En samt ekki
Ég vaknaði og setti túnglskinssónötuna á fóninn og hellti upp á kaffi. Svona eru dagar mínir litmjúkir eins og dauðarósir. Svo ég vitni enn einu sinni í uppáhaldsljóðskáldið mitt. Hann var svo skemmtilega þúnglyndur hann Jóhann.
Annars er ég mestmegnis að rita upp fyrirlestur um Abandoned Commonplaces. Hvernig myndi maður þýða commonplaces yfir á íslensku? Fjölspeki? Dægurspeki? Hversdagsfræði? Alkunna?
Yfirgefin alkunna? Ekki svo slæmt.
Annars fjallar greinin mestmegnis um það að í póstmódernískum heimi höfum við snúið baki við alkunnunni, eða öllu heldur hefur alkunnan yfirgefið okkur, amk að okkar mati. Í hinu póstmóderníska, fyrrta, fjölmenntaða og fjölmiðlaða samfélagi þar sem við vitum allt um ekkert og ekkert um allt eigum við erfitt með að skilja eigin menningu, hvað þá menningu annarra. Í sárri þörf okkar á að endurkalla yfirgefna alkunnu reynum við að byggja upp sjálfsmynd okkar með hjálp nýrra miðla. Þar kemur raunveruleikasjónvarpi inn í myndina. Í uppspunnum raunveruleika reyna íbúar í húsnæði Stóra bróðurs að byggja upp persónur sínar á ný eftir að hafa verið sviptir þeim í upphafi dvalarinnar. Vandi þeirra er að persónan sem þeir skapa þarf að virðast einlæg og vera vinsæl. Áhorfandinn verður þáttakandi í þessari persónusköpun, bæði með að fylgjast með "í beinni" svo og með því að kjósa út óæskilegar persónur. Þannig hjálpa Stóra bróðurs þættirnir okkur að byggja sjálfmynd okkar sem nóta bene er alltaf komin frá öðrum.
Kjaftæði - jú, mikil ósköp!
1 ummæli:
Það verður barist um okkur á vinnumarkaðnum eftir að við höfum lokið þessum praktísku og bráðnauyðslegu framhaldsnámum okkar. Svoleiðis slegist um okkur!
Skrifa ummæli