19. nóv. 2012


Við hlið mér sefur sonur minn vært undir hlýrri sæng. Áhyggjulaus, öruggur. Hann þarf ekki að óttast skort, hann býr ekki við frelsisskerðingu og kúgun. Hann þarf ekki að óttast kúlnaregn né sprengjuárásir.

Annars staðar liggja önnur börn, andvaka. Þau geta ekki sofið, hvort sem það er af ótta, eða vegna martraða eða vegna sprenginga  og blóðbaðs eða óhljóða deyjandi ættingja.

Sprengjuárásir Hamas eru glæpsamlegar en þær eru vanmáttugar. Árásir Ísraelsstjórnar eru ekki bara glæpsamlegar, þær eru viðbjóðslegar. Þær eru ekki vanmáttugar. Þær beinast gegn saklausum borgurum, sem hafa mátt búa við kúgun, skort, frelsisskerðingu og ógn allt sitt líf. Ísraelsstjórn segist vera að verja hendur sínar. En aðgerðir síðustu daga eru allt annars eðlis. Þar fer fram hernaður eins öflugasta hernaðarríkis heims gegn vanmáttugum íbúum svæðis sem raun eru bara risastórar fangabúðir. Á bakvið það stendur Bandaríkjastjórn, sem styður þessar aðgerðir, bæði pólitískt og í verki.

Þess vegna ætla ég að mæta fyrir utan bandaríska sendiráðið klukka 17.00 í dag og mótmæla. Mótmæla glæpum Ísraelsstjórnar og afstöðu Bandaríkjastjórnar. Í krafti neitunarvalds síns hefur Bandaríkjastjórn lamað öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í málefnum Ísraels-Palestínu í áratugi. Í skjóli þeirra kemst Ísraelsstjórn upp með síendurtekin brot á alþjóðalögum. Í skjóli þeirra getur Ísraelsstjórn komist upp með þjóðarmorð. Látum það ekki gerast. 

Sitjum ekki bara og horfum á.
Mætt þú líka. Við getum kannski lítið gert. En við getum látið í okkur heyra. Sama hver afstaða þín er til rétts ríkja til að halda uppi vörnum. Ísraelsstjórn háir ekki varnarstríð, hún er að myrða saklaus börn.

19. okt. 2012

Verst lagði bílinn

Ég var byrjaður að safna myndum af illa lögðum bílum sem hafa orðið á vegi mínum á göngutúrum mínum um borgina. En búið er að taka af mér ómakið. Á Facebook má finna hópinn Verst lagði bílinn [sic] þar sem fólk er hvatt til að senda inn myndir af illa lögðum bílum.

Látum ekki þar við sitja. Setjum upp rúðuþurrkurnar á slíkum bílum er verða á vegi okkar. Svona smá skaðlaus áminning.

En kannski ég sendi inn myndir líka hér af og til. T.d. þessa:


Já, eða þessa:



9. okt. 2012

Hjólandi í umferðinni

Ég boðaði umfjöllun um hegðun hjólreiðafólks í umferðinni.

Eins og lesendur hafa tekið eftir, hef ég nokkuð kvartað yfir slöku aðgengi fyrir hjólandi og bent á leiðir sem bæta mætti til að liðka fyrir reiðhjólaumferð. Það er víða beinlínis hættulegt að vera á hjóli í umferðinni.

En það er ekki bara slæmt aðgengi sem skapar hættur fyri hjólreiðafólk. Oft er það hegðun þess sjálfs sem skapar mestu hættuna. Því miður virðist sem að margt hjólreiðafólkið, annað hvort kann ekki að hjóla, eða virðist einfaldlega ekki þekkja þær (fáu) reglur sem gilda um hjólandi í umferðinni.

Þeim er kannski vorkunn. Umferðarreglurnar eru ekki beinlínis skýrar hvað þetta varðar og eiginlega alveg úr takti við raunveruleikann. T.d. eiga hjólandi að hjóla á götunni en þeira mega líka hjóla á gangstéttinni. Þá ber þeim að hjóla hægra megin og í sömu átt og bílaumferð, en það er þó ekki alltaf skylda.

Það er of algengt að fólk hjóli á gangstétt. Það er mjög víða að pláss á götum er alveg nóg þar sem fólk streitist samt við að hjóla á gangstéttinni. Þá nota fæstir bjöllu til að láta vita þeir að geysast framhjá á hjóli. Það er stórhættuleg hegðun.

Á vefnum hjólreiðar.is er að finna mikið magn gagnlegra upplýsinga um hjólreiðar. Þar má m.a. finna langa og ítarlega grein um rétta hegðun hjólandi í umferðinni. Það er því óþarfi að ég fjalli í löngu máli um það hér heldur vísa ég umrædda grein.

Þá vísa ég í 39. og 40 grein umferðarlaga þar sem fram koma sérreglur um reiðhjól.

Í lokin læt ég mér nægja að nefna nokkur atriði sem ekki virðist vanþörf á að minna á, miðað við það sem ég hef séð af samferðafólki mínu í umferðinni:

1. Hjólaðu á götunni og haltu þig eins langt til hægri og þú getur. Ef umferð bíla er of hröð eða þung máttu hjóla á gangstéttinni, en þá verðurðu að taka tillit til gangandi vegfarenda, sem hafa forgang. Þú átt að víkja fyrir þeim, ekki öfugt!
2. Notaðu ljós, að framan og aftan.
3. Notaðu bjöllu. Það er ekki dónaskapur heldur sjálfsögð kurteisi.
4. Gefðu merki þegar þú beygir, með því að rétta út arminn í þá átt sem þú ætlar.
5. Á sumum gangstéttum má ekki hjóla og þá er það merkt sérstaklega. T.d. má ekki hjóla á gagnstéttinni við Laugaveg og Bankastræti, milli Hlemms og Læjargötu, hvorki upp né niður.

Annars vísa ég aftur í greinina á hjólreiðar.is

Góðar stundir

7. okt. 2012

Feðgar á ferð II

Við feðgar fórum á labb eins og oft áður og ég vopnaður myndavélinni. Í þetta sinn lá leiðin vestureftir, úr Síðumúla og niður í bæ. Leiðin var reyndar í flesta staði hin ágætasta til göngu. Breiðir og góðir stígar á milli húsa og yfir tún. Aðgengi fyrir kerruna yfirleitt gott, engir götukantar að þvælast fyrir okkur eða ljósastaurar á miðri gangstétt.

Þó voru nokkrir punktar sem vert er að minnast á:

Gatnamót Miklubrautar og Lönguhlíðar

Þessi gatnamót eru galin! Það er svo sem altalað. Þarna er troðið fimm akreinum á milli húsanna og svo gangstétt nánast oní götunni. Með aukinni hjólamenningu er svo orðin töluverð hjólaumferð þarna, sér í lagi meðfram Miklubrautinni. Þarna er hins vegar engin merkt hjólaleið (hún er hins vegar á Lönguhlíðinni, efni í annan pistil), svo tæknilega ætti hjólreiðafólk að hjóla á götunni. En það gerir nú enginn heilvita maður, enda lífshættulegt. Svo allir hjóla á gangstéttinni. Sú umferð fer nær öll norðanmegin, þó að mun meira pláss sé sunnanmegin. En þar er enginn almennilegur hjólastígur, heldur bílastæði og háir götukantar. Kannski helgast þetta líka af því að þessi umferð hjólandi kemur vestanúr eftir Gömlu Hringbraut, þar sem henni er beint undir Snorrabraut og meðfram Klambratúni (hugmyndin var held ég að beina henni undir Bústaðaveginn og suðurmeð Miklubraut, en þá þarf að taka á sig hressilegan krók, sem fæstir gera).

Jæja, þá er ég búinn að útskýra og afsaka umferð hjólandi þarna. Þá get ég birt hina myndina:

Þetta er sum sé tekið í vestur á gagnamótum Miklubrautar og Lönguhlíðar. Hér hef ég hjólað sjálfur, bæði til austurs og vesturs. Um daginn var ég að hjóla úr vinnunni og mætti einmitt öðrum hjólandi, akkúrat þar sem þessi á myndinni er. Þar lá við slysi. Hvorugur okkar var á miklli ferð, engu að síður þurftum við að sveigja hart hvor hjá öðrum til að rekast ekki á og þá munaði litlu að hinn aðilinn stýrði beint út á götu.

Það blasir auðvitað við að þetta horn hentar enganveginn til hjólreiða. Þrátt fyrir það er umferð hjólandi hér heilmikil allan daginn, eins og ég útskýri hér að ofan. Þetta verður að laga. Auðvitað ætti bílaumferðin að fara niður í stokk hér, sem ég held reyndar að sé áætlað. En það er langt þart til slíkar framkvæmdir hefjast og áður en það er gert þarf að laga þetta horn. Þetta er ekki bara hættulegt vegna hjólandi umferðar. Gangandi vegfarendur eru hér í hættu.

Best væri auðvitað að almennileg hjólabraut yrði útbúin, helst sunnanmegin við Miklubrautina. En í millitíðinni ætti a.m.k. að koma einhverju grindverki fyrir til að verja gangandi vegfarendur, og svo einhverri hraðahindrun til að hægja á umferð hjólandi. Þetta þarf ekki að að vera flókið eða kosta mikið.

Rauðarárstígur - Miklabrauð

Þegar áfram er haldið í vestur kemur maður fljótlega að horni Rauðarárstígs og Miklubrautar. Þar er ekki mikið pláss heldur en þar er þó smá grindverk eða múr sem aðskilur betur gangandi og akandi. En hér er sömuleiðis hætta á ferðum sökum blandaðrar umferðar hjólandi og gangandi. Hér er aðgerða þörf. Aftur væri besta lausnin að almennileg hjólaleið væri sunnanmegin og hér væri aðeins umferð gangandi. Þá þyrfti ekki að gera mikið hér til að bæta aðgengi.



Að öllu þessu sögðu er kannski rétt að fjalla um hegðun hjólreiðafólks í umferðinni og þær reglur sem um það gilda. Efni í næsta pistil!


25. sep. 2012

Af klaufalegu skipulagi

Hún fékk heldur betur ágætis athygli, bloggfærslan mín um Amtmannsstíginn. Ég tvíeflist við þetta og held bara áfram að benda á það sem betur mætti fara í borginni. Það eru þessi litlu atriði, sem skipta máli í stóra samhenginu. Áður en ég bendi á næsta atriði má ég til með að nefna að það er margt spennandi á döfinni í skipulagsmálum borgarinnar og spennandi verkefni sem eru þegar í gangi. Þar má nefna hjólabrautina miklu sem leggja á frá Hlemmi og austur að Elliðaárósum. Ég gekk yfir hluta framkvæmdasvæðisins í Laugardalnum í dag og tók mynd:

Hér má sjá hvernig hjólastígurinn verður breikkaður þannig að umferð gangandi og hjólandi verður betur aðskilin. Það er mikilvægt öryggisatriði, eigi hjólið að verða að alvöru samgöngutæki, því hröð umferð hjólandi og hæg umferð gangandi fer enganveginn saman. Bravó fyrir þessu og ég hlakka til að nýta mér þessa leið þegar hún verður fullkláruð. Þetta er einmitt önnur af þeim leiðum sem ég get valið til og frá vinnu.
Hin leiðin er meðfram Hringbraut og Miklubraut, en þá leið þarf að stórbæta til að bæta öryggi.

Þessi mynd er tekin á Gömlu Hringbraut, við strætóstoppistöðina BSÍ. Hér birtast nokkur dæmi um það sem laga þarf víða á hjólabrautum borgarinnar, og sem einmitt er verið að taka í gegn á áðurnefndri leið frá Hlemmi og austureftir. 
Hér sést dæmi um það þegar göngustígur og hjólabraut fara saman án nokkurrar aðgreiningar. Það er, sem fyrr segir, óæskilegt og af því stafar slysahætta. En það er ekki nóg með það. Eins og sést er ljósastaur á miðri brautinni! Það er ekki aðeins afar undarlegt, heldur stórhættulegt. Reyndar er í þessu tilfelli strætóstoppistöð þarna við hliðina með óvenjustórum „brautarpalli“
og geta því hjóland
i og gangandi sneitt framhjá staurnum án stórkostlegra vandræða. En þar komum við að enn einu atriðinu, sem þarf að laga mjög víða í borginni: Brautin liggur í gegnum strætóstoppistöð. Það eitt er frekar óheppilegt, því til að stíga út úr skýlinu og inn í strætó þurfa farþegar fyrst að fara yfir hjólabrautina. Þar er slysahætta. (Þetta veit ég að er eitt af þeim atriðum sem lagað verður á áðurnefndri braut frá Hlemmi.) Þetta tilfelli við stoppistöðina BSÍ er því marföld slysagildra. Hér fara saman hjólabraut og göngustígur (einn mínus) sem liggja í gegnum strætóstoppistöð (annar mínus) með ljósastaur á miðri brautinni (þriðji mínusinn). Á pappírum kann þetta að hljóma hagkvæmt. Að nýta malbik, steypu, lýsingu og pláss eins og kostur er. En í framkvæmd er þetta galið. Flytja þarf brautina afturfyrir skýlið og sveigja framhjá staurnum, án þess að sú sveigja verði of kröpp og svo aðskilja betur umferð gangandi og hjólandi.

Laga, takk!

Bætt við kl 22:58
Eftir að hafa skoðað umræddan stíg betur komst ég að því að það er nú ekki alveg á tæru hvort hann sé skilgreindur sem hjólabraut eða ekki. Það eru a.m.k. ekki nein skilti sem gefa það til kynna. Hins vegar er leiðin sjálf, þ.e. Gamla Hringbraut, skilgreind sem hjólaleið skv. korti um hjólaleiðir í Reykjavík. Þar er hins vegar ekki alveg ljóst hvort það sé gatan sjálf eða stígurinn sem eru ætluðu ndir hjólreiðar. Umferðarlögin eru ekkert sérlega skýr hvað þetta varðar. Hjólreiðafólk á að hjóla hægramegin á götu en má hjóla á gangstétt eða gangstíg, fylgi því ekki hætta fyrir gangandi vegfarendur. Ég get ekki fundið neitt þar sem fjallar um merktar hjólabrautir. Ákvæði um hjólreiðar í umferðarlögum er reyndar efni í annan pistil. Svo virðist sem fæst hjólreiðafólk þekki umferðarreglunar hvað þetta varðar. Það fer a.m.k. ekki eftir þeim.


Amtmannsstígur

Göturnar í miðbænum eru margar hverjar gamlar og rótgrónar. Þær eru oft þröngar sem helgast af því að fólk þurfti jafnan minna pláss í gamladaga en það þarf í dag. Göturnar í Þingholtinu eru t.d. þannig. Þær voru ekki troðnar fyrir bíla í upphafi, heldur bara gangandi fólk og hesta, jafnvel annan búfénað. Það er því undarlegt að sjá hvernig þessar götur hafa með tíð og tíma þurft að laga sig að bílaumferð. Nú er málum háttað þannig og hefur reyndar verið um nokkurt skeið, að skipulag þessara gatna virðist algjörlega miðað að bílum. Eina götu geng ég oft í viku. Hinn gamla Amtmannsstíg. Götu sem er svo gömul, að heitið á henni vísar til stöðuheitis sem er ekki lengur til og fæstir vita í raun hvað stendur fyrir. En það er önnur saga. Amtmannstígur er ein af þessum fallegu götum sem hefur þurft að laga mynd sína að þörfum bílsins. Það hefur haft nokkur áhrif á aðgengi fótgangandi í götunni. Ég tók nokkrar myndir af göngu minni með son minn þar í dag. Sjón er sögu ríkari:

Hér er gengið framhjá Bernhöftstorfunni og litið upp í Þingholtið. MR er á hægri hönd. Húshornið næst á myndinni er það sem hýsir veitingastaðinn Humarhúsið. Gangstéttin fram að þessu er fín og hæfilega breið svo að t.a.m. tveir barnavagnar geta mæst. En svo vandast málið. Húsið skagar fram í gangstéttina svo eftir verður ein og hálf hellubreidd og svo kantsteinninn.


Ojæja, höldum göngunni áfram:
Hér hef ég rétt gengið yfir Skólastræti á leið minni upp holtið. Hér fær gatan enn að éta upp gangstéttarplássið. Tröppur að húsadyrum þrengja svo að gangandi umferð nær húsunum og þegar ofar dregur er búið að koma fyrir járngrindum, sem væntanlega eiga að verja gangandi vegfarendur og hús fyrir bílaumferðinni, en gera það að verkum að ekki er hægt að koma t.d. barnavagni með góðu móti eftir gangstéttinni:











Hér erum við feðgar bara komnir í heilmikil vandræði. Hér er ekkert pláss fyrir barnavagninn. Hvernig myndi t.d. blindum eða fólki í hjólastólum ganga að komast leiðar sinnar hér? Slíkir vegfarendur eiga kannski bara að vera annars staðar.
Hér kaus ég að flytja mig yfir götuna og á gangstéttina hinum megin þar sem plássið var ögn meira. En svo var ekki lengi:


Fljótlega kem ég að horni Amtmannsstígs og Þingholtsstrætis og þar virðist einfaldlega ekki ætlast til þess að fólk sé á gangi yfir höfuð. Gangstéttin hreinlega hverfur undir malbik bílanna. Hér neyðist ég að ganga með barnavagninn á götunni og ekki dugir að flytja mig yfir götuna því plássið er varla meira þeim megin þegar ofar er komið.

Nú spyr ég. Þarf gatan að vera svona? Þarf gatan að vera tvístefnugata? Er þörf á öllu þessu plássi fyrir bílaumferðina? Hún er varla mikil eða svo hröð að ekki megi þrengja að henni. Hámarkshraði í götunni er 30 km/klst. Þarf yfir höfuð að aðskilja umferð gangandi og akandi með svona skýrum hætti? Mætti ekki gera Amtmannsstíg að vistgötu þar sem öllum samgöngumátum væri jafnhátt undir höfði gert? Maður gæti svo sem gengið bara á götunni þarna, en þá er maður eiginlega samt bara fyrir. Bílstjórar eru þarna ekki beinlínis hvattir til að taka tillit til gangandi. Gatan er skilgreind sem umferðargata þar sem gangandi vegfarendur eiga að halda sig á gangstéttinni, þó það fari nú lítið fyrir henni.

Mætti ekki breyta þessu? Fara t.d. þá leið sem farin var í Grjótaþorpinu. Þar má keyra bíla um þröngar götur, án þessa að það sé á kostnað umferðar gangandi. Eiginlega bara mjög vel heppnað:

Úr Gjótaþorpi, vísað er í myndina á vefnum Virtual Tourist.






Þess má geta að ég færði inn tillögu á vefinn betrireykjavik.is um að gera Amtmannsstíg að vistgötu. Áhugasamir mega veita henni atkvæði sitt.

24. sep. 2012

Ég bíð enn eftir félagatali Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg. Ég fékk þó svar frá framkvæmdastjóra félagsins, Birni Jóni Bragasyni. Hann tjáir mér að félagar séu um eitthundrað og lofar að félagatalið fari á vefinn brátt.

Hitt og þetta

Ég fór í bíó í gær. Það telst til tíðinda. Við sáum Djúpið. Ef ég ætti að skrifa gagnrýni um Djúpið myndi ég hrósa framgangi íslenskrar kvikmyndagerðar við erfiðar aðstæður. Íslenskar kvikmyndir verðar sífellt vandaðri að mínu mati. Djúpið er góð mynd og ein af betri íslensku kvikmyndum sem ég hef séð. Bæði hvað varðar framleiðslu og leik. Kannski helst persónusköpun sem hefði mátt vera dýpri. En það er svo sem vandfarið með efni sem fjallar um raunverulegan harmleik.

...en ég ætla ekki að skrifa kvikmyndagagnrýni.

24. ágú. 2012

Göngugatan Laugavegur III

Ætla að týna hér saman umfjöllun um framtakið og jákvæð og neikvæð viðbrögð eftir því sem hún verður á vegi mínum:

Jákvæð



Laugavegur - hvert skal stefnt?
http://www.visir.is/laugavegur---hvert-skal-stefnt-/article/2012704209987

Páll Jakob Líndal doktorsnemi í umhverfissálfræði fjallar á jákvæðum nótum um framtakið

Alsæl með göngugötuna
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/08/03/alsael_med_gongugotuna/

Rætt var við eftirfarandi verslunarfólk við götuna sem allt var hæstánægð með framtakið:

Kristján Freyr Halldórsson, Bókabúð Máls og menningar
Tinna Brá Baldvinsdóttir, Hrími hönnunarhúsi
Hanna Soffía Þormar, Spúútnik
Bára Hólmgeirsdóttir, Aftur

Skólavörðustígur sumargata viku lengur
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/08/16/skolavordustigur_sumargata_viku_lengur/
Mikil ánægja hefur verið með fyrirkomulagið meðal rekstraraðila við Skólavörðustíg og vildu allir aðilar á svæðinu hafa götuna sumargötu í eina viku til viðbótar við áður auglýstan tíma. Það sama kom upp í fyrra:
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/08/09/skolavordustigur_afram_gongugata/

http://borghildur.info
Ýmsar mælingar og umfjöllun um framtakið í fyrra.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/03/07/segir_framsetningu_kaupmanna_ranga/
Kristín Soffía Jónsdóttir gerir athugasemd við framsetningu Björns Jóns Bragasonar við mótmæli við lokun.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/04/23/fleiri_hlynntir_sumarlokun/
Frétt um að fleiri séu hlynnti lokun fyrir bílaumferð en andvígir.

Neikvæð

Greinargerð með undirskriftum kaupmanna og fasteignaeigenda gegn öllum frekari áformum um lokun Laugavegar fyrir bílaumferð, afhentar borgarstjóra 7. mars 2012

Ýmis neikvæð ummæli Björns Jóns Bragasonar hjá Samtökum kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg á mbl.is
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/03/07/kaupmenn_vid_laugaveg_motmaela/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/04/30/list_illa_a_lokun_laugavegar/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/06/11/engin_skynsamleg_rok_fyrir_lokun_laugavegar/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/06/11/botnar_ekki_i_sjonarmidum_borgarinnar/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/08/17/aldradir_og_fatladir_sjaldsedir/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/08/19/opid_fyrir_umferd_a_laugaveginum/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/08/24/verslun_tekid_kipp_vid_opnun/




Göngugatan Laugavegur II

Það er forvitnilegt að skoða viðhorfskönnun um lokun fyrir bílaumferð um Laugaveg sumarið 2011 sem Borghildur stóð fyrir. Skífurit má sjá hér.

Spurt var um viðhorf fyrir og eftir lokun. Þegar rekstraraðilar vorur spurðir fyrir lokun hvaða áhrif lokun myndi hafa svöruðu 23,3% að áhrifin yrðu jákvæð og 43,3 töldu að þau yrðu neikvæð. Eftir lokun hins vegar voru 32,7 á því að áhrifin hafi verið jákvæð en 16,4% sögðu að þau hefðu verið neikvæð. Fyrir lokun töldu 3,3% að lokun mynd engin áhrif hafa á viðskipti. 43,6% sögðu, eftir lokun, að áhrifin hafi engin verið.

Rekstraraðila voru því frekar neikvæðir áður en tilraunin var gerð, en að lokinni tilraun töldu 76,3 að lokunin hafi ekki haft áhrif eða þá að áhrifin hafi verið jákvæð.

Ég veit ekki hvort svipuð viðhorfskönnun hafi verið gerð í ár en þetta er allt önnur stemming en Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg lýsa í sínum málflutningi.

Göngugatan Laugavegur

Bílaumferð um Laugaveginn var takmörkuð um tíma í sumar líkt og í fyrra. Ég var því miður ekki á landinu megnið af þeim tíma sem takmörkunin var í gangi en mér skilst að þetta hafi heppnast vel og fínasta stemming flesta daga, svona a.m.k. skv. vinum og kunningjum.

Það eina sem ég hef heyrt opinberlega um uppátækið hins vegar kemur frá Birni Jóni Bragasyni í nýstofnuðum Samtökum kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg. Hann finnur verkefninu allt til foráttu og talar um hrun í verslun og að fatlaðir og aldraðir hafi varla sést í götunni og að það hefði hingað til gert verslun á Laugaveginum gott að geta keyrt götuna alla í gegn.

Ég varð nokkuð forvitinn um samtökin og fór því inn á vefinn þeirra. Þar er fjöldi greina og frétta auk ályktana. Þar má líka finna lög samtakanna og upplýsingar um stjórn:


Bolli Kristinsson, formaður, Brekkuhúsum ehf.
Brynjólfur Björnsson, Versluninni Brynju
Gunnar Guðjónsson, Gleraugnamiðstöðinni
Hildur Símonardóttir, Vinnufatabúðinni
Jón Sigurjónsson, Jóni & Óskari
Frank Ú. Michelsen, Michelsen úrsmiðum (varam.)
Hallgrímur Sveinsson, Gullkúnst Helgu (varam.)
Framkvæmdastjóri:Björn Jón Bragason


Félagaskrána finn ég ekki á síðu samtakanna en eftirfarandi sátu stofnfundinn:

Gunnar Guðjónsson, Gleraugnamiðstöðinni
Jón Sigurjónsson, Jóni & Óskari
Bolli Kristinsson, Brekkuhúsum ehf.
Rúdolf Kristinsson, K. Einarsson & Björnsson
Hallgrímur Sveinsson, Gullkúnst Helgu
Gunnar Rósinkranz, Hótel Fróni
Sveinn Valfells, Kjörgarði
Gunnar Indriðason, Vesturgarði ehf.
Frank Ú. Michelsen, Michelsen úrsmiðum
Svava Eyjólfsdóttir, Verslun Guðsteins Eyjólfssonar
Helgi Njálsson, Hún ehf.
Hildur Símonardóttir, Vinnufatabúðinni
Brynjólfur Björnsson, Versluninni Brynju
Guðrún Steingrímsdóttir, Lífstykkjabúðinni

Forvitnilegt væri að vita hvaða fulltrúar annarra fyrirtækja við götuna sitja í samtökunum. Hvort þau tali fyrir hönd flestra rekstraraðila eða einungis lítils hóps. Ég hef sent framkvæmdastjóra samtakanna fyrirspurn um félagaskrána og bíð svara.



20. ágú. 2012

Gautablogg

Gautaborg er ekki slæm. Ekki á sumrin í hið minnsta. Hér er hægt að baða sig í sjónum og vötnum, skoða hirti hér úti í skógi, hjóla um allar trissur og taka sporvagna. Mér finnst lestarsamgöngur eitt skemmtilegasta fyrirbæri í heimi.

Ég fór í fyrsta sinn í kräftskiva um helgina. Hvað er það, kann fólk að spyrja. Það er svona krabbaátsveisla. Það var gott, það var gaman.

25. apr. 2012

Chick Corea & Gary Burton

Sá þessa tvo í Hörpunni í gær:




Hvílík dýrð. Maður var eiginlega í senn fullkomlega endurnærður og algjörlega búinn á því í lok tónleika. Hvílíkar lykkjur og samspilið eins þeir væru einn maður. Dettur í topptíu bestu tónleika sem ég hef farið á. Toppfimm? Jafnvel!

23. apr. 2012

Hver er tilgangurinn með því að birta stöðufærsluna í heild sinni í lokin þegar hún er hvor eð er öll tekin upp sem óbein tilvitnun?


Vatnsmýrin

Tók mér stutta kvöldgöngu í kvöld (eðlilega). Gekk í Hljómskálagarðinum og svo brúna yfir Hringbraut og lagði leiðina á göngustíg sem liggur inn í Vatnsmýrina við Norræna húsið.

Ég hef ekki gengið þarna í mörg ár. Vissi tæpast af þessum göngustíg. En þarna liggur hann og aðgengi að honum hefur í raun batnað með tilkomu göngubrúarinnar nýju yfir Hringbraut.

Það er fallegt að ganga þarna og gæti verið enn fallegra ef ekki væri hraðbraut þarna oní þessu nánast og flugvöllur við hliðina. Og ekki væri verra ef hirt væri betur um þetta. Það var sorglegt að sjá allt ruslið sem þarna er á víð og dreif. Plastpokar og -flöskur, fernur og dósir út um all, í lækjum, mýrarpyttum og flækt í trjám og öðrum gróðri. Kannski er einhver sem sinnir þessu og á bara eftir að hefja vorverkin. Auðvitað er þetta viðkvæmt svæði og kannski ekki æskilegt að hreinsunarflokkar séu þarna stöðugt á ferð. En varla líður fuglunum vel innan um allt þetta rusl. Af sumu af því stafar þeim hreinlega hætta.

Ojæja.

Ég tók mynd.

13. apr. 2012

Rýnt í tölur og forsetaframboð

Ég ætla ekki að tjá mig um forsetaframboð vanfærrar konu. Ekki séns.


Hins vegar ætla ég að velta fyrir mér tölum sem búa að baki þessu (tengt í mynd á visir.is):



Þetta sýnir t.d. að 58,3% fylgjenda Sjálfstæðisflokksins myndu kjósa Ólaf Ragnar en aðeins 19,0% fylgjenda Samfylkingar. Hins vegar myndu 33,3% fylgjenda Sjálfstæðisflokks kjósa Þóru en heilt 81% fylgjenda Samfylkingar. 

Hvað á þetta að gefa í skyn? Jú, að stuðningur við framboðin tvö fari greinilega eftir flokkspólitískum línum. Samfylkingarfólk kýs Þóru og Sjálfstæðismenn kjósa Ólaf Ragnar.

En er þetta svona einfalt? Snúum þessu við. Skoðum hvernig stuðningsmannahópur hvors frambjóðanda er samanbyggður. 

Samkvæmt síðasta þjóðarpúlsi Gallup (sem ég fann) var stuðningur við flokkana fjóra svo í febrúar (sleppi Hreyfingunni því hún er ekki tekin með í úttekt Fréttablaðsins):

D: 33,3%
S: 18,7%
V: 12%
F: 13%

Leikum okkur aðeins með þetta. Segjum að 1000 manns svari um stuðning við forsetaframboð. Samkvæmt síðasta þjóðarpúlsi eru af þeim 333 fylgjendur Sjálfstæðisflokks, 187 stuðningsmenn Samfylkingar, 120 styðja Vinstri græna og 130 lenda hjá Framsókn. Samkvæmt Fréttablaðinu ættu af þessum 333 stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins 111 að vera á bandi Þóru. Af 187 fylgjendum Samfylkingar eru þá 151 á hennar bandi og af 120 Vinstri grænum eru 68 hennar megin. 60 af 130 stuðningsmönnum Framsóknar styðja Þóru.

Samkvæmt Fréttablaðinu eru, af þessum þúsund sem við spurðum, 460 sem styðja Ólaf og jafnmargir styðja Þóru. Því má reikna að 32% fylgjenda Þóru séu Samfylkingarfólk, 24% séu Sjálfstæðisfólk, 26% séu Vinstri græn og að 13% styðji Framsóknarflokkinn.

Af 333 stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins eru 194 sem styðja Ólaf Ragnar. Það eru 42% stuðningsmanna hans samkvæmt Fréttablaðinu. Úr hópi Samfylkingarfólks eru það 35 sem styðja hann, eða tæp átta prósent allra stuðningsmanna. Það eru 45 manns eða rétt tæp 10% af stuðningsmönnum hans sem styðja Vinstri græna og 65 manns eða 14% stuðningsmanna hans sem styðja Framsóknarflokkinn.

Setjum þetta upp svona til að gera þetta skýrara:

          V           S          D           F
Ólafur Ragnar 10% 8% 42% 15%
Þóra 26% 32% 24% 14%


Eigum við að túlka þetta á einhvern hátt? Jú, við getum t.d. sagt að framboð Ólafs virðist alveg klárlega njóta mestrar hylli á meðal sjálfstæðisfólks. Hins vegar skiptist stuðningsmannahópur Þóru mun jafnar á milli flokka. Því má segja að samstaðan um hana sé mun breiðari. Þá er athygli vert að flestir stuðningsmanna Þóru skipta sér í flokka en stórt hlutfall (um fjórðungur) stuðningsfólks Ólafs Ragnars gefur ekki upp afstöðu til flokka, hvað sem það nú kann að merkja. 

Þetta er ein leið til að líta á þessar tölur. Hún þykir mér töluvert merkilegri en sú sem Fréttablaðið kaus að líta á.

Að eiðast

Ég bjó til nýtt orð. Nýja sögn, miðmyndarsögnin að eiðast. Notað um það að kvarta yfir málfari í fjölmiðlum. Dregið af eiginnafninu Eiður, sbr. Eiður Svanberg Guðnason.

Ég á það til að eiðast. Dæmi um það eru gullkornastatusar á Facebook þar sem ég bendi á meinlegar og skondnar villur í texta á vefmiðlum.

Ég er stundum dáldið fyndinn.


9. apr. 2012

Nöldur og leiðinlegheit

Já, ekki hefur maður fært inn sendingar hingað á þennan blogg um nokkurt skeið. Gott mál.
En hvað er annar í páskum? Hvaða status hefur hann? Er hann eins og laugardagur, eða eins og sunnudagur, eða er hann alveg spes? Og hverju er verið að fagna? Ojæja.. ekki ætla ég svo sem að kvarta yfir því að fá frá á mánudegi. Takk Jesús!

Annars merkileg þessi hátíðleiki á Íslandi um páskana. Hér leggst bara allt á hliðina. Allt lokað. Ég var með gesti í heimsókn yfir páskana. Þjóðverja. Þeir komu í mat til mín á páskadag. En það var reyndar ekki þrautarlaust, því þau uppgötvuðu það á leiðinni að strætó gengur ekki um páskana. Enginn strætó. Ekkert. Engar ferðir, föstudaginn langa og páskadag. Onei. Þá má fólk ekki fara út úr húsi, nema á bíl.

What? Er virkilega bara litið svo á þetta. Nei, fólk sem á ekki bíl þarf ekki að fara á milli staða um páskana, a.m.k ekki lengra en hægt er að fara fótgangandi eða á hjóli.

Ég skal verja strætó og nálgast með bjartsýni almenn. En plís, strætó á að ganga alla daga. Auðvitað má takmarka ferðir og fækka. En það er ekki bara hægt að loka á þjónustuna. Í mínum huga mætti alveg eins bara loka Hringbraut og Miklubraut. Já, nei, það eru páskar. Engin þjónusta fyrir ykkur. Verið heima.

10. mar. 2012

Mysingur og te

Það er laugardagur og letidagur. Sit hér og háma í mig brauðsneið með mysingi og drekk með því te. Les gamlar bloggfærslur frá því í mars 2005. Það var greinilega góður tími. En nú er líka góður tími.
Inni sefur barnið og við foreldrarnir notum tíma og gerum ekki neitt. En nú í þessu vaknar hann einmitt og babblar. Best að fara inn og leika við hann!

3. jan. 2012

Nýr liður hér á bloggnum: Af aulum

Maður á að vera í tengslum við tilfinningar sínar, ekki skammast sín fyrir þær eða vera í felum með þær. Ég ætla að koma úr skápnum með þetta. Fólk getur pirrað mig óendanlega mikið. Nú ætla ég að tjá þessar tilfinningar mínar með stolti og eigna þeim lið hér á bloggnum. Við getum kallað hann Af aulum.

Hér kemur fyrsti aulapistillinn:

Ég þoli ekki fólk sem keyrir með þokuljósin kveikt þegar engin þoka er. Til hvers? Þetta er eins og að taka upp á því að keyra alltaf með stefnuljósin á eða rúðuþurrkurnar í gangi. Á þetta að vera eitthvað töff. Varla, því þetta er átakanlega hallærislegt... 
...aular