19. nóv. 2012


Við hlið mér sefur sonur minn vært undir hlýrri sæng. Áhyggjulaus, öruggur. Hann þarf ekki að óttast skort, hann býr ekki við frelsisskerðingu og kúgun. Hann þarf ekki að óttast kúlnaregn né sprengjuárásir.

Annars staðar liggja önnur börn, andvaka. Þau geta ekki sofið, hvort sem það er af ótta, eða vegna martraða eða vegna sprenginga  og blóðbaðs eða óhljóða deyjandi ættingja.

Sprengjuárásir Hamas eru glæpsamlegar en þær eru vanmáttugar. Árásir Ísraelsstjórnar eru ekki bara glæpsamlegar, þær eru viðbjóðslegar. Þær eru ekki vanmáttugar. Þær beinast gegn saklausum borgurum, sem hafa mátt búa við kúgun, skort, frelsisskerðingu og ógn allt sitt líf. Ísraelsstjórn segist vera að verja hendur sínar. En aðgerðir síðustu daga eru allt annars eðlis. Þar fer fram hernaður eins öflugasta hernaðarríkis heims gegn vanmáttugum íbúum svæðis sem raun eru bara risastórar fangabúðir. Á bakvið það stendur Bandaríkjastjórn, sem styður þessar aðgerðir, bæði pólitískt og í verki.

Þess vegna ætla ég að mæta fyrir utan bandaríska sendiráðið klukka 17.00 í dag og mótmæla. Mótmæla glæpum Ísraelsstjórnar og afstöðu Bandaríkjastjórnar. Í krafti neitunarvalds síns hefur Bandaríkjastjórn lamað öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í málefnum Ísraels-Palestínu í áratugi. Í skjóli þeirra kemst Ísraelsstjórn upp með síendurtekin brot á alþjóðalögum. Í skjóli þeirra getur Ísraelsstjórn komist upp með þjóðarmorð. Látum það ekki gerast. 

Sitjum ekki bara og horfum á.
Mætt þú líka. Við getum kannski lítið gert. En við getum látið í okkur heyra. Sama hver afstaða þín er til rétts ríkja til að halda uppi vörnum. Ísraelsstjórn háir ekki varnarstríð, hún er að myrða saklaus börn.

Engin ummæli: