27. okt. 2011

betrireykjavik.is

Fyrir nokkrum dögum var hleypt á netið nýrri og bættri útgáfu af Betri Reykjavík. Þetta er hugmyndavettvangur til að bæta borgina okkar og mun, ef staðið verður við stóru orðin, geta haft áhrif á ákvarðanatöku í borginni. Vefurinn snýst um að fólk kemur með hugmyndir og sem svo er hægt að ræða og gefa atkvæði sitt. Í lok hvers mánaðar verður fimm vinsælustu hugmyndum gefið pláss á viðkomandi vettvangi innan borgarkerfisins. Þannig geta notendur vefsins haft bein áhrif á dagsskrá nefnda og sviða. Þetta er frábært framtak.

Ég er sérlega áhugasamur um að gera Reykjavík að betri borg og hef talsvert beitt mér þarna inni og var um langan tíma tillaga mín um að fjölga sölustöðum strætómiða í fimmta sæti. Sem þýðir að hún yrði send til umfjöllunar, væntanlega í stjórn Strætó.

Mér sýnist hún vera að lúta í lægra haldi fyrir hugmynd um að strætó gangi fram yfir miðnætti alla daga, sem er svo sem ekki síðri hugmynd. En mikið væri nú gaman að sjá hugmyndina mann tekna til umfjöllunar.

Hér má sjá fimm efstu hugmyndirnar þessa stundina:

2 ummæli:

Króinn sagði...

Með fullri virðingu fyrir þessum fimm, þá er nú eiginlega bara efsta tillagan virkilega knýjandi. Hinar svona eitthvað sem væri voða gaman að gera ef einhver nennir. En gott og blessað.

Annars finnst mér að þín tillaga eigi skilið að vera þarna inni og það er umhugsunarvert að enginn skuli vera að pæla alvarlega í því af hverju strætómiðar eru ekki seldir víðar. Sýnir þar með enn og sannar hvað enn er litið á strætó sem síðasta úrræði fyrir fólk í stað fyrsta kosts.

Man eftir að hafa tekið strætó af Hlemmi fyrir tveimur árum. Þar voru engar upplýsingar um miðaverð nokkurs staðar og voðalítil þjónusta og maður endaði á því að þurfa að vera bara tilbúinn með klinkið sitt. Sem ég var ekki og þess vegna held ég að ég hafi endað á því að þurfa að kaupa mér prinspóló til að fá til baka af fimmhundruð kalli til að nota í strætóinn.

Í strætónum voru engar upplýsingar um hvaða stoppistöðvum viðkomandi strætó stoppaði á og hann keyrði framhjá mestmegnis algjörlega ómerktum stoppistöðvum þannig að fyrir mig sem var á leið eitthvað upp í Breiðholt var algjörlega ómögulegt að vita hvenær ég ætti að fara út. Nema auðvitað með því að spyrja vagnstjórann og það stendur í strætóum að það sé bannað að tala við hann í akstri.

Það þarf því ansi margt að laga í sambandi við strætó en því miður skynja ég mjög lítinn áhuga á því meðal Reykvíkinga. Þessi meirihluti lofaði úrbótum á kerfinu fyrir kosningar. Það voru svik því síðan hefur þjónustan versnað. Léleg fjárhagsstaða gildir ekki sem afsökun, hún lá fyrir þegar kosningaloforðin voru sett fram vorið 2010.

En þá var jú auðvitað miklu mikilvægara að tala um ókeypis handklæði í sund og eitthvað fyndið.

Fjalsi sagði...

Nú ætla ég að fá að mótmæla og taka upp hanskann fyrir Strætó. (Það er greinilega farið að kólna í helvíti.)

Ef farið er yfir tillögurnar á betrireykjavík.is má greinilega sjá að málefni Strætó brenna á fólki og fjölmargar vinsælar tillögur fjalla um þau. T.d. fjallar langvinsælasta tillagan um fleiri greiðslumöguleika í strætó, sem ef af yrði myndi jafnvel gera mína tillögu úrelta (t.d. um að hægt verði að greiða með SMS eða korti). Þannig að ég held að áhuginn sé fyrir hendi.

Þá hafa á síðustu misserum upplýsingamál strætó stórbatnað, t.d. heita allar stöðvar eitthvað og í vögnunum er tilkynnt með hljóði og texta hvaða stöð er næst. Á stoppistöðvum sýna leiðarskiltin allar stöðvar á hverri leið og tengingar við aðrar leiðir.

Aðrar umbætur eru í undirbúningi. T.d. er staðsetningartæki í öllum vögnum og verið að vinna að símaforriti sem sýnir væntanlegan komutíma á þeirri stöð sem þú ert á, auk þes sem fyrirhugað er að setja upp LED-skilti á helstu stöðvar. Þetta hefur hins vegar ekki verið í forgangi, enda ekki forgangsmál.

Leiðarkerfið er ekki ónýtt, það nær að tengja ágætlega hverfi í borg þar sem allt skipulag er algjörlega galið. Það er eiginlega þrekvirki. En helsti gallinn á strætó er hversu ferðir eru strjálar og þjónustutíminn stuttur (enda snúast heltu tillögurnar um að breyta því).

Það er margt sem hægt er að laga, en margt hefur breytst til batnaðar frá því ég bjó hér fyrir fimm árum. Þá virkaði ekki kerfið. Nú virkar kerfið, en það þarf að bæta þjónustuna. Ég er bjartsýnn.