31. okt. 2008

Nýi sáttmáli

Já, pælingin að taka upp norska krónu er merkileg og flippuð.

En hvers vegna að stoppa þar? Væri ekki bara hægt að stofna til Nýja sáttmála og setja landið undir norsku krúnuna.

Þá væri líka búið að leysa deilur eins og um fiskveiðiréttindi, deiluna um þjóðerni Snorra Sturlusonar og hvort Norðmaður eða Íslendingur hafi fundið ameríku.

Hægt væri að aðla Ólaf Ragnar og gera jarl yfir íslandi, jarl Olav Ragnar gengur vel upp á norsku.

30. okt. 2008

Misjöfn umfjöllun

Vísir, 30. okt. 2008 10:43
Skuldir þjóðarbúsins verða 100 prósent af landsframleiðslu

Innlent | mbl.is | 30.10.2008 | 10:55
85% af vergri landsframleiðslu

Vísir, 28. okt. 2008 18:30
90% treysta ekki Davíð sem seðlabankastjóra

Innlent | mbl.is | 28.10.2008 | 18:36
10% styðja Davíð í embætti seðlabankastjóra

21. okt. 2008

Hver er krútt?

Kannski í framhaldi af síðustu færslu:

Mér þótti áhugavert að hlusta á samtal Godds og Vals í Kastljósinu í gær. Ég er ekki alveg sammála fyrrum bekkjarbróður mínum, Vali, þegar hann segir að krúttkynslóðin svo kallaða myndi deyja út í kreppunni. Eða hvort hann hafi verið að segja það... hann virtist nú frekar vera að meina að krútt-hugtakið myndi deyja út. Hvað hann átti við með því veit ég svo sem ekki.

Það er engin þörf á að skilgreina krúttin og röfla um þessa nafngift. Það eru helst krúttin sjálf sem vilja ekki kannast við þá klassifíseríngu. Kannski það sé bara nafnið sem fari í taugarnar á þeim, eða að vera klassifíseruð. Lái þeim hver sem vill. Eða þeim... ætli ég tilheyri ekki sjálfur þessari krúttkynslóð, ásamt Elsu Maríu í Kastljósinu (sem einmitt þráspurði Val hvað hann ætti við með krútt) og fjölda fólks á okkar aldri.

Þau eru löt, hafa menn sagt um krúttin. Þau eru sökuð um samfélagslegt áhugaleysi eða heimóttaskap. Vegna þess að þau tóku ekki þátt í lífsgæðakapphlaupinu um bíl, íbúð og þvottavél og síðar flatskjá, heldur sóttu í annars konar lífsgæði eins og listir, ferðalög og náttúru. Eitthvað sem brennur ekki upp í verðbólgu eða læsist inn í gjaldþrota banka.
Krúttum hefur verið legið á hálsi að vera ópólitísk. Það er að vissu leyti rétt, mörg krútt hafa ekki tekið þátt í flokkspólitískum slagsmálum og þeirri hefðbundnu orrahríð sem þar dynur sífellt. Þykir kannski ekki nógu krúttlegt. En í staðinn hafa önnur málefni náð inn á þeirra pallborð, umhverfisvernd, verndun gamalla húsa í miðbænum, andstaða gegn neysluhyggju og klámvæðingu, svo fátt eitt sé nefnt.
Því mætti frekar segja að nú sé uppreisn krúttanna, ef satt reynist að neyslusamfélagið riði til falls. Eða hvað? Sagt hefur verið að krúttunum þyki kúl að vera hallærisleg. Nú, þegar hallærir, verða krúttin þá meinstrím? Er það það sem Valur á við er hann boðar dauða krúttsins? Þau lifi ekki af því þau hætti að vera altörnatív?

Ég mun a.m.k. ekki gráta það ef krúttin verða bara norm...

Breyttir tímar?

Ég man umræðuna dagana og vikurnar eftir 11. september 2001. Þá horfðu margir með bjartsýni á breytta heimsmynd. Nú myndu samskipti austurs og vestur gjörbreytast og það til hins betra. Áherslan yrði á að bæta samskipti á milli trúarhópa og menningarheima. Aukin virðing og auðmýkt hins „vestræna heims“ í garð annarra heimshluta. Þá var vissulega tækifæri til slíkrar byltingar. En hún varð fljótt að engu. Þvert á móti.

Nú aftur, í kjölfar hruns fjármálakerfisins, hefur mörgum verið tíðrætt um þá breyttu tíma sem það mun hafa í för með sér. Að nýr þankagangur muni ráða sér til rúms. Nýfrjálshyggjan hefur fallið um sjálfa sig, segja menn, lok bandarísks kapítalisma! Nú taki við tímar félagslegrar samkenndar, umhverfisverndar, sjálfbærrar þróunar og efnahagslegrar naumhyggju.

Ég er ekki svo bjartsýnn. Jú, vissulega stöndum við nú aftur á tímamótum, þar sem ofangreind gildi gætu svo sannarlega orðið ofan á. En það er ekki sjálfgefið. Vitanlega verður breyting á því neyslumynstri sem verið hefur ráðandi undanfarin ár, en fyrst og fremst vegna þess að við höfum einfaldlega ekki efni á því lengur. Hvað verður þegar ástandið tekur að skána á ný? Þegar við höfum náð að byggja upp efnahag landsins á ný? Því við munum líklega ná því furðu fljótt. Á ekki sama neysluhyggjan bara eftir að skjóta rótum á ný? Sama kaupæðið, sama græðgin, nema kannski í eitthvað smækkaðri mynd?

Það er a.m.k. ekki sjálfsagt mál að annað verði ofan á. Nema að við hlúum sérstaklega að þeim gildum. Og nú er tækifærið til þess. Á næstu árum. Í kreppunni, lægðinni. Á meðan tálsýnir og draumahallir ná ekki að villa um fyrir okkur. Nú, sem aldrei fyrr, er nauðsyn að þær raddir fái að hljóma sem áður voru hjóm eitt í „góðærinu“. Röfl bindindismannsins í neyslufylleríinu. Nú þarf að skipta úr röfltóninum í uppbyggilega jafningjafræðslu.

17. okt. 2008

Haða kona og hvaða menn?

Svona löguðu á að halda til haga:

Vísir, 17. okt. 2008 08:46:

Biðskylda sem ekki var virt kostaði 18 ára gamla danska stúlku lífið í umferðinni í Sønderborg í Danmörku í gærkvöldi.

Tvítugur farþegi í bíl konunnar slasaðist alvarlega þegar hún ók viðstöðulaust inn á aðalbraut og í veg fyrir bíl. Ökumaður hans slasaðist einnig alvarlega. Mennirnir tveir eru þó ekki í lífshættu.

15. okt. 2008

Ábyrgð hvers

Lýðurinn vill blóð. Það er skiljanlegt. Þannig er fólk.

Ég get ekki séð að það sé við einhvern einn að sakast. Bankaliðið, seðlabankinn, ríkisstjórnin, forsetinn, fjölmiðlar, Alþingi. Allir brugðust á einn hátt eða annan.

Fyrsta verk í endurreisninni hlýtur að vera að skipta um stjórn í seðlabankanum og skerpa á hæfniskröfum um starf seðlabankastjóra, og fækka þeim úr þrjá í einn. Það hefur eiginlega verið ljóst allt of lengi. Þar með er ég ekki að segja að það sé sérstaklega við Davíð Oddsson og félaga að sakast í þessum efnum (þó vissulega hafi mörg mistök komið úr þeirri áttinni) heldur líka því hvernig við höfum valið að skipa stjórnendur bankans og gert hann um leið að efirlaunasetri afdankaðra stjórnmálamanna sem er gjörsamlega ótrúverðugt sem einhverskonar hagstjórnartæki.

Hvort það sé mögulegt með Sjálfstæðisflokk í ríkisstjórn er hins vegar annað mál. Þess vegna er afar mikilvægt að þessi krafa komi skýrt fram hjá Samfylkingunni og raunar öðrum flokkum á alþingi. En furðu lítið hefur borið á þeirri kröfu hjá stjórnandstöðunni. Þögnin hjá Framsókn er kannski skiljanleg. Hún skipaði núverandi stjórn.

Koma svo á þingmannanefnd eða rannsóknarnefn þingsins þar sem farið verður í kjölinn á undangengnum hamförum. Þessa nefnd þarf að skipa núna. Ekki dugir að sitjandi viðskiptanefnd rannsaki mál sem gæti varðað hana sjálfa!

Svo mætti íhuga, þegar meiri stöðugleika hefur verið náð, að rjúfa þing og blása til kosninga. Þó að óvíst sé hvað sitjandi ríkisstjórn hefði geta gert er ljóst að hún ber höfðuábyrgð á stjórn landsins og það er eðlilegt að hún axli ábyrgð með því að víkja.

Þetta er svona það sem mér finnst.

10. okt. 2008

Ræðan

Mér er orðið tamt á því að spyrja: Hvernig gátu allir þessir hagfræðingar, viðskiptafræðingar, markaðfræðingar eða hvað þetta heitir, ekki vitað það sem lítli hugvísindamaður vissi fyrir löngu?

Þegar þýskur vinur minn spurði mig á haustdögum 2006 hvernig í ósköpunum þessi velgengni íslensku bankanna og annarra fyrirtækja væri möguleg, sagði ég: Hún gengur eiginlega ekki upp. Sannaðu til, eftir kannski tvö ár verða þeir örugglega í slæmum málum.

Þegar ég flutti heim frá Amsterdam haustið 2005 var allt í blússandi gangi. Bjartýnin ofar góðu hófi og græðgin að ná góðri undirstöðu sem ráðandi þankagangur landa minna. Leiguverð hækkaði og hækkaði og allir í kringum mig fullir kaupæði. Flestir vina minna stóðu t.d. í íbúðakaupum á 100% lánum. Kauptu, sögðu þeir, það er eina vitið.

Ég var efins. Eftir að ljóst var að ekki var möguleiki að leigja íbúð á sómasamlegu verði og eina leiðin virtist að kaupa íbúð á hæsta verði sáum við Jóhanna aðra lausn: Förum út. Bíðum með að markaðurinn kólni. Þetta ástand varir ekki að eilífu. Það er rugl að leigja og enn meiri vitleysa að kaupa íbúð sem gerir ábyggilega fátt annað en að lækka í verði úr þessu á lánum sem gera líklega fátt annað en að hækka.

Við fluttum út. Ég geymdi peningana mína í SPRON. Þar þótti mér þeir tryggir. Ég gat jafnan sagt með stolti að sparisjóðurinn minn væri ekki að taka þátt í þessu útrásarrugli. Ég keypti engin verðbréf fyrir milljónina tæpu sem ég fékk út fyrir íbúð einu sinni. Þaðan af síður hlutabréf. Nú er milljónin tæpa í rúmri milljón. Ég græddi ekki mikið. En ég tapaði engu.

Um daginn sagði hagfræðingur í sjónvarpinu: Þeir sem skulda lítið og eiga lítið tapa minnstu. Ég horfði á sjónvarpið og sagði: Er þetta sum sé hagfræði.

Þjóðin er alltaf að leita að sökudólgum þessa dagana. Hún má vel líta í eigin barm. Það tóku flestir þátt í þessu fylleríi sem er stundum kallað góðæri. Nokkrir menn högnuðust verulega, urðu skyndilega ríkir. Þjóðin hélt hún væri líka rík og keypti og keypti og keypti. Allt á lánum auðvitað. Því fæstir höfðu fengið hlutdeild í þessum ofsagróða. Það voru ekki bara þessir bankamenn sem stofnuðu til meiri skulda en þeir gátu mögulega greitt til baka. Það á við um ótal heimili í landinu.

Fæsta gæti hafa órað fyrir þeim hörmungum sem nú dynja yfir. En menn máttu nú alveg sjá að þetta gæti enda a.m.k. í þessa áttina: Niður. En á fylleríi er maður sjaldnast að hugsa um timburmennina sem fylgja í kjölfarið.

Mín mistök? Að halda tryggð við íslenska markaðinn með að vinna fyrir íslenskt fyrirtæki. Launin mín eru eiginlega horfin.

En pælingin með þessu öllu saman? Æi ég veit það ekki. Þetta ástand er ömurlegt, en það er amk ekki mér að kenna...

9. okt. 2008

Breyttir tímar

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/10/09/faglegan_sedlabanka/

Ef framsóknarflokkurinn er farinn að álykta svona þá er óhætt að segja að nýir vindar séu farnir að blása í íslenskum stjórnmálum.

Rugl

„Með því að velja stjórnendur út frá pólitískum bakgrunni fremur en sérfræðiþekkingu á hagfræði og fjármálum geta menn litið svo á að bankinn sé ekki í stakk búinn til takast á við efnahagslíf í kreppu,"

Það þarf engan hagfræðing til að átta sig á þessu. Ég, íslenskufræðingurinn, hef margoft röflað um þetta. Hvers vegna í ósköpunum...

Bananalýðveldi

Undarlegt

Undarlegt þykir mér að íslendingum standi lán til boða frá Norðmönnum og líklega fleiri Norðurlandaþjóðum, og hafi um nokkurt skeið, en engu síður sé ætlunin að þiggja lán frá Rússum. Hvers vegna ósköpunum er ekki stokkið á lán sem Norðmenn hafa ítrekað boðið okkur. Er okkur virkilega betur borgið með að halla okkur upp að Rússum á ögurstundu?

Ég fanga því að Ágúst Ólafur lýsi yfir að seðlabankastjórar þurfi að víkja. Þetta þarf að heyrast frá mun fleiri þingmönnum og í raun öllum landsmönnum, því krafan er eðlileg. Hvers vegna er það alltaf þannig í íslenskri þjóðarsál að embættismenn mega komast upp með hvaða mistök sem er og vera hur óvinsælir sem helst án þess að spurningin um afsögn komi einu sinni upp?

Bananalýðveldi

8. okt. 2008

Trúnaðarbrestur

Seðlabankastjóri sagði nokkuð hreint út í gær að Íslendingar myndu ekki standa við skuldbindingar íslensku bankanna í útlöndum.

Bæði forsætisráðherra og viðskiptaráðherra þvertaka fyrir að nokkuð slíkt hafi verið ákveðið.

Er þetta ekki það sem kallast trúnaðarbrestur? Myndu ekki menn í stöðu Davíðs Oddssonar alls staðar annars staðar í heiminum neyðast til að segja af sér? Nauðugir viljugir?

Það er lítil von til þess að Davíð íhugi á nokkurn hátt að segja af sér og engin von að aðrir neyði hann til þess. Það er akkúrat svoleiðis attitjú sem er búið að koma okkur í þá stöðu sem við glímum nú við.

Bananalýðveldi

7. okt. 2008

Back to 1989

Miðað við fréttirnar í kvöld fæ ég ekki betur séð en að flestar aðgerðir sem gerðar hafa verið í valdatíð Sjálfstæðisflokksins hafið verið þurrkaðar út.

Viðtengingarháttur

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/10/07/leidretti_frettir_danskra_fjolmidla_af_bankakreppu/

„sú hætta er raunveruleg, góðir landsmenn, að íslenska þjóðarbúið myndi, ef allt færi á versta veg, sogast með bönkunum inn í brimrótið og afleiðingin yrði þjóðargjaldþrot."

„sú hætta er raunveruleg að íslenska þjóðarbúið sogist með bönkunum inn í brimrótið og afleiðingin verði þjóðargjaldþrot."

(„Vi står over for den mulighed, at den nationale økonomi suges ind i den globale bankkrises dyb, og at nationen kan ende med at gå bankerot,")


Afhverju er "myndi sogast" eitthvað meiri viðtengingarháttur en "sogist"?

Kreppan

Sjónvarpið hefur verið sett upp á háaloft. Frystikistan fyllt og allur peningur tekinn út úr íslenskum bönkum.

Landbankinn aftur orðinn Landsbanki Íslands. Fljótandi gengi afnumið.

Tilraun með frjálst markaðshagkerfi misheppnaðist. Við taka tímar miðstýringar og ríkiseinokunar.

Rússar koma nauðstöddu Íslandi til bjargar.

Byltingin heldur áfram.