29. okt. 2010

Haldið til haga

(#twitter) Eg held senn til heimahaganna. Seinast þegar ég tilkynnti á Facebook að ég skyldi halda til heimahaganna límdi Guðlaugur Jón á færsluna kvæði:

ó, fjársnauði, aldraði vinur, hve fúl er vor glíma!
Hví fjötrar oss skyldan? Hví nagar oss lífsleiðinn grái?
Læstir á skrifstofum, límdir við flöktandi skjái
við leitum í ylinn frá minningum liðinna tíma.

Er við vorum ungir og ókunnir hversdagsins puði
almúgafólksins er lífsgæðahildina háði,
er lífið úr lukkunnar staukum á veg okkar stráði
og ljómandi fríðir við blótuðum æskunnar guði.

Um vetursins frosthörkur vináttan leið okkar lýsti
uns vorsólin litfögur iljaði sálunum ungu
og lóurnar, léttar í spori, af túnblettum sungu
lofsöngva, okkur til dýrðar, með kátlegu tísti.

Þeir mildustu dagar enn merla í draumsýnum mínum
er mæta við örkuðum sólbjarta æskunnar vegi
og vormild hún vermir mér, nú þegar kular af degi
vonin um eilífa hlýju í örmunum þínum.



Nú skal haldið heim á ný og af því tilefni svaraði ég Guðlaugi á vegginn hans í dag:


ó, vinur! Hve hefur oss veröldin alið með blíðu
og vinskapinn okkar ræktað með ástríki í hjarta,
framgangi sáldrað um framabraut lífsgeislans bjarta
og fróðleik sem lýsir oss veg gegnum hversdagsins stríðu.

Víst gaf oss tilveran ungdómsins ómældu þýðu.
Um ástleysi, víl eða hörku ei þurftum að kvarta.
En mundu að minningum einum ei dugir að skarta
um munúð og hamingju æskunnar, sveindómsins fríðu.

Er hún þér glötuð, frygðin sem bar oss á brjósti?
Bölvar þér lífið og svarar þér aðeins með þjósti?
Vermir ei kætin þér nú þegar kular af degi?

Því gleðin hún lýsir víst enn í lífinu okkar
sem lífgandi andblær um ókominn tíma hún skokkar
og veita mun huggun á ellinnar holótta vegi.



Svo mörg voru þau orð og verðugt að halda þeim til haga.

Engin ummæli: