11. okt. 2004

Halló krakkar! Ég fjárfesti í geisladisk í dag. Ég rataði í þrjár geisladiskabúðir. Geisladiskabúðir? Þetta orð hefi ég aldrei notað fyrr. Ég hefi alltaf sagt plötubúðir. En þessar þrjár búðir sem ég kíkti í selja bara geisladiska. Geislaplötur. Það er orð sem ég kann við. Ég gekk semsagt inn í þrjár plötubúðir á leiðinni heim. Í þeirri fyrstu fann ég geislaplötuna á 21 evru. Sem er slatti. Svo ég hugsaði með sjálfum með. Jafnvel ég hafi sagt það upphátt: "Nei, þetta er nú full dýrt." Svo ég steig á fákinn, hjólið, og brunaði áfram heim á leið, nokkuð af vanalegri leið, þar sem ég vissi af annarri plötubúð á óvanalegri leið. Steig ég af hjólinu og gekk inn þar sem ég fann plötuna á 19,99 evrur. Enn hugsaði ég með sjálfum mér og sagði jafnvel upphátt: "Nei, þetta er nú full dýrt." Svo aftur sté ég á fákinn á nokkurra kaupa og hélt áfram leið minni í átt að heimili mínu og enn örlítið af vanalegri leið, þar sem ég vissi af þriðju búðinni á annars stuttum vegi mínum milli heimilis og skóla, eða skal ég segja skóla og heimilis, þar sú var áttin í það skiptið. Af fáknum var stigið og inn í búð gengið hvar ég fann plötuna og nú á 18,99 evrur. Enn sagði ég við sjálfan mig, sennilega í hljóði: "Nei, þetta er nú full dýrt." Öngvu síður tók ég í það sinn ákvörun að kaupa gripinn, enda orðinn þreyttur á plötubúðarápi, auk þess sem þetta eintak var þó rétt rúmum tveimur evrum ódýrar en í búðinni þeirri fyrstu. Svo nokkuð sáttu steig ég á fákinn og beygði nú af þessari krókaleið og hjólaði beinustu leið heim. Þó með viðkomu í plötubúð sem einmitt er á þessari leið minni sem ég fer vanaleg í og úr skóla. Hægði ég verulega á ferðminni framhjá þeirri búð, reyndar svo mikið að ég stöðvaði fákinn alveg og leit í plötubúðargluggan hvar ég sá eintak af disknum sem ég hafði keypt nokkrum mínútum fyrr. Sá ég verðmiðann á disknum hvar stóð á letrað 17 evrur. Hjartað tók kipp og ég fann snögglega blóðbragð í munninum og fann hvernig háræðarnar í kinnum mér þrútnuðu við aukið blóðstreymi fram í þær. Ég hristi hausinn og sagði við sjálfan mig svo vel mátti heyra: "Nei, andskotinn, ég hefði átt að kíkja hingað fyrst." Svo hjólaði ég heim, skömmustulegur, vonsvikinn og fúll út í sjálfan mig. Hvað var ég að þvælast þessar krókaleiðir til að kaupa geisladiskinn þegar ég mátti vel vita að plötubúðin sem ég versla yfirleitt við, einmitt vegna þess að hún er á beinni leið heim til mín úr skóla auk þess sem hún býður geislaplötur jafnan á mun betra verði en aðrar búðir í bænum? Var það ævintýraþrá eða sú ranghugmynd að grasið sé alltaf grænna hinummegin? Hvað var ég að spá?

En hvað um það. Þegar heim var komið setti ég geislaplötuna á geislann og nokkrum sekúndubrotum síðar mátti heyra Rammstein flytja kyngimagnaða rokktónlist af þeirra alkunnu snilld. Enginn frumleiki svo sem á ferð heldur sama hljómafall og vanalega ásamt hárbeittum þýskum ljóðum. En hvað þurfa þeir svosem að vera að gera eitthvað fumlegt? If it ain't broken don't fix it. Sagði ekki einhvert skáldið það hér um árið?

Engin ummæli: