25. apr. 2007

Daglegt mál

Að hlaupa upp til handa og fóta

Samkvæmt íslenzku orðtakasafni Halldórs Halldórssonar ku eiginleg merking þessa orðtaks vera að bregðast á skjótan hátt við einhverjum til greiða. Það er enda sú notkun sem mér er töm. Þannig mætti segja: „Ég dæsti nú bara svona og hvíslaði með sjálfum mér hvað ég væri kaffiþyrstur og þá var nú hlaupið upp til handa og fóta og lagað kaffi, sett í pönnukökur og postulínið tekið fram!“

Ef orðtakinu er gúgglað má sjá að margir nota það í merkingunni, að gera úlfalda úr mýflugu, að fjargviðrast yfir e-u, að býsnast yfir e-u, að gera verður um e-ð út af e-u, að gera rekistefnu vegna e-s, gera mikið úr e-u, æsa sig (af óþarfa) yfir e-u o.s.frv.

1 ummæli:

dora wonder sagði...

ég tek þessari færslu sem beinni árás á mína máltilfinningu...