30. jan. 2007

og nú að einhverju allt öðru

Ég er royalisti. Ég tilkynnti þetta í hópi vina fyrir nokkrum árum. Það var í matarboði, lundaveislu. Ég sagðist vera royalisti og það sló þögn á hópinn. Einhver breytti um umræðuefni, fór að tala um yfirvofandi kennaraverkfall. En einhvern veginn lá þessi yfirlýsing mín í loftinu og varð þyngri og þyngri og sífellt óþægilegri þar til hún varð alveg yfirþyrmandi og fólk fór að afsaka sig og týnast úr veislunni eitt af öðru. Gekk bara frá borðum uppfrá ókláruðum matnum. Þar til að eftir vour bara ég og gestgjafarnir, sem ég kýs að nafngreina ekki hér, kærustupar þá en eru gift í dag og eiga barn, og annað á leiðinni hef ég heyrt. Hann fór að ganga frá borðinu en hún að hella upp á kaffi. Inni í eldhúsinu heyrði ég þau tala í hálfum hljóðum og henni var greinilega mikið niðrifyrir. Hann kom stuttu síðar inn í borðstofu með kaffi í könnu og koníakflösku. Hún fylgdi á eftir með þrjú glös og konfekt í skál. Þau settust niður andspænis mér við borðið og horfðu á mig alvarlegum augum. Hún tók hönd mína í sína og strauk létt yfir handabakið á meðan hún horfði djúpt í augun á mér og sagði: Hjörtur, er þetta satt? Ertu royalisti?

Við áttum gott samtal í kjölfarið, yfir kaffi og koníaki, en síðan þá, þessa kvöldstund, hef ég aldrei aftur minnst á þetta. Þar til í gær, þegar í sjónvarpinu var þátturinn Prinsar och prinsessor, að ég hvíslaði með sjálfum mér: Ég er royalisti.

Örsnöggt leit Jóhanna til mín, horfði á mig þögul, en sneri sér svo aftur að bóklestrinum.

4 ummæli:

Finnur sagði...

Held ég sé bara sammála þér. Upplýst einræði er málið.
Ég myndi líklega flokkast sem mónarkisti eða jafnvel cavalier.
http://en.wikipedia.org/wiki/Royalist

Króinn sagði...

Já, ég hef lengi haft skömm á þessum royalista-tendensum þínum. Fátt gerir mig nefnilega eins reiðan og kónga- og drottningapakk sem lifir í vellystingum á kostnað þjóða sinna. Ég er meira að segja orðinn reiður núna og hætti því hér.
Ég er annars farinn að nota kommentin hjá þér til tuðs, aftur og aftur og aftur. Ég skal reyna að hætta því líka.

Fjalsi sagði...

ojæja - mér þykir bara hugglegt að lesa röflið þitt hér í skilaboðaskjóðunni

Pétur Maack sagði...

hehh,
skemmtileg þversögn þetta Hjörtur minn...
Þú gætir þá kannski orðið svona "öreigaprins"?
;o)