11. nóv. 2008

Kveðist á

Sumarið 2003 bjó ég með frænda mínum, Guðlaugi Jóni, á Ásvallagötunni. Alls ekki svo fjarri uppeldisstöðvum okkar beggja. Var samvistin yndisleg og ástin okkar á milli óx með hverjum deginum. Það var því sárt þegar við fluttum í sundur, ég til Amsterdam og Gulli aftur í öruggt Sörlaskjól foreldra sinna. En við héldum sambandi þó á meðan vist minni erlendis stóð og flugu á milli landanna kvæði. Hér eru þau fáu sem ég man:

Orti Gulli JónTil vitnis um það hversu vist okkar saman var góð
ég vil að þú þyggir af mér örlitla borgun
Ég átti' ekki konfekt en orti í stað þetta ljóð
það óx eins og rós uppúr koddanum mínum í morgun


Orti Hjörtur
Ég ákvað að senda þér örlítið kvæði
engillinn minn í fjarlægri borg
því hryggðin er stór og sem hjarta mitt bræði
er harmurinn meiri en veraldar sorg

En senn birtir til og brátt munu slá mér
bjartsýnisdagar hamingju tón
því heldurðu ekki ég hafi þig hjá mér
í huganum mínum, Guðlaugur Jón?


Reit Guðlaugur
Frygðin er Guðlaugi fánýt sem lín
því frændi hans hvarf yfir sæinn
hamingjuóskir frá honum til þín
Hjörtur, á afmælisdaginn

Reit Hjörtur
Guðlaugur, ást mín á þér er sönn eins og sólin.
Ég sakna þín sem geislum hennar nemur.
Sú hugmynd að þú komir hingað til mín um jólin
mun hætta að virðast svo fjarlæg þegar þú kemur.

Engin ummæli: