28. feb. 2007

öfuguggar

svíar eru öfuguggar. hér er allt öfugt og viðsnúið.

á sænsku er fæðingardagurinn minn: 760903 - þetta þurfti ég að skrifa í þrígang í dag og í öll skiptin ruglaði ég tölunum 760309 var einhvernvegin rökréttara. ég er nefnilega ekki fæddur níunda mars - eins og til dæmis tintin.

í venjulegum löndum snýr maður segulröndinni niður og til hægri þegar maður notar hraðbanka. Hér er það upp og til vinstri. Ég þarf alltaf að snúa kortinu mínu í nokkra hringi til að finna réttu leiðina.

í dag er ég fúll út í allt sem er sænskt. nema jóhönnu - þó vissulega taki hún reiði mína persónulega.

26. feb. 2007

Sumarheimsókn


Ég mæti í sumarheimsókn til Íslands þann 16. maí. Ég kem til að fagna þjóðhátíðardegi Norðmanna, afmæli móður minnar og þjóðhátíðardegi Íslendinga. Þremur dögum síðar fer ég heim.

Annars fær steinnsteinn óskir til hamingju vegna þess að hann á afmæli í dag og er þrítugur.

Sjáið hvað hann steinn var fallegur þegar hann á sínum yngri árum.

Steinn ei líkist steinunni pé,
stjúpföðursystur sinni.
Ég er eins og jólatré
ég er í hreppsnefndinni.

23. feb. 2007

Farangur

Ég fór á krá í gær. Pustervik heitir staðurinn. Reyndar varla krá. Meira svona skemmtistaður. Sá/sú sem hannaði innanrými staðarins hefur greinilega haft til hliðsjónar nestisstofuna í Hagaskóla eins og hún var þarna í kringum '90. Í dag er ég í sömu peysu og ég klæddist á barnum ígær. Sniðugt þetta reykingabann á börum.

Farangur. Er það eitthvað sem angrar mann á ferðalögum? Svona eins og munnangur er eitthvað sem angrar munninn manns. Er þetta orðið angur sem merkir lítið dust, sáldur eða álíka.

Iss - þetta er bara viðskeytið -angur.

22. feb. 2007

Ég verð auðmaður innan skamms


Þetta er stórkostlegt! Auður minn vegna GoogleAds er nú orðinn 2,39 dollarar. Það gera um 160 krónur íslenskar, sem eru mér reyndar lítils virði þessa dagana. Tæpar 17 krónur sænskar eru þetta. Ég gæti t.d. keypt fyrir það Samuel Adams Double Bock í Systembolaget...

Ég þakka gestum músíksbloggsins pent fyrir. Hvur veit... kanski ég eigi nóg fyrir sex svona kvikindum um helgina?

Snjór

Og þá fór að snjóa... Ég tók mér göngutúr sérstaklega til að njóta snjósins. Hann er nokkur. Snjórinn. Á Íslandi er sagt frá honum í fréttum. Þar er talað um ófærð og viðvaranir um að hreyfa ekki bílana sína og að landið sé allt á heljarþröm. Hafið ekki áhyggjur. Það liggur aðeins ökladjúpur snjór yfir öllu. Ekkert sem Jeppaþjóðin í norðri myndi láta slá sig út af laginu.

Annars er mestmegnis unnið þessa dagana. Varla farið út úr húsi. Unnið til sjö og eldaður matur og að honum loknum er maður of þreyttur til að gera nokkurn andskotann.

Annars er ég orðinn svo peníngagráðugur að ég ætla að gera mér músíkbloggin að féþúfu. Ykkur er velkomið að kíkja þangað inn og smella á auglýsingarnar hægra megin. Kostar ykkur neitt en getur gert mig að auðmanni. Fram til þessa hafa tekjur mínar þar verið o,43$.

Að sjálfsögðu var það Beggars Banquet sem ég ræddi um. Það er elsta stónsplatan mín. Það er skömm. Skömm á mínu heimili.

Á morgun ætla ég að gera eitthvað í því... Nei! Á laugardaginn.

21. feb. 2007

Kennitala

Það kom að því að mig langaði/ég þurfti að nota sænsku kennitöluna sem mig grunaði að búið væri að úthluta mér. Ég bjóst allt eins við því að fá send gögn hingað heim þar sem ég væri boðinn velkominn í sænska velferðarkerfið og ég fengi upplýsingar um hver kennitalan mín væri ásamt kannski einhverjum upplýsingum. Nú er liðinn einn og hálfur mánuður og kominn tími til að grennslast fyrir um þetta. Enda þörf á kennitölunni (vegna tryggingamála þar sem nú eru fjórar tölvur á heimilinu, tölvuskjár og svo náttúrulega búslóðin öll).

Svo ég hringdi. Jújú það er löngu búið að úthluta þér kennitölu. Jájá, var aldrei meiningin að senda mér um það gögn eða láta mig vita. Tja ég get svo sem sent þér þetta núna. Tja viltu ekki bara segja mér hver kennitalan er. Jú ég geri það og svo sendi ég þér gögn um það heim til þín.

Kannski er búið að úthluta okkur interneti fyrir löngu - hvur veit - kannski heitir internetið okkar eriksnet...

19. feb. 2007

Og þannig gerðist það að mánudagur steig enn einu sinni upp. Einu sinni enn. Unnið eins og vanalega á mánudögum. Nema nú með tveimur skjáum. Það er gott. Það er betra. Er það best? Í græjunum ómar Metric. Kannski ég tali um Metric á ensku á músíkbloggnum. Músíkbloggnum er ætlað að koma til móts við bókanjarðablogginu hans Sigga. Endalausar vangaveltur um eitthvað sem svo enginn les. Ojæja. Ég les nú svo sem bókabloggið hans Sigga. Og það er meirasta á íslensku. Músíkbloggurinn minn er ekki á íslensku.

Ég nota hvorugkyn þegar ég tala um bloggið hans Sigga, í samræmi við málvitund hans. En bloggur þegar ég tala um minn blogg. Er það ekki allt í lagi?

Einu sinni ákvað ég að skrifa ávallt bandaríkin með litlum staf. Ég hefi staðið ágætlega við það....

nóg um það aftur að vinnu

18. feb. 2007

Nýr skjár

Ég tók mér far með sporvagni númer 6 niður á Backaplan í gær. Gekk inn í Siba og keypti mér tölvuskjá. 19" philips flatskjá. Svo nú hefi ég tvo skjái fyrir framan mig. Internetið, Acrobat reader og MultiTerm á nýja skjánum og Word og Trados á tölvuskjá fartölvunnar, ásamt stjórnborðinu sjálfu.

Nú er bara að finna sér lyklaborð (sem ég gleymdi í gær) og þá er vinnustöðin hér fullkomnuð. Tja... þyrfti að vísu alminniligan stól... en eitt í einu kallinn minn, eitt í einu.

Jú, svo má internetið fara að detta inn svo ég geti hætt að níðast á honum Erik blessuðum.

Talandi um Erik - þá heyrði ég að Eric Hawk myndi sjá um okkar mál í Helsinki í maí! Húrra fyrir því... Hann mun þó ábyggilega ekkert eiga í vini mína í The Ark... sem ég vona svo sannarlega að komist áfram úr Melodifestival hér í Sverige!

Áfram Ark!!!!


Sjá á músíkbloggnum.

16. feb. 2007

Jú skyndilega var bara kominn föstudagur án þess að ég gæti nokkuð aðhafst. Þessi vika hefur flogið, máski mestmegnis vegna þess að ég hefi verið við vinnu. En það er svo sem gaman í vinnunni enda vinn ég heima og sit við hliðina á geisladiskasafninu og þannig hef ég allt í einu tíma til að hlusta á diska sem ég hefi ekki heyrt lengi. Búinn að skruna í gegnum Stones safnið sem er nú merkilega stórt en samt svo smátt ef miðað er við allar útgefnar Stones plötur. Ég tel 12 plötur, og þá eru taldar með safnplötur og þess háttar. Það er líka kannski til marks um eitthvað að elsta platan í safninu er frá 1968. Hvaða plata skyldi það nú vera?

annars er komið nýr músíkbloggur á netið.

15. feb. 2007

gátan var getin!

Getin var hún góð
gátan hér var að framan*.
Að launum hlýtur ljóð
lamdi ég því saman.
prísinn hlýtur próð**
Parísardaman.


*framan: merkir hér neðan
**próð: líklega prúð

þýðir ekkert

Hér var ég búinn að koma upp sérlega fínu hlekkjakerfi þar farið er eftir meginreglunni "þú hlekkjar mig og ég hlekkja þig". Þá raðast hlekkirnir í hlutfalli við heimsóknir sem koma úr frá hverjum hlekk. Nú er þetta fína hlekkjakerfi horfið og eftir standa þeir sem ekki hlekkja mig.

Sögnin að hlekkja er hér bein þýðing á hinn ensku 'link'. Þetta er líklega dæmi um afleita þýðingu og yrði hafnað af kollegum mínum. En fokkitt! Ég fæ ekki borgað fyrir þýðingar á þessum blogg svo mér er nokk sama.

Í græjunum syngur Bjarni hvíti lag sem mig minnir að sé eftir Villa Jóelsson.

Verðlaun hlýtur sá eða sú sem veit um hvaða tónlistarmenn er rætt og hvert lagið er.
Verlaunin eru staka sem birtast mun á þessum blogg.

14. feb. 2007

Bara að prófa svo sem

Annars má sjá þess mynd í samhengi hér

Er miðvikudagur?

Jú svo er víst, og ekki eins og það skipti nokkru andskotans máli. Hér sit ég og svína á Erik einhverjum sem láðst hefur að loka fyrir þráðlausa netið sitt. Ætli ég stilli mig samt ekki um að sækja bíómyndir og klám á netið í þetta sinn. Í þetta sinn.

Í gær var mestmegnis setið og unnið. Ég held þessi heimavinna verði mestmegnis til þess. Að ég sitji bara og vinni. Hver verða skilin vinnu og heimilis þegar maður vinnur heima? Það verða óljós ef einhver! En samt náði ég að slíta mig frá vinnunni heima og vinda mér í húsverkin. Eldamennskuna. Þar sem ég er mestmegnis orðinn afhuga kjöti... afhuga er máski ekki rétta orðið. Þar sem ég snæði sjaldan kjöt og mestmegnis grænmeti, baunir, grjón og pasta, hefi ég reynt að breikka matarúrvalið, baunabuff hefi ég nú gert að sérgrein minni. Í gær eldaði ég dýrindis baunabuffbollur einhverjar, laumaði inní þær ýmsu góðgæti og bar fram með hrísgrjónum, gúrku og tómötum og hvítlauskjógúrtsósu.

Jóhanna opnaði rauðvínsflösku og drakk hana.


Það er eins og einhver sé
aldrei hérna inni.
Ég er eins og jólatré
ég er í hreppsnefndinni.

13. feb. 2007

Ég virðist kominn í ritdeilur við veður-Sigurð í kommentakerfinu hans. Þær snúast mest megnis um það að ég er að reyna að sannfæra hann um forsendur við útreikninga á raunverulegri kjörsókn í stúdentaráðskosningum. Var ég svona heilaþveginn er hef ég nokkuð til míns máls?

Hins vegar má ekki skilja það svo að ég sé svo mikil röskvusál að ég megi ekkert slæmt heyra um þann félagsskap. Ég skal vera fyrstur manna til að segja að skítkastið í Stúdentaráði er yfirgengilegt og ég hefði aldrei trúað því hversu langt fólk er tilbúið að ganga í undirferli og svikráðum, blekkingum og lygum. Þarna eru í raun á ferð, ekki bara uppeldisstöðvar, heldur hreinlega svo kallað boot-camp fyrir upprennandi stjórnmálafólk. Skítkastið sem ég upplifði kom þó mest úr annarri áttinni, frá þeirri fylkingu sem ég starfaði ekki í. Þar horfði ég í augun á fólki sem ég vissi fyrir víst að var að ljúga og málflutningur þess einkenndist af blekkingum og maður fann svikráðin sveima yfir höfðunum á því. En kannski fólk hinum megin við borðið hafi sambærilega sögu að segja. Hvað veit ég?

Það var kannski þess vegna sem ég bjóst við öllu illu þegar loks kæmi að því að Vaka tæki við.

En eftir að hafa farið rækilega yfir sögu Stúdentaráðs og skipulagið þar sýnist mér að engu síður, þrátt fyrir sandkassaleikinn títtnefnda, að ráðið hafi aldrei verið öflugra en einmitt þegar tveggja fylkinga kerfi hafi verið í gangi.

En nóg um það - ég spurði Jóhönnu hvaða ártal hún vildi hlusta á og hún svaraði 1950, svo nú hljómar Duke Ellington í stereó! Mér datt í hug, þegar ég loks fjárfesti í geymsjúniti fyrir geisladiskana, að raða þeim krónólígískt. Það gæti verið skemmtilegt... erfitt en gaman!

12. feb. 2007

Ekkert svar

ekkert hljóð

frá netfólkinu ... yppir bara öxlum og hugsar um eitthvað sænskt ... vænti ég

við spurðum afhverju við fengjum ekki net. ekkert net í húsinu var svarið. en nágranninn okkar NÝI er með net. ekkert svar. ekkert hljóð.......bara blóð

Ég er að hlusta á Lou Reed

fór í gær og keypti eina plötu með M.Ward eina plötu með Jack Johnson og eina plötu með Peps Persson.

Samt hlusta ég bara á Lou Reed

11. feb. 2007

þá er maður kominn heim. já, ég á heima í gautaborg.

til okkar flutti nágranni. hann varð nú svo sem ekki nágranni fyrr en hann flutti hingað. en þessi nágranni er tengdur internetinu og beinir því þráðlaust hingað inn í íbúðina til okkar. ég nýti mér það nú og vinn hér heima. á meðan hlusta ég á AC/DC og Suptertramp. Ég fíla bæði böndin í tætlur.
Þegar ég var unglingur gekk ég um tíma í svartri pakkúlpu. muniði, sem fengust í vinnufatabúðinni og voru yfirleitt svartar með neó-órans innklæði, eða hvað það heitir nú aftur þetta sem er innaní jökkum, fóður? Þær voru svo sem líka til grænar og bláar, en í Hagaskóla gengu menn í svörtum svona jökkum. Þá var í tízku að næla á ermi nælur alls kyns, borða og bætur. Á mínum jakka var bót sem merkt var AC/DC og sýndi ógurlegt bjarndýr baðað í ljósum logum. Einn dag var ég spurður hvort ég fílaði "eisídísi" Ég hafði ekki hugmynd um hvað maðurinn var að tala um.

Þá var ég barn og þekki bara bítlana og rolling stóns. nú veit ég betur og veit svo sannarlega hverjir AC/DC eru.

Á morgun munum við athuga hvers vegna í ósköpunum nýji nágranninn er með net en við ekki.

9. feb. 2007

stúdentaráð og svona

Röskva sigraði í gær með einhverjum 20 atkvæðum. Ég hélt mér væri orðið nokk sama um stúdentapólitík en engu síður gladdist gamla Röskvuhjartað við tíðindin.

Það var svo sem auðvitað að mér væri ekki sama um stúdentapólitík, enda stúdentaráð bráðnauðsynlegur hagsmunaaðili sem hefur áorkað ótrúlega miklu í gegnum tíðina. Þannig eru t.d. réttindi stúdenta við HÍ mun meiri og betri en í háskólum víða erlendis.

Ég er þess reyndar fullviss að einmitt vegna slagsmálanna á milli Vöku og Röskvu hafi jafnvel náðst meiri árangur en ella. Fylkingarnar hafa lagt svo mikið kapp á að halda áhrifum í ráðinu og helsta leiðin til þess er að sjálfsögðu að láta verkin tala.

En í þennan ríg fer ótrúleg starfsorka og tími og væntanlega má gefa sér að fundir stúdentaráðs yrðu mun skilvirkari ef menn einbeittu sér þar frekar að hagsmunagæslu fyrir stúdenta en að vernda hag fylkingarinnar sinnar. Að sitja stúdentaráðsfundi er án ef eitt að því leiðinlegasta sem ég hef gert um ævina.

Ég var þess vegna spenntur að sjá hvaða áhrif það hefði þegar fylkingarnar tvær, Vaka og Röskva, settust saman í meirihluta. Hvor það myndi efla eða veikla stúdentaráð. Ég er ekki frá því að starfið hafi í raun orðið lakara. Í það minnsta hefur minna borið á stúdentaráði að undanförnu. Og það getur varla stafað af því að minni þörf sé á ráðinu eða að verkefnin séu eitthvað færri. Nemendum Háskólans fjölgar stöðugt án þess að skólinn stækki nokkuð að ráði og vandi hans eykst sífellt í samræmi við það. Neysla eykst og verðlag hækkar stöðugt í þjóðfélaginu án þess að námslán nái að fylgja því eftir á nokkurn hátt og leigumarkaðurinn í Reykjavík er hreinasta helvíti.

Það verður því spennandi að sjá hvort Röskva nái að blása aftur lífi í alvöru stúdentabaráttu næsta árið eða hvort dagar fylkinganna séu máski bara taldir. Breytingum á skipulagi ráðsins sem Háskólalistinn boðar hefur a.m.k. verið hafnað. Gömlu fylkingarnar tvær standa svo að segja hnífjafnar en nú aftur ein í minnihluta og önnur í meirihluta.

Skítkastið getur hafist á ný. Við erum komin aftur í sandkassann - hvur veit - kannski er það bara málið?

7. feb. 2007

T.V.U.

The Velvet underground er ein af þessum hljómsveitum sem ég hefi ekki hlustað nægilega á. Einhvern veginn gleymt þeim dálítið. Kannski er það bara vegna þess að ég hef aldrei náð að heillast sérstaklega af Lou Reed.

Sumum finnst það skrítið. Að ég fíli Velvet Underground en ekki Lou Reed.
Tja t.d. fíla ég Rolling Stones alveg mega. En ekki Mick Jagger.
Eða Bítlana en ekki Paul McCartney.

Hins vegar Justin Timberlake en ekki 'N Sync

Eða... tja!

6. feb. 2007

Mökkar af reyk

Ég mundi reykjarmökkinn þegar ég steig inn á Boston. Ég var satt best að segja búinn að gleyma hvað hann var mikill. Eru ekki til reglur um loftræstingar á vínveitingastöðum? Líklega ekki. Þær eru þá annað hvort allt of vægar eða þverbrotnar á hverju kvöldi.

En Boston er huggulegur pöbb. Til hamingju með það.

Hér á ég ekki heima. Það finn ég nú. Enda er ég skráður Hjörtur Einarsson - Svíþjóð í þjóðskrá.

5. feb. 2007

Þjófar á ferð

Töskunni minni var stolið á Kastrup í gær kvöldi. Einhvern tímann á milli þess sem ég ræddi við bretann David og þegar ég keypti International Herald Tribune. Ég hef David ekki grunaðann. Frekar einhvern af þessum fulli Íslendingum sem voru að sniglast í kringum mig.

2. feb. 2007

Endurunnin ást

Vince Vaughn vill endurvinna ástir Aniston.

Skemmtilegt!


Ég sat í sporvagninum áðan og horfði á fólk. Nú tekur sporvagnsferðin svo stuttan tíma að vart tekur því að lesa í bók á meðan. Í sporvagninum hlustaði hver á sína tónlist. Allar nema ég voru með heyrnartól í eyrunum og hlustuðu á sína eigin „persónugerðu“ tónlist.

var það ekki síminn sem auglýsti persónugerðu símana, eða hringitón...

persónugerður hringitónn

fokkitt

ég er farinn til köben

skål!!

1. feb. 2007

Bless líf

Í gær sá ég kvikmynd á kvikmyndahátíðinni miklu hér í bæ. Hún heiti Bless líf (e. Goodbye, life). Hún er írönsk og fjallar um konu stríðinu á milli Íran og Írak sem stóð meginhluta níundaáratugarins. Myndin var skemmtileg og sorgleg í senn. Sem sagt stórgóð.

Hér er ekki beinlínis farið að vora - en dag hvern verður örlítið bjartara og það kætir sálina. Nú er orðið bjart úti fyrir klukkan níu en fyrir viku var enn dimmt á þeim tíma.

Ég er á nýja safninu og þýði - á morgun fer ég til Köben...


Eins og verk í vinstra hné
voðalegan finni.
Ég er eins og jólatré
ég er í hreppsnefndinni.