21. sep. 2007

Jú - ég var kominn á gott flug með að breyta þessum miðli í almenniliga dagbók þar sem daglegum venjum ok gjörningum er lýst. En allt fór fyrir ekki. Svo hvað er annars títt. Sitt hvað. Ég álpaðist t.d. loksins á sænskunámskeið. Var farinn að skammast mín fyrir hvað ég bjagast þetta áfram á einskismannstungu með sænskum hreim og ákvaða að ekki væri annað hægt en að læra þetta almennilega. Ekki gerist það á daginn þegar ég sit einn heima og les ensku af einum skjá og skrifa íslensku á annan. Lítið fer fyrir sænskunni þar. Og ekki nennum við Jóka að spjalla saman á þessu korkaða landi.

Nema hvað að í sænskutíma er ég búinn að fara tvisvar og þar er svo sem allt eins og á að vera í tungumálanámi. Kennslubækur sem minna mann á áttaára bekk, yfirbrosandi kennari sem talar til mann eins og maður sé aumingi og við hlið manns prófessorar í kjarneðlisfræði og straumfræði og læknar og verkfræðingar sem allir virðast vera hálfvitar þegar þeir opna munninn. Og svo ég málvísindamaðurinn sem þarf að sitja undir því þegar kennarinn reynir að útskýra fyrir mannskapnum hvað perfekt og pluperfekt og preterite er. En þetta er fjör og í tímum á ég í stórskemmtilegum samræðum um ekki neitt og til þess var leikurinn gerður.

1 ummæli:

Króinn sagði...

Já, sjálfsagt svipuð tilfinning og ég upplifði í sumar þegar að bjánakennarinn minn í spænsku heimtaði það að ég lærði utan að nákvæmar skilgreiningar á því hvað fornöfn væru og nafnorð og svo framvegis. Þá hugsaði ég einmitt: ,,Ég geri ráð fyrir því að ég viti þetta betur en þú." Sagði þó auðvitað ekkert, sat bara stilltur og prúður og reyndi að kreista fram bros gegnum mikinn pirring.