29. des. 2011

Barbro brew

Eins og ég gat um fyrir nokkru erum við að brugga bjór í kjallaranum á fjóló. Við köllum hann Barbro (sem er sænsk útgáfa nafnsins Barbara). Við við höfum opnað bloggsíðu sem sérstaklega er tileinkuð bjórnum og brugguninni. hérna http://barbrobrew.blogspot.com/

27. okt. 2011

betrireykjavik.is

Fyrir nokkrum dögum var hleypt á netið nýrri og bættri útgáfu af Betri Reykjavík. Þetta er hugmyndavettvangur til að bæta borgina okkar og mun, ef staðið verður við stóru orðin, geta haft áhrif á ákvarðanatöku í borginni. Vefurinn snýst um að fólk kemur með hugmyndir og sem svo er hægt að ræða og gefa atkvæði sitt. Í lok hvers mánaðar verður fimm vinsælustu hugmyndum gefið pláss á viðkomandi vettvangi innan borgarkerfisins. Þannig geta notendur vefsins haft bein áhrif á dagsskrá nefnda og sviða. Þetta er frábært framtak.

Ég er sérlega áhugasamur um að gera Reykjavík að betri borg og hef talsvert beitt mér þarna inni og var um langan tíma tillaga mín um að fjölga sölustöðum strætómiða í fimmta sæti. Sem þýðir að hún yrði send til umfjöllunar, væntanlega í stjórn Strætó.

Mér sýnist hún vera að lúta í lægra haldi fyrir hugmynd um að strætó gangi fram yfir miðnætti alla daga, sem er svo sem ekki síðri hugmynd. En mikið væri nú gaman að sjá hugmyndina mann tekna til umfjöllunar.

Hér má sjá fimm efstu hugmyndirnar þessa stundina:

27. sep. 2011

Þriðjudagur: Næs

Össur Skarphéðinsson var svalur á fundi allsherjarráðs Sameinuðu þjóðanna í gær. Hann fjallaði um þróunaraðstoð og umhverfismál og framlag Íslendinga til þeirra málefna og hann lýsti því yfir að Íslensk stjórnvöld styddu stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna. Það var djörf (en að mínu mati sjálfsögð) yfirlýsing og gengur lengra en flestir kollegar hans í nágrannaríkjum okkar þora að gera. Með þessu stillir Össur okkur Íslendingum á þann stall sem ég vil sjá okkur vera á í augum ríkja heims, sem friðelskandi og umhverfisvæn þjóð sem beitir sér fyrir mannréttinum og gegn misrétti, óháð skoðunum ráðandi ríkja. Ég vona Össur og komandi ráðherrar muni halda okkur á þessum stalli að þessi tónn muni óma frá Íslendingum um komandi framtíð.

---

Annars var búslóðin okkar sótt í morgun svo nú er eiginlega allt klárt fyrir flutning frá Svíþjóð. Nokkur tilhlökkun að flytja, svona þannig séð. Þó í aðra röndina langi mann ekkert að yfirgefa Svíþjóð. En það er ekki á allt kosið.

18. sep. 2011

Undarlegar afleiðslur

Það er margt skrítið í þessum heimi og sumt jafnvel ofar mínum skilningi. Mér finnst til dæmis óskiljanlegt að ef ég t.d. gagnrýni skilaboðin sem felast í þessari myndsé hægt að túlka það á þann veg að ég vilji að konur eigi frekar að líta svona út:


Ég einfaldlega fatta það ekki.16. sep. 2011

Íslenska þrjóskan

Jæja, það þurfti að koma til þess að Bandaríkjamenn beittu þvingunum vegna hvalveiða Íslendinga. Sama hvað mönnum finnst, hvort það sé vottur um hræsni eða tvískinnungshátt Bandaríkjamanna, hvort þessar veiðar séu löglegar skv. einhverjum skilgreiningum og veiðarnar sjálfbærar eða hvað fólki finnst um hvalveiðar yfir höfuð, er sorglegt að það hafi þurft að koma til þessa. Vegna þess að þessar veiðar virðast engu raunverulegu máli skipta fyrir Íslendinga.

Mér virðst málflutningurinn mestmegnis snúast út á að Íslendingar eigi rétt á að veiða hvali í eigin lögsögu og að önnur ríki hafi ekkert með að vera að skipta sér af því. Og ef önnur ríki skipta sér af því, þá verða menn enn þverari í þessari afstöðu sinni, og dettur ekki í hug að gefa sig, í einhverri undarlegri þrjósku sem blásin er upp af  ömurlegu þjóðarstolti.

Og nú hótar Bandaríkjaforseti okkur og þá er nú viðbúið að þetta lið sýni enn meiri þvermóðsku og neiti nokkurn tíma að gefa sig.

Annars er stórundarlegt að ríkisstjórn, þar sem sjávarútvegsmál eru undir stjórn svokallaðs græningjaflokks, skuli halda hvalveiðum til streitu og, ekki nóg með það, verja þær fram í rauðan dauðann.

Obama waives sanctions on Iceland whaling


15. sep. 2011

Búnsósulandið

Ég nenni ekki að gagnrýna íslenska fjölmiðla. Bendi þess í stað á stórgóða fjölmiðlarýni Marra á Smugunni. Nei, ég ætla þess í stað að fjalla um hina stórgóðu fjölmiðlun hér í Svíþjóð. Svíar eru meistarar í gerð sjónvarpsefnis og skarar þar sænska ríkissjónvarpið (SVT) framúr. Umræðuhefðin hér í Svíþjóð er nefnilega upplýst og gagnrýnin samræðuhefð, eins og ég hefi nefnt áður á þessum bloggi, þar sem hlutirnir eru ekki bara málaðir svart og hvítt heldur reynt að nálgast viðfangið frá mörgum hliðum.

Ég get, og mun, fjalla um nokkra þætti í sænska sjónvarpinu sem íslenskt fjölmiðlafólk getur tekið sér til fyrirmyndar en nú ætla ég að fjalla um einn þátt sem ég sá um daginn: Landet Brunsås, sem mætti kalla Brúnsósulandið á gamla góða. Þættirnir snerta kannski ekki íslenska þjóðarsál beint, enda fjalla þeir um sænska matarmenningu. En það er þó margt sameiginlegt með sænskri og íslenskri matarmenningu, t.d. gengdarlaus kjötneysla og áhersla á unnar matvörur. Í þættinum er kafað í matarmenningu landans, ráðist á mýtur og hlutirnir settir í samhengi. Þetta er þjóðfélagsgagnrýni sem kemur við kauninn á fólki því ráðist er á allt að heilaga stund á hverju heimili, kvöldmatartímann og persónulegar venjur.

Þessir þættir eru ágætis dæmi um ákveðið stef sem er áberandi í sænskum fjölmiðlum: Beitta samfélagsgagnrýni.
Svíar virðast óþreytandi við að benda það sem miður er og betur mætti fara. Þeir spyrja sig í sífellu: Er þetta rétt, er þessu best hagað svona, getum við gert betur, hvers vegna eru hlutirnir svona? Samt sem áður, og líklega þess vegna, búa Svíar í einu huggulegasta og öruggasta samfélagi veraldar. Það er ekki vegna þess að þeir séu svo óskaplega ánægðir með sjálfa sig og nota hvert tækifæri til að upphefja sig (slíkt er beinlínis bannað samkvæmt óformlegum venjum samfélagsins). Nei, þeir gagnrýna hátt og snjallt, og ekki með því að rífast um hlutina, nei, heldur ræða þá. Þetta mega Íslendingar temja sér og íslenskir fjölmiðlar ýta undir.

(En auðvitað eru Svíar óskaplega ánægðir með sig sjálfa í laumi.)

Hér er svo linkurinn á þættina. Veit svo sem ekki hvort hægt sé að horfa á þetta fyrir utan Svíþjóð.

Tack fyrir.

8. sep. 2011

Önnur færsla sem lenti í Drafts:

Kona í síðum kjól stendur á brúnni og horfir hugsandi niður í grábrún síkið. Við hliðhennar stendur sonur hennar, fimm ára á að líta og borar í nefið. Maður á hjóli reykir pípu. Heldur með annari hendi við stýrið en heldur á dagblaði í hinni. Bátur liðast hjá, fagurgulur með, nýlega málaður.

Ég sit við skrifborðið á þriðju hæð og fylgist með út um gluggann.

Svona er dagar mínir, sjúkir en fagrir.

Gömul færsla sem ég fann í drafts:

Hér er skítkalt. Sem er gott. Ég kann ákaflega vel við kulda, það er sé ég í stakk búinn fyrir hann. Það er ósköp notalegt að þeysast um á hjólinu og finna kuldann bíta í kinnarnar á meðan aðrir partar líkamans eru vel varðir gegn honum. Þökk sé vetrarjakkanum góða, hlýjum gallabuxum, vetlingum og húfu var ég eins og grænn riddari á brúna fáknum mínum. Á svona dögum er Amsterdam sérlega falleg.

Ég reit grein um þjóðsönginn á selluna í dag. Hafði svo margt að segja að ég náði ekki að segja allt sem ég vildi segja. En ég segi það bara seinna. Annars hef ég bara fengið heilmikið respons vegna greinarinnar, sem er gott

Góður dagur, annars, hófst á kvikmyndinni Incident at Loch Ness sem Zak Penn leikstýrir og fjallar um Werner Herzog sem leikur sjálfan sig í myndinni. Eitt orð (svo ég vitni í MVB): Brilljant!

Svo hitti ég hina huggulegu Jóhönnu frá Svíþjóð á bókasafninu hvar við sátum og lærðum saman, sem var gaman.

Í kvöld verður horft á Weapons of Mass Deception.

Góðar stundir

7. sep. 2011

Haustverkin

Það er farið að hausta og á þessum tíma hefst nýr kafli eins og vanalega. Þá fer maður að setja sér markmið og heit af ýmsu tagi. T.d. er ekki óalgengt að bloggarar ákveðið að fara að blogga meira og breyta útlitinu á bloggnum sínum og henda inn nokkrum færslum með litlu millibili, kannski í eina til tvær vikur. Þetta hef ég gert á hverju ári og verður ekki brugðið út af vananum nú. Svo hér koma hinar árlegu breytingar á ritstjórnarstefnunni. Á ritstjórnarskrifstofunni hefur verið ákveðið að auka við efnistök á þessum bloggi og verður nú í vetur helgað eftirfarandi, ekki í neinni tiltekinni stigsröð:

Bjórbruggun
Í afmæligjöf frá Jóhönnu fékk ég m.a. bók um bjórbruggun. Ég hef verið að blaða í bókinni og hún virðist stórgóð, skýr og skemmtilegt og blæs í mann áhuga og innspírasjón. Mun ég skrá niður bruggkladdann hér.

Málfræði
Eins og ávallt verður fjallað um mál, málnotkun og málfræði. Jafnvel þýðingar og staðfæringar.

Umhverfismál
Röflað verður um umhverfismál og sjálfbærni eins og kostur er.

Nói
Uppvöxtur drengsins mun jafnvel fá sitt pláss.

Önnur mál Eftir því sem ástæða er til. En reynt verður að halda sér við meginefnistökin hér að ofan.


Svo þið lesendur þessa bloggs hafið til margs að hlakka og er ég viss um að umræðan í ummælakerfinu verði líflegri en nokkrusinni fyrr.

6. sep. 2011

Talið

Við feðgar fórum yfir tvívaramælt lokhljóð, fráblásið og ófráblásið í dag. Drengurinn hafði þó meiri áhuga á að æfa tvívaramælt sveifluhljóð. Gengur betur næst.

Hvað kostar hvert smit?

Sprauti sig inni á miðstöðinni - mbl.is:

'via Blog this'

Þessu ber kannski ekki að fagna. En þetta er líklega þarfaverk. Annars er biturt að þurfa í lokin að rýna í hvað hvert smit kostar, samfélagið í peningum. Ekki nóg með ógæfu viðkomandi sem smitast. It's all about the money.

7. ágú. 2011

Krummi

Oft er talað um hvernig internetið hefur breytt samskiptum fólks. Um netið getur fólk átt í samskiptum á milli landa og heimsálfa án þess að þekkjast nokkuð í raunheimum. Þannig geta myndast sambönd og heilu kunningjahóparnir sem hafa aldrei hist. Það er óþarfi að fara nánar út í þá sálma, en mér er þetta ofarlega í huga núna, því nú um helgina bárust mér fregnir af því að einn slíkur „netkunningi“ minn hafi farist af slysförum fyrir fáeinum dögum.
Þrátt fyrir að ég hafi í raun aldrei hitt hann í eigin persónu slógu mig tíðindi sárlega. Því við höfum í um átta ár átt í nokkuð tíðum samskiptum, í ummælakerfum bloggsíðna og á samfélagsmiðlum ýmiss konar. Ég hef lesið bloggið hans og hann bloggið mitt og höfum þannig fengið innsýn í líf hvors annars. Mér finnst ég því hafa þekkt hann, sem ég á vissan hátt gerði.
Það er skrítið, þegar maður fær svona fréttir af félaga sem maður hefur aldrei hitt, hvað það snertir mann, og að uppgötva að maður á sér í raun vini og kunningja víða um veröld, sem skipta mann máli og koma við sögu í daglegu lífi manns.
Mig grunar að einhverjir lesendur þessa bloggs hafi haft svipuð kynni af honum. Mér finnst því við hæfi að minnast hans hér. Á þessum bloggi hefur hann oft skilið eftir fjörug og stundum klikkuð ummæli, nánast frá upphafi. Nú hefur rödd á netinu þagnað, rödd sem ég mun sakna.

4. júl. 2011

Fyrsta dýfan

Tók hjólið hennar Jóhönnu í gær (bremsurnar á mínu eru bilaðar) og tók stefnuna á Askimbadet. Var ekkert búinn að hreyfa mig frá því daginn áður en Nói fæddist og fannst ég verða að koma blóðinu á hreyfingu og reyna dáldið á hjartað og allt þetta. Svo ég tók smá power-hjólatúr. Askimbadet er í um 8 km fjarlægð frá Godhemsplatsen og ég náði að hjóla þangað á um 20 mínútum, sem verður að teljast býsna gott! Þegar þangað var komið var lítið annað að gera en að henda sér í sjóinn. Það var ferlega gott, þó að vatnið hafi verið í það kaldasta (18 gráður). En fullkomin fyrsta dýfa ársins.

28. maí 2011

MVI 1670

Laugavegurinn

Enn einu sinni kemur upp hugmynd um að loka Laugaveginum að hluta fyrir bílaumferð í takmarkaðan tíma. Enn einu sinni setur verslunarfólk í götunni sig upp á móti slíkum hugmyndum. Í þetta sinn er sá hópur reyndar í minnihluta, en merkilega stór engu að síður. Ég skil ekki alveg hugsunina á hjá þeim. Þá þykir mér eitthvað vanta í pælingarnar hjá þeim sem vilja keyra niður götuna.

Nokkrir punktar:


• Hversu líklegt er, þegar ég keyri niður Laugaveg og keyri framhjá, t.d. Tiger, eða Bókabúð Máls og menningar eða Fataverslun Guðjóns, að það detti í mig, heyrðu já, mig vantar ostaskera/bók/nærbol og stökkvi inn í búðina. Það er ólíklegt, nema ég finni bílastæði akkúrat fyrir utan, en á því eru nær engar líkur.

• Hversu líklegt er, þegar ég rölti niður Laugaveg og geng framhjá fyrrgreindum búðum, að ég stökkvi inn í sömu erindagjörðum. Tja, þær eru a.m.k. talsvert meiri en ef ég væri að rúnta á bíl þessar leið.

• Hversu líklegt er, þegar ég keyri niður Laugaveginn, að ég finni laust stæði þar, hvað þá í einhverri umtalsverði nálægð við þá verslun sem ég ætla inn í.

• Hversu oft, þá er ég keyri á bíl niður í bæ, legg ég við sjálfan Laugaveginn en ekki í einhverjum hliðargötum við hann eða bílastæðahúsum. Tja, það er ekki oft.

• Hvaða gagn gerir það raunverlega verslun í götunni að hægt sé að keyra hana í gegn?

• Hversu hentugt er það í raun fyrir þá sem ætla að versla niðrí bæ að geta keyrt niður allan Laugaveginn?

• Á þeim kafla sem lokunin er ráðgerð, frá gatnamótunum við Vitastíg niður að gatnamótunum við Skólavörðustíg eru eingöngu 17 bílastæði við Laugaveg sjálfan. Hvað munar um þau?

Síðustu ár hefur það færst í vöxt að fólk vilji sitja við útiborð þegar veðrið er sæmilegt. Nokkrir veitingastaðir hafa reynt að koma upp einhverri slíkri aðstöðu en það eru yfirleitt nokkur borð alveg við vegginn, oní gangandi umferð við hliðina á bílaumferðinni. Ef bílaumferðin hverfur eykst væntanlega plássið undir þessa aðstöðu. Má ekki telja líklegt að fleiri leggi leið sína upp og niður Laugaveginn og staldri jafnvel við? Verða ekki einhver margfeldisáhrif af þessu? Meira pláss fyrir fólk til að staldra við -> fleira fólk sem staldrar við -> fólk eyðir auknum tíma við götuna = fleira fólk sem stoppar = aukin verslun? Eða er ég alveg að misskilja?

Það eru ekki margir sem lesa þennan blogg og væntanlega allir þeir hlynntir að gera Laugaveginn að göngugötu. Svo ég fæ væntanlega engin svör við þessum spurningum.

Röfl...

5. apr. 2011

Video-bloggur nr. 4

Sigurðarmál

Það er komið að Sigurðarmálum.

Minnugir lesendur bloggsins sjá nú kannski að hin árlega vorumfjöllun er óvenju seint á ferð í ár. Hún hefur yfirleitt komið í miðjum mars en nú er liðið smá á apríl. Ég reit reyndar á Facebook 22. mars: „Fokk! Ég held að vorið hafi verið að detta inn.“ Það varð vissulega breyting á veðrátttunni um það leyti en hún var nú samt óskaplega takmörkuð. Það er kannski hægt að segja að það hafi farið hægt af stað þann daginn. Þetta er samt nokkuð síðar, kannski viku síðar en yfirleitt og umskiptin sumsé hægari. En ég ætla að segja að vorið sé komið hér í Gautaborg. Og þó fyrr hefði verið. En þetta er enn það ómerkilegt að það kallar ekki á vorvísu strax.

1. apr. 2011

og enn einn póstur

Hjörtur Scheving leitar sér að íbúð og sendir fyrirspurn við auglýsingu á netinu. Hann sendir sjálfum sér afrit (öll heldur mér):

Vi har lyst til å se nærmere på denne boligen, er det mulighet å komme på visning?
Hilsen
Hjörtur SchevingHann fær svar um hæl:

Hei.

Det skal vi få til.
Kan du sende over litt info om deg/dere som er interessert?
Når kan du evt flytte inn om den skulle passe?
Passer det med visning på dagtid?

--
Med vennlig hilsen
Utleiemegleren Homansbyen

14. mar. 2011

Og enn af pósti

(#twitter) Ekki hætta dularfullar póstsendingar á netfangið mitt. Nú um daginn, 8. mars barst mér eftirfarandi:

Sæll Hjörtur

Við erum lítill hópur sem hyggst byggja og reka lítið einkasjúkrahús hér í Reykjavík. Undirbúningsvinnan er komin á fulla ferð.
XXXX gaf mér netfangið þitt, við töluðum saman um helgina.
Eingöngu verður um liðskiptaaðgerðir (hné- og mjaðmir) að ræða.

Við erum að líta í kringum okkur eftir góðum bæklunarlæknum sem gætu hugsað sér að flytja heim og taka þátt í framtíðaruppbyggingunni með okkur.

Hafi þetta vakið áhuga þinn vinsamlega sendu mér e-mail með símanúmerinu þínu og hvenær hentar að ég hringi í þig. Ég hef svo samband við þig í framhaldinu.


Leiðinlegt að missa af þessu tækifæri. En ég treysti mér bara ekki í liðskiptiaðgerðir eins og er.

Svo í dag kom þetta frá einhverri stúlku:


Sæll Hjörtur,

Ég kom með nótur fyrir tveimur takkaskópörum fyrir svona 3-4 vikum og ég hef ekki ennþá fengið þetta greitt inná reikninginn minn?

Tekur þetta langan tíma?Ég veit ekki hvaða takkaskó þessi stúlka er að tala um.

24. feb. 2011

Af fréttum

Ég get ekki orða bundist. Þó svo að fréttin komi lesendum á Íslandi lítið við og er ekki stórmál í sjálfu sér, er þetta einkenni á arfaslakri fréttamennsku á þessum vefmiðlum á Íslandi.

Hér er fréttin. En ég afrita texta hennar hér, ef hún skyldi verða uppfærð einhvern daginn.

Bankamaðurinn Ross McBride notaði afsláttarkort til að hlúa að bólgnum kynfærum sonar síns eftir að hafa sparkað bolta í hann.

Í febrúar 2008 var hinn 23 ára gamli McBride svekktur yfir að hafa ekki fengið Valentínusarkort frá kærustunni sinni. Í bræði sinni sparkaði hann eins fast og hann gat í fótbolta sem lenti milli fótanna á barninu.

Eftir nokkurn tíma tók McBride eftir að kynfæri barnsins höfðu bólgnað upp. Þá tók hann afsláttarkortið sitt úr veskinu, braut það og reyndi að ýta á bólguna. Þegar ekkert gekk reyndi hann loks að nota horn kortsins til að stinga á bólgurnar.

Drengurinn var færður á sjúkrahús með mar, bólgur og nokkur sár eftir björgunaraðgerðir McBride. Hann hefur náð sér að fullu.

McBride var ákærður fyrir athæfi sitt en saksóknari í Glasgow tók sérstaklega fram að málið væri alls ekki kynferðisafbrotamál.


Við lesturinn fannst mér eitt og annað undarlegt í fréttinni. Ég hugsaði sem svo: Það hlýtur eitthvað að vera að þessum manni. Svo ég sló nafni mannsins upp á Google News. Ég fann fjórar frásagnir af þessu og viti menn, þar kom eitt og annað fram sem vantaði í íslensku þýðinguna. Þýðingin er væntanlega unnin úr þessari frétt.

Í fyrsta lagi kemur þar fram að umræddur maður er alls ekki bankamaður, heldur frá Clydebank í Skotlandi! Annað er líka stórmerkilegt að aðeins einni málsgrein er sleppt í þýðingunni. Hins vegar er óskiljanlegt afhverju einmitt þeirri málsgrein er sleppt: "Mcbride, who suffers from autism, admitted using culpable and reckless conduct."

Þetta gefur málinu að mínu mati ákveðna skýringu. Stórfurðuleg hegðun bankamannsins frá Skotlandi er hér skýrð með einu orði: Autism, einhverfa.

Kannski er enska fréttin sem þýtt er úr heldur ekki nógu nákvæm. Ef aðrar fréttir af málinu eru lesnar kemur eftirfarandi fram: "The court was told that McBride, who admitted culpable and reckless conduct at an earlier hearing, suffers from autism, emotional difficulties and low intelligence." En að maðurinn sé með einhverfu á nú að vera nóg til að álykta: Já ókei. Ég skil.

Maður spyr sig: Hversu miklu er eiginleg sleppt í fréttum sem eru þýddar í íslenskum fjölmiðlum?

23. feb. 2011

Eina ósk

(#twitter) Eftir að ég flutti til Svíþjóðar pirraði það mig í fyrstu hversu allt þarf að ræðast hér. Það er aldrei hægt bara að kýla á eitthvað öðruvís en að ræða það í þaula fyrst. Íslendingurinn ég leit auðvitað á þetta sem ferlegan ókost. Óþarfa röfl sem gerði ekkert annað en að tefja málin. Stundum finnst manni að Svíar reyni að gera vandamál úr öllu. Allt þarf að skilgreina og öllu þarf að gefa nafn.

Öðruvísi mér áður brá. Ég sé nú kostina við þetta. Svíar ræða nefnilega kjarna málsins og nálgast hann frá sem flestum hliðum. Svarið þarf nefnilega ekki bara að vera já/nei, jú/víst, svart/hvítt. Það eru nokkrar hliðar á öllum málum og upplýst ákvörðun byggist á því að þær hafi allar verið skoðaðar. Auðvitað getur þetta gengið út í öfgar og málin rædd endalaust án þess að nokkur botn fáist í þau. En yfirleitt næst niðurstaða, einhver concensus. Eftir að hafa búið hér í Svíþjóð síðustu fjögur árin vildi ég óska að umræðuhefðin á Íslandi væri eitthvað í líkingu við þá hér en ekki bara hin svarhvíta jú/nei/víst/fífl-umræða.

Reyndar eru málefnin oft þaulrædd á Íslandi. En yfirleitt á nákvæmlega sama hátt, hvert sem málefnið er. Það er sama hvað er rætt, A, B, C eða D. Umræðan er alltaf E:

A. Eigum við að samþykkja eða hafna Icesave-samningum?
B. Hvers vegna eigum við/eigum við ekki að ganga í ESB?
C. Hvernig eigum við að leysa stjórnlagaþingsmálið?
D. Eigum við að virkja eða ekki?

E. Forsetinn er fífl, ríkisstjórnin er fífl, samfylkingin/sjálfstæðisflokkurinn/VG/framsókn er fífl, blaðamenn eru fífl og á mála hjá hagsmunaaðilum, það er engin alvöru blaðamennska til á íslandi, þú ert kommúnísti, þú ert femínisti, þú studdir útrásina, jú, nei, víst, fífl....

Þegar boðið er upp á rökræður um málefnin eru yfirleitt farin sama leiðin, t.d. í þáttum á borð við Kastljósið: Málefnið skal ræða og fenginn einn fulltrúi sem er sannfærður á móti og annar samfærður með. Þannig er umræða pólaríseruð og raun og veru ekki boðið upp á annað en: já/nei/jú/víst/fífl-umræðuna. Niðurstaðan sem áhorfendur fá er sú að það er hægt að vera með og á móti málinu, en yfirleitt hefur fólk ekki hugmynd um hvers vegna. Það er þessi MORFÍS-hugsunarháttur. Þú talar gegn málinu til að tala gegn því, ekki til að upplýsa um ókosti þess. Þetta sést svo kristaltært á Alþingi. Stór hluti þingmanna sjálfstæðisflokksins talar gegn ESB og Icesave-samningum þrátt fyrir að vera hlynntur þeim. Vinstri-Grænir tala með áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Icesave-samningum og Umsóknarferlinu fyrir ESB þrátt fyrir að vera gjörsamlega andvígir þeim. Samfylkingin talar gegn þjóðaratkvæðagreiðslum sem þeir hafa þrástagast á til þessa. Það er helst framsóknarflokkurinn er sem trúr sinni skoðun, hver sem hún reyndar er!

Það þarf að ræða málefnin sjálf, vega og meta, ræða ókostina og kostina. Auðvitað má maður vera með og á móti, en maður þarf að gera sér og öðrum grein fyrir hvers vegna. Og manni má snúast hugur. Annars er enginn tilgangur að ræða málin.
Þetta er svona það sem ég óska mér. Hvað er hægt að gera til að gera þá ósk að veruleika?

17. feb. 2011

Af kvikmyndum: Le hérisson

Fórum í Hagabíó í gærkvöldi. Þangað förum við allt of sjaldan. Þar er hægt að setjast niður og njóta góðra veitinga áður en maður kíkir á myndir sem ekki rata í kómersjal kvikmyndahúsin. Sem minnir mig á það: Eru ekki allir duglegir við að kíkja í Bíó Paradís reglulega?

En í gær fórum við sum sé að sjá frönsku kvikmyndina Le hérisson (Broddgölturinn). Ég vissi nákvæmlega ekkert um myndina áður en við sáum hana, fyrir utan að hún væri byggð á skáldsögunni L'élégance du hérisson sem var metsölubók hér í Svíþjóð í fyrra, Igelkottens elegans í sænskri þýðingu, og jú að hún hefði fengið 100% í einkunn á rottentomatoes.com.
Og nema hvað, Broddgölturinn er glæsileg kvikmynd, angurvær, blíð, falleg með settlegum húmor, uppfull af mikilfenglegum smáatriðum sem hverfast saman í ákveðið súbstans af algjöru áreynsluleysi (alltaf gaman að bulla útúr sér bókmenntafræði). Eins og japönsk matargerð, sem kemur jú talsvert fyrir í myndinni.

Myndin er fyrsta kvikmynd leikstjórans, Mona Achache, í fullri lengd. En ég ætla að fylgjast með henni í framtíðinni.Annars var skondið að í bíósalnum í gær vorum við Jóhanna og svo um 30 konur um sextugt. Myndin á nú samt að höfða til allra aldurshópa og allra kynja, ef því er að skipta.16. feb. 2011

Af Google

(#twitter) Mér finnst Google alveg ágætt. Ég er mestmegnis gúglaður.

Í nokkurn tíma hefi ég vitað hvernig leita skal eftir síðum undir tilteknu landsléni, nú eða finna út hvað eitt gallon eru margir lítrar, eða reikna út flókin dæmi eða finna skilgreiningar á hinu og þessu eða fletta upp sýningartímum í bíó.

Nýlega uppgötvaði ég nokkrar leitaraðgerðir á Google:

T.d. að tékka á stöðunni á tilteknu flugi, sjá hvenær sólin kemur upp á einhverjum stað eða hvað klukkan er í fjarlægri borg.

Allt þetta með einni leit og niðurstaðan birtist efst án þess að maður þurfi að smella sig neitt áfram.

Svona finnst mér skemmtilegt.

Enn af pósti

Í dag fékk ég enn einn dularfulla tölvupóstinn:

Mundu að skrá þetta allt niður í símann þinn og vertu með inneign á honum á leiðinni og hafðu hann full hlaðinn, skráðu í símann allar upplýsingar varðandi flugið, vegabréfsnúmerið þitt og veru með einvherja dollara með þér þannig að þú getur hringt úr tíkallasíma ef á þarf að halda.

Það sem ruglaði mig fyrst í ríminu var að undir þetta ritar svo einhver Mummi. Minn elsti vinur heitir Mummi og hann á það til að gefa góð ráð. Við nánari skoðun mátti sjá að þetta var ekki minn Mummi.

11. feb. 2011

AbbyStundum kemur til okkar í heimsókn kisan af neðri hæðinni. Við köllum hana Abby, afhverju veit ég ekki. Þetta er korkaður köttur sem þykir held ég miklu skemmtilegra hjá okkur en heima hjá sér. Hún er líka stundum lokuð úti frammi á gangi. Þá bjóðum við henni í heimsókn.

9. feb. 2011

Af skokki

(#twitter) Ég las í gær á einhverjum vefmiðlinum frétt þar sem sagt var frá skokkara sem lamdi tólf ára dreng. Það sem mér þótti þó merkilegast í fréttinni að náunginn lamdi drenginn af því að hann var að elta hann og hía á hann. Svona er þetta á íslandi. Skokkarar eru svo sjaldséðir að það er beinlínis híað á þá þegar þeir sjást úti á götu.

Undarlegt land.

8. feb. 2011

Að fæða geit

Um daginn vaknaði ég eftir furðulegustu draumfarir. Mig dreymdi að ég væri staddur á hanboltaleik, í kvennaboltanum, og ein af leikkonunum var há svört kona með sítt hátt og langar lakkaðar neglur. Svo skyndilega hné konan niður og byrjar að fæða. En hún fæðir ekki barn heldur geit, og varla neinn kiðling heldur fullvaxna geit. Ég var á þessum handboltaleik með nokkrum vinum og verð alveg forviða. Eftir leikinn liggur leiðinn svo í búðaráp, en ég er mjög upptekinn af atburðinum og vil ræða þetta ítarlega og spyr vinkonu mína, sem hefur reyndar meiri áhuga að versla, í sífellu hvernig það megi vera að manneskja og geit geti eðlað sig. Það nái engri átt og undir hvaða kringumstæðum verður slíkt. Ég fer að leiða hugann að því hvort konan hafi leikið í dýraklámi eða að hafur hafi nauðgað henni. Því mér dettur ekki í hug að kona hafi mök við hafur af fúsum og frjálsum vilja eða af frygð.

Nú er spurninginn: Hvernig má ráða í þetta?

6. feb. 2011

Hinn Hjörtur?

Einn er fastur liður hjá mér, nánast í hverri viku. Ég fæ sendan póst sem ekki er ætlaður mér, heldur einhverjum öðrum Hirti. Svona er þetta búið að vera í circa þrjú ár. Í fyrstu hélt ég að um einhvern einn Hjört væri að ræða sem hefði fyrir mistök gefið upp mitt netfang í sífellu. Eftir að hafa rakið mig í gengnum efni þessara tölvupósta sýnist mér hins vegar að um nokkra Hirti hljóti að vera að ræða. Ég ákvað að kanna málið betur.

Fyrstu póstarnir sem bárust mér fjölluðu mikið um golf. Einhverjir gaurar að skipuleggja golfferðir saman og álíka. Svo fóru að berast mér málefni einhvers golfklúbbs og svo loksins ítarlegur póstur um málefni Úthlíðarklúbbsins, sem svo er kallaður. Það þurfti ekki mikla rannsóknarvinnu til að komast að því að þessi póstur átti að fara á Hjört Vigfússon, formanns áðurnefnds klúbbs.

Nú, svo fékk ég áætlun frá einhverri Þóru Fríðu um einhverja námshelgi á Stokkalæk. Í póstinum kom eftirfarandi fram: „Stokkalækur er tónlistarsetur sem þau reka hjónin Inga Ásta Hafstein og Pétur Hafstein.“ Eftir smá gúggl komst ég að því að þarna hafi pósturinn líkega verið ætlaður Hirti Yngva Jóhanssyni, væntanleg þeim sem er píanóleikari í Hjaltalín. Námshelgin hefur væntanlega verið sú sem getið er hér. Þetta virðist hafa verið bráðskemmtilegt og Hjörtur skilaði sé í ferðina þrátt fyrir að hafa ekki fengið póstinn.

Svo voru það leiðismálin. Margir póstar sem fjalla um legstein sem, að því er virðist, börn Gísla Andréssonar frá Hálsi í Kjós og Ingibjargar Jónsdóttur frá Gemlufalli í Dýrafirði voru að panta. Mér sýnist að þann póst hafi hann nafni minn Gíslason átt að fá. Þetta var fallegur skjöldur sem þau voru búin að velja á leiðið. Stuttu eftir leiðismálið sendi Sigríður Kristín Gísladóttir, sem er væntanlega systir Hjartar, netföng allra systkinanna, þau virðast vera átta í allt (Guðmundur, Jón, Halldór, Ágústa, Sigríður Kristín, Gísli Örn, Andrés Freyr og Hjörtur). Stór systkynahópur. En ég lét Sigríði Kristínu vita af því að netfangalistinn hafi farið í rangar hendur, sem sagt mínar. Engu að síður fæ ég nokkrum mánuðum síðar póst frá Jóni Gíslasyni um dómsmál sem þau systkinin höfðu átt í. Nú ég var auðvitað orðinn forvitinn um þessa fjölskyldu sem mér fannst ég líka farinn að þekkja ágætlega svo ég fletti upp og las um dómsmálið. Því lauk nú ekki vel fyrir þau. Ég vona að rangar tölvupóstsendingar hafi ekki haft áhrif á dómsniðurstöðu!

Jæja, þá er það Hjörtur Hjartarson, nemandi við FB, fæddur 1981. Hann var að biðja um yfirlit yfir þau fög sem hann hafði lokið við FB. Sem betur fer, fyrir okkur báða, eru upplýsingar um slíkt víst ekki sendar með tölvupósti, en hann fær þó að vita hversu mörgum einingum hann hafi lokið... þær voru fjölmargar og Hjörtur greinilega duglegur strákur (en auðvitað veit ég ekki hvaða einkunnir hann hefur fengið). Ekki fékk ég fleiri pósta um þetta mál. En að sjálfsögðu var forvitni mín vakinn um nafna minn Hjartarson. Hvaða gaur var þetta? Kom í ljós að um er að ræða Hjört I. Hjartarson sem starfar á skrifstofunni hjá ÁTVR og virðist líka halda úti þessari vefsíðu.

Jæja, þá eru það málefni rótarýklúbbsins. Hinn þriðja ágúst í fyrra sendir Ólafur Egilsson póst á einhverja Margréti Friðriksdóttur um einhverja heimsókn hinn 3. september. Já! Afmælisdaginn minn, þetta hlaut þá að koma mér við. En nei, um var að ræða heimsókn umdæmisstjóra Rótarý 2010-2011 til Rótarýklúbbs Seltjarnarness. Það var þá ekki flókið mál að fletta því upp að sá póstur átti að fara á Hjört Grétarsson, upplýsingatæknistjóra. Ekki fann ég mikið um hann með gúggli, en sýnist hann starfa á Upplýsingatæknimiðstöð Reykjavíkurborgar, fyrir nú utan að hann er í rótarýklúbbi á Seltjarnarnesi.

Seinna í ágúst bað Agnes Johansen, framleiðandi hjá Blueeyes, einhvern Hjört um „Daily Reports“ fyrir fimmtudag og föstudag. Ég veit ekki meira um það mál eða um hvaða Hjört er að ræða.

Nú um daginn barst svo erindi á sænsku frá Ninu Åkerberg hjá Transportstyrelsen í Örebro um ökuskírteinið mitt. Eða svo hélt ég í fyrstu, því eðlilega tók ég þetta fyrst til mín. Fór að hafa áhyggjur um að ég hefði týnt ökuskírteininu mínu eða álíka. Þegar ég fór að rýna í póstinn sá ég þó að þetta hlyti að hafa átt að fara á einhvern enn einn Hjörtinn. Google segir mér að það sé einhver Hjörtur Oddsson læknir í Örebro. Gæti verið hann. Kannski, kannski ekki.

Skömmu fyrir áramót barst mér tilkynning frá Velje BK í Danmörku um að einhver Haukur Páll væri velkominn til reynsluæfingar hjá liðinu í vikutíma í janúar. Ég er ekki alveg 100% viss hvaða Hjörtur átti að fá þann póst, en mér dettur helst í hug Hjörtur Freyr Vigfússon, framkvæmdastjóri Vals, en einhvern Hauk Pál, fyrrum Þróttara, má finna í herbúðum Vals. Mér sýnist líka að umræddur Haukur Páll hafi komist á æfingar hjá danska liðinu þrátt fyrir að boðskortið hafi lent hjá mér. Það var nú gott.

Sigþór, einhver pípulagnameistar, sendi mér fyrir stuttu þjónustusamning um vatnsúðakerfi. Ég svaraði honum og afþakkaði pent. Enda hef ég lítið við slíkt að gera, en benti honum á að tala við einhvern nafna minn.

Þá var mér send, á spænsku, ítarleg ferðaáætlun fyrir einhvern Hjört Jónsson til Santiago. Nokkrir kostir voru í boði, m.a. í gegnum París og Madríd. Þetta virðist spennandi ferð og ég óska nafna mínum góðrar ferðar (Hann átti að leggja af stað nú rétt fyrir helgi og ekki snúa aftur fyrr en 21. mars! Vona að hann hafi fengið flugmiðann og sé kominn á áfangastað).

Svo í dag er ég búinn að fá sent nokkrum sinnum lykilorð á áskriftarvef 365 miðla. Væntanlega einhver Hjörtur sem hefur gefið upp rangt netfang í upplýsingunum þar. Virðst hafa gleymt lykilorðinu og búinn að þrábiðja um nýtt. Vonandi hefur hann bara hringt í þá út af þessu. En nafni, ef þú ert að lesa þá er lykilorðið in3JHtz9.

Þetta er svona dæmi um það sem mér hefur borist bara síðasta árið. Þetta er mun meira og margt torlæst og dularfullt. Ég var satt að segja orðinn þreyttur og pirraður á öllum þessum röngu póstsendingum, þar til ég fór að skoða þetta betur og reyna að grafa þessa Hirti upp. Ég auðvitað svara öllum og reyni að leiðrétta mistökin, segi að pósturinn hafi sennilega ekki átt að fara til mín. En allt kemur fyrir ekki. Ég fæ þá bara póst til einhvers enn annars Hjartar í staðinn.

Hvað fæ ég næst? Aldrei að vita. En ég pósta því auðvita öllu hér á blogginn um leið!

4. feb. 2011

Hráskinnaleikur?

(#twitter) Á undanförnum dögum hef ég heyrt marga segja eitthvað misgáfað um tónlistarmenntun og tónlistarlíf í landinu. Nokkrir aular voru eitthvað að skammast út í styrki til tónlistarmála og sögðu sem svo: Bíddu, er ekki tónlist að skila svo rosalegum tekjum? Hvers vegna þarf hún þá að vera á styrkjum?

Hálfvitar.

Annars hef ég verið að velta fyrir mér orðinu „hráskinnaleikur“.
Eftir því sem ég best veit er hráskinnaleikur upphaflega leikur þar sem nokkrir stilla sér í hring, umhverfis einn í miðjunni og kasta svo á milli sín bolta sem sá í miðjunni á að reyna að ná með einum eða öðrum hætti.

Hráskinnaleikur hefur oft verið notað sem líking um starfsaðferðir í stjórnmálum, enda ekki skrítið. Pólitískur hráskinnaleikur myndi þá væntanlega vísa til þess að einstaklingur eða flokkur reyni hvað sem er til að ná völdum eða áhrifum og beitir til þess ýmsum brögðum.


Hins vegar hefur mér heyrst fólk nota þetta hreinlega bara yfir allt sem stjórnmálamenn gera. Ef stjórnmálamaður gerir eitthvað er það bara kallað hráskinnaleikur. Það má vel vera að eitthvað sé til í því. Kannski er pólitíkin bara eintómur hráskinnaleikur. En svo má líka vera að fólk einfaldlega þekki ekki alveg merkingu orðsins.

Klækjabrögð, prettir, lygar og pólitískt ofbeldi, getur í mínum huga allt verið dæmi um hráskinnaleik í stjórnmálum.

Margir nota orðið hins vegar um hluti sem ég myndi frekar kalla þvaður, röfl, deilur um keisarans skegg, málþóf, leikræna tilburði, tímasóun, rifrildi o.s.frv.

31. jan. 2011

Kaupæðisleg

(#twitter)(#twitter)Við fórum í göngutúr í gær ásamt Tomas, Linu og Fabian. Hoppuðum í älvsnabben og ætluðum að taka smá rölt á Hisingen. Í bátnum fundum við auglýsingu fyrir myndavél sem við erum búin að tala um lengi að kaupa okkur. Svo við tókum bátinn bara alla leið að Nordstan og fjárfestum í einni. Réttlætingin var auðvitað sú að þarf að vera til almennileg myndavél á heimilinu til að dokúmentera fyrstu ár barnsins. Svo er hægt að taka í þessu HD-vídeó til að senda ömmunum á Íslandi fyrstu mánuðina. Það er nauðsyn!

Annars erum við líka búin að vísítera kvikmyndahátíðina síðustu daga. Sáum í kvöld Exit through the gift shop, sem er þrælskemmtileg. Brim í gær, sem er bráðgóð og 127 tímar í fyrradag, sem var fulllöng en þokkaleg. Kannski kvikmyndablogga ég um þessar ræmur einn daginn. Kannski, kannski ekki.

29. jan. 2011

Gotland

(#twitter) Jú, við erum búin að ákveða að halda sumarfrí Gotlandi í sumar. Búin að tala um þetta lengi og látum nú verða af. Tomas, Lina og Fabian koma og vonandi Finnur, Gulla og Saga. Húsið hefur verið bókað og ég búinn að gúggla öllu upp á Google Maps eins og lög gera ráð fyrir. Þetta lítur bara vel út. Það er undarleg tilfinning að skipuleggja ferðalag með ófæddu barni. Maður veit ekkert um hvernig er að ferðast með ungabarn, en reynir að skipuleggja allt út frá því. Reyndar er skipulagið ekki mikið öðruvísi en oft áður. En maður er svona aðeins að hugsa um hversu langt er í helstu nauðsynjar og neyðarþjónustu, svo uppá öryggið. Svo er ráðgert að tveggja og þriggja ára verði með í för og maður er svona að skoða hvort ekki sé hægt að skoða dýr í nágrenninu og hversu barnvænar strandirnar í nágrenninu eru.

Jú, get ekki annað sagt en að þetta sé allt spennandi.

Hér er húsið sem við gistum í. Ekki þessi vanalegi rússrauði tékofi eins og allsstaðar er heldur kalkað steinhús, sem er víst dáldið Gotlands-style: