2. maí 2008

Draumfarir

Draumfarir mínar hafa verið undarlega undanfarið

Mig dreymdi fyrir stuttu að ég hefði fengið það verkefni að leikstýra kvikmynd um fyrstu ár Sálarinnar hans Jóns míns. Hafði ég þegar fengið nokkra þekkta leikara til að leika hljómsveitarmeðlimina. Björn Hlynur Haraldsson átti að leika Friðrik Sturluson, sem var í aðalhlutverki myndarinnar. Sagan átti að segja hvernig Friðrik Sturluson og Guðmundur Jónsson hittust og mynduðu risapoppgrúbbuna sem seinna varð Sálin hans Jóns míns. Stefán Hilmarsson komi lítið við sögu en ég hafði þó fengið Owen Wilson til að leika hann. Hann átti þó ekki að koma við sögu fyrr en í lok myndarinnar, þegar leitin að söngvara grúbbunnar fór fram í áheyrnarprufum á borð við Rockstar þættina. Þetta er í engu samræmi við hvernig saga Sálarinnar hófst í raun og veru.

Fyrir nokkrum nóttum dreymdi mig að ég hefði verið fyrir slysni ráðinn á risastóra fasteignasölu í Reykjavík. Þegar upp komst að ég hefði hvorki reynslu né hæfileika til að selja fasteignir tókst mér að telja eiganda fasteignasölunnar á að láta mig sanna mig í starfi. Sem ég og gerði þegar ég seldi Mick Jagger Kringluna fyrir 300 milljarða eða svo.

Nú í nótt dreymdi mig svo að ég væri úti á djamminu í New York hvar ég hitti Paris Hilton og eyddi með henni nóttinni í keleríi út um alla borg á helstu diskótekunum.

Jamm - góður draumur maður...

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eftir að hafa hlegið dágóða stund að draumförum þínum (vona að þér sárni ekki) finnst mér rétt að deila því með þér að ég óskaði Önnu góðs gengis í táknmálstúlkaprófinu í morgun. Hún var reyndar á leið í próf í refsirétti, en stjórnsýslutengingin milli laga og opinberar þjónustu sló þessu tvennu saman í svefnrofum mínum. Hversdagslegra, en samt fyndið. Finnst mér allént.

Unknown sagði...

En ótrúlega hlægilegt!!!