18. nóv. 2010

IAT

Tók svona IAT-próf. Þetta var niðurstaðan:


MALE-FEMALE:
Your data shows a slight association between SELF and FEMALE

EXTROVERTED-INTROVERTED:
Your data suggest no difference in your associations between SELF and INTROVERTED or EXTROVERTED

WARM-COLD:
Your data shows a slight association between SELF and COLD

DEPENDABLE-CARELESS:
Your data shows a slight association between SELF and
DEPENDABLE

CALM-ANXIOUS:
Your data shows a slight association between SELF and CALM

CREATIVE-CONVENTIONAL:
Your data shows a strong association between SELF and CREATIVE

Ætli þetta sé bara ekki nokkuð on the money?

5. nóv. 2010

Jason Bourne I

(#twitter) Þegar ég var í media náminu í Amsterdam spurði bekkjarfélagi minn einn föstudag hvað ég ætlaði mér að gera um helgina. Eg svaraði að planið væri að horfa á myndirnar Bourne Identity og Supremacy. "Interesting!" sagði hann og fór að velta þessu fyrir sér, stuttu seinna kom í ljós að honum heyrðist ég segja að ég ætlaði að skrifa ritgerð um Porn, Identity og Supremacy, sem vissulega hljómar interesant!

3. nóv. 2010

29. okt. 2010

Haldið til haga

(#twitter) Eg held senn til heimahaganna. Seinast þegar ég tilkynnti á Facebook að ég skyldi halda til heimahaganna límdi Guðlaugur Jón á færsluna kvæði:

ó, fjársnauði, aldraði vinur, hve fúl er vor glíma!
Hví fjötrar oss skyldan? Hví nagar oss lífsleiðinn grái?
Læstir á skrifstofum, límdir við flöktandi skjái
við leitum í ylinn frá minningum liðinna tíma.

Er við vorum ungir og ókunnir hversdagsins puði
almúgafólksins er lífsgæðahildina háði,
er lífið úr lukkunnar staukum á veg okkar stráði
og ljómandi fríðir við blótuðum æskunnar guði.

Um vetursins frosthörkur vináttan leið okkar lýsti
uns vorsólin litfögur iljaði sálunum ungu
og lóurnar, léttar í spori, af túnblettum sungu
lofsöngva, okkur til dýrðar, með kátlegu tísti.

Þeir mildustu dagar enn merla í draumsýnum mínum
er mæta við örkuðum sólbjarta æskunnar vegi
og vormild hún vermir mér, nú þegar kular af degi
vonin um eilífa hlýju í örmunum þínum.



Nú skal haldið heim á ný og af því tilefni svaraði ég Guðlaugi á vegginn hans í dag:


ó, vinur! Hve hefur oss veröldin alið með blíðu
og vinskapinn okkar ræktað með ástríki í hjarta,
framgangi sáldrað um framabraut lífsgeislans bjarta
og fróðleik sem lýsir oss veg gegnum hversdagsins stríðu.

Víst gaf oss tilveran ungdómsins ómældu þýðu.
Um ástleysi, víl eða hörku ei þurftum að kvarta.
En mundu að minningum einum ei dugir að skarta
um munúð og hamingju æskunnar, sveindómsins fríðu.

Er hún þér glötuð, frygðin sem bar oss á brjósti?
Bölvar þér lífið og svarar þér aðeins með þjósti?
Vermir ei kætin þér nú þegar kular af degi?

Því gleðin hún lýsir víst enn í lífinu okkar
sem lífgandi andblær um ókominn tíma hún skokkar
og veita mun huggun á ellinnar holótta vegi.



Svo mörg voru þau orð og verðugt að halda þeim til haga.

24. okt. 2010

Umburðarlyndið

(#twitter) Ég er löngu hættur að skammast mín fyrir skrifleysi hér. Enda er ég svo sem ekki að skrifa hér á blogginn fyrir lesendur aðra en mig. Grunar að hér sé enginn lesandinn (nema Siggi).

Ojæja. Ég ætla, og eiga það á hættu að fara að hljóma eins og Eiður Guðnason, enn einu sinni að röfla um mál og málfar og málnotkun.

Umburðarlyndi. Ég kannski legg annan skilning í orðið en margir. En í mínum huga merkir t.d. sögnin umbera að þola eða sætta sig við athafnir eða skoðanir annarra, þó manni sé það jafnvel þvert um geð. Þannig get ég umborið skoðanir harðra frjálshyggjumanna, þó þær séu oft á skjön við mínar eigin og ég sýni partýglöðu fólki í húsinu mínu ákveðið umburðarlyndi, þó það haldi stundum vöku fyrir mér með gleðilátum.

Þess vegna þykir mér nokkuð undarlegt þegar Íslendingar tala á jákvæðan hátt um að á Íslandi ríki mikið umburðarlyndi gagnvart samkynheigðum og að það sýni hversu víðsýn, frjálslynd og nútímaleg við séum.

Það er nú mín ósk að sem fæstir Íslendingar þurfi að umbera samkynhneigða samborgara sína.

4. jún. 2010

Tónlist og tilfinningar

Þau eru oft merkileg hugrenningatengslin sem fylgja tiltekinni tónlist sem maður hlustar á. Ætla til gamans að nótera niður nokkrar plötur sem verka upp sterkar minningar héðan og þaðan.

Zooropa - U2

Sumarið 2007. Fyrsta sumarið mitt í kókburði hjá Vífilfelli. Ég var að læra undir bílpróf átti fullt af peningi (Mánaðarlaun 54.000 kall!!). Undarleg nostalgía til þessa sumars...

Exile on Main Street - The Rolling Stones
Færir mig aftur til Amsterdam, á Dolhaantjestraat. Vorið 2004, þegar ég var að vinna meistaraverkefnið mitt. Held ég hafi spænt svona hundrað sinnum í gegnum stóns safnið mitt á þeim tíma.

Elephant - The White Stripes
Vorið 2003. Þá var ég að vinna í Nýja Garði í Háskólanum og var með þetta í eyrunum meira og minna. Og svo sama vor í Barselóna þar sem ég heimsótti Þórunni og Þormóð og við sáum þau live á LaPrimaVera hátíðinni í öskrandi rigningu.

Nouvelle Vague - Nouvelle Vague

Heyrði hana spilaða í gegn á kaffihúsi í Prenzlauerberg í Berlín páskana 2005. Síðan þá fæ ég alltaf Berlínarfiðring þegar ég heyri Nouvelle Vague

I'm Wide Awake, It's Morning - Bright Eyes
Í byrjun árs 2005 var ég nýfluttur inn á Czaar Peterstraat í Amsterdam. Á sama tíma vorum við Jóhanna að slá okkur upp saman. Good times, good times. Man að íbúðin var ísköld og það var nánast ómögulegt að komast framúr á morgnanna. Bright Eyes sló alveg á kuldann.





31. maí 2010

Meirihluti?

(#twitter) Fyrir um tveimur árum var ég með þessar pælingar. Upp spunnust frekari vangaveltur í ummælum. Spurning hvort stemmingin hafi breyst núna.

Auðir seðlar

(#twitter) Væri ekki hægt að haga því þannig að auðir seðlar hefðu sama vægi og önnur atkvæði? Þannig væri auðir stólar í borgar- og bæjastjórnum í samræmi við hlutfall auðra seðla. Það þætti mér dáldið kúl.

26. maí 2010

Kosningar

(#twitter) Þetta fylgi Besta flokksins er magnað. Spurning hvort það haldi sér fram á kjördag. Gæti verið jafnvel að það fari vaxandi á næstu dögum. Hins vegar þykir mér ekkert ólíklegt að raunverulegt fylgi flokksins verði nokkuð minna í kosningunum. Að fólk sem segist ætla að kjósa Besta flokkinn í könnunum hætti við í kjörklefanum og annað hvort kjósi það sem það kaus síðast eða skili auðu. Að mörgum þyki nóg „refsing fyrir flokkakerfið“ að hóta að kjósa Besta flokkinn. (#twitter)

18. maí 2010

Dýrafjörður

Ég heyrði Sölva Tryggvason taka sér í munn máltækið „Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar“ um daginn. Hann fór rétt með upprunann þegar hann vísar í sögu Gísla Súrssonar. Hins vegar fór hann rangt með máltækið sjálft. Hann notaði það í sömu merkingunni og að öll spjót bærust nú að Lúxemborg. Að öll vötn falli til Dýrafjarðar vísar til þess að ekki verði aftur snúið.

Í þessu samhengi má líka nefna að enska máltækið „All roads lead to Rome“ merkir allt annað en hið svipaða íslenska. Þar er átt við að margar leiðir séu að sama markmiðinu.

(#twitter)

Besti flokkurinn

Leiðindaröflfærsla: Hef blendnar tilfinningar til þessa Besta flokks. Jújú, ágæt leið til að benda á skrípaleikinn sem pólítíkin er. En hversu langt á grínið að ná? Segjum að þau nái inn þessum sex frambjóðendum sem kannanir spá nú. Ætla þau þá að halda gríninu áfram og fá borgað fyrir það? Sinna öllum skyldum borgarfulltrúa í einhveru gríni? Varla, enda kom það fram í upphafi að þau ætli ekki að standa við nein af stefnumálunum. Ætli sé ekki frekar hætta á að grínið koðni niður og að þau átti sig á að starf borgarfulltrúa geti verið grautfúlt með fullt af ábyrgð og ákvörðunum sem þarf að taka sem snerta þúsundir manna en hvert á sinn hátt þannig að fólk er aldrei ánægt með neitt sem maður gerir. Ekki það að ég treysti ekki þessu fólki til ágætis verka, aðallega spurning á hvaða forsenum það er. (#twitter)

9. maí 2010

Undarlegt lið II

Enn skil ég ekki þessar deilur um fyrirhugaða breytingu á stjórnarráðinu og ráðuneytum. Í stjórnarsáttmálanum er skýrum orðum rætt um þessar breytingar. Þetta á varla að koma nokkrum á óvart og varla tilefni til deilna. Eller hur? (#twitter)

29. apr. 2010

Samfélagið í nærmynd

Ég hef svo sem nefnt það áður hversu mér þykir Samfélagið í nærmynd góður útvarpsþáttur. Þar er vakin athygli á fjölda málefna sem bætt gætu íslenskt samfélag. En eitt liður í þessum þáttum er gjörsamlega óþolandi. Það er þessi gaur sem býr í Noregi og þau hringja stundum í. Hvílík hörmungarleiðindi.

23. apr. 2010

Altered States

Fláráður kom með þetta. Þetta var kannski aðeins of skarplega veitt hjá mér í lokin miðað við hversu fyrri vísbendingar gáfu litla hjálp.

Altered States var þetta. Frá árinu 1980 eins og þriðja vísbending benti á. Leikkonan sem um var rætt er að sjálfsögðu Drew Barrymore sem varð fræg í myndinni E.T. frá 1982. William Hurt var leikarinn sem lék geðsjúka vísindamanninn.

Föstudagsgetraun, frh.

Hvaða hvaða hvaða! Það er kominn enn á ný föstudagur. Hvað varð um þessa viku. Og ekkert svar borist við getraun síðustu viku? Þetta er alls ekki nógu gott. Höldum áfram og vonumst eftir svari fyrir næsta föstudag (#twitter):


Spurt er um kvikmynd:

1. vísbending: Myndin markar engin þáttaskil í kvikmyndagerð og er ekki hátt skrifuð í kvikmyndasögunni. Hún markar þó upphaf kvikmyndaferils tveggja þekktra Hollywood-leikara, karls og konu.

2. vísbending: Þáttur umræddrar leikkonu var ekki mikill í myndinni og henni skaut ekki upp á stjörnuhimininn fyrr en í næstu mynd sem hún lék í tveimur árum síðar.

3. vísbending: Myndina má flokka sem vísindatrylli. Fólk greinir á um hvort myndin sé frá lokum áttunda áratugs síðustu aldar eða byrjun þess níunda og var mikið rætt um það fyrir um 10 árum. Sú umræða hafði þó ekkert með þessa mynd að gera.

4. vísbending: Leikarinn umræddi leikur vísindamann sem gerir tilraunir á sjálfum sér sem breyta andlegu ástandi hans. Þessar tilraunir fara svo smátt og smátt úr böndunum. Segja má að í þessari vísbendingu felist aukavísbending.

19. apr. 2010

Föstudagsgetraun 3

Það er nú kominn mánudagur, en látum oss halda áfram fyrst enginn hefur giskað. Svei mér:

Spurt er um kvikmynd:

1. vísbending: Myndin markar engin þáttaskil í kvikmyndagerð og er ekki hátt skrifuð í kvikmyndasögunni. Hún markar þó upphaf kvikmyndaferils tveggja þekktra Hollywood-leikara, karls og konu.

2. vísbending: Þáttur umræddrar leikkonu var ekki mikill í myndinni og henni skaut ekki upp á stjörnuhimininn fyrr en í næstu mynd sem hún lék í tveimur árum síðar.

3. vísbending: Myndina má flokka sem vísindatrylli. Fólk greinir á um hvort myndin sé frá lokum áttunda áratugs síðustu aldar eða byrjun þess níunda og var mikið rætt um það fyrir um 10 árum. Sú umræða hafði þó ekkert með þessa mynd að gera.

17. apr. 2010

Föstudagsgetraun 2

(#twitter) Þessi laugardagur er nú eiginlega bara framhald af föstudeginum í gær, því ég er enn fastur við vinnu gærdagsins. Þess vegna hljóma The Rolling Stones enn í græjunum. Og þess vegna er ráð að halda áfram með föstudagsgetraunina. Engin svör hafa borist. Siggi hefur eflaust verið upptekinn við annað.

1. vísbending: Myndin markar engin þáttaskil í kvikmyndagerð og er ekki hátt skrifuð í kvikmyndasögunni. Hún markar þó upphaf kvikmyndaferils tveggja þekktra Hollywood-leikara, karls og konu.

2. vísbending: Þáttur umræddrar leikkonu var ekki mikill í myndinni og henni skaut ekki upp á stjörnuhimininn fyrr en í næstu mynd sem hún lék í tveimur árum síðar.


Fór annars í búðina hér í morgun og á forsíðum allra dagblaðanna voru stríðsfyrirsagnir um öskuskýið yfir Evrópu. Ef marka má fyrirsagnirnar munum við flest deyja á næstu mánuðum.
Svo les maður um „tímabundnar afsagnir“ þingmanna. Aldrei er hægt að gera neitt almennilega á Íslandi. Tja, fyrir utan skýrslur. Við erum greinilega góð í því, því og eldgosum.

16. apr. 2010

Föstudagsgetraun

#twitter Það er föstudagur og af því tilefni, eins og flesta aðra föstudaga, hljóma The Rolling Stones í græjunum. Þess stundina er það Aftermath frá 1966. Æj hvað það er nú gott stykki.

En föstudögum fylgir líka önnur hefð. Föstudagsgetraunin sínvinsæla.


Eins og svo oft áður er spurt um kvikmynd.


1. vísbending: Myndin markar engin þáttaskil í kvikmyndagerð og er ekki hátt skrifuð í kvikmyndasögunni. Hún markar þó upphaf kvikmyndaferils tveggja þekktra Hollywood-leikara, karls og konu.

3. apr. 2010

Rokk og ról

The Oholics sitja nú í elhúsinu mínu og leika háværa rokkmúsik. Þetta er allt liður í verkefninu inmykitchen.

Ég held það hafi brotnað uppúr jaxli í mér. Systkin mín komu hingað um helgina. Jóhanna fór frá mér tímabundið og málaði Köben rauða. Páskar á morgun og svona. Og fokkins níu daga frí framundan

30. mar. 2010

Undarlegt lið

Það er undarlegt að heyra raddir úr stjórnarliðinu á Alþingi að fyrirhugðu fækkun og sameining ráðuneyta komi á óvart og séu ekkert á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Þetta er sagt nokkuð berum orðum í stjórnarsáttmálanum.

Sigurðarmál og hlaupaannáll

Það má kalla þenna dag í dag vordag, þrátt fyrir að hitinn hafi verið rétt yfir frostmarki þegar ég fór á fætur. Hann datt þó upp í tæpar tíu um ellefu og þá dustaði ég rykið af hlaupaskónum og dró fram níðþröngu joggingbuxurnar.

Nú er ég sveittur og sæll

30. mars fyrir þremur árum var eiginlega komið hálfgert sumar hér í bæ. osei.

29. mar. 2010

Flugdýrtíð

Það er sumsé dýrara fyrir mig að fljúga til Reykjavíkur héðan frá Gautaborg í júlí en að fara alla leið til Beirút. Ég hef svo sem lítið að sækja til Beirút og býst því við að ég endi með að bóka ferðina til Reykjavíkur.

100 kílókrónur fyrir okkur bæði í júlí.

26. mar. 2010

Föstudagsgetraun 3

Núnú, Sindri dúndraði inn réttu svari. Ánanaust var spurt um. Næsta vísbending átti að nefna að gatan hefur ekki alltaf heitið þessu nafni og að hún hafi áður verið hluti mun lengri götu. Svo átti að minnast á að öðrum megin í götunni væri nokkuð um íbúðarhús og byggingar en hinum megin væru nær engin mannvirki. Ástæðan fyrir því væri mestmegnis landfræðileg.

Sindri fær húrra!

#twitter

Föstudagsgetraun 2

Strax komnar tvær ágætis tillögur. Báðar þó rangar.


Spurt er um götuheiti:


1. vísbending: Gatan er í Reykjavík og er kennd við gamalt örnefni.
2. vísbending: Umrætt örnefni var kennt við mann. Um þann mann er þó lítið eða ekkert vitað.

#twitter

Föstudagsgetraun

Hallóhalló! Það er enn kominn föstudagur! Það merkir: Föstudagsgetraun. Ekki er spurt um kvikmynd að þessu sinni þó...


Spurt er um götuheiti:


1. vísbending: Gatan er í Reykjavík og er kennd við gamalt örnefni.

24. mar. 2010

Hin eilífa lúppa

Ég bössa og ég tvíta. Í bland feisbúkka ég líka. En ég bössa mest.

Á bössinu get ég skrifað færslur beint, þangað lenda líka færslur úr blogginu mínu og hlutir sem ég miðla á Google Reader. Færslur undir 140 stöfum fara svo sjálfkrafa úr Buzz yfir í Twitter.

Á Twitter get ég svo skrifað beint inn færslur. Þær færslur fara svo sjálfkrafa á Facebook og Buzz.

Nú er svo komið að ein færsla hjá mér er föst í lúppu. Ég byrjaði á því að skrifa hana inn í Buzz, hún fór svo í Twitter, sem sendi hana í Facebook og aftur á Buzz. Buzz sendi hana svo aftur á Twitter sem sendir hana svo aftur á Facebook og Buzz. Það tekur yfirleitt nokkrar klukkustundir fyrir færslurnar að berast úr Twitter yfir í Buzz. Þannig að sendingarnar eru ekki alveg stanslausar og stöðugar. En á nokkurra klukkustunda fresti birtist sama færslan á Buzz, Facebook og Twitter.

Þetta er magnað. Nú merki ég þess færslu með #twitter og við skulum sjá hvort hún lendi í sömu lúppu.

23. mar. 2010

Að banna A til að koma í veg fyrir B

Á Facebook rétt í þessu las ég ummæli við færslu um nýlegt bann við nektardansi á Íslandi. Þar segir einn ummælandi að honum finnist undarlegt að banna A til að koma í veg fyrir B. Þetta þykir mér undarlegt viðhorf.

Tilhvers er maður að banna einn hlut ef ekki til að koma í veg fyrir eitthvað annað? Ekki er maður að banna hlutinn bara til að banna hann (reyndar virðist það oft raunin á Íslandi, en það er líka asnalegt).

Ég er svo sem ekki mikið fyrir að stjórnvöld eigi að banna mikið. En margt er nauðsynlegt að banna, vegna þess að það hefur slæmar afleiðingar. Ekki það að nektardans á börum er svo asnalegt fyrirbæri að auðvitað á ekki að þurfa að banna hann. En fólk er fífl. Þess vegna þarf að banna.

Hins vegar er margt bannað sem er algjör della að banna. Afhverju má ég t.d. ekki kaupa mér Skjálfta í Nóatúni?

Sænsk orð I

Ýmis sænsk orð eru fyndin. Ötli ég noti ekki blogginn þennan til að varpa ljósi á þau nokkur. Hið fyrsta fyrir valinu er:

knivhuggen

Sum sé lýsingarháttur þátíðar af sögninni knivhugga sem í beinni þýðingu á íslensku væri hnífhöggva.

Þetta þykir mér frábært orð. Það kemur býsna oft fyrir í fréttum hér. Menn eru hnífhöggnir hér hverja helgi að því er virðist. Menn eru líka stundum hnífstungnir (knivstucken), en þó yfirleitt hnífhöggnir. Hver munurinn er nákvæmlega á að vera hnífhöggvinn og hnífstunginn veit ég ekki. Jóhanna telur að það fari eftir beittu afli. Ég tel að það fari eftir hvernig haldið er á hnífnum, þ.e. hvort hnífsblaðið standi utan- eða innanhandar.

22. mar. 2010

Stjórnarandstaða

Ég held að orðið „stjórnarandstaða“ sé ákveðið vandamál í pólitík. Á Íslandi er minnihluti jafnan í stjórnarandstöðu. Þarf það að vera sjálfgefið að minnihluti sé jafnframt alltaf í stjórnarandstöðu?

21. mar. 2010

Svarið kom

Gundurinn svaraði rétt. Dances with Wolves var það heillin. Næsta vísbending átti að nefna óskarsverðlaun sem myndin hlaut eða var tilnefnd til og sú sjötta átti að nefna umrætt kvikmyndaform: Hollívúddepíkina, sem Kevin Costner tók upp aftur eftir nokkur hlé og var svo fest í sessi með Titanic James Camerons.

20. mar. 2010

Föstudagsgetraun 4

Leynist enn einn lesandinn að þessum bloggi. Helga Þórey segir Close Encounters of the Third Kind. Það er álíka rangt og fyrri svör. Þetta er greinilega níðþung getraun. Fjórða vísbending:


Spurt er um kvikmynd:

1. vísbending: Myndin þykir marka endurkomu tiltekins forms kvikmynda sem hafði verið vinsælt nokkrum áratugum áður.

2. vísbending: Myndin er fyrsta leikstjórnarverk leikstjórans. Almennt höfðu menn ekki mikla trú á verkefninu í byrjun. Myndin hlaut þó góðar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda.

3. vísbending: Söguþráður myndarinnar þykir afar svipaður þræði nýjasta afreks James Camerons, Avatar. Þá má nefna að hlutur James Camerons í endurkomu umrædds kvikmyndaforms er einnig stór.

4. vísbending: Kvikmyndin er í hópi svo kallaðra kúrekamynda, eða vestra. Það er þó ekki kvikmyndaformið sem rætt er um í fyrri vísbendingum. Enda hefur vestrinn eiginlega aldrei farið í pásu, þó vissulega hafi hann risið og hnigið í gegnum tíðina.

Föstudagsgetraun 3

Það leyndist annar lesandi að þessari síðu. Einnig með rangt svar. Xenogenesis eftir James Cameron er ekki rétt. En fyrst O.Veigar nefnir Cameron skulum við blanda honum í dæmið:


Spurt er um kvikmynd:

1. vísbending: Myndin þykir marka endurkomu tiltekins forms kvikmynda sem hafði verið vinsælt nokkrum áratugum áður.

2. vísbending: Myndin er fyrsta leikstjórnarverk leikstjórans. Almennt höfðu menn ekki mikla trú á verkefninu í byrjun. Myndin hlaut þó góðar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda.

3. vísbending: Söguþráður myndarinnar þykir afar svipaður þræði nýjasta afreks James Camerons, Avatar. Þá má nefna að hlutur James Camerons í endurkomu umrædds kvikmyndaforms er einnig stór.

19. mar. 2010

Föstudagsgetraun 2

Eini lesandi síðunnar er búinn að giska. Hann gask á A Fistful of Dollars, með trega. Það er enda ekki rétt.

Spurt er um kvikmynd

1. vísbending: Myndin þykir marka endurkomu tiltekins forms kvikmynda sem hafði verið vinsælt nokkrum áratugum áður.

2. vísbending: Myndin er fyrsta leikstjórnarverk leikstjórans. Almennt höfðu menn ekki mikla trú á verkefninu í byrjun. Myndin hlaut þó góðar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda.

Föstudagsgetraun

Ætli sé ekki réttast að halda í hefðir og skella hér fram föstudagsgetraun á endurreistum bloggi:


Spurt er um kvikmynd.

1. vísbending: Myndin þykir marka endurkomu tiltekins forms kvikmynda sem hafði verið vinsælt nokkrum áratugum áður.

18. mar. 2010

Skráargatið


Ég var að hlusta á Samfélagið í nærmynd í gær (þökk sé IE-flipanum). Þessi þáttur er frábær að því leyti að þar er stöðugt verið að benda á góða hluti og hvað mætti betur fara í íslensku samfélagi. Þáttastjórnendur virðast hafa svipaðan áhuga og ég á endurvinnslumálum, skipulagsmálum, hollustumálum o.þ.h. Um daginn var t.d. verið að ræða um tækifæri í íslenskum landbúnaði sem felast í að selja beint frá býli og leggja áherslu á verslun í heimabyggð. Meira um það seinna. Í gær var hins vegar verið að ræða um skráargatið, í kjölfar umfjöllunar í neytendablaðinu. Merkið þekki ég vel, enda upprunnið í Svíþjóð, og ég kíki iðulega eftir því þegar ég versla matvöru.
Í umfjöllun neytendablaðsins kemur fram að búið sé að taka merkið upp í Noregi og Danmörku auk Svíþjóðar. Íslensk stjórnvöld hafi verið hvött til að vera með en af því hafi ekki orðið. Í máli talsmans neytendasamtakanna í Samfélaginu í gær kom fram að það væri aðallega vegna þess að íslenskir framleiðendur væru á móti því. Þetta þótti mér allrar athygli vert og finnst ástæða til að kanna betur. Hvers vegna vilja íslenskir framleiðendur ekki merkja vörurnar sínar með sérstöku hollustumerki? Er það vegna þess að íslensk matvæli eru upp til hópa óholl? Erum við ekki alltaf að grobba okkur af því hvað íslenskur matur sé góður og að matvæli frá öðrum löndum séu beinlínis hættuleg? Hvað er málið?

17. mar. 2010

Sigurðarmál

M.ö.o. veðurblogg!

Tryggir og minnugir lesendur þessa bloggs ættu að kannast við hina árlegu vorumfjöllun mína. Undanfarin ár hef ég, að mestu ómeðvitað þar til í fyrra, skráð samviskusamlega vorkomu hvar ég bý hverju sinni. Hún hefur yfirleitt verið um þetta leyti. Í miðjum mars. Hér í Gautaborg í hið minnsta.
Nú er miður mars og gott betur en ekki er hægt að segja að það bóli mikið á vorkomu. Snjóskaflar sjást utan við gluggann minn, himininn er vetrargrár og hitinn rétt ullast uppyfir núll eða lafir í fimmunni yfir hádaginn. Ekki er hægt að sjá að veðurkortin boði nokkuð gott í þessum efnum á næstunni.
Við, heimilisfólkið á Godhemsplatsen 2B, íbúð 40, erum fyrir löngu orðin þreytt á þessum vetri. Jafnvel ég sem þó slapp í vorloftið á Íslandi um stund. Langþráð er vorið.

16. mar. 2010

IE í Chrome

Ég nota Google Chrome. FireFox hætti að virka hjá mér af einhverjum óútskýranlegum ástæðum. Ég hatast við InternetExplorer. Hins vegar eru nokkrir aular sem sníða vefina sína enn eingöngu að IE. T.d. Rúv, sem ég fer oft inn á. Það er ekki hægt að spila útvarpið eða sjónvarpið með Chrome. Í kjölfarið hætti ég eiginlega að horfa eða hlusta á Rúv. Síðan fann ég þetta. Viðbót við Chrome sem gerir manni kleift að opna IE inni í flipa án þess að þurfa að yfirgefa Chrome. Það er meir að segja hægt að kenna skepnunni að opna Rúv í þannig flipa. Þá þarf ég bara að slá ruv.is inn í Chrome og babbarei: Ég get hlustað á rúv án nokkurra vandræða.

Þetta er gott. En vefstjórinn hjá Rúv ætti nú samt að gera vefinn Chrome-hæfan

15. mar. 2010

Ég er búinn að hitta talsvert af Svíum hérna í Svíþjóð. Eðlilega. Líka búinn að hitta Hollending og Breta. Iðulega kemur þjóðaratkvæðagreiðslan um daginn upp í samræðum og einhverjar spurningar um Icesave. Allir sem ég tala við standa í þeirri trú að kosningin hafi snúist um það hvort Íslendingar ætluðu að borga eða ekki. Ég reyni svona að útskýra að líklega hafi einhverjir kosið með því hugarfari en í raun snerist málið alls ekki um það. Þessi staðreynd virðst stórlega hafa skolast til því ef maður les fréttir um málið hér í Svíþjóð kemur hið rétta alltaf fram. Fólk heyrir líklega bara það sem það vill heyra.


Annars sá ég Lísu í Undralandi á föstudaginn. Allan timann hugsaði ég: „Hemmi Gunn,það sem hægt er að gera nú til dags!“

12. mar. 2010

Endurlífgun bloggsins (einu sinni enn)

Kæru lesendur (sem sagt Siggi og Berglind)


Enn einu sinni held ég á vit endurlífgunartilrauna bloggsins. Þeir sem fylgst hafa með þessum bloggi (já, beygist eins og lókur) vita að slík umsvif eru ekki endilega merki um tíðari færslur eða vitsmunalegri umræðu hér. Mestmegnis bara fikt og dund af minni hálfu við að skoða nýjar víddir netsins.

En sjáum til.

Annars tók ég upp á því í gærkvöldi að búa mér til sinnep. Það er bæði einfalt og flókið. Sérlega einföld uppskrift en sérlega flókið að ná hlutföllunum rétt. Enn flóknara verður dæmið þar sem sinnep er þess eðlis að það er eiginlega ekki hægt að smakka sig áfram. Eftir þriðja smakk er maður eiginlega búinn að missa allt bragðskyn. Fyrir nú utan að sinnep nær ekki rétta bragðinu fyrr en töluvert eftir blöndun, það þarf að fá að setjast aðeins og jafna sig.

En svona er uppskriftin mín nokkurnvegin:

Sinnepsduft (enskt)
Kalt vatn (sænskt)
Eplaedik (sænskt)
Viskí (japanskt, sjá fyrri færslu)
Salt (franskt)
Basillika (uppruni óþekktur)
Chili pipar (þýskur)
Hunang (danskt)

Hlutföllin eru meira eða minna einn hluti vökva á móti tveimur af dufti. Svo er bara að passa að hafa ekki of mikið af ediki og viskíi á kostnað vatns og að edikið og viskíið vegi ekki út hvort annað. Hunang svo bara eftir því hversu sætt sinnepið á að vera. Eiginlega ætti að vera smá hvítvín í þessu líka, en ég átti ekkert hvítvín í gærkvöldi útaf helvítis sýstembólaginu.

10. mar. 2010

Nördafærsla: Yamazaki


Eftir að hafa verið eiginlega fastur í Islay viskíi frá byrjun, með smá Speyside útúrdúrum af og til hafði ég mig loks í að kaupa eitthvað nýtt og skemmtilegt. Fjárfesti í einni japanskri um daginn: Yamazaki. Það var kannski einkum verðflokkurinn sem leiddi mig út í þau ævintýri. Sum sé frekar í ódýrari kantinum. Settist niður til að smakka í gærkvöldi:


Nös: Einkennandi viðarkeimur og síðan hunang og sítrus sem slæðist inn eftir því sem nefið mýkist. Jafnvel örlítil vanilla og kanill þarna einhversstaðar.

Palata: Viðarstemmingin ennþá ráðandi. Sítrusinn fylgir á eftir eins og áður. Ekki laust við smá seltu í lokin. Töluvert bit í því, enda bara 10 ára gemlingur.

Eftirbragð: Kemur skemmtilega á óvart eftir frekar mikla hógværð í nös og palötu. Ekkert sérlega ríkt, en milt, olíukennt með hunangskeim. Kallar strax á meira.

22. feb. 2010

Dulræna deildin er góð mynd

Men who stare at goats
(ísl. Dulræna deildin)

Ég sá hana um daginn og þótti hún skemmtileg. En hvers vegna? Hvað er það við þessa mynd sem vakti hjá mér gleði, ánægju og kæti? Tínum saman nokkra punkta:

George Clooney. Árið 1996 um vorið var ég í veislu og sagði eftirfarandi: George Clooney er frábær leikari. Þá spunnust samræður um gildi Georgs sem kvikmyndaleikara. Þær enduðu á því að ég sagði: Sannið þið bara til. Allir sem tóku þátt í þeim umræðum hafa fyrir löngu sannað til.

Jeff Bridges. Uppáhaldsleikari mömmu minnar. Fleiri orð þarf ekki um það að hafa.

Bandaríski herinn. Mynd sem fjallar um bandaríska herinn á 50% möguleika á að vera frábær. 25% á að vera góð. Aðeins 25% líkur eru á að slík mynd sé slæm/slök/slöpp. Takið eftir að lýsingarorðið leiðinlegur er ekki notað hér. Góð mynd getur verið leiðinleg (Color Purple). Vondar myndir geta verið skemmtilegar (Veggfóður).

Sagan. Saga sem flippar getur annað hvort flippað út eða flippað inn. Tja, nema að hún flippi á staðnum. Dulræna deildin flippar í allar áttir. Það er gott. Það er gjöf.

Geitur. Geitur, kindur, kýr og lamadýr eru fyndin. myndir sem sýna svoleiðis fá prik.

Yfirnáttúrulegir hæfileikar. Carrie, Star Wars, Shining, Spiderman, Sixth Sense, Transformers og Jaws. Eðalinnihaldsefni.

Þess vegna þótti mér Dulræna deildin frábær og segi við þig: Sjáðana!!

Huuu? Bloggfærsla

Ha. Nei, bíddu, bíddu. Bloggfærsla hér? Ja, hérna, hér!

Er ekki löngu kominn tími á eina góða bloggfærslu á gamla góða blogger.com. Það held ég nú. En um hvað skal rætt? Hvað liggur mér á hjarta? Hugleikur, segðu mér, segðu mér hvað ég á að blogga um... (Hugleikur hugsar, hann andvarpar). "Ég er nú sjálfur að reyna eitthvað að blogga hér," svarara Hugleikur, fær sér sopa af bjór, og geiblar munninn.

"Ég er svo vinsæll," segir hugleikur, "hlær og grípur um munn sér".

Hugleikur vandræðast en ég blogga bara.

Tölum um sögnina eignast. Hana ætti ekki að nota í boðhætti. Eignastu. Nei það er nú ekki alveg málið. En hvað með sögnina fá. Fáðu... fáðu hold. Nei það er ekki gott. Fáðu þér hins vegar. Upplifa! Upplifðu Toyota bíla. Eignastu Toyota, upplifðu frelsi og fáðu hugarró.

Lofið mér krakkar mínir, að nota þessar sagnir aldreigi í boðhætti.