12. maí 2004

Johnny Cash! Áður hefi ég ritað niður orð á þessa síðu um þann meistara. En hann snýst nú í hringi um sjálfan sig og syngur melankólíska söngva um örlög kabbojahetjunnar.

Í dag er ég kvefaður því konan sem ég kyssi er kvefuð. Sit því hér með trefil í lopasokkum, sötrandi te bætt sólhattsdropum og líður eitthvað svo skáldlega. Fyrir aftan mig stendur óþolinnmóður dauðinn með næturmyrkrið í glasi. Ég skála við hann og held svo áfram tedrykkju minni, einn.

Amma mín, Guðbjörg, sem samt alltaf er kölluð Bagga, gaf mér einu sinni ritsafn Jóhanns Sigurjónssonar. Hún sagði mér að afi minn, sem þá var nýlátinn, hafi haldið mikið upp á Jóhann. Ég var úngur og vitlausari þá og fór ekki að lesa þetta ritsafn fyrr en fyrr en nokkrum árum seinna þegar ég stúderaði ljóðagerð við Háskóla Íslands hjá Sveini Skorra Höskuldssyni. Þá rann raunar upp fyrir mér hversu magnað ljóðskáld hann Jóhann var þó þekktari sé hann líklega fyrir leikritin sín.

Eitt af mínu eftirlæti er vel þekkt. Vögguvísan kunna Sofðu unga ástin mín. Síðasta erindið þar er algjört dúndur:

Sofðu, unga ástin mín,
- úti regnið grætur.
Mamma geymir gullin þín,
gamla leggi og völuskrín.
Við skulum ekki vaka um dimmar nætur.

Það er margt sem myrkrið veit,
- minn er hugur þungur.
Oft ég svarta sandinn leit
svíða grænan engireit.
Í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur.

Sofðu lengi, sofðu rótt,
seint mun bezt að vakna.
Mæðan kenna mun þér fljótt,
meðan hallar degi skjótt,
að mennirnir elska, missa, gráta og sakna.


Og þetta var sungið fyrir mann saklausan krakkan á árum áður. Er það nema von að maður hafi vaxið upp til að vera vonlaus og þunglynd svefnpurka.

En annars er ég bara í þolanlegu skapi. Að hlusta á og lesa um raunir annarra virðist einhvern veginn koma manni í gott skap. Svona eins og maður hugsi: "Tja, ég hef það að minnsta kosti mun betra en þessi aumingjans ræfill." Þess vegna er gott að hlusta á Johnny Cash og lesa Jóhann Sigurjónsson.

Engin ummæli: