7. ágú. 2011

Krummi

Oft er talað um hvernig internetið hefur breytt samskiptum fólks. Um netið getur fólk átt í samskiptum á milli landa og heimsálfa án þess að þekkjast nokkuð í raunheimum. Þannig geta myndast sambönd og heilu kunningjahóparnir sem hafa aldrei hist. Það er óþarfi að fara nánar út í þá sálma, en mér er þetta ofarlega í huga núna, því nú um helgina bárust mér fregnir af því að einn slíkur „netkunningi“ minn hafi farist af slysförum fyrir fáeinum dögum.
Þrátt fyrir að ég hafi í raun aldrei hitt hann í eigin persónu slógu mig tíðindi sárlega. Því við höfum í um átta ár átt í nokkuð tíðum samskiptum, í ummælakerfum bloggsíðna og á samfélagsmiðlum ýmiss konar. Ég hef lesið bloggið hans og hann bloggið mitt og höfum þannig fengið innsýn í líf hvors annars. Mér finnst ég því hafa þekkt hann, sem ég á vissan hátt gerði.
Það er skrítið, þegar maður fær svona fréttir af félaga sem maður hefur aldrei hitt, hvað það snertir mann, og að uppgötva að maður á sér í raun vini og kunningja víða um veröld, sem skipta mann máli og koma við sögu í daglegu lífi manns.
Mig grunar að einhverjir lesendur þessa bloggs hafi haft svipuð kynni af honum. Mér finnst því við hæfi að minnast hans hér. Á þessum bloggi hefur hann oft skilið eftir fjörug og stundum klikkuð ummæli, nánast frá upphafi. Nú hefur rödd á netinu þagnað, rödd sem ég mun sakna.