17. jún. 2013

17. júní

Um daginn settumst við þrjú á tvö reiðhjól og tókum ferjuna yfir á bakkann hinum megin. Lindholmen og hjóluðum þaðan yfir til Eriksberg. Það eru nú ekki nema fimm mínútur að hjóla þar á milli. Það er virkilega skemmtilegt að sjá hvernig búið er að byggja upp hafnarsvæðið þarna. Flottur arketektúr og spennandi svæði. Þetta þurfum við að kanna nánar.
Nóa finnst rosalega gaman að fara með bátnum. Það er gaman að sameina hjólatúr og bátsferð og það finnst honum virkilega spennandi.


16. jún. 2013

LaxÍ dag rigndi og deginum var að mestu eytt heima. Jóhanna og Nói fóru saman út áður en regnið skall á. Þau urðu strandaglópar á Kardemumman. Ég fór á hjólinu til að hitta þau og til að kaupa lax. Hann var ég að útbúa núna og henda inn í ofn ásamt með kartöflum:

Ofnbakaður lax og kartöflur:

 Hálft kíló af kartöflum skornar í báta.
Sítróna, eða tvær
Ólifuolía, slatti
Tvær gulrætur
Tveir stilkar af rósmarín
Salt
Pipar

Hrært saman í skál þannig að hver bátur er þokkalega þakinn rósmarín. Fullt af öllu bara.
Inn í ofn í skúffu á 225 í 45 mín.  Hrært í og kreist úr meiri sítrónu í hálfleik

Laxbitar, nóg fyrir hvern og einn settir í eldfast mót
Kreist úr hálfri sítrónu yfir bitana
Salt og pipar
Nokkrar rósmarínnálar og matskeið af fersku timjan fínsaxað og borið á laxbitana
Inn í ofninn síðasta korterið eða svo

Þetta er ekki vont.

Nói borða spaghetti29. apr. 2013

Hægt mjakast það.

Hér verður ekki um annað rætt en veður. Vorið er ekki upp á marga fiska. Kaldur vindur. Reykjavíkurveður.

En það kemur í næstu viku. Þá er von á hita. Ég hlakka til.

21. mar. 2013

vetur endalaus

Ekki bólar á rauðum tölum. Ekki bólar á grænum laufum. Kaldur er marsinn. Kalt er lífið.

20. mar. 2013

dubbel americano

Americano uppgötvaði ég á Vegamótum árið 2000. Þegar ég var orðinn leiður á að klára úr espresso bollanum löngu á undan lattelepjandi sessunautum mínum. Hér á Biscotti fæ ég úrvals americano. Sælt er lífið.

16. mar. 2013

Spårvagn

Ég er mikill áhugamaður um almenningssamgöngur (mikið svakalega er orðið almenningssamgöngur langt). Ég vil helst búa í borg þar sem eru sem flestar tegundir almenningsvagna; strætó, sporvagnar og lestir, ofan- sem neðanjarðar. Ekki spillir fyrir ef einnig eru ferjur eða fljótabátar. Hér í Gautaborg er allt framangreint nema neðanjarðarlestir. Það er slíkt kerfi í Stokkhólmi, Tunnelbanan. Ég var eitthvað, einu sinni, að velta því fyrir mér hvort það hefðu aldrei verið hugmyndir um neðanjarðarlest í Gautaborg. Spurði Gautaborgara sem svöruðu svo að það væri ekki hægt: allur leirinn skilurðu.

Svo var ég að vafra um internetið, eins og maður gerir stundum, og lenti á stórmerkilegum þætti í Sveriges Radio, sem fjallar um einmitt þetta, hversvegna enginn neðanjarðarlest væri hér. Fyrir ykkur sem lesið þetta blogg, skiljið sænsku og hafið áhuga á almenningssamgöngum (les. Sigurður) lími ég hér tengil á þáttinn.

Er vagnstjórinn að bora í nefið?


4. mar. 2013

Audible

Sótti mér app í símann minn. Svona hljóðbókardæmi. Stofnaði aðgang að audible.com. Eitthvað amazon.com tengt. Nú get ég sótt mér bækur og hlustað í símanum. Það er bara nokkuð ljúft. Nú þarf ég aldrei að lesa bókstaf aftur.

2. mar. 2013

Kardemumma

Fórum bara á laugardagsflipp. Flóamarkaður, róló og kaffihús. Lífið gengur stundum upp. Rauðvín í kvöld. En fyrst hlaupa.

28. feb. 2013

Enn vetur

Það var kannski vorstemmari í loftinu um daginn. En veturinn er ekkert farinn. Enda á ekki að fara að vora fyrr en eftir um mánuð. Ég held ef smellt er á orðið "vor" í efnisorðalistanum megi finna samantekt á vorkomu liðinna ára. Hvað um það, hugurinn er á Ítalíu. Þangað var bókuð ferð í gær. Ólívur og vín!

26. feb. 2013

Sólardagur

Það er ekki beinlínis hlýtt úti, en sólin skín og það er einhver vorstemming í loftinu. Ætli það séu þó ekki tveir mánuðir í almennilegt vor hér. Þá sest maður nú væntanlega úti við biscotti og fær sér sinn dúbbel ameríkanó. Því varla fer maður að bregða út af vananum, þótt sól hækki á lofti.

25. feb. 2013

Flottustu fötin á Óskar - Myndir


Þeir voru hver öðrum glæsilegri, strákarnir á Óskarnum í nótt. Hér má sjá brot af því besta, og því versta, sem bar fyrir augu á rauða dreglinum. Hvað var Ben Affleck t.d. að spá? Veit hann ekki að það er 2013, eða...? Og Daniel Radcliffe, er hann ekkert að djóka með þessum skóm?
En eftir sýningu næturinnar vitum við hverju við megum eiga von á í herrafatatískunni á næstu misserum.
Flottir!

Morgunkaffið

Þetta er orðinn huggulegur vani. Dúbbel ameríkanó á biscotti. Í þetta sinn er helgarútgáfa Financial Times með í för. Maður er jú að stefna í að verða kapítalisti. Seisei já.

21. feb. 2013

Starta företag-dagen

Við Jóka sátum fyrirlestrardag í gær, Starta företag-daginn. Þar koma fulltrúar frá skattstjóranum, tryggingastofnun, fyrirtækjaskrá og tollinum og kynna manni ferlið við að stofna og reka fyrirtæki. Alveg hreint brilliant fyrirlestrar og heilmikið á þessu að græða.

Þetta er enn eitt dæmið um þennan bómullarhnoðra sem sænska kerfið hefur mann vafið inn í. Það er eiginlega sama hvað maður tekur sér fyrir hendur, alltaf fær maður þá tilfinningu að yfirvöld haldi tryggilega í höndina á manni alveg frá byrjun.

Þegar við áttum von á Nóa var það foreldragrúbban, kynningarfundur um fæðingarorlof og kynning á fæðingardeildinni. Alltaf er gengið úr skugga um að maður sé með á nótunum og fólkið þreytist ekki á að minna mann á að það sé að vinna fyrir okkur og við eigum að vera í bandi ef eitthvað er.

Kannski er þetta sama heima á Íslandi. En samt hef ég meira á tilfinningunni að viðhorf yfirvalda sé meira svona: Þú sèrð um þetta sjálfur og ef það klúðrast, þá reddum við þessu einhvernveginn.

Biscotti

Hér við hliðina á skrifstofunni er kaffihúsið Biscotti. Það er gott að setjast niður fyrir vinnu og byrja daginn á einum dubbel americano.

20. feb. 2013

Way Cup

Þetta er svona eitthvað súper trendí ekó kaffihús. Ágætt að sitja hér og sækja næringu í hlénu á Starta företag-dagen!

18. feb. 2013

Dagbók

Þetta er bjartsýni. En einu sinni notaði ég þetta blogg sem svona opna dagbók. Ég ætla að sjá hvað ég endist til að henda hingað inn hugrenningum mínum um tilveruna.

Það eru svona ákveðin tímamót núna þegar Nói er byrjaður á leikskóla og rútína komin í gang.

Sjáum til

14. feb. 2013

Miðaldra karl

Undanfarið, sem endranær, hefur verið nokkuð harkaleg umræða (sum sé á íslenska netinu, þar má ekki skrifa niður staf án þess að vaða yfir náungann með skít og drullu) um miðaldra karlmenn (sjá mynd 1).

Mynd 1. Evrópu, sem öðrum heimsálfum, er mest megnis stjórnað af miðaldra karlmönnum. Tengt er í myndina hjá Evrópuvefnum, europe.eu


Um árhundruð hafa miðaldra karlmenn verið hið ráðandi afl samfélaga og þeir eru það enn, þó hlutfallið hafi kannski eitthvað lækkað. Ein og ein miðaldra kona er farin að detta inn í hóp ráðandi afla (á Íslandi hétu þær um tíma Vigdís Finnbogadóttir og Jóhanna Sigurðardóttir (sjá mynd 2).

Mynd 2 af fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Takið eftir Þorsteini Pálssyni fremstum hægra megin. Þá 44 ára gamall. Er hann þarna miðaldra karlmaður? Tengt í mynd af vef stjórnarráðsins.

Er það nema von að fólk sé orðið þreytt á miðaldra körlum og þeirra framlagi til heimsins? Það er enda orðið svo að orðasambandið miðaldra karl er nú stundum notað til háðs (einkum af femínistum, væntanlega) og orð manna jafnvel afskrifuð á grundvelli þess að þau koma frá miðaldra karli. Sum sé, þar sem þeir sem hafa stjórnað umræðunni, og öllu öðru, undanfarna .... tja, mannlega tilvist, hafa verið miðaldra karlmenn, er margt fólk farið að frá grænar bólur þegar það sér miðaldra karla ætla að skipta sér af einhverju.

Það er þá sem ungur karlmaður, sem farinn er að eldast, spyr sig: Hvenær verður maður miðaldra? Hvenær verð ég hluti af þessum leiðindahópi miðaldra karlmanna? Til að fá svör gerði ég það er unga fólkið gerir í dag; ég spurði Facebook.

Það stóð ekki á svörum og þau voru ýmiss konar. Sumir settu miðaldur í samband við skokk, aðrir sem miðgildi eigin ævi og nefndar voru tölur eins og 40, 45 og 48. Meir að segja var talað um að formaður framsóknarflokksins væri miðaldra karl (árinu eldri en ég). Það er nefnilega þannig að þótt flestir virðist vita hvað miðaldra karlmaður er, eru færri með á hreinu hvenær karl verður slíkur. Hvenær hefst þetta aldursskeið? Hve lengi stendur það? Við hvað miðast það?

Til að finna frekari svör gerði ég það sem svo margir gera. Ég gúglaði. Svörin létu á sér standa en ég fann út eitt og annað. T.d. fann ég skilgreiningu á Wikipedia:
Middle age is the period of age beyond young adulthood but before the onset of old age.
Sum sé tímabilið á milli ungra fullorðinsára og elli. Og Wikipedia heldur svo áfram og fjallar um að lengi vel hafi fólk deilt um hvenær þetta æviskeið stendur yfir en nefnir þó sérstaklega þriðja fjórðung meðalævi manns. Sum sé að miðaldur byrjar þegar meðalævin er hálfnuð og heldur áfram út þann fjórðung. Nú seisei, það ætti ekki að vera erfitt að reikna það út. Það er reyndar ekki alveg svo einfalt að finna tölur um meðalævilengd á Íslandi. En samkvæmt tölum hagstofu er meðalaldur íslenskra karla 36,5 ár. Meðal ævilíkur 37 ára karla er 81 ár. Notum það sem meðalævilengd  íslenskra karla. Þá er þriðji fjórðungur meðalævi karla, sum sé miðaldur, á milli fertugs og sextugs. Það er, samkvæmt Wikipedia.

Árið 2004 starfaði á Íslandi nefnd á vegum félagsmálaráðherra sem fjallaði um stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Nefndin setti fram skilgreiningu á miðaldra og eldra:
Nefndin setti sér viðmiðunaraldur 50–65 ára sem hún skilgreindi sem miðaldra og eldra
fólk. Skilgreining Evrópusambandsins á eldra fólki er frá 55 ára aldri en nefndin var
sammála um að 50 ára fólk á Íslandi er álitið miðaldra [...]   (bls. 6) 
Hér má því gera ráð fyrir að lægri talan eigi við miðaldra en hærri talan við eldri. En hvar liggja mörkin þar á milli? Það var ekki sagt, en ef við segjum við miðju þá er miðaldur skv. þessu 50-57,5 ára. Hér er líka gert ráð fyrir að fyrst verði maður miðaldra og svo eldri. Inngönguréttur í félaga eldri borgara er við sextugt. Svo kannski er rétt að gera ráð fyrir að miðaldur sé á milli fimmtugs og sextugs. Segjum það.

Hinn átjánda september í fyrra birtist greinarkorn á mbl.is um miðaldur. Þar er fjallað um könnun þar sem fram kemur að fólk telji sig verða miðaldra seinna en áður, eða um 55 ára aldur. Þá telji fólk sig ekki eldri borgara fyrr en um sjötugt. Reyndar á könnunin við Bretland, sem kannski á annars konar miðaldur en Ísland.

Samkvæmt einföldu gúgli er meðalaldur Evrópuleiðtoga (sjá mynd 1) 55 ár og aldursbilið er 39 ár (sá yngsti 42 ára og sá elsti 81). Er þarna komin skilgreining á miðaldri karla í Evrópu? Aldursbil leiðtoga ESB hverju sinni? Það væri kannsi ekki svo galið.

Hvert ætli aldursbilið sé á Alþingi Íslendinga? Skv. handbók alþingis 2009 var á kjördag 25 apríl 2009 elsti þingmaðurinn 67 ára og sá yngsti 27 ára. það er máski fullmikið að segja að 27 ára maður sé miðaldra. Ogþó? Kannski verður karl miðaldra þegar hann fer að seilast til valda. Það er því ekki aldur sem skilgreinir miðaldur heldur athafnir. Það skýrir því hversvegna Sigmundur Davíð, nærri jafnaldri minn er talinn miðaldra. En það er offlókið. Höldum okkur við aldursskilgreiningar. Ef við segjum t.d. að eldri helmingur þingmanna sé  miðaldra en hinn helmingurinn ungur, þá fáum við að miðaldur á Alþingi, hið minnsta, er 47-67 ára.

En ég er maður málamiðlana og meðaltals. Skoðum aðeins þau aldursbil sem þessi einfalda Google æfing mín og reiknikúnstir kölluðu fram:

40-60
42-81
50-60
55-67
47-67

Ef við tökum meðaltal lægri aldursins annars vegar og svo meðaltal hins hærri hinsvegar fáum við út eftirfarandi:

47-67 ára

Eru þetta ekki nokkuð sennilegar tölur. Þar sem ég nenni ekki að velta þessu lengur fyrir mér og í raun búinn að eyða furðu miklum tíma í þessi undarlegu skrif (ég er veikur heima) segi ég það bara.

Miðaldur karla á Íslandi er 47-67 ára.
16. jan. 2013

Skyr

Það má blogga um allt:

Hér sjónvarpinu í Svíþjóð má sá auglýsingar fyrir skyr. Gott og vel. Þær eru reyndar dáldið asnalegar. Myndir af fólki í lopapeysum að gera eitthvað sveitalegt í einhverjum afdölum í óveðri og lesarar tala sænsku með sterkum íslenskum hreim.

En það sem er enn asnalegra er að skyrið er auglýst sem íslensk jógúrt.

Skyr er alls ekki jógúrt.