13. apr. 2012

Rýnt í tölur og forsetaframboð

Ég ætla ekki að tjá mig um forsetaframboð vanfærrar konu. Ekki séns.


Hins vegar ætla ég að velta fyrir mér tölum sem búa að baki þessu (tengt í mynd á visir.is):



Þetta sýnir t.d. að 58,3% fylgjenda Sjálfstæðisflokksins myndu kjósa Ólaf Ragnar en aðeins 19,0% fylgjenda Samfylkingar. Hins vegar myndu 33,3% fylgjenda Sjálfstæðisflokks kjósa Þóru en heilt 81% fylgjenda Samfylkingar. 

Hvað á þetta að gefa í skyn? Jú, að stuðningur við framboðin tvö fari greinilega eftir flokkspólitískum línum. Samfylkingarfólk kýs Þóru og Sjálfstæðismenn kjósa Ólaf Ragnar.

En er þetta svona einfalt? Snúum þessu við. Skoðum hvernig stuðningsmannahópur hvors frambjóðanda er samanbyggður. 

Samkvæmt síðasta þjóðarpúlsi Gallup (sem ég fann) var stuðningur við flokkana fjóra svo í febrúar (sleppi Hreyfingunni því hún er ekki tekin með í úttekt Fréttablaðsins):

D: 33,3%
S: 18,7%
V: 12%
F: 13%

Leikum okkur aðeins með þetta. Segjum að 1000 manns svari um stuðning við forsetaframboð. Samkvæmt síðasta þjóðarpúlsi eru af þeim 333 fylgjendur Sjálfstæðisflokks, 187 stuðningsmenn Samfylkingar, 120 styðja Vinstri græna og 130 lenda hjá Framsókn. Samkvæmt Fréttablaðinu ættu af þessum 333 stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins 111 að vera á bandi Þóru. Af 187 fylgjendum Samfylkingar eru þá 151 á hennar bandi og af 120 Vinstri grænum eru 68 hennar megin. 60 af 130 stuðningsmönnum Framsóknar styðja Þóru.

Samkvæmt Fréttablaðinu eru, af þessum þúsund sem við spurðum, 460 sem styðja Ólaf og jafnmargir styðja Þóru. Því má reikna að 32% fylgjenda Þóru séu Samfylkingarfólk, 24% séu Sjálfstæðisfólk, 26% séu Vinstri græn og að 13% styðji Framsóknarflokkinn.

Af 333 stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins eru 194 sem styðja Ólaf Ragnar. Það eru 42% stuðningsmanna hans samkvæmt Fréttablaðinu. Úr hópi Samfylkingarfólks eru það 35 sem styðja hann, eða tæp átta prósent allra stuðningsmanna. Það eru 45 manns eða rétt tæp 10% af stuðningsmönnum hans sem styðja Vinstri græna og 65 manns eða 14% stuðningsmanna hans sem styðja Framsóknarflokkinn.

Setjum þetta upp svona til að gera þetta skýrara:

          V           S          D           F
Ólafur Ragnar 10% 8% 42% 15%
Þóra 26% 32% 24% 14%


Eigum við að túlka þetta á einhvern hátt? Jú, við getum t.d. sagt að framboð Ólafs virðist alveg klárlega njóta mestrar hylli á meðal sjálfstæðisfólks. Hins vegar skiptist stuðningsmannahópur Þóru mun jafnar á milli flokka. Því má segja að samstaðan um hana sé mun breiðari. Þá er athygli vert að flestir stuðningsmanna Þóru skipta sér í flokka en stórt hlutfall (um fjórðungur) stuðningsfólks Ólafs Ragnars gefur ekki upp afstöðu til flokka, hvað sem það nú kann að merkja. 

Þetta er ein leið til að líta á þessar tölur. Hún þykir mér töluvert merkilegri en sú sem Fréttablaðið kaus að líta á.

Engin ummæli: