Ég mætti of seint í tíma í dag. Vegna þeirrar ástæðu að ég þurfti að bíða í tíu mínútur eftir tölvu til að geta prentað útdráttinn sem ég hafði skrifað svo meistaralega úr greininni um rokk og ról í ítalíu og svo hinni um kúltúríska diplómasíu á vegum Bandaríkjanna í Austurríki á eftirseinnastríðsárunum. Nema hvað að ég mætti svo sem svona fimm mínútum of seint. Sem var svo sem allt í lagi. Kennarinn brosti til mín og benti mér á að setjast niður og tilkynnti mér að verið væri að ræða efni fyrir lokaritgerðina í kúrsinum og að röðin væri komin að mér. Einmitt það já. Ég hafði einfaldlega steingleymt að hugsa um efni fyrir þessa ritgerð! Og ekki vildi ég bæta gráu ofan á svart, að mæta of seint í tíma og viðurkenna það að ég hefði nú bara alls ekkert hugsað um tópikk svo ég byrjaði bara að bulla eitthvað. Svo ég lýsti því fyrir honum hvernig ég hefði mikinn áhuga á að skoða amerískar kvikmyndir og þeirra hlutverk í að breiða út bandaríksa fagnaðarerindið á kaldastríðsárunum og myndi í ritgerðinni horfa einkum til kúrekamynda og skoða hvernig bandarískir siðir og venjur væru representeraðar í gegnum þær og jafnvel segtja þetta í samhengi við spagettívestrana. Eftir að hafa gubbað þessu út úr mér, án þess að hafa í raun hugmynd um hvað ég var að segja þagnaði ég og horfði í von og óvon á prófessorinn. Já, sagði hann, helvíti góð hugmynd, jú mér líst vel á þetta.
Þannig að - ég er víst að fara að skrifa um spagettívestra. Nú er bara að bruna á bókasafnið og vona að ég finni einhverjar heimildir um þetta.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli