14. feb. 2013

Miðaldra karl

Undanfarið, sem endranær, hefur verið nokkuð harkaleg umræða (sum sé á íslenska netinu, þar má ekki skrifa niður staf án þess að vaða yfir náungann með skít og drullu) um miðaldra karlmenn (sjá mynd 1).

Mynd 1. Evrópu, sem öðrum heimsálfum, er mest megnis stjórnað af miðaldra karlmönnum. Tengt er í myndina hjá Evrópuvefnum, europe.eu


Um árhundruð hafa miðaldra karlmenn verið hið ráðandi afl samfélaga og þeir eru það enn, þó hlutfallið hafi kannski eitthvað lækkað. Ein og ein miðaldra kona er farin að detta inn í hóp ráðandi afla (á Íslandi hétu þær um tíma Vigdís Finnbogadóttir og Jóhanna Sigurðardóttir (sjá mynd 2).

Mynd 2 af fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Takið eftir Þorsteini Pálssyni fremstum hægra megin. Þá 44 ára gamall. Er hann þarna miðaldra karlmaður? Tengt í mynd af vef stjórnarráðsins.

Er það nema von að fólk sé orðið þreytt á miðaldra körlum og þeirra framlagi til heimsins? Það er enda orðið svo að orðasambandið miðaldra karl er nú stundum notað til háðs (einkum af femínistum, væntanlega) og orð manna jafnvel afskrifuð á grundvelli þess að þau koma frá miðaldra karli. Sum sé, þar sem þeir sem hafa stjórnað umræðunni, og öllu öðru, undanfarna .... tja, mannlega tilvist, hafa verið miðaldra karlmenn, er margt fólk farið að frá grænar bólur þegar það sér miðaldra karla ætla að skipta sér af einhverju.

Það er þá sem ungur karlmaður, sem farinn er að eldast, spyr sig: Hvenær verður maður miðaldra? Hvenær verð ég hluti af þessum leiðindahópi miðaldra karlmanna? Til að fá svör gerði ég það er unga fólkið gerir í dag; ég spurði Facebook.

Það stóð ekki á svörum og þau voru ýmiss konar. Sumir settu miðaldur í samband við skokk, aðrir sem miðgildi eigin ævi og nefndar voru tölur eins og 40, 45 og 48. Meir að segja var talað um að formaður framsóknarflokksins væri miðaldra karl (árinu eldri en ég). Það er nefnilega þannig að þótt flestir virðist vita hvað miðaldra karlmaður er, eru færri með á hreinu hvenær karl verður slíkur. Hvenær hefst þetta aldursskeið? Hve lengi stendur það? Við hvað miðast það?

Til að finna frekari svör gerði ég það sem svo margir gera. Ég gúglaði. Svörin létu á sér standa en ég fann út eitt og annað. T.d. fann ég skilgreiningu á Wikipedia:
Middle age is the period of age beyond young adulthood but before the onset of old age.
Sum sé tímabilið á milli ungra fullorðinsára og elli. Og Wikipedia heldur svo áfram og fjallar um að lengi vel hafi fólk deilt um hvenær þetta æviskeið stendur yfir en nefnir þó sérstaklega þriðja fjórðung meðalævi manns. Sum sé að miðaldur byrjar þegar meðalævin er hálfnuð og heldur áfram út þann fjórðung. Nú seisei, það ætti ekki að vera erfitt að reikna það út. Það er reyndar ekki alveg svo einfalt að finna tölur um meðalævilengd á Íslandi. En samkvæmt tölum hagstofu er meðalaldur íslenskra karla 36,5 ár. Meðal ævilíkur 37 ára karla er 81 ár. Notum það sem meðalævilengd  íslenskra karla. Þá er þriðji fjórðungur meðalævi karla, sum sé miðaldur, á milli fertugs og sextugs. Það er, samkvæmt Wikipedia.

Árið 2004 starfaði á Íslandi nefnd á vegum félagsmálaráðherra sem fjallaði um stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Nefndin setti fram skilgreiningu á miðaldra og eldra:
Nefndin setti sér viðmiðunaraldur 50–65 ára sem hún skilgreindi sem miðaldra og eldra
fólk. Skilgreining Evrópusambandsins á eldra fólki er frá 55 ára aldri en nefndin var
sammála um að 50 ára fólk á Íslandi er álitið miðaldra [...]   (bls. 6) 
Hér má því gera ráð fyrir að lægri talan eigi við miðaldra en hærri talan við eldri. En hvar liggja mörkin þar á milli? Það var ekki sagt, en ef við segjum við miðju þá er miðaldur skv. þessu 50-57,5 ára. Hér er líka gert ráð fyrir að fyrst verði maður miðaldra og svo eldri. Inngönguréttur í félaga eldri borgara er við sextugt. Svo kannski er rétt að gera ráð fyrir að miðaldur sé á milli fimmtugs og sextugs. Segjum það.

Hinn átjánda september í fyrra birtist greinarkorn á mbl.is um miðaldur. Þar er fjallað um könnun þar sem fram kemur að fólk telji sig verða miðaldra seinna en áður, eða um 55 ára aldur. Þá telji fólk sig ekki eldri borgara fyrr en um sjötugt. Reyndar á könnunin við Bretland, sem kannski á annars konar miðaldur en Ísland.

Samkvæmt einföldu gúgli er meðalaldur Evrópuleiðtoga (sjá mynd 1) 55 ár og aldursbilið er 39 ár (sá yngsti 42 ára og sá elsti 81). Er þarna komin skilgreining á miðaldri karla í Evrópu? Aldursbil leiðtoga ESB hverju sinni? Það væri kannsi ekki svo galið.

Hvert ætli aldursbilið sé á Alþingi Íslendinga? Skv. handbók alþingis 2009 var á kjördag 25 apríl 2009 elsti þingmaðurinn 67 ára og sá yngsti 27 ára. það er máski fullmikið að segja að 27 ára maður sé miðaldra. Ogþó? Kannski verður karl miðaldra þegar hann fer að seilast til valda. Það er því ekki aldur sem skilgreinir miðaldur heldur athafnir. Það skýrir því hversvegna Sigmundur Davíð, nærri jafnaldri minn er talinn miðaldra. En það er offlókið. Höldum okkur við aldursskilgreiningar. Ef við segjum t.d. að eldri helmingur þingmanna sé  miðaldra en hinn helmingurinn ungur, þá fáum við að miðaldur á Alþingi, hið minnsta, er 47-67 ára.

En ég er maður málamiðlana og meðaltals. Skoðum aðeins þau aldursbil sem þessi einfalda Google æfing mín og reiknikúnstir kölluðu fram:

40-60
42-81
50-60
55-67
47-67

Ef við tökum meðaltal lægri aldursins annars vegar og svo meðaltal hins hærri hinsvegar fáum við út eftirfarandi:

47-67 ára

Eru þetta ekki nokkuð sennilegar tölur. Þar sem ég nenni ekki að velta þessu lengur fyrir mér og í raun búinn að eyða furðu miklum tíma í þessi undarlegu skrif (ég er veikur heima) segi ég það bara.

Miðaldur karla á Íslandi er 47-67 ára.




2 ummæli:

Fjalsi sagði...

Mér finnst hreint ótrúlegt að ég hafi engin svör fengið við þessum pælingum.

Fjalsi sagði...

Enn er hef ég engin viðbrögð fengið við þessum pælingum!