16. sep. 2011

Íslenska þrjóskan

Jæja, það þurfti að koma til þess að Bandaríkjamenn beittu þvingunum vegna hvalveiða Íslendinga. Sama hvað mönnum finnst, hvort það sé vottur um hræsni eða tvískinnungshátt Bandaríkjamanna, hvort þessar veiðar séu löglegar skv. einhverjum skilgreiningum og veiðarnar sjálfbærar eða hvað fólki finnst um hvalveiðar yfir höfuð, er sorglegt að það hafi þurft að koma til þessa. Vegna þess að þessar veiðar virðast engu raunverulegu máli skipta fyrir Íslendinga.

Mér virðst málflutningurinn mestmegnis snúast út á að Íslendingar eigi rétt á að veiða hvali í eigin lögsögu og að önnur ríki hafi ekkert með að vera að skipta sér af því. Og ef önnur ríki skipta sér af því, þá verða menn enn þverari í þessari afstöðu sinni, og dettur ekki í hug að gefa sig, í einhverri undarlegri þrjósku sem blásin er upp af  ömurlegu þjóðarstolti.

Og nú hótar Bandaríkjaforseti okkur og þá er nú viðbúið að þetta lið sýni enn meiri þvermóðsku og neiti nokkurn tíma að gefa sig.

Annars er stórundarlegt að ríkisstjórn, þar sem sjávarútvegsmál eru undir stjórn svokallaðs græningjaflokks, skuli halda hvalveiðum til streitu og, ekki nóg með það, verja þær fram í rauðan dauðann.

Obama waives sanctions on Iceland whaling


Engin ummæli: