10. okt. 2008

Ræðan

Mér er orðið tamt á því að spyrja: Hvernig gátu allir þessir hagfræðingar, viðskiptafræðingar, markaðfræðingar eða hvað þetta heitir, ekki vitað það sem lítli hugvísindamaður vissi fyrir löngu?

Þegar þýskur vinur minn spurði mig á haustdögum 2006 hvernig í ósköpunum þessi velgengni íslensku bankanna og annarra fyrirtækja væri möguleg, sagði ég: Hún gengur eiginlega ekki upp. Sannaðu til, eftir kannski tvö ár verða þeir örugglega í slæmum málum.

Þegar ég flutti heim frá Amsterdam haustið 2005 var allt í blússandi gangi. Bjartýnin ofar góðu hófi og græðgin að ná góðri undirstöðu sem ráðandi þankagangur landa minna. Leiguverð hækkaði og hækkaði og allir í kringum mig fullir kaupæði. Flestir vina minna stóðu t.d. í íbúðakaupum á 100% lánum. Kauptu, sögðu þeir, það er eina vitið.

Ég var efins. Eftir að ljóst var að ekki var möguleiki að leigja íbúð á sómasamlegu verði og eina leiðin virtist að kaupa íbúð á hæsta verði sáum við Jóhanna aðra lausn: Förum út. Bíðum með að markaðurinn kólni. Þetta ástand varir ekki að eilífu. Það er rugl að leigja og enn meiri vitleysa að kaupa íbúð sem gerir ábyggilega fátt annað en að lækka í verði úr þessu á lánum sem gera líklega fátt annað en að hækka.

Við fluttum út. Ég geymdi peningana mína í SPRON. Þar þótti mér þeir tryggir. Ég gat jafnan sagt með stolti að sparisjóðurinn minn væri ekki að taka þátt í þessu útrásarrugli. Ég keypti engin verðbréf fyrir milljónina tæpu sem ég fékk út fyrir íbúð einu sinni. Þaðan af síður hlutabréf. Nú er milljónin tæpa í rúmri milljón. Ég græddi ekki mikið. En ég tapaði engu.

Um daginn sagði hagfræðingur í sjónvarpinu: Þeir sem skulda lítið og eiga lítið tapa minnstu. Ég horfði á sjónvarpið og sagði: Er þetta sum sé hagfræði.

Þjóðin er alltaf að leita að sökudólgum þessa dagana. Hún má vel líta í eigin barm. Það tóku flestir þátt í þessu fylleríi sem er stundum kallað góðæri. Nokkrir menn högnuðust verulega, urðu skyndilega ríkir. Þjóðin hélt hún væri líka rík og keypti og keypti og keypti. Allt á lánum auðvitað. Því fæstir höfðu fengið hlutdeild í þessum ofsagróða. Það voru ekki bara þessir bankamenn sem stofnuðu til meiri skulda en þeir gátu mögulega greitt til baka. Það á við um ótal heimili í landinu.

Fæsta gæti hafa órað fyrir þeim hörmungum sem nú dynja yfir. En menn máttu nú alveg sjá að þetta gæti enda a.m.k. í þessa áttina: Niður. En á fylleríi er maður sjaldnast að hugsa um timburmennina sem fylgja í kjölfarið.

Mín mistök? Að halda tryggð við íslenska markaðinn með að vinna fyrir íslenskt fyrirtæki. Launin mín eru eiginlega horfin.

En pælingin með þessu öllu saman? Æi ég veit það ekki. Þetta ástand er ömurlegt, en það er amk ekki mér að kenna...

1 ummæli:

Finnur sagði...

Þú ert duglegur að blogga