26. jan. 2007

bloggur, lúkkur og djókur

Jú, það fór eins og mig grunaði. Einhver (ekki bara einhver heldur veður-Siggi sjálfur (og er þá ekki rætt um Sigga storm)) kommentar á beygingu mína á lúkk og blogg. Hvers vegna ég kjósi að beygja orðin í karlkyni.

Tökuorð eru skemmtilegur orðflokkur (jú, hægt er að tala um orðflokk í þessu samhengi en þá skal maður gæta þess að slík flokkun fellur ekki að hefðbundinni orðflokkagreiningu sem við eigum að venjast, s.s. nafnorð, sagnorð og lýsingarorð). Þau eru ekki upprunaleg orð í íslensku og þegar þau koma inn í málið eru þau oft berstrípuð formdeildum. Hvað á ég við, jú, beygingarleg atriði sem þau varða eru ekki til staðar og oft er að tilviljun háð í hvaða beygingarflokkum þau, lenda. Það er einkum hvað varðar kyn, en algengt er að tökuorð beygist veikt. Það er því ekki óalgengt að beyging slíkra orða sé nokkuð á reiki, þá sér í lagi þegar orðið er nýtt í málinu.

Djús er dæmi um tökuorð sem hefur ekki fast kyn í íslensku: Sumir segja djúsið en aðrir djúsinn og sumir nota jafnvel bæði. Svipað eru um saft. Sumir segja saftin en aðrir saftið.

Hvers vegna bloggur? Flestir ættu að vita að uppruni enska orðsins blog runnið frá orðunum web log. Það á sem sagt við um eins konar dagbók á vefnum. Orðið log hefur verið tekið inn í íslensku, þó ekki sé það algengt, og þá jafnan notað í karlkyni (nefnifall: loggur). Því þykir mér beinast liggja við að sambærileg taka á orðinu blog bloggur.

Enska orðið look gæti verið þýtt svipur á íslensku, er þá lúkkur er mögulegt tökurorð. Auk þess þykir mér einfaldlega fallegra að tala um lúkkinn frekar en lúkkið.

Svíar hafa þá hugmynd um íslensku að hún sé bara eins og sænska nema maður bæti -ur aftan við allt. Mér þykir ekki úr vegi að ýta undir þá hugmynd þeirra.

Hvað varðar leitina, sýnist mér að ekki dugi að leita með íslenskum stöfum. Þeir gufa upp á leiðinni inn á Google og því verður orð eins og t.d. strætó bara str t og slík leit skilar að sjálfsögðu fáum niðurstöðum.

1 ummæli:

Króinn sagði...

Ég endurtek bara fyrri orð mín: þetta er færeyska og ekkert annað.
Sjálfur segi nota ég hvorugkyn í öllum þessum tilvikum sem þú taldir upp.
Svo segi ég líka: Þungið hnífið! (brandari skiljanlegur öllum þeim sem farið hafa í gegnum samræður við Svía um sérkenni Íslands).
Góða helgi annars, tralli minn.