9. okt. 2012

Hjólandi í umferðinni

Ég boðaði umfjöllun um hegðun hjólreiðafólks í umferðinni.

Eins og lesendur hafa tekið eftir, hef ég nokkuð kvartað yfir slöku aðgengi fyrir hjólandi og bent á leiðir sem bæta mætti til að liðka fyrir reiðhjólaumferð. Það er víða beinlínis hættulegt að vera á hjóli í umferðinni.

En það er ekki bara slæmt aðgengi sem skapar hættur fyri hjólreiðafólk. Oft er það hegðun þess sjálfs sem skapar mestu hættuna. Því miður virðist sem að margt hjólreiðafólkið, annað hvort kann ekki að hjóla, eða virðist einfaldlega ekki þekkja þær (fáu) reglur sem gilda um hjólandi í umferðinni.

Þeim er kannski vorkunn. Umferðarreglurnar eru ekki beinlínis skýrar hvað þetta varðar og eiginlega alveg úr takti við raunveruleikann. T.d. eiga hjólandi að hjóla á götunni en þeira mega líka hjóla á gangstéttinni. Þá ber þeim að hjóla hægra megin og í sömu átt og bílaumferð, en það er þó ekki alltaf skylda.

Það er of algengt að fólk hjóli á gangstétt. Það er mjög víða að pláss á götum er alveg nóg þar sem fólk streitist samt við að hjóla á gangstéttinni. Þá nota fæstir bjöllu til að láta vita þeir að geysast framhjá á hjóli. Það er stórhættuleg hegðun.

Á vefnum hjólreiðar.is er að finna mikið magn gagnlegra upplýsinga um hjólreiðar. Þar má m.a. finna langa og ítarlega grein um rétta hegðun hjólandi í umferðinni. Það er því óþarfi að ég fjalli í löngu máli um það hér heldur vísa ég umrædda grein.

Þá vísa ég í 39. og 40 grein umferðarlaga þar sem fram koma sérreglur um reiðhjól.

Í lokin læt ég mér nægja að nefna nokkur atriði sem ekki virðist vanþörf á að minna á, miðað við það sem ég hef séð af samferðafólki mínu í umferðinni:

1. Hjólaðu á götunni og haltu þig eins langt til hægri og þú getur. Ef umferð bíla er of hröð eða þung máttu hjóla á gangstéttinni, en þá verðurðu að taka tillit til gangandi vegfarenda, sem hafa forgang. Þú átt að víkja fyrir þeim, ekki öfugt!
2. Notaðu ljós, að framan og aftan.
3. Notaðu bjöllu. Það er ekki dónaskapur heldur sjálfsögð kurteisi.
4. Gefðu merki þegar þú beygir, með því að rétta út arminn í þá átt sem þú ætlar.
5. Á sumum gangstéttum má ekki hjóla og þá er það merkt sérstaklega. T.d. má ekki hjóla á gagnstéttinni við Laugaveg og Bankastræti, milli Hlemms og Læjargötu, hvorki upp né niður.

Annars vísa ég aftur í greinina á hjólreiðar.is

Góðar stundir

1 ummæli:

Króinn sagði...

Like like, vinur minn! Áfram svona.