9. feb. 2007

stúdentaráð og svona

Röskva sigraði í gær með einhverjum 20 atkvæðum. Ég hélt mér væri orðið nokk sama um stúdentapólitík en engu síður gladdist gamla Röskvuhjartað við tíðindin.

Það var svo sem auðvitað að mér væri ekki sama um stúdentapólitík, enda stúdentaráð bráðnauðsynlegur hagsmunaaðili sem hefur áorkað ótrúlega miklu í gegnum tíðina. Þannig eru t.d. réttindi stúdenta við HÍ mun meiri og betri en í háskólum víða erlendis.

Ég er þess reyndar fullviss að einmitt vegna slagsmálanna á milli Vöku og Röskvu hafi jafnvel náðst meiri árangur en ella. Fylkingarnar hafa lagt svo mikið kapp á að halda áhrifum í ráðinu og helsta leiðin til þess er að sjálfsögðu að láta verkin tala.

En í þennan ríg fer ótrúleg starfsorka og tími og væntanlega má gefa sér að fundir stúdentaráðs yrðu mun skilvirkari ef menn einbeittu sér þar frekar að hagsmunagæslu fyrir stúdenta en að vernda hag fylkingarinnar sinnar. Að sitja stúdentaráðsfundi er án ef eitt að því leiðinlegasta sem ég hef gert um ævina.

Ég var þess vegna spenntur að sjá hvaða áhrif það hefði þegar fylkingarnar tvær, Vaka og Röskva, settust saman í meirihluta. Hvor það myndi efla eða veikla stúdentaráð. Ég er ekki frá því að starfið hafi í raun orðið lakara. Í það minnsta hefur minna borið á stúdentaráði að undanförnu. Og það getur varla stafað af því að minni þörf sé á ráðinu eða að verkefnin séu eitthvað færri. Nemendum Háskólans fjölgar stöðugt án þess að skólinn stækki nokkuð að ráði og vandi hans eykst sífellt í samræmi við það. Neysla eykst og verðlag hækkar stöðugt í þjóðfélaginu án þess að námslán nái að fylgja því eftir á nokkurn hátt og leigumarkaðurinn í Reykjavík er hreinasta helvíti.

Það verður því spennandi að sjá hvort Röskva nái að blása aftur lífi í alvöru stúdentabaráttu næsta árið eða hvort dagar fylkinganna séu máski bara taldir. Breytingum á skipulagi ráðsins sem Háskólalistinn boðar hefur a.m.k. verið hafnað. Gömlu fylkingarnar tvær standa svo að segja hnífjafnar en nú aftur ein í minnihluta og önnur í meirihluta.

Skítkastið getur hafist á ný. Við erum komin aftur í sandkassann - hvur veit - kannski er það bara málið?

Engin ummæli: