28. maí 2011

Laugavegurinn

Enn einu sinni kemur upp hugmynd um að loka Laugaveginum að hluta fyrir bílaumferð í takmarkaðan tíma. Enn einu sinni setur verslunarfólk í götunni sig upp á móti slíkum hugmyndum. Í þetta sinn er sá hópur reyndar í minnihluta, en merkilega stór engu að síður. Ég skil ekki alveg hugsunina á hjá þeim. Þá þykir mér eitthvað vanta í pælingarnar hjá þeim sem vilja keyra niður götuna.

Nokkrir punktar:


• Hversu líklegt er, þegar ég keyri niður Laugaveg og keyri framhjá, t.d. Tiger, eða Bókabúð Máls og menningar eða Fataverslun Guðjóns, að það detti í mig, heyrðu já, mig vantar ostaskera/bók/nærbol og stökkvi inn í búðina. Það er ólíklegt, nema ég finni bílastæði akkúrat fyrir utan, en á því eru nær engar líkur.

• Hversu líklegt er, þegar ég rölti niður Laugaveg og geng framhjá fyrrgreindum búðum, að ég stökkvi inn í sömu erindagjörðum. Tja, þær eru a.m.k. talsvert meiri en ef ég væri að rúnta á bíl þessar leið.

• Hversu líklegt er, þegar ég keyri niður Laugaveginn, að ég finni laust stæði þar, hvað þá í einhverri umtalsverði nálægð við þá verslun sem ég ætla inn í.

• Hversu oft, þá er ég keyri á bíl niður í bæ, legg ég við sjálfan Laugaveginn en ekki í einhverjum hliðargötum við hann eða bílastæðahúsum. Tja, það er ekki oft.

• Hvaða gagn gerir það raunverlega verslun í götunni að hægt sé að keyra hana í gegn?

• Hversu hentugt er það í raun fyrir þá sem ætla að versla niðrí bæ að geta keyrt niður allan Laugaveginn?

• Á þeim kafla sem lokunin er ráðgerð, frá gatnamótunum við Vitastíg niður að gatnamótunum við Skólavörðustíg eru eingöngu 17 bílastæði við Laugaveg sjálfan. Hvað munar um þau?

Síðustu ár hefur það færst í vöxt að fólk vilji sitja við útiborð þegar veðrið er sæmilegt. Nokkrir veitingastaðir hafa reynt að koma upp einhverri slíkri aðstöðu en það eru yfirleitt nokkur borð alveg við vegginn, oní gangandi umferð við hliðina á bílaumferðinni. Ef bílaumferðin hverfur eykst væntanlega plássið undir þessa aðstöðu. Má ekki telja líklegt að fleiri leggi leið sína upp og niður Laugaveginn og staldri jafnvel við? Verða ekki einhver margfeldisáhrif af þessu? Meira pláss fyrir fólk til að staldra við -> fleira fólk sem staldrar við -> fólk eyðir auknum tíma við götuna = fleira fólk sem stoppar = aukin verslun? Eða er ég alveg að misskilja?

Það eru ekki margir sem lesa þennan blogg og væntanlega allir þeir hlynntir að gera Laugaveginn að göngugötu. Svo ég fæ væntanlega engin svör við þessum spurningum.

Röfl...

Engin ummæli: