23. feb. 2011

Eina ósk

(#twitter) Eftir að ég flutti til Svíþjóðar pirraði það mig í fyrstu hversu allt þarf að ræðast hér. Það er aldrei hægt bara að kýla á eitthvað öðruvís en að ræða það í þaula fyrst. Íslendingurinn ég leit auðvitað á þetta sem ferlegan ókost. Óþarfa röfl sem gerði ekkert annað en að tefja málin. Stundum finnst manni að Svíar reyni að gera vandamál úr öllu. Allt þarf að skilgreina og öllu þarf að gefa nafn.

Öðruvísi mér áður brá. Ég sé nú kostina við þetta. Svíar ræða nefnilega kjarna málsins og nálgast hann frá sem flestum hliðum. Svarið þarf nefnilega ekki bara að vera já/nei, jú/víst, svart/hvítt. Það eru nokkrar hliðar á öllum málum og upplýst ákvörðun byggist á því að þær hafi allar verið skoðaðar. Auðvitað getur þetta gengið út í öfgar og málin rædd endalaust án þess að nokkur botn fáist í þau. En yfirleitt næst niðurstaða, einhver concensus. Eftir að hafa búið hér í Svíþjóð síðustu fjögur árin vildi ég óska að umræðuhefðin á Íslandi væri eitthvað í líkingu við þá hér en ekki bara hin svarhvíta jú/nei/víst/fífl-umræða.

Reyndar eru málefnin oft þaulrædd á Íslandi. En yfirleitt á nákvæmlega sama hátt, hvert sem málefnið er. Það er sama hvað er rætt, A, B, C eða D. Umræðan er alltaf E:

A. Eigum við að samþykkja eða hafna Icesave-samningum?
B. Hvers vegna eigum við/eigum við ekki að ganga í ESB?
C. Hvernig eigum við að leysa stjórnlagaþingsmálið?
D. Eigum við að virkja eða ekki?

E. Forsetinn er fífl, ríkisstjórnin er fífl, samfylkingin/sjálfstæðisflokkurinn/VG/framsókn er fífl, blaðamenn eru fífl og á mála hjá hagsmunaaðilum, það er engin alvöru blaðamennska til á íslandi, þú ert kommúnísti, þú ert femínisti, þú studdir útrásina, jú, nei, víst, fífl....

Þegar boðið er upp á rökræður um málefnin eru yfirleitt farin sama leiðin, t.d. í þáttum á borð við Kastljósið: Málefnið skal ræða og fenginn einn fulltrúi sem er sannfærður á móti og annar samfærður með. Þannig er umræða pólaríseruð og raun og veru ekki boðið upp á annað en: já/nei/jú/víst/fífl-umræðuna. Niðurstaðan sem áhorfendur fá er sú að það er hægt að vera með og á móti málinu, en yfirleitt hefur fólk ekki hugmynd um hvers vegna. Það er þessi MORFÍS-hugsunarháttur. Þú talar gegn málinu til að tala gegn því, ekki til að upplýsa um ókosti þess. Þetta sést svo kristaltært á Alþingi. Stór hluti þingmanna sjálfstæðisflokksins talar gegn ESB og Icesave-samningum þrátt fyrir að vera hlynntur þeim. Vinstri-Grænir tala með áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Icesave-samningum og Umsóknarferlinu fyrir ESB þrátt fyrir að vera gjörsamlega andvígir þeim. Samfylkingin talar gegn þjóðaratkvæðagreiðslum sem þeir hafa þrástagast á til þessa. Það er helst framsóknarflokkurinn er sem trúr sinni skoðun, hver sem hún reyndar er!

Það þarf að ræða málefnin sjálf, vega og meta, ræða ókostina og kostina. Auðvitað má maður vera með og á móti, en maður þarf að gera sér og öðrum grein fyrir hvers vegna. Og manni má snúast hugur. Annars er enginn tilgangur að ræða málin.
Þetta er svona það sem ég óska mér. Hvað er hægt að gera til að gera þá ósk að veruleika?

4 ummæli:

Króinn sagði...

Like.

...þó mér finnist reyndar algjör óþarfi að vera að tala svona vel um Framsóknarflokkinn.

Gummi Erlings sagði...

Af sama meiði er þessi hugmynd sem virðist ríkjandi hjá íslendingum að skoðanafrelsi felist í því að fólk megi hafa sínar skoðanir í friði og verður fúlt þegar einhver dirfist að gagnrýna þær. Auðvitað má fólk hafa sínar skoðanir í friði, ef það heldur þeim fyrir sig.

Einar Ólafsson sagði...

Mikið er þetta satt og rétt. Þessi íslenska umræðuhefð er held ég mjög rótgróin - eða kannski vantar bara umræðuhefð, og svo misskilja menn í hverju umræður felast og halda að þær séu hliðstæðar skylmingum eða boxi, til verða fáránlegar keppnir eins og morfís og umræðuþættir í sjónvarpinu einkennast af því sama og jafnvel þótt ekki séu umræður heldur bara fréttamaður að tala við einhvern um umdeilt mál, þá fær viðkomandi varla tækifæri til að skýra mál sitt, fréttamaðurinn grípur fram í fyrir honum og svo er tíminn búinn, af því að það á ekki að eyða tíma í að ræða málin, ef við þurfum ekki að fara að bretta upp ermarnar og gera eitthvað, þá er komið að þrítugastaogfimmta þætti amrísku sápunnar.......... - auðvitað eru til undantekningar en þær eru of fáar

Króinn sagði...

Mundu samt eftir ástæðunni fyrir þessu öllu, Einar, sem réttlætir þetta allt saman:

,,Við erum útvegsþjóð. Við höfum þess vegna ekki tíma til að bíða og hugsa, við þurfum að gera!"

Einhverra hluta vegna lifa nefnilega Íslendingar í þeirri trú að þeir séu eina þjóðin í veröldinni sem hefur þurft að stóla á dyntótt náttúrufar og þess vegna sé þeim eðlislægt að rumpa hlutunum af. Eins og að hvergi annars staðar í veröldinni hafi menn þurft að sækja sjó eða sá og uppskera sér til lífsviðurværis.