19. okt. 2012

Verst lagði bílinn

Ég var byrjaður að safna myndum af illa lögðum bílum sem hafa orðið á vegi mínum á göngutúrum mínum um borgina. En búið er að taka af mér ómakið. Á Facebook má finna hópinn Verst lagði bílinn [sic] þar sem fólk er hvatt til að senda inn myndir af illa lögðum bílum.

Látum ekki þar við sitja. Setjum upp rúðuþurrkurnar á slíkum bílum er verða á vegi okkar. Svona smá skaðlaus áminning.

En kannski ég sendi inn myndir líka hér af og til. T.d. þessa:


Já, eða þessa:



9. okt. 2012

Hjólandi í umferðinni

Ég boðaði umfjöllun um hegðun hjólreiðafólks í umferðinni.

Eins og lesendur hafa tekið eftir, hef ég nokkuð kvartað yfir slöku aðgengi fyrir hjólandi og bent á leiðir sem bæta mætti til að liðka fyrir reiðhjólaumferð. Það er víða beinlínis hættulegt að vera á hjóli í umferðinni.

En það er ekki bara slæmt aðgengi sem skapar hættur fyri hjólreiðafólk. Oft er það hegðun þess sjálfs sem skapar mestu hættuna. Því miður virðist sem að margt hjólreiðafólkið, annað hvort kann ekki að hjóla, eða virðist einfaldlega ekki þekkja þær (fáu) reglur sem gilda um hjólandi í umferðinni.

Þeim er kannski vorkunn. Umferðarreglurnar eru ekki beinlínis skýrar hvað þetta varðar og eiginlega alveg úr takti við raunveruleikann. T.d. eiga hjólandi að hjóla á götunni en þeira mega líka hjóla á gangstéttinni. Þá ber þeim að hjóla hægra megin og í sömu átt og bílaumferð, en það er þó ekki alltaf skylda.

Það er of algengt að fólk hjóli á gangstétt. Það er mjög víða að pláss á götum er alveg nóg þar sem fólk streitist samt við að hjóla á gangstéttinni. Þá nota fæstir bjöllu til að láta vita þeir að geysast framhjá á hjóli. Það er stórhættuleg hegðun.

Á vefnum hjólreiðar.is er að finna mikið magn gagnlegra upplýsinga um hjólreiðar. Þar má m.a. finna langa og ítarlega grein um rétta hegðun hjólandi í umferðinni. Það er því óþarfi að ég fjalli í löngu máli um það hér heldur vísa ég umrædda grein.

Þá vísa ég í 39. og 40 grein umferðarlaga þar sem fram koma sérreglur um reiðhjól.

Í lokin læt ég mér nægja að nefna nokkur atriði sem ekki virðist vanþörf á að minna á, miðað við það sem ég hef séð af samferðafólki mínu í umferðinni:

1. Hjólaðu á götunni og haltu þig eins langt til hægri og þú getur. Ef umferð bíla er of hröð eða þung máttu hjóla á gangstéttinni, en þá verðurðu að taka tillit til gangandi vegfarenda, sem hafa forgang. Þú átt að víkja fyrir þeim, ekki öfugt!
2. Notaðu ljós, að framan og aftan.
3. Notaðu bjöllu. Það er ekki dónaskapur heldur sjálfsögð kurteisi.
4. Gefðu merki þegar þú beygir, með því að rétta út arminn í þá átt sem þú ætlar.
5. Á sumum gangstéttum má ekki hjóla og þá er það merkt sérstaklega. T.d. má ekki hjóla á gagnstéttinni við Laugaveg og Bankastræti, milli Hlemms og Læjargötu, hvorki upp né niður.

Annars vísa ég aftur í greinina á hjólreiðar.is

Góðar stundir

7. okt. 2012

Feðgar á ferð II

Við feðgar fórum á labb eins og oft áður og ég vopnaður myndavélinni. Í þetta sinn lá leiðin vestureftir, úr Síðumúla og niður í bæ. Leiðin var reyndar í flesta staði hin ágætasta til göngu. Breiðir og góðir stígar á milli húsa og yfir tún. Aðgengi fyrir kerruna yfirleitt gott, engir götukantar að þvælast fyrir okkur eða ljósastaurar á miðri gangstétt.

Þó voru nokkrir punktar sem vert er að minnast á:

Gatnamót Miklubrautar og Lönguhlíðar

Þessi gatnamót eru galin! Það er svo sem altalað. Þarna er troðið fimm akreinum á milli húsanna og svo gangstétt nánast oní götunni. Með aukinni hjólamenningu er svo orðin töluverð hjólaumferð þarna, sér í lagi meðfram Miklubrautinni. Þarna er hins vegar engin merkt hjólaleið (hún er hins vegar á Lönguhlíðinni, efni í annan pistil), svo tæknilega ætti hjólreiðafólk að hjóla á götunni. En það gerir nú enginn heilvita maður, enda lífshættulegt. Svo allir hjóla á gangstéttinni. Sú umferð fer nær öll norðanmegin, þó að mun meira pláss sé sunnanmegin. En þar er enginn almennilegur hjólastígur, heldur bílastæði og háir götukantar. Kannski helgast þetta líka af því að þessi umferð hjólandi kemur vestanúr eftir Gömlu Hringbraut, þar sem henni er beint undir Snorrabraut og meðfram Klambratúni (hugmyndin var held ég að beina henni undir Bústaðaveginn og suðurmeð Miklubraut, en þá þarf að taka á sig hressilegan krók, sem fæstir gera).

Jæja, þá er ég búinn að útskýra og afsaka umferð hjólandi þarna. Þá get ég birt hina myndina:

Þetta er sum sé tekið í vestur á gagnamótum Miklubrautar og Lönguhlíðar. Hér hef ég hjólað sjálfur, bæði til austurs og vesturs. Um daginn var ég að hjóla úr vinnunni og mætti einmitt öðrum hjólandi, akkúrat þar sem þessi á myndinni er. Þar lá við slysi. Hvorugur okkar var á miklli ferð, engu að síður þurftum við að sveigja hart hvor hjá öðrum til að rekast ekki á og þá munaði litlu að hinn aðilinn stýrði beint út á götu.

Það blasir auðvitað við að þetta horn hentar enganveginn til hjólreiða. Þrátt fyrir það er umferð hjólandi hér heilmikil allan daginn, eins og ég útskýri hér að ofan. Þetta verður að laga. Auðvitað ætti bílaumferðin að fara niður í stokk hér, sem ég held reyndar að sé áætlað. En það er langt þart til slíkar framkvæmdir hefjast og áður en það er gert þarf að laga þetta horn. Þetta er ekki bara hættulegt vegna hjólandi umferðar. Gangandi vegfarendur eru hér í hættu.

Best væri auðvitað að almennileg hjólabraut yrði útbúin, helst sunnanmegin við Miklubrautina. En í millitíðinni ætti a.m.k. að koma einhverju grindverki fyrir til að verja gangandi vegfarendur, og svo einhverri hraðahindrun til að hægja á umferð hjólandi. Þetta þarf ekki að að vera flókið eða kosta mikið.

Rauðarárstígur - Miklabrauð

Þegar áfram er haldið í vestur kemur maður fljótlega að horni Rauðarárstígs og Miklubrautar. Þar er ekki mikið pláss heldur en þar er þó smá grindverk eða múr sem aðskilur betur gangandi og akandi. En hér er sömuleiðis hætta á ferðum sökum blandaðrar umferðar hjólandi og gangandi. Hér er aðgerða þörf. Aftur væri besta lausnin að almennileg hjólaleið væri sunnanmegin og hér væri aðeins umferð gangandi. Þá þyrfti ekki að gera mikið hér til að bæta aðgengi.



Að öllu þessu sögðu er kannski rétt að fjalla um hegðun hjólreiðafólks í umferðinni og þær reglur sem um það gilda. Efni í næsta pistil!