31. jan. 2007

Pedagogik

sit á safni. ekki með ákveðnum greini í þetta sinn þar sem ég hefi ekki rætt þetta safn áður. sit semsagt á öðru bókasafni. reyndar er þetta háskólabókasafnið, en ekki aðalsafnið heldur safnið í uppeldisfræðideildinni. jóka skráði sig fyrirvaralaust í uppeldisfræði og hún situr nú við hlið mér og les fyrir tímann á morgun. þetta er hið huggulegasta safn. spánnýtt og töff. internetið er hér svo hér get ég unnið. auk þess styttri sporvagnsferð. sem er svo sem ekkert endilega af góðu þar sem ég það eru mínar helstu lestrarstundir. svo nú verð ég lengur að klára fast food nation, sem er ekki gott því ég verð reiðari með hverri lesinni blaðsíðu og hlakka því til að klára hana.

ég bækurnar og blöðin sé
á bókasafni inni.
ég er eins og jólatré
ég er í hreppsnefndinni.

30. jan. 2007

moggablogg

þetta er svo sem ekki mogga bloggur en þessi færsla fjallar um mbl.is

þar stendur að Airbus hafið komið til Íslands til að æfa lendingar í íslenskum hliðarvindi. Ég og Christian vinur minn ræddum eina kvöldstund í Amsterdam um natíónalíseríngu og komumst til dæmis að því að það væri vart hægt að kenna t.d. sauðkindir eða kýr við þjóðir. Kannski eru margir ósammála. En, getur vindur verið íslenskur? Það er oft rætt um íslenska veðráttu, svona yfir höfuð. En er hægt að ganga svo langt að segja að hliðarvindur sé íslenskur? Spursmál.

Annað af mbl.is í dag. Þar er rætt um Dr Jón Braga Bjarnason, prófessor í lífefnafræði við Háskóla Íslands, sem hefur „eytt þrjátíu árum í að rannsaka próteinkljúfandi ensím sem rífur próteinviðtakann á veirum þannig að þær geti ekki sýkt heilbrigðar frumur mannslíkamans.“ Þannig hefur hann fundið leið til að lækna t.d. fuglaflensu. Ég myndi varla segja að maðurinn hafi „eytt“ þessum þrjátíu árum. Sólundað þeim í óþarfa vitleysu.

þetta er kannski málfarsbloggur frekar en mogga bloggur.

þá eitt að lokum (lesendur mega eiga vona á svipuðu áfram):


Ég vekja skal nú vísnaspé
og vitna í þetta minni:
„Ég er eins og jólatré
ég er í hreppsnefndinni.“

og nú að einhverju allt öðru

Ég er royalisti. Ég tilkynnti þetta í hópi vina fyrir nokkrum árum. Það var í matarboði, lundaveislu. Ég sagðist vera royalisti og það sló þögn á hópinn. Einhver breytti um umræðuefni, fór að tala um yfirvofandi kennaraverkfall. En einhvern veginn lá þessi yfirlýsing mín í loftinu og varð þyngri og þyngri og sífellt óþægilegri þar til hún varð alveg yfirþyrmandi og fólk fór að afsaka sig og týnast úr veislunni eitt af öðru. Gekk bara frá borðum uppfrá ókláruðum matnum. Þar til að eftir vour bara ég og gestgjafarnir, sem ég kýs að nafngreina ekki hér, kærustupar þá en eru gift í dag og eiga barn, og annað á leiðinni hef ég heyrt. Hann fór að ganga frá borðinu en hún að hella upp á kaffi. Inni í eldhúsinu heyrði ég þau tala í hálfum hljóðum og henni var greinilega mikið niðrifyrir. Hann kom stuttu síðar inn í borðstofu með kaffi í könnu og koníakflösku. Hún fylgdi á eftir með þrjú glös og konfekt í skál. Þau settust niður andspænis mér við borðið og horfðu á mig alvarlegum augum. Hún tók hönd mína í sína og strauk létt yfir handabakið á meðan hún horfði djúpt í augun á mér og sagði: Hjörtur, er þetta satt? Ertu royalisti?

Við áttum gott samtal í kjölfarið, yfir kaffi og koníaki, en síðan þá, þessa kvöldstund, hef ég aldrei aftur minnst á þetta. Þar til í gær, þegar í sjónvarpinu var þátturinn Prinsar och prinsessor, að ég hvíslaði með sjálfum mér: Ég er royalisti.

Örsnöggt leit Jóhanna til mín, horfði á mig þögul, en sneri sér svo aftur að bóklestrinum.

29. jan. 2007

...og dísa drusla dansar ekki meir

beygin mín á bloggur og lúkkur vekur harðari viðbrögð en lúkkurinn a bloggnum. það er þó ágætt að maður komi við málkauninn á sumum.

ég lá ofan á rúminu mínu um daginn var að spá það sem S.B.Sigurðsson nefnir einmitt á sínum blogg. Hvernig í útlandinu maður eignast allt í einu tíma. Það er einhvern veginn þannig að nú þegar ég lýk vinnudeginum um rúmlega fimm er ég eitthvað svo óendanlega frjáls. Ég hefi skyndilega tíma sem mér fannst ég ekki eiga áður. Fer í búðina og dóla mér þar og fer svo heim og dunda við matargerð, les svo í bók eða kíki á sjónvarp, gutla á gítarinn, tek mér göngutúr eða bara ligg á rúminu og stari upp í loftið.

hvað er það? vinaleysið? ábyrgðarleysið? iðjuleysið?

Í sporvagninum les ég. Það er þá helst að ég nenni að lesa. Þessa dagana er ég að lesa bókina Fast Food Nation. Það er merkileg lesning og styrkir eða endurvekur sósíalískar tilfinningar mínar. Eða amk hatur mitt á kapítalismanum. Ég var því nokkuð spenntur þegar ég sá að myndin er sýnd á kvikmyndahátíðinni miklu sem stendur hér í bæ um þessar mundir. Eg tók mér einmitt ferð með sporvagni númer 6 til að horfa á hana. Myndin var ágætt, þrátt fyrir að ég hafi orðið fyrir vonbrigðum með hana. Eða varð ég fyrir vonbrigðum þrátt fyrir að myndin væri góð?

Skyldi manninum ekki leiðast að láta krossfesta sig?

Hvað veit maður?

26. jan. 2007

Fært sig

Í gær gerði ég mér ferð á Centralstationen til að sækja þangað lestarmiða. Aldrei hafði ég komið á Centralstationen áður. A.m.k. ekki inn í stöðvarhúsið sjálft. Nú sit ég á bókasafninu og er að spá í að færa mig um set. Máski á kaffihús sem ég man ekki hvað heitir en er við Vasaplatsen. Þar er einmitt þráðlaust net sem er mér svo bráðnauðsynlegt við vinnuna. Ekki endilega þráðlaust heldur mest megnis netsamband. En þráðlaust er kostur. Hvur veit, kannski nauðsyn. Hvað heitir aftur þetta kaffihús. Eitthvað með erlendu nafni. Café Burma... nei. Café Java... já! Þangað ætla ég . Að fá mér kaffi og einhverja af þessum listagóðu samlokum sem þau servera. Mmmm. Þrír tímar þar og þá er komin helgi... helgi... helgi... helgi... helgi...

Ég var eitthvað að virða fyrir mér skráningu um heimsóknir hingað á síðuna... sem verða tíðari með hverjum deginum (dregur væntanlega úr þeim um helgina). Þar er merkilegt að sjá að leitarorðin Þormóður Dagsson og Hugleikur eru í nokkuð jafnri samkeppni. Hverjir eru að leita svo títt af þeim bræðrum. Þeir sjálfir kannski. Eða hvor af öðrum.

Hvur veit.

Kvikmyndagetraun í lokin:

Í myndinni er fræg gríðarlöng sena (taka) sem er dæmi um aðstæður þar sem kvikmynd stígur út fyrir þann heim sem henni er skapaður með vísun til raunheimsins sem kvikmyndaáhorfandinn upplifir á þeim tíma.


ES. stúlkan síðhærða sem hefur verið að tefla internet skák hér síðasta klukkutímann er í raun fúlskeggjaður karlmaður

bloggur, lúkkur og djókur

Jú, það fór eins og mig grunaði. Einhver (ekki bara einhver heldur veður-Siggi sjálfur (og er þá ekki rætt um Sigga storm)) kommentar á beygingu mína á lúkk og blogg. Hvers vegna ég kjósi að beygja orðin í karlkyni.

Tökuorð eru skemmtilegur orðflokkur (jú, hægt er að tala um orðflokk í þessu samhengi en þá skal maður gæta þess að slík flokkun fellur ekki að hefðbundinni orðflokkagreiningu sem við eigum að venjast, s.s. nafnorð, sagnorð og lýsingarorð). Þau eru ekki upprunaleg orð í íslensku og þegar þau koma inn í málið eru þau oft berstrípuð formdeildum. Hvað á ég við, jú, beygingarleg atriði sem þau varða eru ekki til staðar og oft er að tilviljun háð í hvaða beygingarflokkum þau, lenda. Það er einkum hvað varðar kyn, en algengt er að tökuorð beygist veikt. Það er því ekki óalgengt að beyging slíkra orða sé nokkuð á reiki, þá sér í lagi þegar orðið er nýtt í málinu.

Djús er dæmi um tökuorð sem hefur ekki fast kyn í íslensku: Sumir segja djúsið en aðrir djúsinn og sumir nota jafnvel bæði. Svipað eru um saft. Sumir segja saftin en aðrir saftið.

Hvers vegna bloggur? Flestir ættu að vita að uppruni enska orðsins blog runnið frá orðunum web log. Það á sem sagt við um eins konar dagbók á vefnum. Orðið log hefur verið tekið inn í íslensku, þó ekki sé það algengt, og þá jafnan notað í karlkyni (nefnifall: loggur). Því þykir mér beinast liggja við að sambærileg taka á orðinu blog bloggur.

Enska orðið look gæti verið þýtt svipur á íslensku, er þá lúkkur er mögulegt tökurorð. Auk þess þykir mér einfaldlega fallegra að tala um lúkkinn frekar en lúkkið.

Svíar hafa þá hugmynd um íslensku að hún sé bara eins og sænska nema maður bæti -ur aftan við allt. Mér þykir ekki úr vegi að ýta undir þá hugmynd þeirra.

Hvað varðar leitina, sýnist mér að ekki dugi að leita með íslenskum stöfum. Þeir gufa upp á leiðinni inn á Google og því verður orð eins og t.d. strætó bara str t og slík leit skilar að sjálfsögðu fáum niðurstöðum.

25. jan. 2007

Nýr lúkkur

Jú - eitthvað var ég búinn að lofa nýjum lúkki. Síðustu kvöld, á milli Sópranósáhorfs hef ég verið að dudda (í boði Gommit) við þennan nýja lúkk og nú er hann kominn. Eitt og annað þarf ég að laga en þetta er bara huggulegt finnst mér. Ég vek athygli á leitarmöguleikanum hér uppi til hægri. Í boði Google Blog Search. Ef þið elskið þennan lúkk getið þið skrifað mér um það skilaboð. Ef þið hatið þennan nýja lúkk megið þig skrifa um það skilaboð.

Lestur á bloggnum hefur aukist á nýju ári, sennilega í kjölfar aukinnar bloggtíðni. Nú er að sjá hvort nýr lúkkur bloggsins skili enn meiri lestir/heimsóknum.

But: Back to work

ööööö - annars má lesa nýja bloggfærslu Jóku á bloggnum hennar jokkos.blogspot.com

Þá eða aldrei

Horft er grimmt á fyrstu þáttaröðina um Sópranófjölskylduna og vini þeirra þessa dagana. Jóhönnubróðir á allt heila klabbið og það kemur sé vel fyrir mig sem aldrei hef náð að horfa á þessa bjútífúl seríu. Ég er nefnilega þannig gerður að ef ég missi af byrjuninni á einhverju get ég ekki dottið inn í miðju kafi. Allt-eða-ekkert. Þetta olli því t.d. að ég þurftir að hætta að horfa á Bráðavaktina eftir sjöundu þáttaröð vegna þess að ég missti af þeirri áttundu. Og já, ég missti af fyrstu þáttaröðinni af Sópranós, eiginlega bara fyrsta þættinum. Já, ég veit... þetta er líklega vottur af geðsýki. En ég þekki nú samt fleiri sem hugsa svona, og nei, það er ekki bara fólk með einhverfu.

Af Sigurðarmálum er það að frétta að hér er skítkalt en bjart. Sólin skín og fuglarnir frjósa.

24. jan. 2007

Helvítis réttlætiskenndin

Í heiminum er til fólk sem er gáfað og vel menntað og af góðu fólki sem segir: „Það er bara ágætt að fyrirtækið hafi mikla starfsmannaveltu. Við þurfum ekki að greiða starfsfólki tryggingagjöld fyrr en eftir hálft ár og fólk á ekki rétt á sumarleyfi fyrr en eftir ár í starfi. Það er í raun hagkvæmt fyrir okkur að fólk tolli illa í starfi.“

Í bandaríkjunum er til kerfi sem þar sem veittur er skattaafsláttur þeim fyrirtækjum sem ráða fólk úr ákveðnum þjóðfélagshópum (WOTC). Um er að ræða fólk úr fátækum fjölskyldum, fyrrverandi hermenn, fyrrum fanga, unglinga í sumarvinnu, fólk sem hefur verið atvinnulaust lengi o.s.frv. Í sjálfu sér ágætis kerfi. Fyrirtækin sem nýta sér þetta kerfi eru t.d. Kentucky Fried Chicken, Pizza Hut, Taco Bell, McDonald's og The Gap. En: til að fyrirtæki fái skattafsláttinn þarf viðkomandi starfsmaður að vinna að lágmarki um 400 klukkustundir hjá fyrirtækinu. Þar sem fyrirtækin fá ákveðna upphæð fyrir hvern þann starfsmann sem er ráðinn úr þessum viðmiðunarhópum sáu þau að það borgaði sig að ráða fólkið tímabundið, segja því upp eftir þrjá mánuði og ráða annan úr sama hópi.

Ó já, og að sjálfsögðu borga þessi fyrirtæki viðkomandi starfsmönnum ekki dæm yfir lágmarkslaunum (sem eru lægst 5,15$ á klukkutímann, rétt um 350 kall).

Heimurinn er yndislegur

23. jan. 2007

Upp í rúm

Ég held ég eigi heima uppi í rúmi í dag. Hvernig svo sem þessi setning ætti að skiljast. Ég sit hér á bókasafninu kappklæddur en samt er ég kaldur inn að beini. Skelf hreinlega. En þar sem helvískt netkompaníið hefur ekki drullast til að tengja netið heim verð ég að sitja hér á ísköldu bókasafninu. Að vísu sýnast mér Svíarnir í kringum mig kæra sig kollótta um kuldann. Kannski er þeim bara ekkert kalt. Kannski er það bara ég sjálfur. Vonandi ekki að veikjast.

Mér skilst að Strætó í Reykjavík hafi hækkað fargjöld. Ferlegt...

Sigurðarmál - Andleysi - Þreyta

Byrjum á Sigurðarmálum: Snjórinn kom aftur. Öllu heldur kom meiri snjór. Það snjóaði sum sé aftur. Hann virðist ætla að staldra lengur við í þetta sinn því spáð er kulda og stillu næstu daga. Það er sem sagt það sem margir kalla fallegt veður, stillt, kalt og jörðin snævi þakin. Þakin snjó.

Kennsla byrjaði greinilega aftur hér í háskólanum í gær. Nú þarf ég að bíða í röð eftir að fá kaffi og kliður ríkir í loftinu. Spennt andlit nemenda sitja á höfðum þeirra og spjalla um daginn, veginn og sitthvað fleira. Ég bíð spenntur eftir að helvítis netfyrirtækið tengið heimili mitt við internetið.

Undanfarna daga hefur legið yfir mér þreyta og þróttleysi með tilheyrandi andleysi. Eru ekki andinn og þrótturinn samtvinnuð element í manns búk? Hvað veit ég. Veit þó að ég skemmti mér við lestur Eddukvæða í gær. Ég ætla skoða þátt Siggurðar Fáfnisbana í þeim bókmenntum. Ég bölvaði í gær að hafa skilið Völsunga sögu eftir í hillunni á Íslandi. Þá rifjaðist uppfyrir mér internetið. Völsunga saga er þar ásamt systrum sínum mörgum. Þar er ok Heimskringla. Máski ég lesi um Gauta í Heimskringlu, svona fyrst ég er í borginni þeirra.

22. jan. 2007

að lokinni

veturinn kom of helgina - fyrsti snjórinn kom á laugardaginn - hann var farinn á sunndaginn - í dag er mánudagur - í dag frýs

ný vika og rútínan er hafin á ný - nema að Brestir í Brooklyn er ekki lengur lestrarefnið í sporvagninum heldur Fast food nation. Það er hressileg lesning sem styrkir mitt sósíalíska hjarta.

ég á heim við Slottsskogen - sveitina í borginni. í gær gekk ég um skóginn og sá hund elda hreindýrskálf. það var fallegt eins og sóli og vorið. sem var fínt því nú er hvorki sól né vor.

saga gautaborgar var tekin út - hún er skemmtilega tengd sögu amsterdam - því liggur beinast við að flytja næst til New York

19. jan. 2007

Sólin skín

Um daginn datt inn um lúguna bréf. Það var netkompaníið að tilkynna okkur að vegna tæknilegra vandamála yrði bið á nettengingunni. Hún var pöntuð 23. desember, fyrir fjórum vikum. Ég verð því að arka á bókasafnið eitthvað áfram. Það er svo sem í lagi, enda huggulegt á bókasafninu.

Svo þettta er tíundi dagurinn sem ég mæti hér á bókasafnið og rútína hefur myndast. Ég vakna við gal gemsans klukkan átta og „blunda“ í 10-20 mínútur. Dreg mig á lappir, snyrti mig og tek mig saman, hendist út á tram-stöð og tek sporvagn númer 3 í átt að Kålltorp. Í sporvagninum les ég Brestir í Brooklyn eftir Auster. 26 mínútum síðar stekk ég út við Valland, tek eitthvað af þeim fríblöðum sem mér er rétt, og geng upp Avenyn, yfir Götaplatsen, framhjá Göteborgs Kunstmuseum og upp að Hugvísindadeild Háskólans, inn á kaffiteríuna, kaupi mér kaffi, sest niður, drekk það og les fríblaðið. Svo legg ég leið mína yfir í næsta hús, háskólabókasafnið og niður í tölvustofu. Þar er ég nú og ætla að snúa mér að vinnunni, hér verð ég til rúmlega fimm og þá verður tilveran örlítið minna fyrirsjáanleg.

18. jan. 2007

Stórtíðini

Ég fæ ekki betur sé en að stórtíðindi hafi gerst: Valgerður Sverrisdóttir talar af skynsemi! Utanríkisstefna Íslands og afstaða í varnarmálum er skyndilega orðin pínulítið sexí!

Eða er bara verið að slá ryki í augu?

ferðalög

Anonymous nokkur benti mér á þættina Världens modernaste land. Jóhanna hafði rætt þá líka svo ég settist niður og horfði á þáttinn í gær. Svo þættir ættu að vera framleiddir í öllum löndum, því þau þeir séu vissulega bara enn eitt dæmið um hvað Svíar eru duglegir við að ræða vandamál, skilgreina þau og gefa þeim nafn, þá eru þeir líka stórgott tæki fyrir innflytjendur, sem ég vissulega er, til að fá betri innsýn inn í sænska þjóðarsál, þankagang og menningu.

Annars hefi bókað ferðalag fyrir einn til Kaupinhafnar fyrstu helgina í febrúar, 2.-5. Tilhlökkun ríkir í brjósti.

Annars þyrfti ég að skrá mig á keramiknámskeið eða eitthvað álíka til að kynnast einhverju fólki hér.

17. jan. 2007

Og það rignir

Hringitónar! Fólk hér í bæ notar undarlegustu hringitóna í gemsunum sínum. Öskur, mjálm, söngva, grátur, lög, bílahljóð, þyrluhljóð o.s.ó.m.f.

Ég þyki líklega skrítinn með mína venjulega skrifstofusímahringinu. Skrítinn venjulegur. Þannig er maður. Erlendur borgari.

Í gær staldraði ég við í Hemköp, mestmegnis til að kaupa brauð, en laumaði í körfuna paprikudufti, nýrnabaunum og einni flösku af lättöl, sem ég myndi nú bara kalla pilsner upp á íslensku. Við kassann gerðist það, og í annað sinn síðan ég kom, að afgreiðslustúlkan bað mig um skilríki. Mér þykir það í meira lagi undarlegt, einkum af tveimur ástæðum: ég var að versla brauð og einn pilsner; aldursmörkin fyrir pilsnerkaup eru 18 ár, en ég er einmitt nær því að vera fertugur en átján ára.

Ojæja - að vísu er bjórinn sem ég keypti eitthvað yfir pilsnermörkum... en samt!

verðlaun fyrir þann sem ræður skammstöfnunina hér að ofan.

16. jan. 2007

Andremma og nýir bloggar

Máski andremma sé landlægt vandamál í Svíþjóð. Veitak. Veit ég ekki. En hins vegar hefi ég verið nokkuð andrammur síðan ég flutti hingað og ákvað í dag að taka á málinu. Nýtti ég því hádegismatartímann til að arka út í apótek í þeirri veiku von að þar fengist lausn við vandamálinu. Einhver tilvalin remedía. Jú, viti menn. Þar var heil hilla helguð andremmu. Ýmiss konar vökvar og duft og pillur sem sérstaklega hafa verið þróuð til að ráðast gegn andremmu. Aldrei datt mér í hug að úrvalið væri svo mikið og því hlaut að hvarfla að mér að andremma væri sérstakt vandmál hér í landi. Ég hef nú ekki orðið var við það á andadrætti samborgara minna hér, en það gæti þó allt eins verið vegna þess að svo margar remedíur finnast við þessum fúla fjanda. Hvað um það nú smjatta ég á andremmutöflum og finnst ég betri maður fyrir vikið.

Jóka hefur opnað bloggsíðu og fyrir ykkur sem hafið einhvern hug á að lesa um ástir og örlög dísinnar sænsku þá set ég hlekkinn hingað.

Einnig hefur verið opnaður bloggur fyrir þá sem vilja fylgjast með lífi mínu á útlensku. Also, a blog has been opened for those who are interested in observing my life in English.

Húrra

Stundin sem ég hefi lengi beðið eftir hefur runnið upp. Ég fékk að færa bloggana mína yfir á nýja Blogger. Nú blogga ég ekki lengur á betu. Ojæja, þetta er máski ekki langþráð stund.

15. jan. 2007

Rok, rigning og partý

Það var rok um helgina. Hér var hávaðarok. Svo mikill ofsi að fólk dó.
Rúða brotnaði hjá nágrannanum. Rafmagnið fauk í burtu frá hundraðþúsund heimilum.

Við Jóhanna sváfum sæl og þunn á meðan veðrið barði á hurðir og glugga.

Í búðin skartar sínu fegursta og hefur aldrei verið sætari. búslóðin komin upp úr kössum og stendur á sínum stað dreifð um gólfið og í skápum og hillum. Við héldum veislu til að bjóða búslóðina velkomna. Fólk mætti, dáðist að henni, drakk og dansaði.

Svona var helgin, sjúk og fögur.

12. jan. 2007

Sími og svona

Sporvagn númer þrjú færði mig til vinnu á bókasafninu í morgun. Það er gott að ferðast með sporvögnum. Konur með börn í vögnum nota sporvagna mikið. Þeim þykir sennilega líka gott að ferðast með sporvögnum. Sporvagnar ættu að finnast í öllum góðum borgum.

Gamal símkort fannst í gær á botni kassa. Það hefur nú verið sett í mína eigu. Þetta gæti ég orðað öðruvísi og sagt: Ég hefi nýtt símanúmer

Hingað: +46 701 491278
Hér: 0701 491278

Hringið ef þið hafið eitthvað við mig að segja.

11. jan. 2007

Rigning

Búslóðin kom í morgun. Hún átti að koma í gær. Við biðum og biðum. Ekki kom hún.

En í morgun kom hún. Nú situr Jóhanna heima að púsla henni saman. Ég er á bókasafninu og vinn.

í gærkvöldi hlóð ég niður myndum frá Áramótum í London.

Mikið var gaman.

Lífið er að smella saman hér. Ég get unnið í gegnum internetið. Búslóðin komin. Ég rata um Gautaborg og skil sífellt meira í sænsku.

Nú þarf bara internetið að koma heim og þá er þetta mestmegnis glæsilegt.

9. jan. 2007

Smáborg

Við Íslendingar höldum oft að einhverjir hlutir séu séríslenskir. Margir halda því t.d. fram að kokkteilsósan sé íslensk uppfinning (ef hægt er að kalla það uppfinningu að blanda saman tómatsósu og mæjónesi). Það er hins vegar della. Í Hollandi er t.d. hægt að fá kokkteilsósu, hún ku hafa borist til Hollands frá Belgíu og í Belgíu er hún talin koma frá Frakklandi. Kokkteilsósan sem notuð er á franskar kartöflur ku vera afbrigði af sósunni í rækjukokkteil. Hence the name! Ég ætla að eigna frökkum kokkteilsósuna, enda eru þeir snillingar í að búa til viðbjóðsmat. En, jú þess vegna finnst mér Icelandair auglýsingin hláleg þar sem kona ein stendur á Damtorgi í Amsterdam og biður um Cocktailsauce. Í auglýsingunni er sum sé látið liggja að því að sósan sé íslensk uppfinning og að beiðni konunnar sé jafnstórkostleg og að einhver útlendingur syngi Draum um Nínu á húsþaki einhverri stórborginni. Ég hef t.d. verið á veitingastað steinsnar frá Damtorgi þar sem einhver bað um Coctailsauce og fékk út á frönskurnar sínar þennan bleika viðbjóð.

En: ég ætlaði ekki að tala um kokkteilsósur hér. Heldur annað sem margir telja eitthvað sér íslenskt. Að fara hamförum yfir velgengi strákanna okkar á erlendri grund. En svo hefur maður komist að því að það er bara alls ekkert sér íslenskt. Síður en svo. Hér í Svíþjóð eru menn t.d. alveg að missa sig yfir því að Henrik Larsson hafi skorað mark fyrir ManUtd. Og þegar hinn sænsk-norski Christer Fuglesang varð fyrsti Svíinn út í geim héldu menn veislur út um gjörvalt Svíaríki. Hmmmm - kannski eru það Svíar sem eru bara jafn miklir smáborgarar og íslendingar.

8. jan. 2007

Nýtt ár - ný borg

Nýtt ár á nýjum stað.

Gautaborg myrkvast snemma. En hér birtir fyrr en Reykjavíkin mín. Internetmál ganga hægt. Ég byrjaði aftur í vinnunni í dag en sökum skorts á neti heima þarf ég að vera á bókasafni. Háskólabókasafni. Ég kann ósköp vel við háskólabókasöfn.

Ég nýtti líka netið til að skila nemendum einkunnum. Um leið fékk einkunnir nemenda. Ef marka má kennslukönnun stóð ég mig betur í ár en fyrra. Við því var að búast. En það eru þó góðar fréttir.

Búslóðin býður á bakkanum. Lífið verður betra þegar hún verður komin heim. Ikea var heimsótt í gær. Nú eigum við smávegis Ikea dót.

Ég ætla að sækja um sænskunámskeið sem sniðið er að þörfum "nágrannanna í norðri". Dönum Norðmönnum og Íslendingum. Það sýnist mér sniðugt.