6. maí 2008

Det kommer bli bra

Ég var að hlusta á Rás tvö á netinu áðan. Brot úr degi. Djöfuls óskapans þrugl, þvaður og hávaði. Leiðindatónlist og kjaftæði um ekkert. Lesið upphátt af mbl.is og ömurtónlist leikin á milli. Svissaði yfir á Rás eitt í staðinn, Samfélagið í nærmynd. Þar er allt annað á ferðinni. Áhugaverðir pistlar og klassísk dægurtónlist. Er þetta merki um aukinn aldur og meiri þroska?

En á Rás eitt var fréttaritari í þýskalandi að tala um mismunandi geð Þjóðverja og Íslendinga og nefndi þar frasann "Þetta reddast" sem íslendingum ku tamur. Hún sagði að líklega væri enginn sambærilegur frasi í þýskri tungu, sem vel má vera að rétt sé. Ég held að frasinn sé ágætt dæmi um visst kæruleysi sem einkennir Íslendina að einhverju leyti. Ég fann það t.d. hér í Svíþjóð þegar við vorum að setja á fót Monthly að Svíarnir í hópnum voru frekar tilbúnir til að einblína á neikvæðu og erfiðu þættina frekar en þá jákvæðu og einföldu. Það vorum við Jóhanna sem rifum upp bjartsýnina og þróttinn. Jóhanna var þá skóluð úr íslenska kæruleysinu og framkvæmdagleðinni.

Vissulega er nauðsynlegt að taka vandamálin með í dæmið strax í upphafi. Eitthvað sem Íslendingar mættu yfirleitt gera í stað þess að æða áfram í blindni og takast á við vandamálin eftir því sem þau koma upp.

Þessi umfjöllun um þetta-reddast-attitjútið hjá íslendingum versus stabíla og markvissa áætlunargleði þjóðverja kom svo aftur upp í seinni dagskrárliði í Samfélaginu í nærmynd. Þar var á ferð Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem ræddi um ýmis skipulagsklúður sem líklega væru komin vegna þetta-reddast-stefnunnar, þó hann orðaði það ekki þannig beint.

En nú er ég kominn langt frá efninu sem ég veit svo sem ekkert hvað átti að vera. Jú, ég ætlaði að nefna það að ég væri að lesa Ævintýrið um góða dátann Svejk. Það og að ég væri að hlusta á Rás eitt.

Æj hvað um það...

4 ummæli:

Króinn sagði...

Ég mæli nú ekki síður með klassískum upplestri Gísla Halldórssonar á Svejk, svona víst þú virðist hvort sem er alltaf vera að hlusta á eitthvað þegar þú átt að vera að vinna.

Fjalsi sagði...

júmm - ég hlustaði einmitt á upplesturinn hans Gísla fyrir um tveimur árum. En eiginlega fór sagan öll framhjá mér því ég var svo upptekinn við að hlusta á Gísla.
Svo nú er ég að lesa þetta á prenti en þá er ég stöðugt að hugsa um hvernig Gísli las textann svo að sagan fer öll aftur fram hjá mér..

seisei já

Nafnlaus sagði...

Já, þetta er erfitt. Ég var að kíkja í Brekkukotsannál á leið heim í strætó um daginn og tók ekki eftir neinu af því að ég las alltaf í huganum eins og höfundurinn - eins ef ég les eitthvað eftir Guðberg.
Ef hlusta á útvarp, þá hlusta ég á Rás 1 - það er fín stöð en sérstakur kostur er að þar eru engar leiknar auglýsingar, þær virðast allar miðast við heilalausa hlustendur. Og ég hef heila þótt slakur sé.

Króinn sagði...

Rás eitt fær mitt atkvæði líka. Einkum þó á podcasti. Verst bara hvað við fyrrum og núverandi bókaverðir og afkvæmi þeirra erum lélegur mælikvarði á þjóðina þegar kemur að útvarpshlustun. Sjálfsagt hálfgerðir elítistar allir þrír.