24. jan. 2008

Valdníðsla, mótmæli, handbolti og fleira

Ég er nú yfirleitt á þeirri skoðun að fólk eigi að fara vel með þann rétt sinn að mótmæla. Málfrelsið, skoðanafrelsið og rétturinn til að mótmæla eru kannski sjálfsögð í okkar þjóðfélagi í dag. Þau eru engu að síður mikil verðmæti sem fara verður vel með.

Þess vegna er ég líka á þeirri skoðun að vissar reglur og stofnanir beri að virða. T.d. þann lýðræðislega umræðuvettvang sem við höfum komið á fót á Alþingi og svo á fundum borgar- og bæjastjórna.

Ég hafði þó samúð með öllum mótmælendum á pöllum ráðhússins sama úr hvaða átt þeir hafi komið. Og sú óhlýðni sem þeir sýndu var réttmæt. Þegar komið er fram við kjósendur, íbúa borgarinnar, fólkið sem fól borgarfulltrúum vald sitt, af jafnmikilli óvirðingu þá er í góðu lagi að trufla þann fund sem annars ætti að ríkja ákveðin friðhelgi yfir. Það er þeim sjálfum, borgafulltrúum hins nýja meirihluta, að kenna að virðingarleysið fyrir borgarstjórn sé lítið. Í raun virðist ekkert heilagt lengur. Þess vegna gladdist ég að sjá ungt fólk koma saman og mótmæla þeirri lögleysu sem þar var höfð frammi.

Það er síðan aumingjalegt að ætla að tortryggja þennan hóp eins og Vilhjálmur og Ólafur F. gerðu tilraun til. Í hópnum var vissulega stuðningsfólk þeirra stjórnmálahreyfinga sem mynduðu gamla meirihlutann. En þar voru líka aðrir óháðir. Og að segja að mótmælin gefi ekki mynd af vilja og skoðunum borgarbúa er skelfileg vitleysa. Fyrsta skoðanakönnun sýndi að Ólafur F. hefur aðeins stuðning 5% borgarbúa. Nýi meirihlutinn nýtur aðeins fylgis fjórðungs fólksins.


Af hverju hafa önnur eins mótmæli ekki orðið í Ráðhúsinu? Af því að önnur eins valdníðsla hefur ekki orðið í Ráðhúsinu.


jæja hvað um það - þetta fékk að koma út. hef engan að tala við um þetta hér. það er, þeir sem ég hef að tala við hafa ekki beinlínis áhuga (eða skilning) á málinu.

Þeir hafa heldur ekki áhuga á EM í handbolta. Hins vegar hefur hér verið sýnt frá leikjum íslenska liðsins. Þar til reyndar í gær þegar þeir eiga loksins stórleik. En ég hlustaði þó í staðinn.

Ég fylgist sum sé með íslenska landsliðinu svona þegar færi gefst. Mér finnst það ágætt en geri þó engar væntingar til þess. Enda spáði ég þeim 10 sæti á mótinu. Það virðist ætla að ganga eftir.

Sænsku þulirnir eru hins vegar ofsalega hrifnir af liðinu og sérstaklega Ólafi Sigurðssyni, Guðjóni Val og Hreiðari. Þeir kalla meir að segja Hreiðar "Reddar" af því að hann reddar alltaf (og þeir geta ekki borið fram nafnið hans). Þeir elska líka Gíslason. Svo eru þeir alltaf að vísa til íslenska liðsins þegar þeir eru að lýsa öðrum leikjum. Merkilegt

En já sum sé

Engin ummæli: