18. mar. 2010

Skráargatið


Ég var að hlusta á Samfélagið í nærmynd í gær (þökk sé IE-flipanum). Þessi þáttur er frábær að því leyti að þar er stöðugt verið að benda á góða hluti og hvað mætti betur fara í íslensku samfélagi. Þáttastjórnendur virðast hafa svipaðan áhuga og ég á endurvinnslumálum, skipulagsmálum, hollustumálum o.þ.h. Um daginn var t.d. verið að ræða um tækifæri í íslenskum landbúnaði sem felast í að selja beint frá býli og leggja áherslu á verslun í heimabyggð. Meira um það seinna. Í gær var hins vegar verið að ræða um skráargatið, í kjölfar umfjöllunar í neytendablaðinu. Merkið þekki ég vel, enda upprunnið í Svíþjóð, og ég kíki iðulega eftir því þegar ég versla matvöru.
Í umfjöllun neytendablaðsins kemur fram að búið sé að taka merkið upp í Noregi og Danmörku auk Svíþjóðar. Íslensk stjórnvöld hafi verið hvött til að vera með en af því hafi ekki orðið. Í máli talsmans neytendasamtakanna í Samfélaginu í gær kom fram að það væri aðallega vegna þess að íslenskir framleiðendur væru á móti því. Þetta þótti mér allrar athygli vert og finnst ástæða til að kanna betur. Hvers vegna vilja íslenskir framleiðendur ekki merkja vörurnar sínar með sérstöku hollustumerki? Er það vegna þess að íslensk matvæli eru upp til hópa óholl? Erum við ekki alltaf að grobba okkur af því hvað íslenskur matur sé góður og að matvæli frá öðrum löndum séu beinlínis hættuleg? Hvað er málið?

Engin ummæli: