22. feb. 2010

Dulræna deildin er góð mynd

Men who stare at goats
(ísl. Dulræna deildin)

Ég sá hana um daginn og þótti hún skemmtileg. En hvers vegna? Hvað er það við þessa mynd sem vakti hjá mér gleði, ánægju og kæti? Tínum saman nokkra punkta:

George Clooney. Árið 1996 um vorið var ég í veislu og sagði eftirfarandi: George Clooney er frábær leikari. Þá spunnust samræður um gildi Georgs sem kvikmyndaleikara. Þær enduðu á því að ég sagði: Sannið þið bara til. Allir sem tóku þátt í þeim umræðum hafa fyrir löngu sannað til.

Jeff Bridges. Uppáhaldsleikari mömmu minnar. Fleiri orð þarf ekki um það að hafa.

Bandaríski herinn. Mynd sem fjallar um bandaríska herinn á 50% möguleika á að vera frábær. 25% á að vera góð. Aðeins 25% líkur eru á að slík mynd sé slæm/slök/slöpp. Takið eftir að lýsingarorðið leiðinlegur er ekki notað hér. Góð mynd getur verið leiðinleg (Color Purple). Vondar myndir geta verið skemmtilegar (Veggfóður).

Sagan. Saga sem flippar getur annað hvort flippað út eða flippað inn. Tja, nema að hún flippi á staðnum. Dulræna deildin flippar í allar áttir. Það er gott. Það er gjöf.

Geitur. Geitur, kindur, kýr og lamadýr eru fyndin. myndir sem sýna svoleiðis fá prik.

Yfirnáttúrulegir hæfileikar. Carrie, Star Wars, Shining, Spiderman, Sixth Sense, Transformers og Jaws. Eðalinnihaldsefni.

Þess vegna þótti mér Dulræna deildin frábær og segi við þig: Sjáðana!!

Huuu? Bloggfærsla

Ha. Nei, bíddu, bíddu. Bloggfærsla hér? Ja, hérna, hér!

Er ekki löngu kominn tími á eina góða bloggfærslu á gamla góða blogger.com. Það held ég nú. En um hvað skal rætt? Hvað liggur mér á hjarta? Hugleikur, segðu mér, segðu mér hvað ég á að blogga um... (Hugleikur hugsar, hann andvarpar). "Ég er nú sjálfur að reyna eitthvað að blogga hér," svarara Hugleikur, fær sér sopa af bjór, og geiblar munninn.

"Ég er svo vinsæll," segir hugleikur, "hlær og grípur um munn sér".

Hugleikur vandræðast en ég blogga bara.

Tölum um sögnina eignast. Hana ætti ekki að nota í boðhætti. Eignastu. Nei það er nú ekki alveg málið. En hvað með sögnina fá. Fáðu... fáðu hold. Nei það er ekki gott. Fáðu þér hins vegar. Upplifa! Upplifðu Toyota bíla. Eignastu Toyota, upplifðu frelsi og fáðu hugarró.

Lofið mér krakkar mínir, að nota þessar sagnir aldreigi í boðhætti.