30. apr. 2007

30. apríl

Þegar ég bjó í Amsterdam var jafnan húllumhæ mikið þann 30. apríl. Það er drottningardagurinn í Hollandi þegar haldið er upp á afmæli drottningarinnar (reyndar er afmælisdagur drottningarmóðurinnar). Hér í Svíþjóð er haldið upp á Valborgarmessu (sem reyndar er 1. maí). Ég skemmti mér konunglega þessa tvo drottningardaga sem ég upplifði í Amsterdam. Ég efast um að ég muni skemmta mér jafnvel í kvöld. Skandinavískt fyllerí er einhvernveginn mun subbulegra en hollensk fyllerí. Sérstaklega unglingafylleríin.

Baráttan gegn kapitalistasvínunum

Samkvæmt könnun Neytendasamtakanna hafa eftirfarandi söluturnar valið að stinga nýafstaðinni skattalækkun beint í eigin vasa að öllu eða miklu leyti.

Við skulum sniðganga þau fyrirtæki.

Þetta eru arðræningjarnir:

Aðalhornið, Barónsstíg 27 Reykjavík
Allt í einu, Jafnaseli 6, Reykjavík
Anna frænka, Síðumúla 17, Reykjavík
Bettís, Borgarholtsbraut 19, Kópavogi
Biðskýlið, Kópavogsbraut 115, Kópavogi
Bitahöllin, Stórhöfða 15, Reykjavík
Brautarstöðin, Ármúla 42, Reykjavík
Dalsnesti, Dalshrauni 13,
Draumurinn, Rauðarárstíg 41, Reykjavík
Foldaskálinn, Hverafold 1-3, Reykjavík
Gotti, Garðastræti 2, Reykjavík
Grandakaffi, Grandagarði, Reykjavík
Grensásvídeó, Grensásvegi 24, Reykjavík
Grill-Nesti, Háholti, Mosfellsbæ
Grillturninn, Sogavegi, Reykjavík
Heimabíó, Njálsgötu 49, Reykjavík
Holtanesti, Melabraut 11, Hafnarfirði
Hvammsval, Hlíðarvegi 29, Kópavogi
Ísgrill, Bústaðarvegi 130, Reykjavík
Íshöllin, Melhaga 2, Reykjavík
Ísinn, Smáralind, Kópavogi
James Bond, Skipholti 9, Reykjavík
King Kong, Eddufelli, Reykjavík
Kópavogsnesti, Nýbýlavegi 10, Kópavogi
Leifasjoppa, Iðufelli 14, Reykjavík
Nesbitinn, Eiðistorgi 13, Seltjarnarnesi
Pólís-inn, Skipholti 50c, Reykjavík
Skalli, Hraunbæ 102, Reykjavík
Smábitinn, Síðumúla 29, Reykjavík
Svarti svanurinn, Rauðarárstíg 6, Reykjavík
Garðatorgi 1, Garðabæ
Söluturninn, Bæjarhrauni 20, Hafnarfirði
Söluturninn, Hagamel 67, Reykjavík
Söluturninn, Hraunbergi 4, Reykjavík
Söluturninn, Toppurinn, Síðumúla 8, Reykjavík
Texas, Veltusundi 3, Reykjavík
Trisdan (Skutlan), Lækjartorgi, Reykjavík
Vogaturninn, Gnoðarvogi 46, Reykjavík


Þá getum við beint viðskiptum okkar til þessara aðila í staðinn:

Bónusvídeó
Lækjargötu Hafnarfirði
Nesti (N1)
Select (Shell)
STÁ Video Kársnesbraut Kópavogi
Uppgrip (Olís)
Víkivaki Laugavegi 5 Rvík.

Á hjólunum er gleði og gaman

Ég keypti mér loksins hjól um daginn. Eftir að hafa hugsað um það frá því í janúar og skoðað hjól í boði á Blocket.se og meir að segja hringt eftir nokkrum án þess að nokkuð gerðist í þeim málum þá uppgötvaði ég litla búllu hér úti á horni sem kaupir, gerir við og meir að segja lagar notuð hjól. Ég keypti mér fagurgrænt DBS Kilimanjaro dömuhjól á 900 spenn. Svo nú geysist ég um götur Gautaborgar eins og vindurinn og læt sólina kyssa mig á ennið.

Annars styttist í Kolbeinsferðina svakalegu. Búið er að draga upp staðinn á korti með ómetanlegri hjálp Google-Maps. Með hjálp gervitungla mynda má gera sér grein fyrir afstöðu húsa og gatna sem gerir leitina að húsinu eins og leit að nál í filmuboxi.

28. apr. 2007

Í sólinni


Sverige 038
Originally uploaded by hjortur.
Hér er ég bara úti í sólinni að skoða internetið og svona. Tækni og gott veður! Það er fín blanda.


Húrra!

26. apr. 2007

Úr þjóðkirkjunni

Ég hef ætlað að gera það lengi en einhvernveginn alltaf gleymt því. En nú loksins prentaði ég út eyðublaðið, merkti við reitinn „Skráning utan trúfélaga“ og ætla að senda það á eftir.

Það er undarlegt að stofnun sem telur sér trú um að hún boði náungakærleik og mannvirðingu sýni stórum hópi þjóðarinnar jafnmikla mannfyrirlitningu.

25. apr. 2007

Daglegt mál

Að hlaupa upp til handa og fóta

Samkvæmt íslenzku orðtakasafni Halldórs Halldórssonar ku eiginleg merking þessa orðtaks vera að bregðast á skjótan hátt við einhverjum til greiða. Það er enda sú notkun sem mér er töm. Þannig mætti segja: „Ég dæsti nú bara svona og hvíslaði með sjálfum mér hvað ég væri kaffiþyrstur og þá var nú hlaupið upp til handa og fóta og lagað kaffi, sett í pönnukökur og postulínið tekið fram!“

Ef orðtakinu er gúgglað má sjá að margir nota það í merkingunni, að gera úlfalda úr mýflugu, að fjargviðrast yfir e-u, að býsnast yfir e-u, að gera verður um e-ð út af e-u, að gera rekistefnu vegna e-s, gera mikið úr e-u, æsa sig (af óþarfa) yfir e-u o.s.frv.

24. apr. 2007

Tíkarspenar

Hvaðan í ósköpunum kemur orðið tíkarspenar? Það er í merkingunni hár sem tekið er saman með teygju í hliðum. Einhver bóndadurgurinn hefur sennilega horft á dóttur sína með hárið tekið saman á þennan hátt og orðið undrandi: „Hver rækallinn er að sjá þig stelpa, eins og með tíkarspena í hárinu!“

23. apr. 2007

Ranghvolfun

Hvaðan kemur sú að-því-er-virðist-vera alþjóðlega líkamstjáning að ranghvolfa í sér augunum? Er um að ræða náttúruleg viðbrögð við því að vera alveg sama, láta sér fátt um finnast, finnast eitthvað alveg fáránlegt eða drepleiðinlegt?

Er samt ekki rangt að tala um að "ranghvolfa"? Það er ekki eins og að augun snúist við í augntóftunum. Þeim er meira svona ýtt upp og færð til hliðar.

Ojæja, hvers vegna hrista menn þá hausinn, kinka kolli eða yppa öxlum...

Það er samt hægt að ranghvolfa í sér augunum þó að enginn sé að horfa. Yppir fólk öxlum í einrúmi?

En ypp, hrist og kink er svar, ranghvolf er bara viðbragð, eins og hlátur eða bros. Fólk hlær samt með sjálfu sér. Kannski sumir hlæi með sjálfum sér, hristi hausinn, ranghvolfi sér augunum og hvísli út í tómið "ég er nú meiri kjáninni".

19. apr. 2007

X X X

Þegar gegnið er um Amsterdamborg má víða sjá tákn borgarinnar krossana þrjá X X X. Margir kunna að telja að um sé að ræða tengingu við kynlífsiðnaðinn sem blómstrar í borginni, en svo er nú ekki.

Krossarnir þrír eru tákn verndardýrlings borgarinnar, heilags Andrews, og standa fyrir þær þrjár ógnir sem steðjuðu að borginni á árum áður.

Hvers vegna er ég að rifja þetta upp. Jú, þetta hlaut að koma upp í hugann eftir síðasta vetrardag í Reykjavík í gær. Hætturnar þrjár eru nefnilega eldur, flóð og sú þriðja plágur.

Við skulum vona að yfir Reykvíkinga leggist ekki plága í kjölfar brunans og svo flóðsins í gær.

Það væri þó kannski skynsamlegt ef borgarbúar tækju sig saman í bæn til heilags Andrew til verndar gegn þriðju ógninni.

En þeir eiga nú svo sem Sjúkrahús Reykjavíkur....

Gleðilegt sumar annars
og afmælisbörn dagsins fá líka hamingjuóskir héðan frá Gautaborg.

18. apr. 2007

Íbúð í Reykjavík

Hmm - annars er spursmál hvort einhvern vanti ekki húsgæslumann í miðbæ reykjavíkur á tímabilinu 16 maí til 20 júní. Ég gæti alveg tekið slíkt að mér. Svo sannarlega.

Góður draumur maður

Þvílíkur er spenningurinn fyrir Veiðiferð Kolbeins að mig er farið að dreyma veiðiferðir.

Já, við Kolbeinar höfum bókað okkur stugo í smálöndunum og verður haldið í hann eftir um, tja 16 daga! Hingað til hef ég aðeins fengist við silungs- og laxveiði. En í vatninu sem við ætlum að veiða í er enginn lax eða silungur heldur gedda og abborri og áll og eitthvað sem kann ekki að nefna. Mér skilst að besta leiðin við að veiða aborra sé að dýfa öngli í vatn. Besta leiðin við að veiða geddu ku svo vera sú að festa aborra á öngul og dýfa í vatn.

Sjáum til. Um helgina ætla ég að labba út á bensínstöð og fjárfesta í hræódýrri veiðistöng.

16. apr. 2007

Mánudagsblogg

Á forsíðu Göteborgs-Posten í gær stóð: "Dagen då sommarvärmen kom til Göteborg". Rætt var um síðasta laugardag.

Sumahiti svo sannarlega og fyrsta grillveisla sumarsins haldin hér úti í garði. Sennilega sú fyrsta af mörgum. Merkilegt hversu mikil dásemd gott veður er.

Annars náði ég nú ekki að njóta hitans of daginn enda að ná mér eftir veikindi sem ég stríddi við í lok síðustu viku. Svo ég hélt mig mestmegnis innandyra á meðan restin af samborgurum mínum sleikti sólina.

Annars er það helst að frétta að ég borðaði kjöt í gær í fyrsta sinn í um mánuð.

13. apr. 2007

Ég skellti mér í páskafrí og á meðan varð bloggergræjan sænsk.

Jamm - við Jóhanna örkuðum í páskafrí til Amsterdam. Þar hafði ég ekki verið síðan 13:30 þann 1. september 2005. Það var yndislegt að koma aftur til borgarinnar minnar litlu, ofan á fiets í sólinni framhjá grachten og skökkum kubbahúsum með stansi á bruin cafés og snæða þar bitterballen og sötra biertjes. Já, Amsterdam er í senn prettig, gezellig, geweldig og leuk!

4. apr. 2007

Gulli bein, sjálfur gundurinn, var að fjalla um skáldskaparmál Megasar í tengslum við andúð föður hans á neðanbeltishúmor. Vísar hann í því samhengi í texta lagsins Gamla gasstöðin við Hlemm sem er að finna á plötunni Fram & aftur blindgötuna. Eitt af mínum uppáhaldsMegasarlögum er í slíkum neðanbeltisanda og er að finna á annarri Megasarplötu, Á bleikum náttkjólum, er hann gerði í samstarfi við Spilverk þjóðanna, og kallast Heimspekilegar vangaveltur um þjóðfélagsstöðu. Texti lagsins fjallar að mestu leyti um hlandfarir eins og meistarinn sjálfur orðar það. Það er erfitt að gera upp á milli Megasarlaga en ég er alveg á því að umrætt lag er eitt af hans helstu afrekum.

Jóhanna sæta sænska er sérlega hrifin af Megasi og hans lögum. Ég hef sagt henni það oft og tautað með sjálfum mér að því miður verði hún bara vitni að hálfri dýrðinni því ekki skilur hún textana. Hvernig líf manns væri ef maður skyldi ekki skilja textana sem Megas semur við lögin sín (eða öfugt)?

2. apr. 2007

Af mér

Klukkan nálgast níunda tímann eins og óð fluga, suðandi og sveimandi. Ég sit rólegur á móti tölvuskjánum og nota áttunda tímann til að ljúka vinnu dagsins og þar með vinnudeginum. Hinum venjulega degi, sem markast ekki af vinnu heldur ljósi eða afstöðu Jarðar og Sólar, er lokið fyrir nokkru. Þannig er dagurinn afstæður eftir eðli hans og tilgangi. Dagar mínir eru fagrir, annarra dagar eru sjúkir, sumra dagar eru bæði, sjúkir og fagrir.

Nú sameinast ég öðrum nágrönnum mínum sem halda upp á kvöld, sumir með máltíð, aðrir með vöku, enn aðrir með göngu og jafnvel einhverjir með bæn. Ég ætla að halda upp á þetta kvöld með því að standa upp frá skrifborðinu, slökkva á tölvunni og skjánum og setjast fyrir framan annan skjá, annað hvort gluggann minn og horfa út eða sjónvarpið og horfa inn í það, svo lang sem óravíddir televísjónsins bera mig. Kannski inn í aðra veröld. Annan heim. Gerviheim Hollívúdd eða bara inn á fréttastofurnar í Stokkhólmi.

Litlaus eru kvöldin mín