26. sep. 2007

Okkur berast nú fregnir af mótmælum í Búrma og ofbeldisverkum yfirvalda í garð mótmælenda. Hér getum við skrifað áskorun til Sameinuðu þjóðanna og forseta Kína til stuðnings málstaðnum.

Og hver er málstaðurinn? Margt kemur til.
burmacampaign.org.uk gefur nokkuð glögga lýsingu.
Hér svo skýrsla Amnesty International um ástandið í landinu.

Geisp

Ekki veit ég hvað það er sem veldur þeirri tilfinningu minni að þetta séu mestmegnis hálfvitar sem tjá sig um fréttir á moggablogginu...

En það er sum sé kominn miðvikudagur aldrei þessu vant. Það rignir hérna líka og það veldur því að maður heldur sig bara mestmegnis inni. Ojá. Held ég fari samt á tidskriftsverkstan á eftir og vinni þar enda á ég erindi niður í bæ eftir vinnu, að sækja skrúfu og dótarí til að festa klósettsetu nýja sem keypt var fyrir klósettið en passaði svo ekki þannig að ég þarf að sérsníða hana. Eða eitthvað

gosh hvað ég sagði nánast ekkert í þessari færslu

25. sep. 2007

Ég endurvinn. Eða læt gera það fyrir reyndar. Ég flokka til endurvinnslu. En ég komst þó að því um daginn að ég hefði mátt standa mig mun betur. Hingað til hef ég aðeins flokkað dagblöð, gler- og plastflöskur, pappa og lífrænan úrgang. Um helgina labbaði ég út á móttökustöð sem er hér á horninu og las á skiltið stóra til að átta mig hverju ég mætti eiginlega skila þangað. Og viti menn það var umtalsvert fleira sem ég mátti flokka og skila. Svo ég tók mig samstundis til og nú áðan fór ég ferð með:

Lífrænan úrgang
Niðursuðudósir
Hart plast
Drykkjarfernur
Pappa
Pappír
Dagblöð og tímarit
Ljóst gler
Dökkt gler
Rafhlöður

Og svo dembdi ég rusli í ruslafötuna. Sorp af þessu heimili er nú um það bil einn fjórði af því sem fellur til við daglega neyslu.

Næsta mál á dagsskrá: Draga úr vatns- og rafmagnsnotkun.

24. sep. 2007

blogger er sænskur hjá mér og býður mér að setja inn nýtt innlegg í hver sinn sem ég skrái mig inn. það er hið besta mál. annars er kominn mánudagur og ekki langt síðan ég sat á mánudegi fyrir framan tölvuskjáinn og bölvaði. það er rétt vika síðan. og hér er ég kominn aftur bölvandi, ekki þó af reiði eða vegna hugarangurs, heldur af gleði. já, ég bölva af gleði. og það ættu fleiri að taka sér til fyrirmyndar.

í gær var sunnudagur og ég fór ásamt jóku, móður hennar og stjúpföður út úr bænum og inn í skóg að tína sveppi. það var hin ágætasta skemmtun og jafnvel gleðilegri en að fara í berjamó, ég hef aldrei unað mér mikið í berjamó, nema kannski bara í útivistinni sem vissulega felst í því að tína ber.

en sveppi týndum við í gríð og erg, fjögur kíló voru þau víst í heildina, sem er slatti í ljósi þess hve léttir sveppir eru í raun.

osei

21. sep. 2007

Jú - ég var kominn á gott flug með að breyta þessum miðli í almenniliga dagbók þar sem daglegum venjum ok gjörningum er lýst. En allt fór fyrir ekki. Svo hvað er annars títt. Sitt hvað. Ég álpaðist t.d. loksins á sænskunámskeið. Var farinn að skammast mín fyrir hvað ég bjagast þetta áfram á einskismannstungu með sænskum hreim og ákvaða að ekki væri annað hægt en að læra þetta almennilega. Ekki gerist það á daginn þegar ég sit einn heima og les ensku af einum skjá og skrifa íslensku á annan. Lítið fer fyrir sænskunni þar. Og ekki nennum við Jóka að spjalla saman á þessu korkaða landi.

Nema hvað að í sænskutíma er ég búinn að fara tvisvar og þar er svo sem allt eins og á að vera í tungumálanámi. Kennslubækur sem minna mann á áttaára bekk, yfirbrosandi kennari sem talar til mann eins og maður sé aumingi og við hlið manns prófessorar í kjarneðlisfræði og straumfræði og læknar og verkfræðingar sem allir virðast vera hálfvitar þegar þeir opna munninn. Og svo ég málvísindamaðurinn sem þarf að sitja undir því þegar kennarinn reynir að útskýra fyrir mannskapnum hvað perfekt og pluperfekt og preterite er. En þetta er fjör og í tímum á ég í stórskemmtilegum samræðum um ekki neitt og til þess var leikurinn gerður.

17. sep. 2007

Ég er svo sem ekki að kenna fólki að skrifa fréttir þetta haustið eins og tvö undanfarin en ég má til:

Eftirfarandi frétt er fengin af mbl.is:

Lögregla segir að legið hafi við stórslysi er bílstjóri sofnaði undir stýri við Markarfljótsbrúna í morgun. Sex voru í bílnum sem var á leið í vesturátt og voru flestir í bílnum sofandi er bílstjórinn dottaði og ók út af veginum með fyrrgreindum afleiðingum. Fólkið slapp að mestu ómeitt og var því útvegað far til síns heima.


Ég læt lesendum eftir að greina hverjar hinar fyrrgreindu afleiðingar voru.

Menningarsunnudagur

Það má sjálfsagt kalla sunnudaginn í gær menningarlegan hvað varðar upplifun okkar Jóku. Það var sofið út eins og hægt var þar til ég dröslaðist á fætur skömmu fyrir hádegi og útbjó morgunmat/brönns/hádegismat. Skar meir að segja niður ananas og banana, bara vegna þess að þeir hljóma svo skemmtilega saman, og blandaði ásamt safti og útbjó það sem krakkarnir kalla smúþíðs og eru alveg vitlausir í. Þá var dúndrað sér niður í bæ og stefnan tekin á bókasafn og listasafn. Að þessu sinni, vegna veðurs voru hjólhestarnir skildir eftir heima og sporvagninn tekinn. Það var reyndist náttúrulega heljarinnar ferðalag því við nenntum ekki að bíða eftir þristinum og tókum ellefuna þess í stað. Ellefan gengur hins vegar ekki nálægt bókasafninu, né listasafninu, sem bæði eru við Götaplatsen. Ellefan gengur hins vegar niður á Järntorget og þar stukkum við út og ákváðum að bíða eftir þristinum. En við nenntum ekki að bíða í tíu mínútur og stukkum upp í ásinn sem dró okkur að Linnéplatsen. Þar stukkum við út og biðum eftir sexunni sem kom stuttu síðar og dró okkur alla leið að Korsvägen en þaðan löbbuðum við svo að Götaplatsen. Líklega hefði tekið mun styttri tíma að bíða bara eftir þristinum og láta hann bera okkur að Valand og ganga þaðan að Götaplatsen. En þetta reyndist hinn ágætasti bíltúr. Sunnudagsbíltúr.
Nú þá var það bókasafnið þar sem við eyddum talsverðum tíma og ég gekk þaðan út alsæll með Áhyggjudúkkur Steinars Braga undir höndinni ásamt hljóðbók á sænsku, Populärmusik från Vittula eftir Mikael Niemi. Jóka kom tómhent út enda þjáist hún af valkvíða.
Listasafnið beið okkar fullt af eftirvæntingu. Við horfðum á ljósmyndir Gregory Crewdson. Stórfenglegar. Og svo eitthvað ögrandi rugl sem ég nenni ekki að tala um.
Eftir sporvagnsferðina miklu bókaleitina og myndaáhorfið var hungrið farið að segja til sín svo við gengum (veðrið skánaði á meðan við nutum listanna) að Hagabio við Linnégatan til að snæða og ég að lesa í Áhyggjudúkkum. Ráðherramáltíð er mér skapi næst að segja. Hugmyndin var að kíkja á kvikmynd en ekkert heillaði svo við röltum að lokinni máltíð og lestri til Lottu sem býr í nágrenninu og ræddum málin við hana um stund. Þá var gengið heim og hoppað upp í ellefuna sem brunaði með okkur lokasprettin heim, rétt í tíma fyrir Sopranos í sjónvarpinu.

Jú, þetta var sunnudagur

15. sep. 2007

nú hefur það gerst, sem stundum gerist. lesendur þessa bloggs eru farnir að kvarta undan tíðindaleysi. það þykir mér í senn stórfenglegt og skrítið. en ætli ég láti ekki undan óskum vina minna, því mestmegnis eru það vinir mínir sem lesa þetta blogg, og skelli hér inn færslu

það er enda laugardagur og ég er, aldrei þessu vant, ekki að vinna. stórfenglegt. hvað hefi ég þá gert til að nota daginn. jú ég vaknaði og kveikti strax á sjónvarpi á meðan ég var að reyna að vekja restina af kroppnum og horfði á þennan þátt sem er yfirleitt á milli níu og tíu hér í sjónvarpinu, breskur þáttur þar svem tveimur liðum er dempt á það sem virðist vera bílakirkjugarð og eiga að smíða einhvert snilldar ökutæki á tíu klukkustundum. alveg ágætasta skemmtun. á meðan ég var að horfa á þetta vaknaði kroppurinn og ég sté á fætur og hitaði mér kaffi. kveikti á tölvunni, svona bara til að hafa hana í gangi og nýtti hana svo sem til að lesa mbl.is, tölvupósta og sitthvað fleira á meðan ég sötraði kaffi og drakk í mig kjark til að takast á við eina verkefnið sem var á tasklista dagsins: setja upp hillur. svo dólaði ég mér við að bora fyrir skrúfum og mæla og hamra og svei mér þá ef ekki eru bara komnar upp hillur hér í stofunni. verkið tók nákvæmlega þann tíma sem tekur exile on main st að renna í gengum spilarann. undursamlegt alveg hreint. svo til að halda upp á hilluruppsetninguna hellti ég mer folköl glas og smurði mér tvær brauðsneiðar og lagði á þær reykta skinku ásamt ferskri basilliku og paprikusneiðum svo og gúrkusneiðum og át og drakk. nú er ég að spá að skella mér út í rokið og hjóla smá og jafnvel setjast niður á kaffihús og lesa í bókinni State of War þar sem James Risen einhver skrifar um leyndarmál Bush-stjórnarinnar og CIA varðandi Írakstríðið og annan óskapnað. Forvitnilegt satt að segja.

Sumir spyrja kannski, hvar var Jóka á meðan öllu þessu stóð? Jú, hún reif sig upp eldsnemma til að ritstýra monthly magazine

jájá

6. sep. 2007

IMG_0756




Útsýnið úr Villa Angelospiti var nokkuð hresst bara. Við þessa dýrð vaknaði maður á hverjum morgni. Ef það er nú ekki til að endurræsa í manni kerfið þá veit ég ekki hvað. Næsta stopp: Morocco!


Kannski

3. sep. 2007

vakinn með rósum og morgunmat ... ekki slæmt

Við erum sum sé snúin aftur frá Krít og unaðslífinu þar. Húrra fyrir því.

Dagskráin í dag: Njóta dagsins!