

Evan Bayh?
Joseph Biden?
Kathleen Sebelius?

eða kannski

Hillary Clinton?

Nja varla...

Ástir og örlög í Ráðhúsinu

Það er eins og að fylgjast með spennandi sápuóperu að lesa fréttir úr ráðhúsinu. Ólafur genginn aftur í Frjálslynda flokkinn. Segir að þetta hafi verið eina leiðin fyrir hann að eiga séns á að ná aftur kjöri í borgarstjórn. Það er kannski rétt mat hjá honum. Þessi eina von er hins vegar ákaflega lítil að mínu mati. Miðað við kjörsókn í fyrra þarf um 4000 atkvæði til að ná manni inn í borgarstjórn. Ég trúi bara ekki að svo margir finnist sem vilja kjósa F-listann eftir tvö ár.

19. ágú. 2008

Lesningin núna


Ég er að lesa bók sem heitir WhyEuropeWillRunThe21stCentury og fjallar um afhverju Evrópa muni ráða 21. öldinni. Nokkuð áhugaverð lesning þar sem litið er á Evrópusambandið frá dáltið öðru sjónarhorni en maður á að venjast.

Í fullum trúnaði

Það er vissulega spennandi að fletta í kjaftasögunum hans Matthíasar Johannessen.
En talandi um að bregðast trúnaði maður... ha!! Manninum er greinilega ekkert heilagt í þeim efnum. Eða gildir einhver fyrningarregla hjá honum?

Þau eru svo sem ekki mörg trúnaðarsamtölin sem ég hef átt, en þau eru nokkur. Ég ætti kannski að birta glefsur úr þeim á þessum síðum. Kannski ekki alveg eins mögnuð og trúnaðarsamtölin hans Matthíasar, fjalla mest um ástarþríhyrninga, fyllerísskandala og ungliðapólitík.
Á einhverjum netmiðlanna var Jón Steinsson titlaður prófessor í hagfræði. Ég þóttist viss um að hann væri nú ekki prófessor enda rétt á aldur við mig held ég. Það er afar sjaldgæft að fólk fái prófessorsstöðu svo ungt. Menn þurfa að vera algerir snillingar til þess. Gerði örsnögga athugun og sá að hann er það sem kallað er assistant professor í Bandaríkjunum. Það er sambærilegt við það sem við köllum lektor hér á landi. Dósent væri það sem kallað er associate professor í Bandaríkjunum. Full professor er það sem við einfaldlega köllum prófessor hér á landi.

Með þessu er ég alls ekki að kasta rýrð á Jón Steinsson sem ábyggilega er klár og duglegur. Ég er einfaldlega að benda á að það er til margs að líta þegar starfsheiti og menntagráður eru staðfærðar yfir á íslensku. Professor á ensku er ekki endilega það sama og prófessor á íslensku.

18. ágú. 2008

Starfhæfur meirihluti

Í kjölfar þessara pælinga sem laust niður í huga okkar feðga um svipað leyti:

Hvergi í sveitastjórnarlögum er talað um að virkur meirihluti þurfi að fara með stjórn borgarinnar. Það kemur heldur ekki fram í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar. Sú þörf, sem ég hef heyrt endurtekið talað um, að mynda starfhæfan meirihluta, virðist því alls engin skylda borgarfulltrúa heldur eingöngu hefð.

Það er eingöngu talað um að oddviti sveitastjórnar (forseti borgarstjórnar) þurfi að fá meiri hluta atkvæða í borgarstjórn. Hins vegar fái enginn einn meiri hluta atkvæða er kosið um þá tvo sem flest fengu atkvæðin. Fái hvorugur þeirra meiri hluta atkvæða nær sá kjöri sem flest hlýtur atkvæðin. Meirihlutinn er því óþarfur.

Sú leið að tveir eða fleiri flokkar komi sér saman um að myndar meirihluta er því aðeins til að tryggja að koma sínum fulltrúum í embætti og einhverjum sinna málefna á dagskrá. Vel má vera að þetta sé þægilegasta leiðin og tryggi ákveðinn stöðugleika innan borgarstjórnar. En eins og mál voru komin í borgarstjórn Reykjavíkur má spyrja sig hvort ekki hefði bara verið rétt að sleppa meirihlutamyndun og að hver borgarfulltrúi væri, eins og lög gera ráð fyrir, ekki bundinn neinu nema eigin sannfæringu. Auðvitað er eðlilegt að borgarfulltrúar starfi samkæmt stefnu þess flokks sem þeir eru fulltrúar fyrir enda líklegt að sannfæring einstaka borgarfulltrúa sé svipuð og stefna flokksins.

Það hefði verið spennandi að sjá hvernig slíkt fyrirkomulag hefði reynst og ábyggilega gengið betur ofan í borgarbúa sem langþreyttir eru á þessu pólitíska drullumalli sem hrært hefur verið saman undanfarna mánuðina.

En þessu liði er of umhugað um völd til að láta á það reyna að ná kjöri í embætti með óbundnum kosningum innan borgarstjórnar. Það er náttúrlega bara naív að láta sig dreyma um svona hluti.

17. ágú. 2008

Ef kosið væri nú

Ef kosið væri nú myndi Sjálfstæðisflokkur fá fjóra borgarfulltrúa, Samfylking átta og Vinstri Græn fengju þrjá. Spennandi. Samfylking gæti þannig séð verið ein í meirihluta en það væri þó ósennilegt að slíkt myndi gerast miðað við sáttina sem ríkir á milli vinstriflokkanna tveggja í borgarstjórn, þessa stundina.

En kosningar eru ekki nú og ekki fyrr en eftir tvö ár og margt getur gerst. Sjálfstæðisflokkur mun áreiðanlega endurheimta einhvern trúverðugleika í millitíðinni. Hanna Birna virðist vera að sanna sig nokkuð og á líklega bara eftir að styrkjast. Þó held ég að það verði erfitt fyrir flokkinn að endurheimta fyrra fylgi. Hins vegar er held ég ljóst að F-listinn sé búinn að vera í borgarstjórn. Svo fer það eftir Óskari hvort hann Framsóknarflokkurinn muni koma manni að. Það verður tvísýnt.

Spurning yrði líka hvað Margrét Sverris gerir. Hún gæti farið í sérframboð og ætti jafnvel séns á að detta inn.

Hvað sem verður er ljóst að valdahlutföllin hafa breyst í Reykjavík. Miðað við festuna og öryggið í framkomu Dags og Svandísar og þann trúverðugleika sem þau hafa áunnið sér verður erfitt fyrir þau persónulega að missa fylgi. Spurning hvort flokkarnir að baki þeim nái að tækla erfið málefni og halda því mikla samlyndi sem hefur myndast þeirra á milli í borgarstjórn.
Ég tel að meirihluti með níu borgarfulltrúum vel raunhæfur fyrir Vinstri græn og Samfylkingu. Sjálfstæðis flokkur með sex og Framsókn þurrkast út. F-listi býður ekki fram.

Nú er bara að bíða í tvö ár til að sjá hvor þessi spá reynist sönn.

14. ágú. 2008

Í þessum skrifuðum er víst ekki búið að mynda nýjan meirhluta en þó búið að slíta meiri hluta F-lista og Sjálfstæðismanna. Boltinn er í höndum Óskars og Framsóknar. Auðvitað væri réttast að hafna boði um samstarf. Hvað myndi gerast ef enginn vildi stíga í dans við Sjálfstæðisflokk eða F-lista? Væri hægt að hafa borgarstjórn án virks meirihluta? Gætu borgafulltrúar bara kosið í embætti sín á milli án þess að eitthvað samkrull væri í gangi? Væri það lausn? Væri það s.k. þjóðstjórn? Kosning um málefni færi eftir samanlögðum styrk flokka sem hefðu svipaða stefnu í viðkomandi máli. Er það virkara og eðlilegra lýðræði. Væri slíkt yfir höfuð hægt? Auðvitað væri þá verið að gefa sér að borgarfulltrúar hefðu í sér þann manndóm og styrk til að hlaupa ekki bara í eitthvað meirihlutasamtarf bara til að fá einhver völd. Sem þeir hafa fæstir.

Pælingar - farinn að hlusta á fréttir

Enn einn meirihlutinn

Jæja, þá berast loks fréttir af því að enn einn meirihlutinn muni taka við í Reykjavík. Fjórði meirihlutinn á þessu kjörtímabili. Sá fjórði á einu ári. Það er skandall hvernig Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og F-listinn hafa haldið borgamálunum í gíslingu síðustu mánuðina. Valdagræðgi og eignhagsmunagæsla er það eina sem þetta lið hugsar um. Hvernig geta Reykvíkingar sætt sig við þetta. Geta þeir það? Gera þeir það?

Hvaðan kemur þeim vald til að drepa alla þróun í Reykjavík í dróma!!??

Þarna sést eina ferðina rétt andlit Framsóknarmanna, sem hefðu vel geta sagt Sjálfstæðimönnum að éta það sem úti frýs, enda vandi þeirra sjálfskapaður. Það eina rétta í stöðunni hefði verið að Ólafur F segði af sér, enda klárlega búinn að missa traust allra hinna borgarfulltrúanna. Í kjölfarið tæki Margrét Sverris við, sliti samstarfinu við Sjálfstæðismenn og Tjarnarkvartettinn tæki á ný við, sem, samkvæmt skoðanakönnunum er vilji íbúa í Reykjavík - og að sjálfsögðu á það að vera sá vilji og hagsmunir Reykvíkinga sem á að ráða í borgarstjórn en ekki þetta eilífa baktjaldamakk, hrossakaup og valdagræðgi.

13. ágú. 2008

Öll vitleysa er eins

Maður veit ekki hvort þessi kvittur sé sannur sem kominn er upp um að Sjálfstæðismenn séu að fara á taugum í núverandi meirihluta og séu að leita leiða til að breyta til að bæta hann. Mér finnst það a.m.k. ekki skrýtið að það sé þrýstingur á menn að gera eitthvað í málunum. Ólafur F. hefur náttúrulega haldið allri borgarstjórn og stjórnsýslu í borginni í hálfgerðri gíslingu frá því hann settist í borgarstjórastólinn og það er fátt annað en farsi sem kemur frá honum.

Spennandi að sjá hvað verður. Það er svo sem allt skárra en núverandi ástand...

12. ágú. 2008

Hvað er í gangi

Gommit var að benda mér á þetta:

Þrátt fyrir seinkun náðum við upphaflegri vél frá Anchorage til Fairbanks og, sem meira var, að töskur okkar allra birtust á belitinu í Fairbanks, sem sannaði enn sveigjanlega og kraft hins frjálsa hagkerfis! Flugið milli Anchorage og Fairbanks er um 40 mínútur.


Þetta er brot úr þessari færslu hjá Bóbó liðþjálfa.

Nú spyr ég: Hvaða andsk.....???
Þeir sýna hér síðasta korterið af leiknum á móti Þýskalandi hér í sænska sjónvarpinu. Sænsku þulirnir elska hreinlega íslenska landsliðið og þeim finnst Ólafúr Stéfanson och Sorrí Stein Gudjonsson och Reidar Gudmundsson alveg frábærir.

Og það breytir engu þó að það hafi verið Íslendingar sem komu í veg fyrir að Svíar tækju þátt þarna.

Soldið annar tónn en þegar Íslendingar tala um sænska landsliðið.

Eller hur?

11. ágú. 2008

Ég fór í bíó um helgina. Þetta er í þriðja sinn sem ég fer í bíó hér í bæ. Það er nokkuð slakur árangur á meira en einu og hálfu ári. En bíómiðinn kostar 105 krónur. Það eru rétt tæplega 1400 krónur íslenskar. Mér skilst að miðaverð í bíó á Íslandi sé 950 krónur. Svo það er mun ódýrara að fara í bíó á Íslandi en hér í Gautaborg. Reyndar er bíómiðaverð á Íslandi lægra en víðast hvar í þeim löndum sem okkur er títt að bera okkur saman við og þannig hefur það verið lengi.

Ég hef oft heyrt fólk fussa og sveia yfir hve dýrt sé að fara í bíó á Íslandi. Það skil ég vel enda er það andskoti dýrt. En ég hef á móti bent á að það sé einfaldlega dýrt að fara í bíó út um allan heim. Þetta sé alls ekkert einskorðað við íslandi og að það sé síst við bíóhúsin að sakast í þessum efnum. Í raun, svona miðað við almennt verðlag á Íslandi, megi teljast frekar ódýrt að fara í bíó.

Málið er nefnilega að bíóhúsin græða furðulítið á því að sýna kvikmyndir. Það er dreifingaraðilinn sem fær mestan peninginn. A.m.k. fyrstu sýningarvikurnar (allt að 90% af miðasölu fyrstu vikuna). Eftir að hafa greitt þann kostnað sem fylgir því að reka bíóhúsið græða eigendurnir því ekkert á miðasölunni fyrstu vikurnar. Allar tekjurnar koma frá nammi-, popp- og gossölu.

Ojæja - ekki veit ég afhverju ég fór að röfla um þetta.
En myndin sem ég sá heitir Dark Knight og hún er ó svo frábær frábær og yndi
Þegar ég var barn hélt ég líka að íturvaxinn þýddi feitur.

Það má kannski halda því fram að 'íturvaxinn' merki 'feitur'. Að merking orðsins hafi einfaldlega breyst. Þeir eru líklega fjölmargir íslensku málhafaranir sem skilja orðið þannig og jafnvel þónokkrir sem nota það þannig. Það er enda ekki óalgengt að merking einstakra orða breytist. Nema að það sé viðhorfið til feitra sem hafi breyst. Að íturvaxnir þyki í dag "vel vaxnir, laglegir og myndarlegir" (sem er upprunaleg merking orðsins).

7. ágú. 2008

Heim á leið

Ísland verður sótt heim 25. ágúst -

Afmælisveisla verður haldin 29. ágúst

Öllum er boðið

Húrra

2. ágú. 2008

Þetta er margt satt og rétt sem Egill bendir á. Ég hef sjálfur aldrei skilið hvað raunverulega er átt við með því að „varðveita 19 aldar götumynd Laugavegs“. Gatan einkennist einkum af ósamstæðum húsum, flestum nokkuð ljótum. Það réttlætir hins vegar alls ekki að fallegustu húsin við götuna séu rifin, sem eru að mínu mati gömlu bárujárnsklæddu timbur- og steinhúsin. Ég vil á móti benda á myndir af öðrum húsum við Laugaveginn sem er að finna hér. Hljóta ekki allir að vera sammála að mun meiri prýði er af þessum húsunum en þeim sem Egill tók myndir af? Þá er spurningin: Hvaða hús á að rífa?

Þar sem húsin við Laugaveg eru svona sérlega ósamstæð tel ég einmitt nauðsyn að varðveita þau hús sem þó mynda einhverskonar heild og eru auk þess nokkuð sérkennandi fyrir gömul hús í Reykjavík og þá sögulegu borgarmynd sem þar var.

Og, í stað þess að ætla byggja í kringum þessi gömlu hús mætti líka færa einhver þeirra saman svo að þau nái þó að mynda einhverja heildstæða götumynd á köflum.

30. júl. 2008

Vitleysisgangur

Hann er nú meiri sauðurinn þessi borgarstjóri í Reykjavík.

Annars er ég á báðum áttum í stóra listaháskólamálinu. Ég á erfitt með að sjá hvernig hægt er að byggja listaháskólahús sem myndi almennilega sóma skólanum um leið og haldið er í þessi þrjú hús þarna á reitnum. Er slík samsuða ekki dæmd til að verða að einhverju moðverki sem yrði sérdeilis engin bæjarprýði? Ég hef amk ekki hugmyndaflug í slíkt ævintýri. Ef það er ætlun manna að halda í öll hús sem kalla má "gömul" á Laugaveginum er ég líka hræddur um að það verði bara til að hamla gegn uppbyggingu á götunni. Væri ekki nær að reyna að halda einshverskonar innra samræmi á tilteknum köflum á Laugaveginum frekar enn að hafa bárujárnshús dreifð inn á milli einhverra steinkubba? Pæling. Kaflinn þar sem hús Listaháskólans á að rísa er t.d. umsettur svona kubbahúsum. T.d. herrahúsinu eða hvað það heitir þarna á hinu horninu. Er svo ekki há steinbyggining beint á móti. Væri ekki alveg málið að flytja þessi gömlu hús bara og svo smella listaháskólabyggingu inn á reitinn sem myndi mynda einhverja heild við húsin í kring á flottan og framúrstefnulegan hátt.

Hmmm - annars er ég almennt á því að reykjavík fái að halda í flest af sínum fallegu bárujárnshúsum. Svei mér þá - líka bara að bárujárnsklæða ný hús svona til að halda samræmi.

Rammstein

Rammstein-safnið mitt kom líka í ljós við geisladiskasafnsendurröðunina. Auðvitað er bara hægt að spila Rammstein á hæsta styrk, Jóhönnu og nágrönnum mínum til ama. Málararnir sem eru hér á vinnupöllum fyrir utan gluggan virðast skemmta sér og dilla sér við massívan og graðan gítartaktinn.

Annars verður ekkert lát á þessari eindæma veðurblíðu hér. Um 30 stiga hiti þriðja daginn í röð. Svo les maður um 10 gráðum minni hita á Íslandi og kætist líka við það.

Jú, þetta er ágætt og sannkallað.

28. júl. 2008

Hjólatúr um Danmörku

Sitthvað frá fyrri tíð

Eins og fiskur flæktur í netsokka og það er sannað að auðvitað heiti ég Elísabet - hvað annað.

Mánuður án orða. Það má skýra það með sumarfríi. Nú er ég búinn í sumarfríi. Hef aftur störf í miðri hitabylgju. Það er eitthvað svo dásamlegt að ganga heim á leið um nótt í rúmlega 20 stiga hita í stuttermaskyrtu og stuttbuxum og sandölum.

Ég notaði síðasta frídaginn í að raða geisladiskasafninu mínu. Þetta eru eitthvað um 250 diskar sem ég er með mér hérna úti í Svíþjóð. Mesta draslið skildi ég eftir í kassa heima hjá mömmu. Þarna í tiltektinni rakst ég á diska sem ég hef ekki spilað lengi lengi og var eiginlega búinn að gleyma að ég ætti. Fann t.d. rykfallinn Hættuleg hljómsveit og glæpakvendið Stella áritaðan með ástarkveðju frá Megasi. Þar finnast nokkrir þrælskemmtilegustu textar kappans, að mínu mati - Þeir héldu dálitla heimstyrjöld um daginn.

Annar var tekið Skandinavíusumar í þessu fríi. Fyrst vika í Småland og svo viku hjólreiðatúr um Sjáland. Unaður út í gegn.

Þessi dama hún er ekki hægt.

22. jún. 2008

Sitthvað á sunnudegi

EM: Ég var dauðstressaður að svo myndi fara. Nokkuð dæmigert fyrir Hollendingana að leika grimmt í riðlakeppninni en klúðra málunum í úrslitum. Þá eru þjóðirnar tvær sem ég hélt með dottnar út. Hvað tekur við?

Útilokunaraðferðin:

Ekki Ítalía
Ekki Þýskaland
Ekki Tyrkland
Rússland sem sló út bæði liðin mín? Varla

Spánn verður það að vera. Heja spánn í kvöld þá...

Hiti: Hér er kalt. Úti er kalt og svo er heita vatnið farið hér. Svo inni er ískalt líka. Dauði og djöfull...

Pólitík: Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við hér fyrir rétt rúmu ári spáði ég að það myndi auka fylgi Samfylkingarinna, á kostnað Sjálfstæðisflokksins. Eitthvað finnst mér vera að rætast úr því. Það er mín spá að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking verði framvegis nokkuð svipaðir að stærð, með þetta á bilinu 30-35% fylgi. Í kjölfarið mun fylgi Vinstri grænna aukast eitthvað, vera eitthvað í kringum 20% og restin dreifist svo á flokksskrýpi og klofningsframboð. Er það ekki?

Hvenær ætlar sumarið eiginlega að láta sjá sig á ný?

20. jún. 2008

Ég verð að segja að fregnir af ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna vekja hjá mér talsverða undrun og ugg. Þar kemur fram að nauðganir á átakasvæðum verði skilgreindar sem hernaður en ekki sem fylgifiskur hernaðarátaka. Ég hef ekki enn lesið sjálfa ályktunina en sé hún orðrétt svona, má þá ekki skilja að verið sé að gera nauðganir löglegar í hernaði? Hernaður getur verið löglegur ef löglega er boðað til stríðs. Á ekki frekar að skilgreina hernað á átakasvæðum sem stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni frekar en að skilgreina hann sem "hluta af hernaði". Ég skil þetta ekki! Vonandi er ég að misskilja...

18. jún. 2008

Leiðindi

Mikið var þetta eitthvað dæmigert hjá Ítölunum í gær. Að ná fram sigri með vítaspyrnu og hálfgerðu sjálfsmarki úr aukaspyrnu einum leikmanni fleiri. Drulluleiðinlegt lið sem átti alveg skilið að vera sent heim eftir riðlakeppnina. Mig langaði satt að segja að sjá hvorugt liðið í úrslitum en ég sárkenndi í brjóst um Frakkana strax á 23. mínútu.

Í kvöld Svíþjóð - Rússland. Getur orðið hörkuspennandi. Ef Svíar vinna eða gera jafntefli verður þetta fjörug því þar keppa liðin tvö sem ég held með í keppninni. Ég held samt meira með Hollenska liðinu. Eins og alltaf

11. jún. 2008

öööö - fyrirgefðu mér á meðan ég gubba

Jæja - Svíarnir náðu að skella Evrópumeisturunum. Ég hálfpartinn bjóst við því. Veðjaði reyndar á 1-1 jafntefli þarna á barnum í gærkvöldi. Þrátt fyrir að vera Evrópumeistarar eru Grikkir ekki með neitt frábært lið. A.m.k. er það ekkert betra en sænska liðið, sem ég held að fáir hafi spáð sigri í þessari keppni. Það var þó gaman að sjá sigur í gær, eftir almennt séð ekkert sérlega skemmtilegan leik.

En Hollendingarnir eru og verða mitt lið. Fólk virðist sérlega hrifið af hollenska liðinu nú eftir frábæran leik á móti Ítölum - sumir jafnvel farnir að spá þeim sigri. Jú, það væri vissulega skemmtilegt. En þetta er hins vegar nokkuð dæmigerð byrjun hjá Hollendingum, þeir eru með helvíti gott lið og spila skemmtilegan fótbolta, byrja vel en ná svo alveg að klúðra málunum. En þeir hafa svo sem næstum alltaf komist í undanúrslit á EM frá því þeir unnu þarna 1988 og ættu alveg að geta það í ár og þá vantar bara herslumuninn til að fara í úrslit og svo þarf kannski örlítið meira átak til að sigra þar. Vona bara að ekki komi til vítaspyrnukeppni.

9. jún. 2008

myndavél


ég fór hamförum og keypti mér einhvurn ofsalegan síma um daginn. hef svona verið að testa hann undanfarið. það er t.d. hægt að koma fyrir í honum um 3000 lögum til að hlusta á. svo er hægt að taka myndir á hann. mér finnst myndavélin ekki slæm.

heyrst hefur

hafa fleiri tekið eftir aukingu á svona "heyrst hefur" fréttum á mbl.is ?

24. maí 2008

Kominn med gamla númerið á ný

6997657

Annars er greinilega nóg að kíkja á Ölstofuna - þar eru velflestir.

Hér er ekki hlýtt. Ég er miklu meira fyrir hlýtt.

21. maí 2008

Ísland

Jú ég er hér - á Íslandi. Ekki með gamla símann minn. Fólk hefur víst verið að kvarta.

6637657

Svo er oft hægt að finna mig á Ölstofunni

16. maí 2008

Íbúðaverð

Það þykir ógna íslensku efnahagslífi og afkomu heimilanna ef íbúðaverð lækkar jafn mikið og spár eru um.

Slík lækkun kemur sér hins vegar afar vel fyrir mig sem seldi mína íbúð árið 2002 og græddi ekki nema 5% á því. Nú á ég ekkert nema smágróðann af þeirri sölu sem dugar mér í mesta lagi til að kaupa kjallaraholu í Breiðholtinu. Nú eða einbýlishús á Patreksfirði.

Ég kalla því eftir 30% lækkun fasteignaverðs og mega þeir sem ösnuðust til að kaupa sér íbúð þegar verðið gat ekki farið nema í eina átt (niður) bara bíta í það súra ef af því verður.

Það er komið nóg af því að ég hugsi sífellt um velferð annarra á meðan ég eignast ekki neitt. Öreigar allra landa eru fyrir löngu hættir við að sameinast. Dæmið gengur ekki upp nema allir taki þátt. Ég er hættur þessu rugli og genginn í Sjálfstæðisflokkinn.

15. maí 2008

Heimkoman

Ekki Péturs Gunnarssonar heldur Hjartar Einarssonar

Júmm - það er víst núna á sunnudaginn sem ég smelli mér á skerið. Þetta verður stutt stopp. Opnað hefur verið fyrir bókanir á hádegisverðarfundum, barfundum, bíóferðum, grillveislum og veiðiferðum.

Skaginn fríríki

Akranes er ekki aðili að alþjóðasamningum!

Þetta sagði Magnús Þór Hafsteinsson í Kastljósinu í gær. Það ekkert annað. Akranes er sum sé ekki skuldbundið til að fara eftir þeim alþjóðasamningum sem Íslandi er aðili að:

Hér er brotabrot af þeim samningum sem Íslendingar eru aðili að en Skagamenn sum sé undanskildir:

Sáttmáli um upphaf stríðs
Genfarsamningur um bann við notkun eiturefna, gass og sýkla í hernaði.
Norður-Atlantshafssamningur.
Genfarsamningur um meðferð stríðsfanga.
Genfarsamningur um vernd almennra borgara á stríðstímum.
Sáttmáli um verndun mannréttinda og mannfrelsis
Samningur um höfundarrétt
Evrópusamningur um framsal sakamanna
Alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi
Alþjóðapóstsamningar
Samningur gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða van¬virðandi meðferð eða refsingu
Vínarsamningur um vernd ósónlagsins
Samningur um Evrópska efnahagssvæðið

13. maí 2008

Mánudagur

Ég fór á fætur í gær ein og um venjulegan mánudag væri að ræða. Þegar ég var að hita mér kaffið rann upp fyrir mér að það væri annar í hvítasunnu og á þeim degi tækju Íslendingar sér frí. Þarna hafði ég fengið hálfóvæntan frídag og ákvað að gera sem best úr honum.

Þó að hitinn hefði lækkað um næstum 10 gráður frá því um helgina var engu að síður fínasta veður úti svo ég ákvað að renna á hjólinu út að Saltholmen. Ég hafði með mér bókina um hann Sveijk og sat í klettunum í dágóða stund. Það var hlýtt, sólskin en nokkur gola. Þarna sat ég sum sé eins og gæs í blásturofni og hafði ekki hugmynd um að ég væri í raun að bakast. Nú sit ég hér humarrauður og helaumur í húðinni.

En eftir nokkra daga verð ég brúnn og sællegur.

8. maí 2008

Ég fékk blaðamannapassa á leikinn í Gær, IFK Göteborg og Kalmar FF. Þetta var hörkuleikur. Sérstaklega síðari hálfleikur þar sem heimamenn komus yfir úr stöðunni 0-2 í 3-2 á fimmtán mínútum. Það má lesa um þetta hér.

Annars á Jóka afmæli í dag. Hún fékk muffins í rúmið og box með Beðmáli í borginni.

Hér er áfram sumarblíða og verður ugglaust eitthvað áfram.

7. maí 2008

Staðan núna

Sólin skín og hitinn er um 20 gráður og garðurinn hjá mér er fullur af hálfberum konum.

6. maí 2008

Det kommer bli bra

Ég var að hlusta á Rás tvö á netinu áðan. Brot úr degi. Djöfuls óskapans þrugl, þvaður og hávaði. Leiðindatónlist og kjaftæði um ekkert. Lesið upphátt af mbl.is og ömurtónlist leikin á milli. Svissaði yfir á Rás eitt í staðinn, Samfélagið í nærmynd. Þar er allt annað á ferðinni. Áhugaverðir pistlar og klassísk dægurtónlist. Er þetta merki um aukinn aldur og meiri þroska?

En á Rás eitt var fréttaritari í þýskalandi að tala um mismunandi geð Þjóðverja og Íslendinga og nefndi þar frasann "Þetta reddast" sem íslendingum ku tamur. Hún sagði að líklega væri enginn sambærilegur frasi í þýskri tungu, sem vel má vera að rétt sé. Ég held að frasinn sé ágætt dæmi um visst kæruleysi sem einkennir Íslendina að einhverju leyti. Ég fann það t.d. hér í Svíþjóð þegar við vorum að setja á fót Monthly að Svíarnir í hópnum voru frekar tilbúnir til að einblína á neikvæðu og erfiðu þættina frekar en þá jákvæðu og einföldu. Það vorum við Jóhanna sem rifum upp bjartsýnina og þróttinn. Jóhanna var þá skóluð úr íslenska kæruleysinu og framkvæmdagleðinni.

Vissulega er nauðsynlegt að taka vandamálin með í dæmið strax í upphafi. Eitthvað sem Íslendingar mættu yfirleitt gera í stað þess að æða áfram í blindni og takast á við vandamálin eftir því sem þau koma upp.

Þessi umfjöllun um þetta-reddast-attitjútið hjá íslendingum versus stabíla og markvissa áætlunargleði þjóðverja kom svo aftur upp í seinni dagskrárliði í Samfélaginu í nærmynd. Þar var á ferð Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem ræddi um ýmis skipulagsklúður sem líklega væru komin vegna þetta-reddast-stefnunnar, þó hann orðaði það ekki þannig beint.

En nú er ég kominn langt frá efninu sem ég veit svo sem ekkert hvað átti að vera. Jú, ég ætlaði að nefna það að ég væri að lesa Ævintýrið um góða dátann Svejk. Það og að ég væri að hlusta á Rás eitt.

Æj hvað um það...

2. maí 2008

Draumfarir

Draumfarir mínar hafa verið undarlega undanfarið

Mig dreymdi fyrir stuttu að ég hefði fengið það verkefni að leikstýra kvikmynd um fyrstu ár Sálarinnar hans Jóns míns. Hafði ég þegar fengið nokkra þekkta leikara til að leika hljómsveitarmeðlimina. Björn Hlynur Haraldsson átti að leika Friðrik Sturluson, sem var í aðalhlutverki myndarinnar. Sagan átti að segja hvernig Friðrik Sturluson og Guðmundur Jónsson hittust og mynduðu risapoppgrúbbuna sem seinna varð Sálin hans Jóns míns. Stefán Hilmarsson komi lítið við sögu en ég hafði þó fengið Owen Wilson til að leika hann. Hann átti þó ekki að koma við sögu fyrr en í lok myndarinnar, þegar leitin að söngvara grúbbunnar fór fram í áheyrnarprufum á borð við Rockstar þættina. Þetta er í engu samræmi við hvernig saga Sálarinnar hófst í raun og veru.

Fyrir nokkrum nóttum dreymdi mig að ég hefði verið fyrir slysni ráðinn á risastóra fasteignasölu í Reykjavík. Þegar upp komst að ég hefði hvorki reynslu né hæfileika til að selja fasteignir tókst mér að telja eiganda fasteignasölunnar á að láta mig sanna mig í starfi. Sem ég og gerði þegar ég seldi Mick Jagger Kringluna fyrir 300 milljarða eða svo.

Nú í nótt dreymdi mig svo að ég væri úti á djamminu í New York hvar ég hitti Paris Hilton og eyddi með henni nóttinni í keleríi út um alla borg á helstu diskótekunum.

Jamm - góður draumur maður...

30. apr. 2008

Alþýðuflokkurinn átti þetta nú að vera þarna í fyrri færslu.

En hér fór hitinn upp í 20 gráður í gær og við skelltum okkur til Trollhättan á sýningu á lokaverkefnum nemenda í námskeiðinu sem Jóhanna hefur verið á þar. Art och Media eða eitthvað álíka heitir það. Pikknikk á árbakkanum og norsk lest heim.

Helvíti eru norsku lestarnar flottar.

29. apr. 2008

guðni

Ég er enginn sérstakur stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar. Ég hef þó ákveðna samúð með Samfylkingunni. Mér finnst t.d. ummæli Guðna Ágústsonar um að ríkisstjórnin eigi að segja af sér spaugileg þar sem að hann sat nú í þeirri ríkisstjórn sem líklega ber mesta ábyrgð á hvernig komið er í íslenskum efnahagsmálum.

Það er nefnilega nokkuð óheppilegt fyrir Samfylkinguna að akkúrat þegar hún sest í ríkisstjórn hafi einmitt verið komið að lokum þessa blómlega efnahagsskeiðs sem ríkt hefur síðustu árin, eða allt frá því að Alþýðubandalagið, forveri Samfylkingarinnar, var í ríkisstjórn.

Það er auðvelt að setja samasemmerki þarna á milli, en að sjálfsögðu eru málin flóknari en svo. Það eru nefnilega undarlegar ákvarðanir ráðherra Framsóknarflokksins sem núverandi ráðherrar Samfylkingarinnar sitja uppi með og þeir taka einfaldlega við slæmu búi.

28. apr. 2008

Sigmundur - Bourne - Quiche

Svo virðist sem ég og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson virðumst vera algjörir skoðanabræður hvað varðar byggingaskipulag í Reykjavík. Sigmundur er hámenntaður í fyrirbærinu skilst mér og það er ekki ónýtt að vera með slíkan mann í liði með sér.

Ég hef lengi velt mér fyrir afhverju arkitektar eru svo ragir við að teikna hús eins og gert var fyrir um 100-200 árum. Mér finnst þar um að ræða mun meiri list en felst í þessum kubbahúsum og glerhöllum sem hafa verið teiknuð síðustu hundrað árin tæp.

Vonum að Sigmundur nái eyrum fólks sem sér um þessi mál.

Mikið er ég annars hrifinn af hasarhetjunni Jason Bourne. Sá loksins Bourne Ultimatum í gær. Það má segja að þessar þrjár myndir um Bourne sem hafa verið gerðar á síðustu árum myndi inngang að ævintýrum um kappann. Mér skilst að í undirbúningi sé fjórða myndin um Bourne í leikstjórn sama leikstjóra og leikstýrði tveimur síðustu myndunum og að Matt Damon muni halda áfram að leika kappann. Það líst mér á! Skv. bókunum um hann er Jason Bourne (öllu heldur David Webb) prófessor í málvísindum. Ég hef oft talað um það hvað mér finnst vanta hasar og drama um málfræðinga. Ef kvikmyndin verður trú sögunni verður þetta hin mesta skemmtun.

Í gær eldaði ég quiche í fyrsta sinn. Það er einfaldara en að elda pizzu.

25. apr. 2008

Sumar - Hitler - Ufsi

Hér verður ekki bloggað um vörubílstjóra.

Ég eldaði ufsa í fyrsta sinn í gær. Ég er hreinleg ekki viss um hvort ég hafi yfir höfuð lagt mér ufsa til munns áður. Er ufsi seldur á Íslandi?

Á frídeginum í gær lá ég fyrir í Slottsskogen og las í þeirri merkilegu bók Anmerkungen zu Hitler. Reyndar er ég að lesa hana á ensku þar sem hún heitir The Meaning of Hitler. Bókin sú er ein sú mest upplýsandi (enlightening) sem ég hef lesið í langan tíma.

Þegar ég var orðinn stirður af legunni gekk ég niður í Linnéstan þar sem á vegi mínu varð fiskivagninn, sem er einn af fáum stöðum hér í bæ þar sem hægt er að kaupa ferskan fisk. Ég benti á það sem hafði ódýrasta kílóverðið, Sej á 98 kall kílóið. (kílóið af ýsu kostar 178 kall!!). Á leiðinni heim var ég svo að velta fyrir mér hvaða fiskur Sej er. Ekki var það þorskur (torsk) ekki var það ýsa (kolja). Lúða var það ekki því hana þekki ég í sjón og ekki skötuselur heldur og ekki rauðspretta (rödspetta).

Ufsi var það heillin - þrælgóður með green curry og klyftpotatis.

22. apr. 2008

Salmonelluógnin

Ég má til. Ég hlustaði á Ögmund Jónasson vara við hinni skelfilegu salmonelluógn sem steðjar að okkur íbúum í Evrópusambandinu. Ég verð nú ekki mikið var við hana hér í Svíþjóð að vísu. En ég fór að athuga tölur um þetta og komst að þessu.

Árið 2006 voru skráð 110 salmonellutilfelli á íslandi. Það eru 35,2 tilfelli á hverja 100.000 íbúa.

Árið 2005 voru skráð 38,2 salmonellutilfelli á hverja 100.000 íbúa í löndum Evrópusambandsins.
Þessa umræðu um hvort að opnun á markaðnum hér heima geti drepið íslenskan landbúnað finnst mér vanta einn punkt:

Er ekki eina leiðin fyrir íslenska bændur að vera í raun samkeppnishæfir við starfsystkin sín úti í heimi að opna á alla möguleika okkar að flytja „bestu og hollustu landbúnaðarafurðir í heimi“ út til annarra landa. Út í heim, eða heimshluta, þar sem eftirspurn eftir lífrænum vörum eykst dag frá degi. Mér skilst að nær allar vörur sem íslenskir bændur framleiða ætti afar auðvelt með að fá lífræna vottun.

Þennan iðnað mætti stórefla t.d. á kostnað stjóriðju sem svo margir telja lausn allra vandamála.

Ég á ekki orð

Hvurslags!? Ég er að horfa hér á Kastljós og þar er viðtal við Davíð Stefánsson sem samkvæmt geitunum í Kastljósinu á að hafa fundið upp textagerð og prófarkalestur! Er ekki allt í lagi? Fín hugmynd hjá Davíð og allt það. Ég fékk sömu hugmynd fyrir tíu árum og hef haft þetta að starfi síðan. Hellingur af fólki sem starfar við þetta og hefur gert í áratugi, árhundruð.

Ojæja - kannski ágætt að vekja athygli á því að við séum til, textagerðarfólkið.

21. apr. 2008

Af mér

Jú, þarna kom það. Búin að ríkja bongóblíða hér frá því á föstudag. Lág í Slottsskogen í gær og las og baðaði mig í sólskininu. Það var nammi.

Annars var helgin nokkuð töff og skemmtileg. Hið hefðbundna After Work sessjón á föstudaginn og tilheyrandi dansiball fram undir nótt. Á laugardaginn spilaði ég fyrir 200 matargesti á ráðstefnu RFSU. Og svo afslöppun í gær eins og fyrr segir. Æðislegt flott, svo maður kvóti í Bubba.

Nú eru þetta orðin tæp 70% prósent sem vilja inn í ESB. Það þarf ekki að koma á óvart. Flestir hagfræðingar í háskólasamfélaginu hafa að undanförnu eiginlega kallað eftir því að íslensk stjórnvöld lýsi því yfir að þau ætli að setja það á dagskrá hjá sér að hefja undirbúning að aðildarumsókn.

Ég held að það væri það minnsta sem hægt væri að gera. Yfirlýsing um að maður ætli að setja eitthvað á dagskrá er alls ekki það saman og að gera eitthvað. En ef það gæti orðið til þess að auka stöðugleika þá er um að gera að gefa bara út þá yfirlýsingu.

17. apr. 2008

Maður var skotinn til bana hér í hverfinu í fyrrinótt. Úti á miðri götu, sömu götu og ég fer um ótal oft í viku á leið minni niður í bæ, súpermarkaðinn eða krána. Það er óhugnanleg tilfinning.

Annars virðist þetta vor sem ætlaði að láta sjá sig í byrjun mars bara vera hætt við að koma.

16. apr. 2008

Heimþrá?

Í gær og í dag hefur legið yfir mér einhvers konar heimþrá. Hún er hins vegar undarleg að því leyti að ég hef skyndilega löngun til að gera eitthvað sem ég hef hingað til hefur ekki skipað neinn sérstakann sess í daglegu lífi mínu í Reykjavík. Til dæmis:

Borða borgara á Grillhúsinu Tryggvagötu
Kíkja í sunnudagsbíó í Regnbogann
Billabjór á Hverfisgötunni
Skella mér í Listasafn Íslands
Labba í gegnum Ráðhús Reykjavíkur
Kolaportið


Undarlegt


Annars fjárfesti ég í flugfari til Íslands 18. maí. Verð þar til 8. júní. Seisei já

14. apr. 2008

Ég las það í blaði að Sævar Ciesielski hefði dottið niður stiga í Kaupmannahöfn og brákað á sér lærlegginn. Svo hafi hann fengið blóðeitrun í kjölfarið. Eru þetta algeng örlög Íslendinga í Kaupmannahöfn?

12. apr. 2008

Hlýnun jarðar, loftslagsmál, umhverfisvernd

Mér hefur þótt merkilegt að lesa og hlusta á Egil Helgason undanfarið. Hann virðist í hópi fólks sem trúir því ekki að hlýnun jarðar sé af völdum óæskilegrar hegðunar mannkyns. Oft er þessi hópur nefndur efasemdamenn því þeir virðast á annarri skoðun en það sem margir vilja meina að sé viðtekið viðhorf. Sum sé að hlýnun jarðar sé vissulega af völdum mannkyns.

Ég veit svo sem ekki af hversu miklu leyti þessi hlýnun (sem þó er staðreynd) er af völdum manna. Mér skilst að á jörðinni hafi ríkt til skiptis hlýinda- og kuldaskeið til. Vel má vera að við séum nú að ganga í gegnum eitt slíkt hlýindaskeið. Einnig hefur mér verið kennt að útblástur gróðurhúslofttegunda hafi áhrif til hlýnunar (og þaðan er nafnið dregið). Losun slíkra lofttegunda er nú líklega af miklu leyti af völdum manna þó vissulega geti þær losnað af náttúrulegum orsökum.

En mér er eiginlega sama hvor hópurinn hefur rétt fyrir sér. Sá sem segir að menn valdi ekki hlýnun jarðar og svo hinn sem segir að menn valdi hlýnun jarðar. Þetta er, eins og svo ótal oft áður, deila um keisarans skegg.

Efasemdamennirnir svokölluðu vilja meina að það sé ekkert til í því að mannkynið hafi verið að hita upp lofthjúpinn í kringum okkur. Það sé í besta falli bull og ef svo er þá sé hvort eð er ekkert sem við getum gert til að hindra það eða snúa ferlinu við. Alls ekki sé í sjónmáli að einhverjir aðrir orkugjafar en þeir sem hinir trúuðu teljið að leiði til hlýnunar loftslags verði leystir af hólmi. Og svo frameftir götunum. Eiginlega virðast þeir einkum vera á móti skoðunum hins hópsins.

Þessi hópur, hópur þeirra sem telja að hlýnun jarðar sé ekki af völdum manna, svo að við notum enga einkunn sem gæti falið í sér neikvæðni í hans garð, hefur einfaldlega vondan málstað að verja. Ég held að allir geti verið sammála um að hinar svokölluðu gróðurhúslofttegundir séu að einhverju leyti skaðlegar. Fáum dytti t.d. í hug að leggjast fyrir aftan púst á bensínknúinni bifreið og anda að sér útblæstrinum, tja nema þeir væru í sjálfsmorðshugleiðingum. Það má með berum augum sjá áhrif útblásturs ýmiss konar á umhverfið. Visnaður gróður að sumri, svartur snjór að vetri, gruggugt vatn, hóstandi og veikt fólk og skepnur. Menn hljóta að geta sameinast í þeirri trú, hvort sem gróðurhústegundir valdi hlýnun loftslags, að þær séu ekki beinlínis það besta sem við, mannkynið, getum skilið eftir okkur.

Okkur ber, sama hvort lofthiti fari hækkandi eða lækkandi, að leita allra leiða til að finna orkugjafa sem spilla ekki umhverfinu og breyta hegðun okkar þannig að við sleppum mengandi útblæstri á sem minnstan hátt.

Það er í góðu lagi að efast um það sem alls ekki er sannað að það séum við sem völdum hlýnandi loftslagi á meðan maður viðurkennir þó að þeir sem boða þá skoðun hafi a.m.k. rétt fyrir sér að við verðum engu að síður að fara að breyta um orkugjafa og hegða okkur á annan hátt. Annar leyfi ég mér að kalla fólk í hópi svo kallaðra efasemdamanna fávita.

10. apr. 2008

Velferðin

Ég skrapp til Amsterdam síðustu helgi. Það var fjör fyrir utan að ég náði mér í sýkingu í augað sem angraði mig talsvert. Svo mikið reyndar að ég sá þess kost vænstan að leita til læknis. Þar sem það var helgi var eina leiðin til þess að banka uppá á bráðamóttökunni. Þegar þangað var komið var mér tjáð af andstyggilegri konu að þetta væri um það bið 2-3 klukkustunda bið. Jæja, hugsaði maður, ekki er það nú gott í svona stuttri heimsókn að eyða öllum þessum tíma í bið á sjúkrahúsi. Hvað kostar annars biðin spurði ég. 300 evrur, svaraði konan andstyggilega. Ég hugsaði mig um í eina sekúndu og gekk svo í burtu. Fór í næsta apótek og keypti mér eitthvurt hómópatalyf til að lina verstu óþægindin áður en ég sneri aftur heim í velferðina.

Um leið og heim var komið snaraði ég mér á sjúkramóttöku niðri í bæ. Sótti mér fyrst svona númer fyrir röðina á netinu og svo þegar ég mætti á svæðið var röðin einmitt komin að mér. Á netinu borgaði ég líka fyrirfram 200 krónur sænskar (21 evru). Ég talaði við ósköp almennilegan hjúkrunarfræðing sem fannst alveg frábært að hitta íslending og sagði mér að þetta liti ekki illa út og að ég gæti hitt lækninn eftir halftíma. Það stemmdi og tíu mínútum síðar var ég kominn með lepp fyrir augað og áburð á sárið. Alsæll með sænska heilbrigðiskerfið.

Þess má geta að tekjuskattur í Hollandi nær allt að 52%. Í Svíþjóð er hann um 32%.

4. apr. 2008

Mótmæli

Ég er almennt á því að fólk eigi nýta rétt sinn til að mótmæla þegar ástæða er til þess á annað borð. Mótmæli mótmælanna vegna eru þó asnaleg og engum til góðs.
Ég hef líka alveg samúð með málstað vörubílstjóranna. Hátt olíuverð og miklar álögur koma hart niður á afkomu þeirra. Auðvitað eiga þeir að mótmæla. Ég er hins vegar ekkert endilega á því að það eigi að lækka álögur á olíu og bensín. Þetta eru ein mest mengandi efni sem mannkynið notar í daglegri neyslu sinni. Okkur ber að takmarka notkun þeirra og ein leiðin til þess eru miklar álögur.

Jeppaklúbburinn 4x4 hefur vafalaust sama rétt á að mótmæla, rétt eins og allir þegnar landsins. En það er einfaldlega ekki hægt að hafa samúð þeirra málstað.

1. apr. 2008

Aprílgöbb

Þetta eru orðin þjú aprílgöbb sem ég hef séð í íslenskum fjölmiðlum nú þegar.

Færsla

Bróðir minn á afmæli í dag. Hann fær hér kveðjur í tilefni dagsins.


Eins og lesendur síðunnar vita hef ég nokkurn áhuga á samgöngu- og skipulagsmálum. Ég hef því fylgst spenntur með allri umræðu um þau mál sem nú hefur verið uppi um bæði samgöngur og skipulagsmál í Reykjavík. Mig hefur oft langað til að gráta yfir vitleysunni, hringlandahættinum, skipulagsleysinu og óskipulaginu í þessum málaflokkum. Það er eins og borgaryfirvöld hafi engan sans fyrir því hvað borg sé. Vissulega er Reykjavík lítil borg en borg er hún vissulega hefur alla burði til að standa jafnfætis mörgum borgum af sambærilegri stærð erlendis. Það þarf bara metnað til þess.

En ég hef sumsé fylgst með af athygli þeirri umræðu sem nú er í gangi. Ég gleðst þegar ég les um hugmyndir af léttlestum sem hafa komið upp á yfirborðið á ný, vilja verslunarmanna til að gera Skólavörðustíginn að einstefnugötu með reiðhjólastígum og breiðari gangstéttum, vilja til að halda gamalli götumynd gatna og hverfa.

Ég vil sjá sporvagna aka upp og niður Laugaveginn en loka í staðinn fyrir bílaumferð. Ég við sjá reiðhjólastíga við allar helstu umferðagötur bæjarins og ég vil sjá falleg Reykvísk bárujárnshús út um allan bæ. Hornið á Aðalstræti, Suðurgötu og Túngötu er t.d. eitt bestheppnaðasta götuhorn sem hefur verið byggt frá því um aldamótin 1900.

Eða eitthvað

18. mar. 2008

gengisfall

„Erfitt er að spá því hver þróun gengis verður á næstu vikum en það er auðvitað hugsanlegt að lækkunin síðustu daga gangi til baka á næstu vikum eða mánuðum. Gengið gæti einnig haldið áfram að falla.“

Hvað læra menn í hagfræði?

Íslensk veðrátta virðist annars mun áreiðanlegri en íslenska krónan.

Og launin mín í íslenskum krónum halda áfram að lækka og lækka og lækka og lækka.

14. mar. 2008

Moggablogg

Jæja - ég má til að moggablogga.

Ég rakst á þessa frétt um nafnabreytingar hjá 365 miðlum. Einu sinni vann ég sem textasmiður á auglýsingastofu. Nokkrum sinnum fékk ég það verkefni að koma að nafnabreytingunum á vörum og fyrirtækjum. (Þessar setningu skaut ég inn til að grundvalla sérþekkingu mína í eftirfarandi gagnrýni):

Stöð 2 Sport 2 - þetta er bjánaskapur

10. mar. 2008

Silfrið

Stjórnmálamenn geta ekki talað um inngöngu í ESB. Fólk talar sífellt hvert oní annað án nokkurrar vitrænnar umræðu. Svo Bingi kom með góðan punkt að láta fólkið í landinu leiðbeina stjórnmálaflokkunum í þessu máli. Annars virðast einu rökin gegn aðild vera tilfinningaleg eða þjóðernisleg. Og ótti við lýðræðishalla? Ég hef engin áhrif geta haft á stjórn Íslands hingað til. Ég held þau verði síst minni þó við yrðum hluti af öðru ríki, hvað þá bandalagi ríkja.

Af annarri inngöngu: Svo virtist Bingi nokkuð greinilega vera að undirbúa inngöngu sína í Samfylkinguna.

7. mar. 2008

Fáðu

Launin mín hafa lækkað umtalsvert frá því í sumar. Þetta er skelfilegt. Alveg hreint skelfilegt.

Helvítis íslenska króna

4. mar. 2008

Styttist í það?

Síðustu mánuði hefur skýjahula legið yfir bænum og varla sést til sólar. Vetur kallast það víst, eða svona er birtingarmynd hans á þessum slóðum. En nú undanfarna dagar hefur létt til og sólin sprottið fram á himininn. Breytingin á mannlífinu verður augljós í kjölfarið. Bros birtast á ný á vörum fólksins og brúnin léttist umtalsvert. Skyndilega fara gangstéttar aftur að standa undir nafni þegar mannskapurinn lætur sýna sig úti undir berum himni. Allt breytist á augabragði.

Vorið virðist eiginlega á næsta leiti. Má það vera? Núna strax í byrjun mars?

Gildi veðurbloggs sýnir sig þegar þessari spurningu er varpað fram: Hvernig var þetta í fyrra?

Fyrir akkúrat nákvæmlega ári reit ég þessa færslu.

Í næstu færslum þar á eftir ræði ég vart annað en vorið sem þá var að skríra úr híði sínu.

Þessi færsla var tileinkuð hinum veðurperranum: Kolbeini Sigurði Ólafssyni.

Engin ákvörðun

Þessi borgarmeirihluti virðist einkum hafa það að stefnuskrá hjá sér að taka engar ákvarðanir. Efsta málið á hinum svokallaða málefnasamningi var að taka enga ákvörðun um flugvöllinn. Búið er að ákveða að taka enga ákvörðun um hver tekur við borgarstjóraembættinu. Það er búið að tilkynna um vinningstillögu um uppbyggingu í Vatnsmýrinni. Nú veit enginn hvað á að gera við þá tillögu því enginn hefur hugmynd um hvort flugvöllurinn sé að koma eða fara. Eitthvað var Hanna Birna að rövla um að það væri hægt að notast við þessa tillögu sama hvort flugvöllurinn væri eða færi. Ég er búinn að rýna í tillöguna, og nema að hún sé að tala um að flugvélarnar lendi þarna á húsþökum, get ég ekki séð hvernig það á að vera hægt.

Málið er einfalt. Það þarf að taka ákvörðun um framtíð flugvallarins núna. Að hann fari ekki neitt og þá búa svo um hnútana að með hugsanlega aukinni flugumferð sé þessum flugvelli vært í miðborginni. Eða þá að taka einfaldlega ákvörðun um að hann verði farinn innan einhverra ára (t.d. 2016) og byrja að huga fyrir alvöru að nýju plássi fyrir hann (eða bara skutla upp flugstöð við Keflavíkurflugvöll).

3. mar. 2008

Af engu

Af og til gerist það hér á þessum bloggi að upp koma vangaveltur um ritstjórnarstefnu þessa fyrirbæris sem ég kalla 'I am Spartacus'. En það verður nú svo sem aldrei neitt úr því að breytingar verði. Enda erfitt að breyta engu. Eða tilgangslaust máski frekar.

Hvað um það. Lítið hefur verið um málfræðiblogg eða pólitíkst rövl. Ég mun nú reyna að auka hlut þess hér á næstu dögum/vikum/mánuðum. En ekki akkúrat núna.

Fyrir réttum fjórum árum reit ég á þennan blogg:

Aleinn í margmenninu
ferðast ég afturábak áfram
fram og til baka
með strætisvagninum


Þá var maður nú skáldlegur. Fyrir akkúrat þremur árum reit ég þetta:

ég einmitt var að kvarta undan snjóleysinu við leiðbeinandann minn í gær, hollenskan, og sagði að snjórinn hér væri nú ekkert spes fyrst hann gæti ekki fest. Hann horfði á mig skilningslausum augum og hélt áfram að tala um mikilvægi tónlistarmyndbanda fyrir kúltúral sittisensjipp.

Fyrir tveimur árum var minna um að vera í lífi manns:

Föstudagskvikmyndagetaun Frjettabrjefs Frjálsa

Spurt er um kvikmynd

1. vísbending: Kvikmyndin segir frá skeiði í lífi ungs manns


Örlítið meira fjör fyrir ári síðan:

það er svo sem ekki mikið mál að vinna um helgar. ég stíg upp úr rúminu og sest við skrifborðið, jafnvel á nærklæðunum einum, með úfið hár og óþrifinn. í dag verður unnið og unnið þar til kvöldið kemur.

internetið kom en þá fór rafmagnið...

rafmagnið kom aftur... og internetið fór ekki

við skulum vona að internetið og rafmagnið uni sér saman hér á Slottsskogsgatan 79bSvona eru dagar mínir.

29. feb. 2008

Af mörgu

Þá er hann runninn upp þessi 29. febrúar. Dagurinn sem kemur bara stundum. Á þessum degi verður eitthvað svo ljóst hversu ófullkomið kerfið er sem við notum til að lýsa veröldinni. Rétt eins og málfræðin fangar aldrei nákvæmlega reglur hins mannlega máls. Eða hvernig ýmsar stærðir, s.s. pí, passa enganveginn inn í það kerfi sem við notumst við. Því þegar öllu er á botninn hvolft er skilningur okkar á veröldinni svo ósköp takmarkaður.

Merkilega, engu síður, erum við mannfólkið komin langt á veg. En kannski höfum við þegar náð toppnum fyrir löngu. Mér finnst það stundum.

25. feb. 2008

leitarorð

brjóst (5 - 5%)
jón hreggviðsson (4 - 4%)
að búa til sápu (4 - 4%)
tattu (3 - 3%)
Jónína Bjartmarz (3 - 3%)
íbúð til leigu í gautaborg (3 - 3%)
Jón Hreggviðsson (2 - 2%)
Beatrix drottning Hollands (2 - 2%)
related:en.wikipedia.org/wiki/Terabyte (2 - 2%)
dapperplein+amsterdam (2 - 2%)
ungu skáldin (2 - 2%)
hvað þýðir deilur um keisarans skegg (2 - 2%)
ég er svangur og á engan aur (2 - 2%)
gautaborg íbúð (2 - 2%)
ég endurvinn allt (1 - 1%)
vogaturninn (1 - 1%)
Ferð með Norrænu (1 - 1%)
stelpur í kvikmyndafræði (1 - 1%)
mannshjartað (1 - 1%)
Anna Rut (1 - 1%)
amsterdam (1 - 1%)
vatnsmýri vinningstillaga (1 - 1%)
hjörtur flickr mugison (1 - 1%)
sjoppa texas (1 - 1%)
augasteinninn (1 - 1%)
Letrad markers (1 - 1%)
trina downunder (1 - 1%)
bjossi sigurvinsson (1 - 1%)
vatnsmyrin (1 - 1%)
Hreggi (1 - 1%)
hjammi (1 - 1%)
ólafur þorsteinsson flick (1 - 1%)
gallajakkar (1 - 1%)
identity þýðing (1 - 1%)
Gautaborg (1 - 1%)
Þormóður Dagsson (1 - 1%)
hermannaskór (1 - 1%)
eignatilfærsla (1 - 1%)
mannanafnanefnd (1 - 1%)
"Sofðu unga ástin mín" (1 - 1%)
BARNAVAGN (1 - 1%)
MR mótmæli ráðhús (1 - 1%)
sigurður b (1 - 1%)
sápugerð (1 - 1%)
röskva mín (1 - 1%)
sprengidagur (1 - 1%)
Icelandic letters (1 - 1%)
05 mai 1945 (1 - 1%)
sögukennari "guðmundur arnlaugsson (1 - 1%)
bitah%C3%B6llin (1 - 1%)
html icelandic letters (1 - 1%)
www xxxamsterdam com (1 - 1%)
kynsvall (1 - 1%)
spartacus xxx (1 - 1%)
rækta paprikur í gluggakistunni (1 - 1%)
gautaborg íbúð leiga (1 - 1%)
ferðir með norrænu (1 - 1%)
blogspot.com "Pétur Maack" (1 - 1%)
Orsakir frönsku byltingarinnar (1 - 1%)
spartacus universiteit (1 - 1%)
em í fótbolta 2004 (1 - 1%)
Skyldi manninum ekki leiðast (1 - 1%)
Rammstein reykjavik (1 - 1%)
sexi geim (1 - 1%)
Barnið mitt (1 - 1%)
hjalti þorsteinss (1 - 1%)
stækkari (1 - 1%)

Alveg ótrúlegt

Mikið er þetta nú ömurlegt allt saman. Vilhjálmur kemur endurtekið fram í fjölmiðlum til að segja akkúrat bara þetta: Ég hef tekið ákvörðun um að taka enga ákvörðun. Sorglegt - ekkert annað um það að segja.

Annars er nú hressleikinn hér ágætur. Hlaupamál ganga ágætlega, eða gerðu það þar til fóturinn fór að láta undan. Nú haltra ég af ástæðum sem ég kann ekki að nefna.
Manni finnst svona eins og vorið sé á næsta leiti. Það þykir mér þó ótrúlegt.
Búið er að bóka ferð til Amsterdam eina helgi. Það er gott. Ég tók mig svo til og gjörbreytti útlitinu á monthly.se. Þetta er flottur vefur.

15. feb. 2008

Vatnsmýrin

Þessi vinningstillaga um Vatnsmýrina er nokkuð töff. Veit samt ekki alveg með hvort þörf sé á annarri tjörn. Hins vegar þótti mér merkilegt í Kastljósi gærkvöldsins hvernig Hanna Birna, þrátt fyrir málefnasamninginn um að gera ekkert við flugvöllinn, talaði eiginlega um að flugvöllurinn væri á leiðinni burt, það ætti bara eftir að áhveða hvert hann færi.

Það er flott

12. feb. 2008

fundurinn

Þessu undarlegi blaðamannafundur hjá Vilhjálmi í gær var svo stórfurðulegur að ég trúi tæpast að það liggi ekkert meira að baki en að Villi ætli sé að halda áfram og hugsa sína stöðu á meðan.

Tilgáta: Á fundinum var þrýst á Villa að hætta. Hann tók undir það en vildi ekki gera það þá og þegar þrýstingurinn og umræðan væri á því stigi sem hún er. Í staðinn hafi hann samþykkt að stíga niður, líklega segja af sér, en bíða með að tilkynna það og láta líta út fyrir að það væri að vandlega íhuguðu máli og algjörlega af sjálfs dáðum frekar en að hann yrði flæmdur burt með skömm. Það var samþykkt.

Hinir borgarfulltrúarnir laumuðu sér í burtu til að þurfa ekki að tjá sig um neitt og formaður flokksins segist ætla að bíða með að taka afstöðu um stuðning við Vilhjálm.

Ég hef bara meiri trú á þessu liði en að það nái að klúðra skelfilegri stöðu svona enn frekar á verri veg.

Eller hur...

11. feb. 2008

úff

Kannski ekki á það bætandi. En mikið var nú ömurlegt að horfa á þennan fíflalega blaðamannafund sem Vilhjálmur hélt. Hann hefði nú alveg eins bara látið sér nægja að senda sms: "ætla ekki að segja af mér. ég hef þegar axlað ábyrgð". Og að láta sér detta í hug að það að vera hrakinn frá völdum sé á einhvern hátt að axla ábyrgð! Auli.

Ekki ætla ég svo sem að gráta það að Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn í ógöngur. En hefði maðurinn nú bara sagt að hann myndi ekki ætla að taka við borgarstjórastólnum og að hann myndi ekki gefa kost á sér aftur í borgarstjórn og að hann myndi stíga úr oddvitasætinu, þá hefði hann getað lægt öldurnar talsvert. Jafnvel skapað algjöran frið. Hann hefði ekki þurft að segja af sér. Bara að viðurkenna að hann væri rúinn öllu trausti til að leiða borgarstjórnarflokk Sjálfstæðismanna og stýra borginni síðar meir.

En nei. Menn hugsa um rassgatið á sjálfum sér. Sitja sem fastast bara afþví.

Fífl.

8. feb. 2008

Orð-af-orði

Eitt af mínum eftirlætisorðum í sænsku er orðið 'fruktansvärd'. Það tók mig nokkurn tíma að átta mig á hvað um væri rætt. Í fyrstu var ég alveg á því að orðið hefði jákvæða merkingu, það hljómar einhvern veginn þannig. Þýddi kannski 'frábært' eða 'hlægilegt' eða álíka. Fljótlega fann ég þó út af samhengi að það gæti nú tæpast verið rétt. Ég hef svo sem aldrei flett orðinu upp en ég myndi telja af nokkurri vissu að um sé að ræða það sem á íslensku er kallað 'hræðilegt' eða 'skelfilegt'! Það stemmir líka við orðin sem það virðist myndað úr 'fruktan' þýðir 'ótti, hræðsla' og 'värd' er það sema og 'virði' og 'vert' á íslensku. "Hræðsluvert".

Annar er alveg aragrúi af lýsingarorðum sem var lengi að átta mig á. T.d.:

äcklig
hemskt
töntig
tjusig
jobbig
elak
lustig
sjabbig
sjysst
konstigt
annorlunda

Áður en ég flutti hingað kunni ég bara: Bra

6. feb. 2008

Nafnavitleysan

Fjölmiðlafólk og annað fólk er jafnan harðort í garð mannanafnanefndar og býsnast yfir úrskurðum hennar. Starfsfólk nefndarinnar liggur jafnan undir ámælum ásamt háði og spotti. Máski mér sárni það vegna þess að um kollega mína er að ræða. En það er þó ekki eingöngu þess vegna sem umræðan fer í taugarnar á mér. Eins og svo oft áður í umræðunni á Íslandi er verið að deila um keisarans skegg. Málið snýst alls ekki um nefndina sem slíka heldur lögin sem hún starfar eftir. Það er alls ekki svo að um geðþóttaákvarðanir sé að ræða hjá nefndinni og að algjört ósamræmi sé í úrskurðum hennar. Ég skil svo sem að fólki kunni að þykja svo þegar það sér nöfnin Guja og Vár samþykkt en ekki Curver. En hafi maður menntað sig eitthvað í íslenskri tungu og málfræði liggur í augum uppi ástæðan fyrir slíkum úrskurði. Ekki myndi spilla fyrir ef fólk myndi kynna sér lögin um mannanöfn. Sé fólk fúlt yfir úrskurðum mannanafnanefnda ætti það frekar að gagnrýna lögin en ekki nefndina. Ég reit einu sinni um þetta grein.

Sannast hið fornkveðna: Fólk er fífl.

4. feb. 2008

Á bretti bruna ég mér tra la la la

Ó öll sú dásemd og dýrð! Skellt var sér á snjóbretti í gær. Við fórum seinnipart laugardags í átt að Hovfjället. Vorum komin síðla kvölds í stugo hentum okkur í háttinn og vorum svo komin í brekkurnar rétt uppúr níu í gærmorgun. Átta tíma brun niður fjölmargar brekkur. Kjarkurinn sem ég hélt ég hefði glatað í Hlíðarfjalli fyrir um tveimur árum hafði snúið til baka og ég renndi mér niður eins og herforingi í hvert sinni. Færið var blússandi, 80 cm púðursnjór sem beið okkar nánast ósnertur þegar við mættum á svæðið. Gerist nú eiginlega ekki betra. Svo varð þetta dáldið verra eftir að skíðafólkið var búið að plægja upp brekkurnar. En ekki ætla ég að kvarta.

Nú er bara reyna að hafa ferðirnar fleri en bara eina í ár til að maður geti nú bætt sig eitthvað. Mér hefur hreinlega farið aftur síðan þarna 2002 þegar ég var orðinn bara nokkuð góður.

30. jan. 2008

Maður er náttúrulega galinn

Jæja! Í gær var tekin ákvörðun: Í ár skyldi hlaupið Göteborgsvarvet. Það er hálfmaraþon. Brjálsemin fer fram á þjóðhátíðardegi Norðmanna svo ég hef rétt rúmar 15 vikur til að koma mér í form. Ég las mér til í gærkvöldi og mælt er með að byrjendur hafi 16 vikur til að þjálfa sig upp fyrir hálfmaraþon. Þá er hlaupið 4-5 daga í viku. Ég ætla að nota notandareikninginn á jogg.se til að búa mér til alhliða hlaupáætlun.

Þetta hefst í hádeginu í dag. Við byrjum rólega: tæpur Slottsskogen-hringur.

29. jan. 2008

Bannað að ráðast á minni máttar

Það er með umræðuna um þetta borgarstjórnarmál eins og öll önnur mál í íslenskri umræðu: Það er deilt um keisarans skegg. Einhvern veginn snerist umræðan frá því hvort að siðlegt og boðlegt hafi verið að mynda þennan nýja meirihluta án nokkurrar sýnilegrar ástæðu nema valdagræðgi, yfir í að rífast, allharkalega, um hvort rétt sé að gagnrýna Ólaf F. Magnússon. Maðurinn var jú veikur og við eigum bara að láta hann í friði og öll gagnrýni í hans garð er bara mannvonska.

Málið snýst ekki um veikind Ólafs heldur annarlegar hvatir við meirihlutamyndun, umboð stjórnmálamanna og skyldur við kjósendur...

...og, svo ég vitni nú í ónefndan vin minn,

„Kosningar snúast um traust...“

24. jan. 2008

Valdníðsla, mótmæli, handbolti og fleira

Ég er nú yfirleitt á þeirri skoðun að fólk eigi að fara vel með þann rétt sinn að mótmæla. Málfrelsið, skoðanafrelsið og rétturinn til að mótmæla eru kannski sjálfsögð í okkar þjóðfélagi í dag. Þau eru engu að síður mikil verðmæti sem fara verður vel með.

Þess vegna er ég líka á þeirri skoðun að vissar reglur og stofnanir beri að virða. T.d. þann lýðræðislega umræðuvettvang sem við höfum komið á fót á Alþingi og svo á fundum borgar- og bæjastjórna.

Ég hafði þó samúð með öllum mótmælendum á pöllum ráðhússins sama úr hvaða átt þeir hafi komið. Og sú óhlýðni sem þeir sýndu var réttmæt. Þegar komið er fram við kjósendur, íbúa borgarinnar, fólkið sem fól borgarfulltrúum vald sitt, af jafnmikilli óvirðingu þá er í góðu lagi að trufla þann fund sem annars ætti að ríkja ákveðin friðhelgi yfir. Það er þeim sjálfum, borgafulltrúum hins nýja meirihluta, að kenna að virðingarleysið fyrir borgarstjórn sé lítið. Í raun virðist ekkert heilagt lengur. Þess vegna gladdist ég að sjá ungt fólk koma saman og mótmæla þeirri lögleysu sem þar var höfð frammi.

Það er síðan aumingjalegt að ætla að tortryggja þennan hóp eins og Vilhjálmur og Ólafur F. gerðu tilraun til. Í hópnum var vissulega stuðningsfólk þeirra stjórnmálahreyfinga sem mynduðu gamla meirihlutann. En þar voru líka aðrir óháðir. Og að segja að mótmælin gefi ekki mynd af vilja og skoðunum borgarbúa er skelfileg vitleysa. Fyrsta skoðanakönnun sýndi að Ólafur F. hefur aðeins stuðning 5% borgarbúa. Nýi meirihlutinn nýtur aðeins fylgis fjórðungs fólksins.


Af hverju hafa önnur eins mótmæli ekki orðið í Ráðhúsinu? Af því að önnur eins valdníðsla hefur ekki orðið í Ráðhúsinu.


jæja hvað um það - þetta fékk að koma út. hef engan að tala við um þetta hér. það er, þeir sem ég hef að tala við hafa ekki beinlínis áhuga (eða skilning) á málinu.

Þeir hafa heldur ekki áhuga á EM í handbolta. Hins vegar hefur hér verið sýnt frá leikjum íslenska liðsins. Þar til reyndar í gær þegar þeir eiga loksins stórleik. En ég hlustaði þó í staðinn.

Ég fylgist sum sé með íslenska landsliðinu svona þegar færi gefst. Mér finnst það ágætt en geri þó engar væntingar til þess. Enda spáði ég þeim 10 sæti á mótinu. Það virðist ætla að ganga eftir.

Sænsku þulirnir eru hins vegar ofsalega hrifnir af liðinu og sérstaklega Ólafi Sigurðssyni, Guðjóni Val og Hreiðari. Þeir kalla meir að segja Hreiðar "Reddar" af því að hann reddar alltaf (og þeir geta ekki borið fram nafnið hans). Þeir elska líka Gíslason. Svo eru þeir alltaf að vísa til íslenska liðsins þegar þeir eru að lýsa öðrum leikjum. Merkilegt

En já sum sé

22. jan. 2008

Ný stjórn borgar

Mér fannst nú svo sem ekki ólíklegt að þessi meirihluti yrði skammlífur með Ólaf F innanborðs. En ég bjóst nú þó við að hann myndi tolla aðeins lengur.

Efsta mál á málefnasamningi nýja meirihlutans er að taka enga ákvörðun um flugvöllinn. Jú, það er kannski málefni.

Annars er nú svo sem margt gott í þessum málefnasamningi og ég get ekki séð að Ólafur hefði ekki komið mörgum þessara mála í gegn. Einkum kannski umhverfisslysið Mislæg gatnamót sem sjálfstæðismenn eru svo þyrstir í sem ekki hefði komið til greina.

20. jan. 2008

Danstónlist

Ég hef ákveðið að gerast danstónlistarmaður - með auknum tíma og fjárráðum hef ég nú bæði tíma og efni á því.

Keypti mér svona danstónlistartæki og afrakstur fyrstu fiktsessjónar má heyra hér.

Eftir tvo mánuði mun fyrsta skífa skonrottunnar líta dagsins ljós. Búið er að hanna plötuumslagið nú þegar.

18. jan. 2008

Jæja

Handbolti. Jú, maður settist náttúrulega niður til að horfa á þennan leik. Jafnvel að maður væri dálítið bjartsýnn. Hafði lesið að þessi gama Svía-Grýla væri löngu dauð. Svo ég pantaði sjónvarpið í þessa einu og hálfu klukkustund og saman horfðum við Jóka á leikinn. Nokkuð spennandi fyrri hálfleikur og nokkuð sýnt að jafnt væri á liðinum ef frá væri talinn þessi Svensson í markinu hjá Svíum. Svo við studdum hvort sitt liðið fram að hálfleik.

Einhverntímann varð mér á orði að Íslenska landsliðið væri alveg þrælgott, og kannski það besta í heimi, ef handboltaleikir væru bara 30 mínútur. Orðið "þrjátíumínútnalið" glumdi amk í hausnum á mér allan seinni hálfleiki. Mikið var þetta eitthvað grátlegt. Jóhanna var meir að segja farin að halda með Íslandi snemma í seinni hálfleik, af hreinni meðaumkun.

En hvað um það - við vinnum bara Frakkana í staðinn

Hér er sem sagt enn þá janúar og föstudagur í þokkabót. Maður skellir sér í AfterWork á eftir, hittir strákana og skálar í flötum bjór, það held ég nú.

13. jan. 2008

Ég hef mjög einbeittan áhuga á skipulags- og samgöngumálum eins og lesendur þessa bloggs kunna að vita. Ég fór einnig nærri því að gráta þegar ég horfði á Silfrið áðan og hlustaði á fyrirlesturinn hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Gráta af gleði yfir hversu vel hann setti mál sitt fram með myndum og af reiði yfir hversu ónýt skipulagsmál og -hugsun er í Reykjavík/á Íslandi.

En svo vonar maður að á endanum verði hægt að fara þá leið sem farin var á horn Túngötu og Aðalstrætis. Þar er töff.

7. jan. 2008

Sjá

Jú - það má heldur betur segja þetta stutta frí sem ég tók mér hafi sannanlega verið til góðs. Maður sneri endurnærður til baka. Ekki spillir svo fyrir að í gildi hefur tekið yfirvinnubann í vinnunni sem verður tekið grafalvarlega á þessum bæ. Þetta var orðið að jafnaði ein auka vinnuvika í mánuði sem maður vann í yfirvinnu og ekki nema von að maður hafi nærri dottið niður af þreytu þarna síðasta vinnudaginn fyrir jól. Það mættu fleiri vinnustaðir taka sér þetta til fyrirmyndar að hreinlega banna fólkinu sínu að vinna endalaust eins og brjálæðingar. Við erum náttúrulega bara sauðir skal ég segja þér, sauðir.

Það enda fannst fyrir því strax á föstudag þegar ég var bara búinn að hella mér fólköli í glas og draga fram ljóðabók og segja blús á fóninn þarna rétt uppúr fimm. Það hefur ekki gerst.... tja lengi. Svo var endalaus orka í manni um helgina. Ég t.d. bakaði brauð, gerði miklar uppfærslur á monthly.se og duddaði svona við undirbúning litlu verki - sem kannski kemur út bara fyrir næstu jól?

oseiseijá

gott að vera kominn aftur í bæ þar sem almenningssamgöngur virka. Ég stóð mig að því að vera að taka leigubíla um allar trissur í Reykjavík til að komast á milli staða.

3. jan. 2008

Sumt skil ég ekki

Ég þykist ekki vera alvitur og það er ótalmargt sem ég ekki skil. Ég skil t.d. ekki fólk kaupir sér flug frá Íslandi og miða á tónleika Íslendinga í Kaupmannahöfn. Varla er málið að það hafi verið ómögulegt að sjá Stuðmenn, Sálina eða Bó á tónleikum á Íslandi. Væri ekki nær að nota tækifærið í Köben og sjá aðra listamenn sem koma aldrei eða sjaldan til Íslands?

Skil ekki


BTW: Gleiðilegt ár - já og gleðileg jól - þau eru enn