12. apr. 2008

Hlýnun jarðar, loftslagsmál, umhverfisvernd

Mér hefur þótt merkilegt að lesa og hlusta á Egil Helgason undanfarið. Hann virðist í hópi fólks sem trúir því ekki að hlýnun jarðar sé af völdum óæskilegrar hegðunar mannkyns. Oft er þessi hópur nefndur efasemdamenn því þeir virðast á annarri skoðun en það sem margir vilja meina að sé viðtekið viðhorf. Sum sé að hlýnun jarðar sé vissulega af völdum mannkyns.

Ég veit svo sem ekki af hversu miklu leyti þessi hlýnun (sem þó er staðreynd) er af völdum manna. Mér skilst að á jörðinni hafi ríkt til skiptis hlýinda- og kuldaskeið til. Vel má vera að við séum nú að ganga í gegnum eitt slíkt hlýindaskeið. Einnig hefur mér verið kennt að útblástur gróðurhúslofttegunda hafi áhrif til hlýnunar (og þaðan er nafnið dregið). Losun slíkra lofttegunda er nú líklega af miklu leyti af völdum manna þó vissulega geti þær losnað af náttúrulegum orsökum.

En mér er eiginlega sama hvor hópurinn hefur rétt fyrir sér. Sá sem segir að menn valdi ekki hlýnun jarðar og svo hinn sem segir að menn valdi hlýnun jarðar. Þetta er, eins og svo ótal oft áður, deila um keisarans skegg.

Efasemdamennirnir svokölluðu vilja meina að það sé ekkert til í því að mannkynið hafi verið að hita upp lofthjúpinn í kringum okkur. Það sé í besta falli bull og ef svo er þá sé hvort eð er ekkert sem við getum gert til að hindra það eða snúa ferlinu við. Alls ekki sé í sjónmáli að einhverjir aðrir orkugjafar en þeir sem hinir trúuðu teljið að leiði til hlýnunar loftslags verði leystir af hólmi. Og svo frameftir götunum. Eiginlega virðast þeir einkum vera á móti skoðunum hins hópsins.

Þessi hópur, hópur þeirra sem telja að hlýnun jarðar sé ekki af völdum manna, svo að við notum enga einkunn sem gæti falið í sér neikvæðni í hans garð, hefur einfaldlega vondan málstað að verja. Ég held að allir geti verið sammála um að hinar svokölluðu gróðurhúslofttegundir séu að einhverju leyti skaðlegar. Fáum dytti t.d. í hug að leggjast fyrir aftan púst á bensínknúinni bifreið og anda að sér útblæstrinum, tja nema þeir væru í sjálfsmorðshugleiðingum. Það má með berum augum sjá áhrif útblásturs ýmiss konar á umhverfið. Visnaður gróður að sumri, svartur snjór að vetri, gruggugt vatn, hóstandi og veikt fólk og skepnur. Menn hljóta að geta sameinast í þeirri trú, hvort sem gróðurhústegundir valdi hlýnun loftslags, að þær séu ekki beinlínis það besta sem við, mannkynið, getum skilið eftir okkur.

Okkur ber, sama hvort lofthiti fari hækkandi eða lækkandi, að leita allra leiða til að finna orkugjafa sem spilla ekki umhverfinu og breyta hegðun okkar þannig að við sleppum mengandi útblæstri á sem minnstan hátt.

Það er í góðu lagi að efast um það sem alls ekki er sannað að það séum við sem völdum hlýnandi loftslagi á meðan maður viðurkennir þó að þeir sem boða þá skoðun hafi a.m.k. rétt fyrir sér að við verðum engu að síður að fara að breyta um orkugjafa og hegða okkur á annan hátt. Annar leyfi ég mér að kalla fólk í hópi svo kallaðra efasemdamanna fávita.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hallo, thetta er flott. Mana thig til ad senda thetta inn sem adsenda grein i moggann:
http://www.mbl.is/mm/mogginn/
baejo Sigga