25. sep. 2012

Amtmannsstígur

Göturnar í miðbænum eru margar hverjar gamlar og rótgrónar. Þær eru oft þröngar sem helgast af því að fólk þurfti jafnan minna pláss í gamladaga en það þarf í dag. Göturnar í Þingholtinu eru t.d. þannig. Þær voru ekki troðnar fyrir bíla í upphafi, heldur bara gangandi fólk og hesta, jafnvel annan búfénað. Það er því undarlegt að sjá hvernig þessar götur hafa með tíð og tíma þurft að laga sig að bílaumferð. Nú er málum háttað þannig og hefur reyndar verið um nokkurt skeið, að skipulag þessara gatna virðist algjörlega miðað að bílum. Eina götu geng ég oft í viku. Hinn gamla Amtmannsstíg. Götu sem er svo gömul, að heitið á henni vísar til stöðuheitis sem er ekki lengur til og fæstir vita í raun hvað stendur fyrir. En það er önnur saga. Amtmannstígur er ein af þessum fallegu götum sem hefur þurft að laga mynd sína að þörfum bílsins. Það hefur haft nokkur áhrif á aðgengi fótgangandi í götunni. Ég tók nokkrar myndir af göngu minni með son minn þar í dag. Sjón er sögu ríkari:

Hér er gengið framhjá Bernhöftstorfunni og litið upp í Þingholtið. MR er á hægri hönd. Húshornið næst á myndinni er það sem hýsir veitingastaðinn Humarhúsið. Gangstéttin fram að þessu er fín og hæfilega breið svo að t.a.m. tveir barnavagnar geta mæst. En svo vandast málið. Húsið skagar fram í gangstéttina svo eftir verður ein og hálf hellubreidd og svo kantsteinninn.


Ojæja, höldum göngunni áfram:
Hér hef ég rétt gengið yfir Skólastræti á leið minni upp holtið. Hér fær gatan enn að éta upp gangstéttarplássið. Tröppur að húsadyrum þrengja svo að gangandi umferð nær húsunum og þegar ofar dregur er búið að koma fyrir járngrindum, sem væntanlega eiga að verja gangandi vegfarendur og hús fyrir bílaumferðinni, en gera það að verkum að ekki er hægt að koma t.d. barnavagni með góðu móti eftir gangstéttinni:











Hér erum við feðgar bara komnir í heilmikil vandræði. Hér er ekkert pláss fyrir barnavagninn. Hvernig myndi t.d. blindum eða fólki í hjólastólum ganga að komast leiðar sinnar hér? Slíkir vegfarendur eiga kannski bara að vera annars staðar.
Hér kaus ég að flytja mig yfir götuna og á gangstéttina hinum megin þar sem plássið var ögn meira. En svo var ekki lengi:


Fljótlega kem ég að horni Amtmannsstígs og Þingholtsstrætis og þar virðist einfaldlega ekki ætlast til þess að fólk sé á gangi yfir höfuð. Gangstéttin hreinlega hverfur undir malbik bílanna. Hér neyðist ég að ganga með barnavagninn á götunni og ekki dugir að flytja mig yfir götuna því plássið er varla meira þeim megin þegar ofar er komið.

Nú spyr ég. Þarf gatan að vera svona? Þarf gatan að vera tvístefnugata? Er þörf á öllu þessu plássi fyrir bílaumferðina? Hún er varla mikil eða svo hröð að ekki megi þrengja að henni. Hámarkshraði í götunni er 30 km/klst. Þarf yfir höfuð að aðskilja umferð gangandi og akandi með svona skýrum hætti? Mætti ekki gera Amtmannsstíg að vistgötu þar sem öllum samgöngumátum væri jafnhátt undir höfði gert? Maður gæti svo sem gengið bara á götunni þarna, en þá er maður eiginlega samt bara fyrir. Bílstjórar eru þarna ekki beinlínis hvattir til að taka tillit til gangandi. Gatan er skilgreind sem umferðargata þar sem gangandi vegfarendur eiga að halda sig á gangstéttinni, þó það fari nú lítið fyrir henni.

Mætti ekki breyta þessu? Fara t.d. þá leið sem farin var í Grjótaþorpinu. Þar má keyra bíla um þröngar götur, án þessa að það sé á kostnað umferðar gangandi. Eiginlega bara mjög vel heppnað:

Úr Gjótaþorpi, vísað er í myndina á vefnum Virtual Tourist.






Þess má geta að ég færði inn tillögu á vefinn betrireykjavik.is um að gera Amtmannsstíg að vistgötu. Áhugasamir mega veita henni atkvæði sitt.

Engin ummæli: