Ég nenni ekki að gagnrýna íslenska fjölmiðla. Bendi þess í stað á stórgóða fjölmiðlarýni Marra á Smugunni. Nei, ég ætla þess í stað að fjalla um hina stórgóðu fjölmiðlun hér í Svíþjóð. Svíar eru meistarar í gerð sjónvarpsefnis og skarar þar sænska ríkissjónvarpið (SVT) framúr. Umræðuhefðin hér í Svíþjóð er nefnilega upplýst og gagnrýnin samræðuhefð, eins og ég hefi nefnt áður á þessum bloggi, þar sem hlutirnir eru ekki bara málaðir svart og hvítt heldur reynt að nálgast viðfangið frá mörgum hliðum.
Ég get, og mun, fjalla um nokkra þætti í sænska sjónvarpinu sem íslenskt fjölmiðlafólk getur tekið sér til fyrirmyndar en nú ætla ég að fjalla um einn þátt sem ég sá um daginn: Landet Brunsås, sem mætti kalla Brúnsósulandið á gamla góða. Þættirnir snerta kannski ekki íslenska þjóðarsál beint, enda fjalla þeir um sænska matarmenningu. En það er þó margt sameiginlegt með sænskri og íslenskri matarmenningu, t.d. gengdarlaus kjötneysla og áhersla á unnar matvörur. Í þættinum er kafað í matarmenningu landans, ráðist á mýtur og hlutirnir settir í samhengi. Þetta er þjóðfélagsgagnrýni sem kemur við kauninn á fólki því ráðist er á allt að heilaga stund á hverju heimili, kvöldmatartímann og persónulegar venjur.
Þessir þættir eru ágætis dæmi um ákveðið stef sem er áberandi í sænskum fjölmiðlum: Beitta samfélagsgagnrýni.
Svíar virðast óþreytandi við að benda það sem miður er og betur mætti fara. Þeir spyrja sig í sífellu: Er þetta rétt, er þessu best hagað svona, getum við gert betur, hvers vegna eru hlutirnir svona? Samt sem áður, og líklega þess vegna, búa Svíar í einu huggulegasta og öruggasta samfélagi veraldar. Það er ekki vegna þess að þeir séu svo óskaplega ánægðir með sjálfa sig og nota hvert tækifæri til að upphefja sig (slíkt er beinlínis bannað samkvæmt óformlegum venjum samfélagsins). Nei, þeir gagnrýna hátt og snjallt, og ekki með því að rífast um hlutina, nei, heldur ræða þá. Þetta mega Íslendingar temja sér og íslenskir fjölmiðlar ýta undir.
(En auðvitað eru Svíar óskaplega ánægðir með sig sjálfa í laumi.)
Hér er svo linkurinn á þættina. Veit svo sem ekki hvort hægt sé að horfa á þetta fyrir utan Svíþjóð.
Tack fyrir.
1 ummæli:
Gott að sjá þig kominn í hóp Svíaperra. Velkominn í þann góða hóp. Einhvern tíma hefðirðu hlegið að mér fyrir viðlíka færslu, ekki lengur.
Hljómar áhugavert annars. Heja Sverige.
Skrifa ummæli