Hér má sjá hvernig hjólastígurinn verður breikkaður þannig að umferð gangandi og hjólandi verður betur aðskilin. Það er mikilvægt öryggisatriði, eigi hjólið að verða að alvöru samgöngutæki, því hröð umferð hjólandi og hæg umferð gangandi fer enganveginn saman. Bravó fyrir þessu og ég hlakka til að nýta mér þessa leið þegar hún verður fullkláruð. Þetta er einmitt önnur af þeim leiðum sem ég get valið til og frá vinnu.
Hin leiðin er meðfram Hringbraut og Miklubraut, en þá leið þarf að stórbæta til að bæta öryggi.
Þessi mynd er tekin á Gömlu Hringbraut, við strætóstoppistöðina BSÍ. Hér birtast nokkur dæmi um það sem laga þarf víða á hjólabrautum borgarinnar, og sem einmitt er verið að taka í gegn á áðurnefndri leið frá Hlemmi og austureftir.
Hér sést dæmi um það þegar göngustígur og hjólabraut fara saman án nokkurrar aðgreiningar. Það er, sem fyrr segir, óæskilegt og af því stafar slysahætta. En það er ekki nóg með það. Eins og sést er ljósastaur á miðri brautinni! Það er ekki aðeins afar undarlegt, heldur stórhættulegt. Reyndar er í þessu tilfelli strætóstoppistöð þarna við hliðina með óvenjustórum „brautarpalli“og geta því hjólandi og gangandi sneitt framhjá staurnum án stórkostlegra vandræða. En þar komum við að enn einu atriðinu, sem þarf að laga mjög víða í borginni: Brautin liggur í gegnum strætóstoppistöð. Það eitt er frekar óheppilegt, því til að stíga út úr skýlinu og inn í strætó þurfa farþegar fyrst að fara yfir hjólabrautina. Þar er slysahætta. (Þetta veit ég að er eitt af þeim atriðum sem lagað verður á áðurnefndri braut frá Hlemmi.) Þetta tilfelli við stoppistöðina BSÍ er því marföld slysagildra. Hér fara saman hjólabraut og göngustígur (einn mínus) sem liggja í gegnum strætóstoppistöð (annar mínus) með ljósastaur á miðri brautinni (þriðji mínusinn). Á pappírum kann þetta að hljóma hagkvæmt. Að nýta malbik, steypu, lýsingu og pláss eins og kostur er. En í framkvæmd er þetta galið. Flytja þarf brautina afturfyrir skýlið og sveigja framhjá staurnum, án þess að sú sveigja verði of kröpp og svo aðskilja betur umferð gangandi og hjólandi.
Laga, takk!
Bætt við kl 22:58
Eftir að hafa skoðað umræddan stíg betur komst ég að því að það er nú ekki alveg á tæru hvort hann sé skilgreindur sem hjólabraut eða ekki. Það eru a.m.k. ekki nein skilti sem gefa það til kynna. Hins vegar er leiðin sjálf, þ.e. Gamla Hringbraut, skilgreind sem hjólaleið skv. korti um hjólaleiðir í Reykjavík. Þar er hins vegar ekki alveg ljóst hvort það sé gatan sjálf eða stígurinn sem eru ætluðu ndir hjólreiðar. Umferðarlögin eru ekkert sérlega skýr hvað þetta varðar. Hjólreiðafólk á að hjóla hægramegin á götu en má hjóla á gangstétt eða gangstíg, fylgi því ekki hætta fyrir gangandi vegfarendur. Ég get ekki fundið neitt þar sem fjallar um merktar hjólabrautir. Ákvæði um hjólreiðar í umferðarlögum er reyndar efni í annan pistil. Svo virðist sem fæst hjólreiðafólk þekki umferðarreglunar hvað þetta varðar. Það fer a.m.k. ekki eftir þeim.
1 ummæli:
Ég skoðaði líka umferðarlögin þegar ég var eitthvað að þusa um þessi málefni í sumarfríinu mínu í Reykjavík. Umferðarlögin eru komin nokkuð til ára sinna og mig minnir að ég hafi ekki séð betur en að þetta hjólreiðaákvæði í þeim hafi ekki verið uppfært í sirka 25 ár. Ég þurfti reyndar í fyrsta lagi að gúggla dálítið lengi til þess að hafa upp á þessum lögum til að byrja með.
Þau eru orðin úrelt og byggja mjög skýrt á hugmyndinni um það að hjól séu ekki tekin alvarlega sem fararmáti heldur bara eitthvað dót sem má dóla sér á innan um bíla og gangandi vegfarendur, svo lengi sem hjólin eru ekki of mikið fyrir hinum. Það vita það allir sem nota hjól sem sinn fararmáta að það mun aldrei ganga upp að byggja upp hjólreiðamenningu á því að það megi hjóla uppi á gangstéttum.
Gangstéttir eru mjög illa hentugar til hjólreiða, þær eru hellulagðar og með háum brúnum, það er mjög óskýrt hver réttur hjólreiðamanns er uppi á gangstéttum, það skapar stórhættu fyrir gangandi vegfarendur (sérstaklega þegar hjól koma úr öllum áttum), gangandi fólk er einfaldlega fyrir manni þegar maður hjólar uppi á gangstétt og maður lendir iðulega í vanda hjólandi uppi á gangstétt, t.d. um hvaða umferðarljósum maður á að fylgja. Á maður að fylgja umferðarljósum fyrir gangandi vegfarendur eða bíla?
Umferðarlögin segja ekkert til um þetta og ég hef ekki rekist á nokkra umræðu nokkurs staðar eða opinber fyrirmæli um þetta. Það má þó vera að það megi finna til einhvers staðar með mjög ítarlegu gúggli en þær ættu nú eiginlega bara að vera til á aðgengilegum stað, ekki þannig að maður þurfi leggjast í hálfs dags grúsk til að finna eitthvað til.
Það þarf að uppfæra umferðarlögin og afmarka hjólunum skýran stað á hjólastígum, ellegar hægra megin úti í vegkanti. Fyrr gengur þetta ekki fyllilega upp. Eins og staðan er í dag veit enginn hvernig reglurnar eru. Þannig að núna þegar á að leggja alla þessa fínu stíga (sem ekki munu þó ná yfir allt) er staðan dálítið þannig að þegar maður víkur út af stígnum, þá er verið að spila leik sem ekki eru til almennilegar leikreglur fyrir.
Og ég myndi segja að leikreglur séu nokkuð beisik forsendur til þess að hægt sé að spila leikinn. En það er eins og enginn hafi áttað sig á því. Alla vega standa umferðarreglurnar óbreyttar og úreltar og enginn getur sagt manni hvar maður á í raun að vera á hjóli.
Takk annars fyrir góðar úttektir, minn kæri.
Skrifa ummæli