25. apr. 2012

Chick Corea & Gary Burton

Sá þessa tvo í Hörpunni í gær:




Hvílík dýrð. Maður var eiginlega í senn fullkomlega endurnærður og algjörlega búinn á því í lok tónleika. Hvílíkar lykkjur og samspilið eins þeir væru einn maður. Dettur í topptíu bestu tónleika sem ég hef farið á. Toppfimm? Jafnvel!

23. apr. 2012

Hver er tilgangurinn með því að birta stöðufærsluna í heild sinni í lokin þegar hún er hvor eð er öll tekin upp sem óbein tilvitnun?


Vatnsmýrin

Tók mér stutta kvöldgöngu í kvöld (eðlilega). Gekk í Hljómskálagarðinum og svo brúna yfir Hringbraut og lagði leiðina á göngustíg sem liggur inn í Vatnsmýrina við Norræna húsið.

Ég hef ekki gengið þarna í mörg ár. Vissi tæpast af þessum göngustíg. En þarna liggur hann og aðgengi að honum hefur í raun batnað með tilkomu göngubrúarinnar nýju yfir Hringbraut.

Það er fallegt að ganga þarna og gæti verið enn fallegra ef ekki væri hraðbraut þarna oní þessu nánast og flugvöllur við hliðina. Og ekki væri verra ef hirt væri betur um þetta. Það var sorglegt að sjá allt ruslið sem þarna er á víð og dreif. Plastpokar og -flöskur, fernur og dósir út um all, í lækjum, mýrarpyttum og flækt í trjám og öðrum gróðri. Kannski er einhver sem sinnir þessu og á bara eftir að hefja vorverkin. Auðvitað er þetta viðkvæmt svæði og kannski ekki æskilegt að hreinsunarflokkar séu þarna stöðugt á ferð. En varla líður fuglunum vel innan um allt þetta rusl. Af sumu af því stafar þeim hreinlega hætta.

Ojæja.

Ég tók mynd.

13. apr. 2012

Rýnt í tölur og forsetaframboð

Ég ætla ekki að tjá mig um forsetaframboð vanfærrar konu. Ekki séns.


Hins vegar ætla ég að velta fyrir mér tölum sem búa að baki þessu (tengt í mynd á visir.is):



Þetta sýnir t.d. að 58,3% fylgjenda Sjálfstæðisflokksins myndu kjósa Ólaf Ragnar en aðeins 19,0% fylgjenda Samfylkingar. Hins vegar myndu 33,3% fylgjenda Sjálfstæðisflokks kjósa Þóru en heilt 81% fylgjenda Samfylkingar. 

Hvað á þetta að gefa í skyn? Jú, að stuðningur við framboðin tvö fari greinilega eftir flokkspólitískum línum. Samfylkingarfólk kýs Þóru og Sjálfstæðismenn kjósa Ólaf Ragnar.

En er þetta svona einfalt? Snúum þessu við. Skoðum hvernig stuðningsmannahópur hvors frambjóðanda er samanbyggður. 

Samkvæmt síðasta þjóðarpúlsi Gallup (sem ég fann) var stuðningur við flokkana fjóra svo í febrúar (sleppi Hreyfingunni því hún er ekki tekin með í úttekt Fréttablaðsins):

D: 33,3%
S: 18,7%
V: 12%
F: 13%

Leikum okkur aðeins með þetta. Segjum að 1000 manns svari um stuðning við forsetaframboð. Samkvæmt síðasta þjóðarpúlsi eru af þeim 333 fylgjendur Sjálfstæðisflokks, 187 stuðningsmenn Samfylkingar, 120 styðja Vinstri græna og 130 lenda hjá Framsókn. Samkvæmt Fréttablaðinu ættu af þessum 333 stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins 111 að vera á bandi Þóru. Af 187 fylgjendum Samfylkingar eru þá 151 á hennar bandi og af 120 Vinstri grænum eru 68 hennar megin. 60 af 130 stuðningsmönnum Framsóknar styðja Þóru.

Samkvæmt Fréttablaðinu eru, af þessum þúsund sem við spurðum, 460 sem styðja Ólaf og jafnmargir styðja Þóru. Því má reikna að 32% fylgjenda Þóru séu Samfylkingarfólk, 24% séu Sjálfstæðisfólk, 26% séu Vinstri græn og að 13% styðji Framsóknarflokkinn.

Af 333 stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins eru 194 sem styðja Ólaf Ragnar. Það eru 42% stuðningsmanna hans samkvæmt Fréttablaðinu. Úr hópi Samfylkingarfólks eru það 35 sem styðja hann, eða tæp átta prósent allra stuðningsmanna. Það eru 45 manns eða rétt tæp 10% af stuðningsmönnum hans sem styðja Vinstri græna og 65 manns eða 14% stuðningsmanna hans sem styðja Framsóknarflokkinn.

Setjum þetta upp svona til að gera þetta skýrara:

          V           S          D           F
Ólafur Ragnar 10% 8% 42% 15%
Þóra 26% 32% 24% 14%


Eigum við að túlka þetta á einhvern hátt? Jú, við getum t.d. sagt að framboð Ólafs virðist alveg klárlega njóta mestrar hylli á meðal sjálfstæðisfólks. Hins vegar skiptist stuðningsmannahópur Þóru mun jafnar á milli flokka. Því má segja að samstaðan um hana sé mun breiðari. Þá er athygli vert að flestir stuðningsmanna Þóru skipta sér í flokka en stórt hlutfall (um fjórðungur) stuðningsfólks Ólafs Ragnars gefur ekki upp afstöðu til flokka, hvað sem það nú kann að merkja. 

Þetta er ein leið til að líta á þessar tölur. Hún þykir mér töluvert merkilegri en sú sem Fréttablaðið kaus að líta á.

Að eiðast

Ég bjó til nýtt orð. Nýja sögn, miðmyndarsögnin að eiðast. Notað um það að kvarta yfir málfari í fjölmiðlum. Dregið af eiginnafninu Eiður, sbr. Eiður Svanberg Guðnason.

Ég á það til að eiðast. Dæmi um það eru gullkornastatusar á Facebook þar sem ég bendi á meinlegar og skondnar villur í texta á vefmiðlum.

Ég er stundum dáldið fyndinn.


9. apr. 2012

Nöldur og leiðinlegheit

Já, ekki hefur maður fært inn sendingar hingað á þennan blogg um nokkurt skeið. Gott mál.
En hvað er annar í páskum? Hvaða status hefur hann? Er hann eins og laugardagur, eða eins og sunnudagur, eða er hann alveg spes? Og hverju er verið að fagna? Ojæja.. ekki ætla ég svo sem að kvarta yfir því að fá frá á mánudegi. Takk Jesús!

Annars merkileg þessi hátíðleiki á Íslandi um páskana. Hér leggst bara allt á hliðina. Allt lokað. Ég var með gesti í heimsókn yfir páskana. Þjóðverja. Þeir komu í mat til mín á páskadag. En það var reyndar ekki þrautarlaust, því þau uppgötvuðu það á leiðinni að strætó gengur ekki um páskana. Enginn strætó. Ekkert. Engar ferðir, föstudaginn langa og páskadag. Onei. Þá má fólk ekki fara út úr húsi, nema á bíl.

What? Er virkilega bara litið svo á þetta. Nei, fólk sem á ekki bíl þarf ekki að fara á milli staða um páskana, a.m.k ekki lengra en hægt er að fara fótgangandi eða á hjóli.

Ég skal verja strætó og nálgast með bjartsýni almenn. En plís, strætó á að ganga alla daga. Auðvitað má takmarka ferðir og fækka. En það er ekki bara hægt að loka á þjónustuna. Í mínum huga mætti alveg eins bara loka Hringbraut og Miklubraut. Já, nei, það eru páskar. Engin þjónusta fyrir ykkur. Verið heima.