Lýðurinn vill blóð. Það er skiljanlegt. Þannig er fólk.
Ég get ekki séð að það sé við einhvern einn að sakast. Bankaliðið, seðlabankinn, ríkisstjórnin, forsetinn, fjölmiðlar, Alþingi. Allir brugðust á einn hátt eða annan.
Fyrsta verk í endurreisninni hlýtur að vera að skipta um stjórn í seðlabankanum og skerpa á hæfniskröfum um starf seðlabankastjóra, og fækka þeim úr þrjá í einn. Það hefur eiginlega verið ljóst allt of lengi. Þar með er ég ekki að segja að það sé sérstaklega við Davíð Oddsson og félaga að sakast í þessum efnum (þó vissulega hafi mörg mistök komið úr þeirri áttinni) heldur líka því hvernig við höfum valið að skipa stjórnendur bankans og gert hann um leið að efirlaunasetri afdankaðra stjórnmálamanna sem er gjörsamlega ótrúverðugt sem einhverskonar hagstjórnartæki.
Hvort það sé mögulegt með Sjálfstæðisflokk í ríkisstjórn er hins vegar annað mál. Þess vegna er afar mikilvægt að þessi krafa komi skýrt fram hjá Samfylkingunni og raunar öðrum flokkum á alþingi. En furðu lítið hefur borið á þeirri kröfu hjá stjórnandstöðunni. Þögnin hjá Framsókn er kannski skiljanleg. Hún skipaði núverandi stjórn.
Koma svo á þingmannanefnd eða rannsóknarnefn þingsins þar sem farið verður í kjölinn á undangengnum hamförum. Þessa nefnd þarf að skipa núna. Ekki dugir að sitjandi viðskiptanefnd rannsaki mál sem gæti varðað hana sjálfa!
Svo mætti íhuga, þegar meiri stöðugleika hefur verið náð, að rjúfa þing og blása til kosninga. Þó að óvíst sé hvað sitjandi ríkisstjórn hefði geta gert er ljóst að hún ber höfðuábyrgð á stjórn landsins og það er eðlilegt að hún axli ábyrgð með því að víkja.
Þetta er svona það sem mér finnst.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli