Það er bara þannig. Nú er smá stund milli stríða (svo sem tvær klst) svo máksi ég hamri inn stuttri ferðasögu.
Jú það var sum sé fyrir nokkru að ég lagði í ferðalag um Norðurlönd, amk hluta þeirra. Fyrsti áfangastaður var KÖBEN hvar tóku á móti okkur, því við vorum jú tvö á ferð, ég og Ms. Notley, danska parið Christian og Louise. Að vanda hafði Cristian legið sveittur við skipulagningu og hafði dregið upp á kort það markverðasta sem sýna átti mér og Ms. Notley. Ég sá fljótlega að túrinn átti að vera sá nokkurnvegin sami og ég fékk er ég heimsótti þau hjónaleysi í ágúst sl. En hvað um það til Danaveldis var maður kominn og þá yrði bara gert eins og Daninn segði.
Í köben hitti ég líka hana systur mína. Og tvíburasystur hennar, Kristínu. Þær voru í hefðbundu fjöri og sýndu Dananum hvernig íslensk drykkjumenning er. Stóribróðir horfði á klökkur af stolti yfir litlusystur. Var mér svo formlega boðið í mat til þeirra tveggja næsta dag. Mér leist nú svo sem vel á að kíkja í heimsókn en vissi ekki alveg hvernig ég ætti að taka þessu með matarboðið, en létti þó þegar ég heyrði að vinur þeirra, Tandri myndi sjá um eldamennskuna!
Og jú eftir að hafa eytt deginum í venjubundinn útsýnistúr Christians um Danska húsagerðalist, auk þess að hafa farið á ríkislistasafnið til að sjá konu pissa í glas og drekka svo hlandið, hélt ég í matarboðið. Þetta er reyndar höll sem þau búa í þarna, eitthvurt ofsalegt bákn, og ósköp huggulegt. Jú, maturinn var góður og bjórinn nógur.
Þriðja dag í Köben. Hinn hefðbundni hjólatúr C&L að afloknum dönskum frokosti. Megnið af deginum fór þó í vandræði mín við að koma hjólfáknum hennar Louise upp á Norreport þar sem það púnteraði hjá mér á leið minni til BjarkaHildarogHrafkellsAra. Jú, fjölskyldan á Solbakken skyldi nú heimsótt. Og það var gert. Og það var gaman. Hrafnkell Ari er myndarmenni hið mesta og fékk athygli gestsins og annarra heimilismanna eftir því. En farið var nokkuð snemma af þeim bænum því snemma skyldi haldið næsta morgunn til Stokkhólms.
Það var og gert og var ég Staddur í Hólminum nokkru fyrir hádegi og fljótlega eftir það hitti ég Sigurð Nokkurn Ólafsson sem gert hafði sér erindi á Aðalbrautarstöðina einmitt til að sækja mig. Hafði Sigurður látið vaxa sér skegg nokkurt í stíl þýsk/amerískra klámmyndaleikara. Var hann hinn stoltasti og sagði mér, á meðan hann leiddi mig um Stokkhólmsborg að hann hefði nú einkum gert þetta til að stríða Gunnhildi. Sú kona beið okkar í eldhúsinu þegar við komum loks, eftir heljarinnar labbitúr, á Mariatorger. Kvöldið fór svo í stutta viðkynningu á hverfisbörunum en af mesta hófi því næsta morgunn skyldi snemma haldið til Helsinki.
Það var og gert og var ég staddur í Helsinki, sem ég uppgötvaði mér til skelfingar í flugtaki að er kölluð Helsingfors á sænsku, eftir að hafa setið af mér enska útgáfu af ferðaáætlun fluvélarinnar og var fullvissaður um að við værum þrátt fyrir allt á leið til Helsinki og lent í Helsinki og tekið rútu í miðbæinn var ég sem sagt staddur í Helskinki skömmu fyrir hádegi. Það beið mín ungur karlmaður, myndarlegri en djöfullinn, örður nafni Hreggviður. Við skáluðum í belgískum bjór og svo var tekið til við að þramma, en því var ég svo sem orðinn vanur frá Stokkhólmi og Köben.
Heimsókn mín í Finnlandi einkenndist svolítið af stríðsáhuga okkar Hregga. T.a.m. skoðuðum við eyjum eina fallega með eindæmum en við sáum fátt annað en myndarlegar fallbyssur sem gegnt höfðu veigamiklu hlutverki í Krímstríðinu. Einn fórum við seinna í ferðinni á stríðsmynjasafn þeirra Finna. En hápunkturinn í Finnlandsferðinni, fyrir utan að hitta hin gríðarlega vel heppnuðu Hreggviðsbörn, Ronju og Grím og hans frú, Annkukku, var náttla Saunabarinn. Jú, við Hreggviður, sem ætlaði heldur betur að bæta mér upp heimsóknir á hverfisbarina kvöldið áður, fórum snemma miðvikudagskvölds á ein alflottasta bar sem ég hef komið á. Tja, barinn sjálfur er nú kannski ekkert spennandi en herbergin tvö sem hann hefur að geyma bakatil eru mögnuð. Við gengum inn í kjallarabúlu í skuggasundi í Helsingfors. Laumulega göngum við á barinn og Hreggi blikkar barþjóninn og tilkynnir að við séum komnir í Saunu. Barþjónninn lítur flóttalega í kringum sig, grípur stærðarinnar lykklakyppu af snaga við barinn og biður okkur um að elta sig. Það fór um litla fuglshjartað mitt þegar við vorum leiddir inn bakatil á barnum en að sama skapi gladdist ég þegar ég sá dýrðina sem opnuð var fyrir okkur. Eins og klippt út úr senu í einu klámmyndinni sem ég hefi séð: Lillabláir veggir og leiðurstólar frá sjöundaáratugnum umhverfis sófaborð sem reyndir vera GULLFISKABÚR. Inn af því herbergi sturtuklefi of inn af honum Saunan. Tvo tíma máttum við eiga þarna saman tveir, ískápur fullur á bjór og sjónvarp og gettóblaster. Í miklum spenningi rifum við Hreggi okkur úr fötunum og hlupum allsberir og ofsaglaður beint inn í Saununa. Jú, Hreggi fær fjórtán prik í kladdann fyrir þessa hugmynd. Eftir Saunu tók við ofsafengið djamm með viðkomu á fínum veitingastað hvar maðurinn í fatahenginu komplimentaði okkur fyrir átfittið (Hreggi, maður sem kann sig, hafði Dressað okkur upp í tilefni kvöldsins.)
Hvað um það. Lýsingu á djamminu má líka fá hjá Hreggviði. Dagurinn eftir fór svo mestmegnis baráttu innyfla minna við þynnkuna - og fluferð til Stokkhólms.
Þangað voru komin Helga S. og Sölvi B. Það þýddi bara eitt. Nú skyldi Djammað. Mestmegnis djammið fór þó reyndar fram kvöldið eftir, að lokinni dagsferð um Vaxholm og bústað sendiherrahjónanna í Stokkhólmi, á á heimili Sigga og Gunnhildar, sem höfðu boðið allnokkrum íslendingum, tja, amk man ég eftir þremur gestum. vel lukkað partý sem endaði á nookuð heitum orðaskiptum um baráttuaðferðir femínista á íslandi. Þar setti ég mig á háan hest að vanda þegar ég hefi fengið mér full mikið í glas. En Sigurður Ólafsson kom og stillti til friðar, enda er maður að mennta sig í slíku og hefur án efa gripið tækifærið fegins hendi.
Laugardagur minn fór svo í vangaveltur um hvort ég myndi yfir höfðu komast úr landinu. Í öllu partýstandinu hafði ég gleymt að bóka mér far til baka. Það reddaðist þó án mikilla vandræða og fyrir vikið fékk ég að ferðast á fyrsta farrými í lestinni frá Stokkhólmi til Köben.
Í köben biðu mín sem fyrr Christian og Louise, sem höfðu ráðgert mikið fyllerý með vinum sínum handa mér. Ég kíkti svo sem í partýið og reyndi að bera mig mannalega en ofurþreyta eftir vikuferðalag fór þó að sækja á mig. Eftir að hafa sýnt það og sannað að ég gæti í raun drukkið eins og heljarmenni og hlotið að launum aðdáun vina þeirra, sér í lagi bráðhuggulegrar vinkonu, var mér fylgt heim og háttaður. Það er ekki að spyrja að gestrisninni á þeim bænum.
Næsta dag var það Rotterdam og svo Amsterdam og svo var sofið í tíu ár.
Myndir af þessu fara að birtast um leið og ég finn mér eitthvað drasl til að hýsa myndirnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli