24. feb. 2011

Af fréttum

Ég get ekki orða bundist. Þó svo að fréttin komi lesendum á Íslandi lítið við og er ekki stórmál í sjálfu sér, er þetta einkenni á arfaslakri fréttamennsku á þessum vefmiðlum á Íslandi.

Hér er fréttin. En ég afrita texta hennar hér, ef hún skyldi verða uppfærð einhvern daginn.

Bankamaðurinn Ross McBride notaði afsláttarkort til að hlúa að bólgnum kynfærum sonar síns eftir að hafa sparkað bolta í hann.

Í febrúar 2008 var hinn 23 ára gamli McBride svekktur yfir að hafa ekki fengið Valentínusarkort frá kærustunni sinni. Í bræði sinni sparkaði hann eins fast og hann gat í fótbolta sem lenti milli fótanna á barninu.

Eftir nokkurn tíma tók McBride eftir að kynfæri barnsins höfðu bólgnað upp. Þá tók hann afsláttarkortið sitt úr veskinu, braut það og reyndi að ýta á bólguna. Þegar ekkert gekk reyndi hann loks að nota horn kortsins til að stinga á bólgurnar.

Drengurinn var færður á sjúkrahús með mar, bólgur og nokkur sár eftir björgunaraðgerðir McBride. Hann hefur náð sér að fullu.

McBride var ákærður fyrir athæfi sitt en saksóknari í Glasgow tók sérstaklega fram að málið væri alls ekki kynferðisafbrotamál.


Við lesturinn fannst mér eitt og annað undarlegt í fréttinni. Ég hugsaði sem svo: Það hlýtur eitthvað að vera að þessum manni. Svo ég sló nafni mannsins upp á Google News. Ég fann fjórar frásagnir af þessu og viti menn, þar kom eitt og annað fram sem vantaði í íslensku þýðinguna. Þýðingin er væntanlega unnin úr þessari frétt.

Í fyrsta lagi kemur þar fram að umræddur maður er alls ekki bankamaður, heldur frá Clydebank í Skotlandi! Annað er líka stórmerkilegt að aðeins einni málsgrein er sleppt í þýðingunni. Hins vegar er óskiljanlegt afhverju einmitt þeirri málsgrein er sleppt: "Mcbride, who suffers from autism, admitted using culpable and reckless conduct."

Þetta gefur málinu að mínu mati ákveðna skýringu. Stórfurðuleg hegðun bankamannsins frá Skotlandi er hér skýrð með einu orði: Autism, einhverfa.

Kannski er enska fréttin sem þýtt er úr heldur ekki nógu nákvæm. Ef aðrar fréttir af málinu eru lesnar kemur eftirfarandi fram: "The court was told that McBride, who admitted culpable and reckless conduct at an earlier hearing, suffers from autism, emotional difficulties and low intelligence." En að maðurinn sé með einhverfu á nú að vera nóg til að álykta: Já ókei. Ég skil.

Maður spyr sig: Hversu miklu er eiginleg sleppt í fréttum sem eru þýddar í íslenskum fjölmiðlum?

Engin ummæli: