30. jan. 2008

Maður er náttúrulega galinn

Jæja! Í gær var tekin ákvörðun: Í ár skyldi hlaupið Göteborgsvarvet. Það er hálfmaraþon. Brjálsemin fer fram á þjóðhátíðardegi Norðmanna svo ég hef rétt rúmar 15 vikur til að koma mér í form. Ég las mér til í gærkvöldi og mælt er með að byrjendur hafi 16 vikur til að þjálfa sig upp fyrir hálfmaraþon. Þá er hlaupið 4-5 daga í viku. Ég ætla að nota notandareikninginn á jogg.se til að búa mér til alhliða hlaupáætlun.

Þetta hefst í hádeginu í dag. Við byrjum rólega: tæpur Slottsskogen-hringur.

29. jan. 2008

Bannað að ráðast á minni máttar

Það er með umræðuna um þetta borgarstjórnarmál eins og öll önnur mál í íslenskri umræðu: Það er deilt um keisarans skegg. Einhvern veginn snerist umræðan frá því hvort að siðlegt og boðlegt hafi verið að mynda þennan nýja meirihluta án nokkurrar sýnilegrar ástæðu nema valdagræðgi, yfir í að rífast, allharkalega, um hvort rétt sé að gagnrýna Ólaf F. Magnússon. Maðurinn var jú veikur og við eigum bara að láta hann í friði og öll gagnrýni í hans garð er bara mannvonska.

Málið snýst ekki um veikind Ólafs heldur annarlegar hvatir við meirihlutamyndun, umboð stjórnmálamanna og skyldur við kjósendur...

...og, svo ég vitni nú í ónefndan vin minn,

„Kosningar snúast um traust...“

24. jan. 2008

Valdníðsla, mótmæli, handbolti og fleira

Ég er nú yfirleitt á þeirri skoðun að fólk eigi að fara vel með þann rétt sinn að mótmæla. Málfrelsið, skoðanafrelsið og rétturinn til að mótmæla eru kannski sjálfsögð í okkar þjóðfélagi í dag. Þau eru engu að síður mikil verðmæti sem fara verður vel með.

Þess vegna er ég líka á þeirri skoðun að vissar reglur og stofnanir beri að virða. T.d. þann lýðræðislega umræðuvettvang sem við höfum komið á fót á Alþingi og svo á fundum borgar- og bæjastjórna.

Ég hafði þó samúð með öllum mótmælendum á pöllum ráðhússins sama úr hvaða átt þeir hafi komið. Og sú óhlýðni sem þeir sýndu var réttmæt. Þegar komið er fram við kjósendur, íbúa borgarinnar, fólkið sem fól borgarfulltrúum vald sitt, af jafnmikilli óvirðingu þá er í góðu lagi að trufla þann fund sem annars ætti að ríkja ákveðin friðhelgi yfir. Það er þeim sjálfum, borgafulltrúum hins nýja meirihluta, að kenna að virðingarleysið fyrir borgarstjórn sé lítið. Í raun virðist ekkert heilagt lengur. Þess vegna gladdist ég að sjá ungt fólk koma saman og mótmæla þeirri lögleysu sem þar var höfð frammi.

Það er síðan aumingjalegt að ætla að tortryggja þennan hóp eins og Vilhjálmur og Ólafur F. gerðu tilraun til. Í hópnum var vissulega stuðningsfólk þeirra stjórnmálahreyfinga sem mynduðu gamla meirihlutann. En þar voru líka aðrir óháðir. Og að segja að mótmælin gefi ekki mynd af vilja og skoðunum borgarbúa er skelfileg vitleysa. Fyrsta skoðanakönnun sýndi að Ólafur F. hefur aðeins stuðning 5% borgarbúa. Nýi meirihlutinn nýtur aðeins fylgis fjórðungs fólksins.


Af hverju hafa önnur eins mótmæli ekki orðið í Ráðhúsinu? Af því að önnur eins valdníðsla hefur ekki orðið í Ráðhúsinu.


jæja hvað um það - þetta fékk að koma út. hef engan að tala við um þetta hér. það er, þeir sem ég hef að tala við hafa ekki beinlínis áhuga (eða skilning) á málinu.

Þeir hafa heldur ekki áhuga á EM í handbolta. Hins vegar hefur hér verið sýnt frá leikjum íslenska liðsins. Þar til reyndar í gær þegar þeir eiga loksins stórleik. En ég hlustaði þó í staðinn.

Ég fylgist sum sé með íslenska landsliðinu svona þegar færi gefst. Mér finnst það ágætt en geri þó engar væntingar til þess. Enda spáði ég þeim 10 sæti á mótinu. Það virðist ætla að ganga eftir.

Sænsku þulirnir eru hins vegar ofsalega hrifnir af liðinu og sérstaklega Ólafi Sigurðssyni, Guðjóni Val og Hreiðari. Þeir kalla meir að segja Hreiðar "Reddar" af því að hann reddar alltaf (og þeir geta ekki borið fram nafnið hans). Þeir elska líka Gíslason. Svo eru þeir alltaf að vísa til íslenska liðsins þegar þeir eru að lýsa öðrum leikjum. Merkilegt

En já sum sé

22. jan. 2008

Ný stjórn borgar

Mér fannst nú svo sem ekki ólíklegt að þessi meirihluti yrði skammlífur með Ólaf F innanborðs. En ég bjóst nú þó við að hann myndi tolla aðeins lengur.

Efsta mál á málefnasamningi nýja meirihlutans er að taka enga ákvörðun um flugvöllinn. Jú, það er kannski málefni.

Annars er nú svo sem margt gott í þessum málefnasamningi og ég get ekki séð að Ólafur hefði ekki komið mörgum þessara mála í gegn. Einkum kannski umhverfisslysið Mislæg gatnamót sem sjálfstæðismenn eru svo þyrstir í sem ekki hefði komið til greina.

20. jan. 2008

Danstónlist

Ég hef ákveðið að gerast danstónlistarmaður - með auknum tíma og fjárráðum hef ég nú bæði tíma og efni á því.

Keypti mér svona danstónlistartæki og afrakstur fyrstu fiktsessjónar má heyra hér.

Eftir tvo mánuði mun fyrsta skífa skonrottunnar líta dagsins ljós. Búið er að hanna plötuumslagið nú þegar.

18. jan. 2008

Jæja

Handbolti. Jú, maður settist náttúrulega niður til að horfa á þennan leik. Jafnvel að maður væri dálítið bjartsýnn. Hafði lesið að þessi gama Svía-Grýla væri löngu dauð. Svo ég pantaði sjónvarpið í þessa einu og hálfu klukkustund og saman horfðum við Jóka á leikinn. Nokkuð spennandi fyrri hálfleikur og nokkuð sýnt að jafnt væri á liðinum ef frá væri talinn þessi Svensson í markinu hjá Svíum. Svo við studdum hvort sitt liðið fram að hálfleik.

Einhverntímann varð mér á orði að Íslenska landsliðið væri alveg þrælgott, og kannski það besta í heimi, ef handboltaleikir væru bara 30 mínútur. Orðið "þrjátíumínútnalið" glumdi amk í hausnum á mér allan seinni hálfleiki. Mikið var þetta eitthvað grátlegt. Jóhanna var meir að segja farin að halda með Íslandi snemma í seinni hálfleik, af hreinni meðaumkun.

En hvað um það - við vinnum bara Frakkana í staðinn

Hér er sem sagt enn þá janúar og föstudagur í þokkabót. Maður skellir sér í AfterWork á eftir, hittir strákana og skálar í flötum bjór, það held ég nú.

13. jan. 2008

Ég hef mjög einbeittan áhuga á skipulags- og samgöngumálum eins og lesendur þessa bloggs kunna að vita. Ég fór einnig nærri því að gráta þegar ég horfði á Silfrið áðan og hlustaði á fyrirlesturinn hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Gráta af gleði yfir hversu vel hann setti mál sitt fram með myndum og af reiði yfir hversu ónýt skipulagsmál og -hugsun er í Reykjavík/á Íslandi.

En svo vonar maður að á endanum verði hægt að fara þá leið sem farin var á horn Túngötu og Aðalstrætis. Þar er töff.

7. jan. 2008

Sjá

Jú - það má heldur betur segja þetta stutta frí sem ég tók mér hafi sannanlega verið til góðs. Maður sneri endurnærður til baka. Ekki spillir svo fyrir að í gildi hefur tekið yfirvinnubann í vinnunni sem verður tekið grafalvarlega á þessum bæ. Þetta var orðið að jafnaði ein auka vinnuvika í mánuði sem maður vann í yfirvinnu og ekki nema von að maður hafi nærri dottið niður af þreytu þarna síðasta vinnudaginn fyrir jól. Það mættu fleiri vinnustaðir taka sér þetta til fyrirmyndar að hreinlega banna fólkinu sínu að vinna endalaust eins og brjálæðingar. Við erum náttúrulega bara sauðir skal ég segja þér, sauðir.

Það enda fannst fyrir því strax á föstudag þegar ég var bara búinn að hella mér fólköli í glas og draga fram ljóðabók og segja blús á fóninn þarna rétt uppúr fimm. Það hefur ekki gerst.... tja lengi. Svo var endalaus orka í manni um helgina. Ég t.d. bakaði brauð, gerði miklar uppfærslur á monthly.se og duddaði svona við undirbúning litlu verki - sem kannski kemur út bara fyrir næstu jól?

oseiseijá

gott að vera kominn aftur í bæ þar sem almenningssamgöngur virka. Ég stóð mig að því að vera að taka leigubíla um allar trissur í Reykjavík til að komast á milli staða.

3. jan. 2008

Sumt skil ég ekki

Ég þykist ekki vera alvitur og það er ótalmargt sem ég ekki skil. Ég skil t.d. ekki fólk kaupir sér flug frá Íslandi og miða á tónleika Íslendinga í Kaupmannahöfn. Varla er málið að það hafi verið ómögulegt að sjá Stuðmenn, Sálina eða Bó á tónleikum á Íslandi. Væri ekki nær að nota tækifærið í Köben og sjá aðra listamenn sem koma aldrei eða sjaldan til Íslands?

Skil ekki


BTW: Gleiðilegt ár - já og gleðileg jól - þau eru enn