Sýnir færslur með efnisorðinu pólitík. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu pólitík. Sýna allar færslur

14. feb. 2013

Miðaldra karl

Undanfarið, sem endranær, hefur verið nokkuð harkaleg umræða (sum sé á íslenska netinu, þar má ekki skrifa niður staf án þess að vaða yfir náungann með skít og drullu) um miðaldra karlmenn (sjá mynd 1).

Mynd 1. Evrópu, sem öðrum heimsálfum, er mest megnis stjórnað af miðaldra karlmönnum. Tengt er í myndina hjá Evrópuvefnum, europe.eu


Um árhundruð hafa miðaldra karlmenn verið hið ráðandi afl samfélaga og þeir eru það enn, þó hlutfallið hafi kannski eitthvað lækkað. Ein og ein miðaldra kona er farin að detta inn í hóp ráðandi afla (á Íslandi hétu þær um tíma Vigdís Finnbogadóttir og Jóhanna Sigurðardóttir (sjá mynd 2).

Mynd 2 af fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Takið eftir Þorsteini Pálssyni fremstum hægra megin. Þá 44 ára gamall. Er hann þarna miðaldra karlmaður? Tengt í mynd af vef stjórnarráðsins.

Er það nema von að fólk sé orðið þreytt á miðaldra körlum og þeirra framlagi til heimsins? Það er enda orðið svo að orðasambandið miðaldra karl er nú stundum notað til háðs (einkum af femínistum, væntanlega) og orð manna jafnvel afskrifuð á grundvelli þess að þau koma frá miðaldra karli. Sum sé, þar sem þeir sem hafa stjórnað umræðunni, og öllu öðru, undanfarna .... tja, mannlega tilvist, hafa verið miðaldra karlmenn, er margt fólk farið að frá grænar bólur þegar það sér miðaldra karla ætla að skipta sér af einhverju.

Það er þá sem ungur karlmaður, sem farinn er að eldast, spyr sig: Hvenær verður maður miðaldra? Hvenær verð ég hluti af þessum leiðindahópi miðaldra karlmanna? Til að fá svör gerði ég það er unga fólkið gerir í dag; ég spurði Facebook.

Það stóð ekki á svörum og þau voru ýmiss konar. Sumir settu miðaldur í samband við skokk, aðrir sem miðgildi eigin ævi og nefndar voru tölur eins og 40, 45 og 48. Meir að segja var talað um að formaður framsóknarflokksins væri miðaldra karl (árinu eldri en ég). Það er nefnilega þannig að þótt flestir virðist vita hvað miðaldra karlmaður er, eru færri með á hreinu hvenær karl verður slíkur. Hvenær hefst þetta aldursskeið? Hve lengi stendur það? Við hvað miðast það?

Til að finna frekari svör gerði ég það sem svo margir gera. Ég gúglaði. Svörin létu á sér standa en ég fann út eitt og annað. T.d. fann ég skilgreiningu á Wikipedia:
Middle age is the period of age beyond young adulthood but before the onset of old age.
Sum sé tímabilið á milli ungra fullorðinsára og elli. Og Wikipedia heldur svo áfram og fjallar um að lengi vel hafi fólk deilt um hvenær þetta æviskeið stendur yfir en nefnir þó sérstaklega þriðja fjórðung meðalævi manns. Sum sé að miðaldur byrjar þegar meðalævin er hálfnuð og heldur áfram út þann fjórðung. Nú seisei, það ætti ekki að vera erfitt að reikna það út. Það er reyndar ekki alveg svo einfalt að finna tölur um meðalævilengd á Íslandi. En samkvæmt tölum hagstofu er meðalaldur íslenskra karla 36,5 ár. Meðal ævilíkur 37 ára karla er 81 ár. Notum það sem meðalævilengd  íslenskra karla. Þá er þriðji fjórðungur meðalævi karla, sum sé miðaldur, á milli fertugs og sextugs. Það er, samkvæmt Wikipedia.

Árið 2004 starfaði á Íslandi nefnd á vegum félagsmálaráðherra sem fjallaði um stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Nefndin setti fram skilgreiningu á miðaldra og eldra:
Nefndin setti sér viðmiðunaraldur 50–65 ára sem hún skilgreindi sem miðaldra og eldra
fólk. Skilgreining Evrópusambandsins á eldra fólki er frá 55 ára aldri en nefndin var
sammála um að 50 ára fólk á Íslandi er álitið miðaldra [...]   (bls. 6) 
Hér má því gera ráð fyrir að lægri talan eigi við miðaldra en hærri talan við eldri. En hvar liggja mörkin þar á milli? Það var ekki sagt, en ef við segjum við miðju þá er miðaldur skv. þessu 50-57,5 ára. Hér er líka gert ráð fyrir að fyrst verði maður miðaldra og svo eldri. Inngönguréttur í félaga eldri borgara er við sextugt. Svo kannski er rétt að gera ráð fyrir að miðaldur sé á milli fimmtugs og sextugs. Segjum það.

Hinn átjánda september í fyrra birtist greinarkorn á mbl.is um miðaldur. Þar er fjallað um könnun þar sem fram kemur að fólk telji sig verða miðaldra seinna en áður, eða um 55 ára aldur. Þá telji fólk sig ekki eldri borgara fyrr en um sjötugt. Reyndar á könnunin við Bretland, sem kannski á annars konar miðaldur en Ísland.

Samkvæmt einföldu gúgli er meðalaldur Evrópuleiðtoga (sjá mynd 1) 55 ár og aldursbilið er 39 ár (sá yngsti 42 ára og sá elsti 81). Er þarna komin skilgreining á miðaldri karla í Evrópu? Aldursbil leiðtoga ESB hverju sinni? Það væri kannsi ekki svo galið.

Hvert ætli aldursbilið sé á Alþingi Íslendinga? Skv. handbók alþingis 2009 var á kjördag 25 apríl 2009 elsti þingmaðurinn 67 ára og sá yngsti 27 ára. það er máski fullmikið að segja að 27 ára maður sé miðaldra. Ogþó? Kannski verður karl miðaldra þegar hann fer að seilast til valda. Það er því ekki aldur sem skilgreinir miðaldur heldur athafnir. Það skýrir því hversvegna Sigmundur Davíð, nærri jafnaldri minn er talinn miðaldra. En það er offlókið. Höldum okkur við aldursskilgreiningar. Ef við segjum t.d. að eldri helmingur þingmanna sé  miðaldra en hinn helmingurinn ungur, þá fáum við að miðaldur á Alþingi, hið minnsta, er 47-67 ára.

En ég er maður málamiðlana og meðaltals. Skoðum aðeins þau aldursbil sem þessi einfalda Google æfing mín og reiknikúnstir kölluðu fram:

40-60
42-81
50-60
55-67
47-67

Ef við tökum meðaltal lægri aldursins annars vegar og svo meðaltal hins hærri hinsvegar fáum við út eftirfarandi:

47-67 ára

Eru þetta ekki nokkuð sennilegar tölur. Þar sem ég nenni ekki að velta þessu lengur fyrir mér og í raun búinn að eyða furðu miklum tíma í þessi undarlegu skrif (ég er veikur heima) segi ég það bara.

Miðaldur karla á Íslandi er 47-67 ára.




27. okt. 2011

betrireykjavik.is

Fyrir nokkrum dögum var hleypt á netið nýrri og bættri útgáfu af Betri Reykjavík. Þetta er hugmyndavettvangur til að bæta borgina okkar og mun, ef staðið verður við stóru orðin, geta haft áhrif á ákvarðanatöku í borginni. Vefurinn snýst um að fólk kemur með hugmyndir og sem svo er hægt að ræða og gefa atkvæði sitt. Í lok hvers mánaðar verður fimm vinsælustu hugmyndum gefið pláss á viðkomandi vettvangi innan borgarkerfisins. Þannig geta notendur vefsins haft bein áhrif á dagsskrá nefnda og sviða. Þetta er frábært framtak.

Ég er sérlega áhugasamur um að gera Reykjavík að betri borg og hef talsvert beitt mér þarna inni og var um langan tíma tillaga mín um að fjölga sölustöðum strætómiða í fimmta sæti. Sem þýðir að hún yrði send til umfjöllunar, væntanlega í stjórn Strætó.

Mér sýnist hún vera að lúta í lægra haldi fyrir hugmynd um að strætó gangi fram yfir miðnætti alla daga, sem er svo sem ekki síðri hugmynd. En mikið væri nú gaman að sjá hugmyndina mann tekna til umfjöllunar.

Hér má sjá fimm efstu hugmyndirnar þessa stundina:

27. sep. 2011

Þriðjudagur: Næs

Össur Skarphéðinsson var svalur á fundi allsherjarráðs Sameinuðu þjóðanna í gær. Hann fjallaði um þróunaraðstoð og umhverfismál og framlag Íslendinga til þeirra málefna og hann lýsti því yfir að Íslensk stjórnvöld styddu stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna. Það var djörf (en að mínu mati sjálfsögð) yfirlýsing og gengur lengra en flestir kollegar hans í nágrannaríkjum okkar þora að gera. Með þessu stillir Össur okkur Íslendingum á þann stall sem ég vil sjá okkur vera á í augum ríkja heims, sem friðelskandi og umhverfisvæn þjóð sem beitir sér fyrir mannréttinum og gegn misrétti, óháð skoðunum ráðandi ríkja. Ég vona Össur og komandi ráðherrar muni halda okkur á þessum stalli að þessi tónn muni óma frá Íslendingum um komandi framtíð.

---

Annars var búslóðin okkar sótt í morgun svo nú er eiginlega allt klárt fyrir flutning frá Svíþjóð. Nokkur tilhlökkun að flytja, svona þannig séð. Þó í aðra röndina langi mann ekkert að yfirgefa Svíþjóð. En það er ekki á allt kosið.

15. sep. 2011

Búnsósulandið

Ég nenni ekki að gagnrýna íslenska fjölmiðla. Bendi þess í stað á stórgóða fjölmiðlarýni Marra á Smugunni. Nei, ég ætla þess í stað að fjalla um hina stórgóðu fjölmiðlun hér í Svíþjóð. Svíar eru meistarar í gerð sjónvarpsefnis og skarar þar sænska ríkissjónvarpið (SVT) framúr. Umræðuhefðin hér í Svíþjóð er nefnilega upplýst og gagnrýnin samræðuhefð, eins og ég hefi nefnt áður á þessum bloggi, þar sem hlutirnir eru ekki bara málaðir svart og hvítt heldur reynt að nálgast viðfangið frá mörgum hliðum.

Ég get, og mun, fjalla um nokkra þætti í sænska sjónvarpinu sem íslenskt fjölmiðlafólk getur tekið sér til fyrirmyndar en nú ætla ég að fjalla um einn þátt sem ég sá um daginn: Landet Brunsås, sem mætti kalla Brúnsósulandið á gamla góða. Þættirnir snerta kannski ekki íslenska þjóðarsál beint, enda fjalla þeir um sænska matarmenningu. En það er þó margt sameiginlegt með sænskri og íslenskri matarmenningu, t.d. gengdarlaus kjötneysla og áhersla á unnar matvörur. Í þættinum er kafað í matarmenningu landans, ráðist á mýtur og hlutirnir settir í samhengi. Þetta er þjóðfélagsgagnrýni sem kemur við kauninn á fólki því ráðist er á allt að heilaga stund á hverju heimili, kvöldmatartímann og persónulegar venjur.

Þessir þættir eru ágætis dæmi um ákveðið stef sem er áberandi í sænskum fjölmiðlum: Beitta samfélagsgagnrýni.
Svíar virðast óþreytandi við að benda það sem miður er og betur mætti fara. Þeir spyrja sig í sífellu: Er þetta rétt, er þessu best hagað svona, getum við gert betur, hvers vegna eru hlutirnir svona? Samt sem áður, og líklega þess vegna, búa Svíar í einu huggulegasta og öruggasta samfélagi veraldar. Það er ekki vegna þess að þeir séu svo óskaplega ánægðir með sjálfa sig og nota hvert tækifæri til að upphefja sig (slíkt er beinlínis bannað samkvæmt óformlegum venjum samfélagsins). Nei, þeir gagnrýna hátt og snjallt, og ekki með því að rífast um hlutina, nei, heldur ræða þá. Þetta mega Íslendingar temja sér og íslenskir fjölmiðlar ýta undir.

(En auðvitað eru Svíar óskaplega ánægðir með sig sjálfa í laumi.)

Hér er svo linkurinn á þættina. Veit svo sem ekki hvort hægt sé að horfa á þetta fyrir utan Svíþjóð.

Tack fyrir.

23. feb. 2011

Eina ósk

(#twitter) Eftir að ég flutti til Svíþjóðar pirraði það mig í fyrstu hversu allt þarf að ræðast hér. Það er aldrei hægt bara að kýla á eitthvað öðruvís en að ræða það í þaula fyrst. Íslendingurinn ég leit auðvitað á þetta sem ferlegan ókost. Óþarfa röfl sem gerði ekkert annað en að tefja málin. Stundum finnst manni að Svíar reyni að gera vandamál úr öllu. Allt þarf að skilgreina og öllu þarf að gefa nafn.

Öðruvísi mér áður brá. Ég sé nú kostina við þetta. Svíar ræða nefnilega kjarna málsins og nálgast hann frá sem flestum hliðum. Svarið þarf nefnilega ekki bara að vera já/nei, jú/víst, svart/hvítt. Það eru nokkrar hliðar á öllum málum og upplýst ákvörðun byggist á því að þær hafi allar verið skoðaðar. Auðvitað getur þetta gengið út í öfgar og málin rædd endalaust án þess að nokkur botn fáist í þau. En yfirleitt næst niðurstaða, einhver concensus. Eftir að hafa búið hér í Svíþjóð síðustu fjögur árin vildi ég óska að umræðuhefðin á Íslandi væri eitthvað í líkingu við þá hér en ekki bara hin svarhvíta jú/nei/víst/fífl-umræða.

Reyndar eru málefnin oft þaulrædd á Íslandi. En yfirleitt á nákvæmlega sama hátt, hvert sem málefnið er. Það er sama hvað er rætt, A, B, C eða D. Umræðan er alltaf E:

A. Eigum við að samþykkja eða hafna Icesave-samningum?
B. Hvers vegna eigum við/eigum við ekki að ganga í ESB?
C. Hvernig eigum við að leysa stjórnlagaþingsmálið?
D. Eigum við að virkja eða ekki?

E. Forsetinn er fífl, ríkisstjórnin er fífl, samfylkingin/sjálfstæðisflokkurinn/VG/framsókn er fífl, blaðamenn eru fífl og á mála hjá hagsmunaaðilum, það er engin alvöru blaðamennska til á íslandi, þú ert kommúnísti, þú ert femínisti, þú studdir útrásina, jú, nei, víst, fífl....

Þegar boðið er upp á rökræður um málefnin eru yfirleitt farin sama leiðin, t.d. í þáttum á borð við Kastljósið: Málefnið skal ræða og fenginn einn fulltrúi sem er sannfærður á móti og annar samfærður með. Þannig er umræða pólaríseruð og raun og veru ekki boðið upp á annað en: já/nei/jú/víst/fífl-umræðuna. Niðurstaðan sem áhorfendur fá er sú að það er hægt að vera með og á móti málinu, en yfirleitt hefur fólk ekki hugmynd um hvers vegna. Það er þessi MORFÍS-hugsunarháttur. Þú talar gegn málinu til að tala gegn því, ekki til að upplýsa um ókosti þess. Þetta sést svo kristaltært á Alþingi. Stór hluti þingmanna sjálfstæðisflokksins talar gegn ESB og Icesave-samningum þrátt fyrir að vera hlynntur þeim. Vinstri-Grænir tala með áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Icesave-samningum og Umsóknarferlinu fyrir ESB þrátt fyrir að vera gjörsamlega andvígir þeim. Samfylkingin talar gegn þjóðaratkvæðagreiðslum sem þeir hafa þrástagast á til þessa. Það er helst framsóknarflokkurinn er sem trúr sinni skoðun, hver sem hún reyndar er!

Það þarf að ræða málefnin sjálf, vega og meta, ræða ókostina og kostina. Auðvitað má maður vera með og á móti, en maður þarf að gera sér og öðrum grein fyrir hvers vegna. Og manni má snúast hugur. Annars er enginn tilgangur að ræða málin.
Þetta er svona það sem ég óska mér. Hvað er hægt að gera til að gera þá ósk að veruleika?

4. feb. 2011

Hráskinnaleikur?

(#twitter) Á undanförnum dögum hef ég heyrt marga segja eitthvað misgáfað um tónlistarmenntun og tónlistarlíf í landinu. Nokkrir aular voru eitthvað að skammast út í styrki til tónlistarmála og sögðu sem svo: Bíddu, er ekki tónlist að skila svo rosalegum tekjum? Hvers vegna þarf hún þá að vera á styrkjum?

Hálfvitar.

Annars hef ég verið að velta fyrir mér orðinu „hráskinnaleikur“.
Eftir því sem ég best veit er hráskinnaleikur upphaflega leikur þar sem nokkrir stilla sér í hring, umhverfis einn í miðjunni og kasta svo á milli sín bolta sem sá í miðjunni á að reyna að ná með einum eða öðrum hætti.

Hráskinnaleikur hefur oft verið notað sem líking um starfsaðferðir í stjórnmálum, enda ekki skrítið. Pólitískur hráskinnaleikur myndi þá væntanlega vísa til þess að einstaklingur eða flokkur reyni hvað sem er til að ná völdum eða áhrifum og beitir til þess ýmsum brögðum.


Hins vegar hefur mér heyrst fólk nota þetta hreinlega bara yfir allt sem stjórnmálamenn gera. Ef stjórnmálamaður gerir eitthvað er það bara kallað hráskinnaleikur. Það má vel vera að eitthvað sé til í því. Kannski er pólitíkin bara eintómur hráskinnaleikur. En svo má líka vera að fólk einfaldlega þekki ekki alveg merkingu orðsins.

Klækjabrögð, prettir, lygar og pólitískt ofbeldi, getur í mínum huga allt verið dæmi um hráskinnaleik í stjórnmálum.

Margir nota orðið hins vegar um hluti sem ég myndi frekar kalla þvaður, röfl, deilur um keisarans skegg, málþóf, leikræna tilburði, tímasóun, rifrildi o.s.frv.

31. maí 2010

Meirihluti?

(#twitter) Fyrir um tveimur árum var ég með þessar pælingar. Upp spunnust frekari vangaveltur í ummælum. Spurning hvort stemmingin hafi breyst núna.

Auðir seðlar

(#twitter) Væri ekki hægt að haga því þannig að auðir seðlar hefðu sama vægi og önnur atkvæði? Þannig væri auðir stólar í borgar- og bæjastjórnum í samræmi við hlutfall auðra seðla. Það þætti mér dáldið kúl.

26. maí 2010

Kosningar

(#twitter) Þetta fylgi Besta flokksins er magnað. Spurning hvort það haldi sér fram á kjördag. Gæti verið jafnvel að það fari vaxandi á næstu dögum. Hins vegar þykir mér ekkert ólíklegt að raunverulegt fylgi flokksins verði nokkuð minna í kosningunum. Að fólk sem segist ætla að kjósa Besta flokkinn í könnunum hætti við í kjörklefanum og annað hvort kjósi það sem það kaus síðast eða skili auðu. Að mörgum þyki nóg „refsing fyrir flokkakerfið“ að hóta að kjósa Besta flokkinn. (#twitter)

18. maí 2010

Besti flokkurinn

Leiðindaröflfærsla: Hef blendnar tilfinningar til þessa Besta flokks. Jújú, ágæt leið til að benda á skrípaleikinn sem pólítíkin er. En hversu langt á grínið að ná? Segjum að þau nái inn þessum sex frambjóðendum sem kannanir spá nú. Ætla þau þá að halda gríninu áfram og fá borgað fyrir það? Sinna öllum skyldum borgarfulltrúa í einhveru gríni? Varla, enda kom það fram í upphafi að þau ætli ekki að standa við nein af stefnumálunum. Ætli sé ekki frekar hætta á að grínið koðni niður og að þau átti sig á að starf borgarfulltrúa geti verið grautfúlt með fullt af ábyrgð og ákvörðunum sem þarf að taka sem snerta þúsundir manna en hvert á sinn hátt þannig að fólk er aldrei ánægt með neitt sem maður gerir. Ekki það að ég treysti ekki þessu fólki til ágætis verka, aðallega spurning á hvaða forsenum það er. (#twitter)

17. apr. 2010

Föstudagsgetraun 2

(#twitter) Þessi laugardagur er nú eiginlega bara framhald af föstudeginum í gær, því ég er enn fastur við vinnu gærdagsins. Þess vegna hljóma The Rolling Stones enn í græjunum. Og þess vegna er ráð að halda áfram með föstudagsgetraunina. Engin svör hafa borist. Siggi hefur eflaust verið upptekinn við annað.

1. vísbending: Myndin markar engin þáttaskil í kvikmyndagerð og er ekki hátt skrifuð í kvikmyndasögunni. Hún markar þó upphaf kvikmyndaferils tveggja þekktra Hollywood-leikara, karls og konu.

2. vísbending: Þáttur umræddrar leikkonu var ekki mikill í myndinni og henni skaut ekki upp á stjörnuhimininn fyrr en í næstu mynd sem hún lék í tveimur árum síðar.


Fór annars í búðina hér í morgun og á forsíðum allra dagblaðanna voru stríðsfyrirsagnir um öskuskýið yfir Evrópu. Ef marka má fyrirsagnirnar munum við flest deyja á næstu mánuðum.
Svo les maður um „tímabundnar afsagnir“ þingmanna. Aldrei er hægt að gera neitt almennilega á Íslandi. Tja, fyrir utan skýrslur. Við erum greinilega góð í því, því og eldgosum.

30. mar. 2010

Undarlegt lið

Það er undarlegt að heyra raddir úr stjórnarliðinu á Alþingi að fyrirhugðu fækkun og sameining ráðuneyta komi á óvart og séu ekkert á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Þetta er sagt nokkuð berum orðum í stjórnarsáttmálanum.

23. mar. 2010

Að banna A til að koma í veg fyrir B

Á Facebook rétt í þessu las ég ummæli við færslu um nýlegt bann við nektardansi á Íslandi. Þar segir einn ummælandi að honum finnist undarlegt að banna A til að koma í veg fyrir B. Þetta þykir mér undarlegt viðhorf.

Tilhvers er maður að banna einn hlut ef ekki til að koma í veg fyrir eitthvað annað? Ekki er maður að banna hlutinn bara til að banna hann (reyndar virðist það oft raunin á Íslandi, en það er líka asnalegt).

Ég er svo sem ekki mikið fyrir að stjórnvöld eigi að banna mikið. En margt er nauðsynlegt að banna, vegna þess að það hefur slæmar afleiðingar. Ekki það að nektardans á börum er svo asnalegt fyrirbæri að auðvitað á ekki að þurfa að banna hann. En fólk er fífl. Þess vegna þarf að banna.

Hins vegar er margt bannað sem er algjör della að banna. Afhverju má ég t.d. ekki kaupa mér Skjálfta í Nóatúni?

22. mar. 2010

Stjórnarandstaða

Ég held að orðið „stjórnarandstaða“ sé ákveðið vandamál í pólitík. Á Íslandi er minnihluti jafnan í stjórnarandstöðu. Þarf það að vera sjálfgefið að minnihluti sé jafnframt alltaf í stjórnarandstöðu?

15. okt. 2008

Ábyrgð hvers

Lýðurinn vill blóð. Það er skiljanlegt. Þannig er fólk.

Ég get ekki séð að það sé við einhvern einn að sakast. Bankaliðið, seðlabankinn, ríkisstjórnin, forsetinn, fjölmiðlar, Alþingi. Allir brugðust á einn hátt eða annan.

Fyrsta verk í endurreisninni hlýtur að vera að skipta um stjórn í seðlabankanum og skerpa á hæfniskröfum um starf seðlabankastjóra, og fækka þeim úr þrjá í einn. Það hefur eiginlega verið ljóst allt of lengi. Þar með er ég ekki að segja að það sé sérstaklega við Davíð Oddsson og félaga að sakast í þessum efnum (þó vissulega hafi mörg mistök komið úr þeirri áttinni) heldur líka því hvernig við höfum valið að skipa stjórnendur bankans og gert hann um leið að efirlaunasetri afdankaðra stjórnmálamanna sem er gjörsamlega ótrúverðugt sem einhverskonar hagstjórnartæki.

Hvort það sé mögulegt með Sjálfstæðisflokk í ríkisstjórn er hins vegar annað mál. Þess vegna er afar mikilvægt að þessi krafa komi skýrt fram hjá Samfylkingunni og raunar öðrum flokkum á alþingi. En furðu lítið hefur borið á þeirri kröfu hjá stjórnandstöðunni. Þögnin hjá Framsókn er kannski skiljanleg. Hún skipaði núverandi stjórn.

Koma svo á þingmannanefnd eða rannsóknarnefn þingsins þar sem farið verður í kjölinn á undangengnum hamförum. Þessa nefnd þarf að skipa núna. Ekki dugir að sitjandi viðskiptanefnd rannsaki mál sem gæti varðað hana sjálfa!

Svo mætti íhuga, þegar meiri stöðugleika hefur verið náð, að rjúfa þing og blása til kosninga. Þó að óvíst sé hvað sitjandi ríkisstjórn hefði geta gert er ljóst að hún ber höfðuábyrgð á stjórn landsins og það er eðlilegt að hún axli ábyrgð með því að víkja.

Þetta er svona það sem mér finnst.

9. okt. 2008

Breyttir tímar

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/10/09/faglegan_sedlabanka/

Ef framsóknarflokkurinn er farinn að álykta svona þá er óhætt að segja að nýir vindar séu farnir að blása í íslenskum stjórnmálum.

20. ágú. 2008

Varaforsetaefni?

Mér skilst að það megi vænta tíðinda í dag af kosningabaráttu Obama. Menn leiða líkum að því að hann tilkynni um varaforsetaefni jafnvel á næstu klukkustundum (Þegar fer að morgna á austurströnd Bandaríkjanna). Spennandi ef satt reynist.

Hvur skyldi verða fyrir valinu?

Evan Bayh?
Joseph Biden?
Kathleen Sebelius?

eða kannski

Hillary Clinton?

Nja varla...

19. ágú. 2008

Í fullum trúnaði

Það er vissulega spennandi að fletta í kjaftasögunum hans Matthíasar Johannessen.
En talandi um að bregðast trúnaði maður... ha!! Manninum er greinilega ekkert heilagt í þeim efnum. Eða gildir einhver fyrningarregla hjá honum?

Þau eru svo sem ekki mörg trúnaðarsamtölin sem ég hef átt, en þau eru nokkur. Ég ætti kannski að birta glefsur úr þeim á þessum síðum. Kannski ekki alveg eins mögnuð og trúnaðarsamtölin hans Matthíasar, fjalla mest um ástarþríhyrninga, fyllerísskandala og ungliðapólitík.

18. ágú. 2008

Starfhæfur meirihluti

Í kjölfar þessara pælinga sem laust niður í huga okkar feðga um svipað leyti:

Hvergi í sveitastjórnarlögum er talað um að virkur meirihluti þurfi að fara með stjórn borgarinnar. Það kemur heldur ekki fram í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar. Sú þörf, sem ég hef heyrt endurtekið talað um, að mynda starfhæfan meirihluta, virðist því alls engin skylda borgarfulltrúa heldur eingöngu hefð.

Það er eingöngu talað um að oddviti sveitastjórnar (forseti borgarstjórnar) þurfi að fá meiri hluta atkvæða í borgarstjórn. Hins vegar fái enginn einn meiri hluta atkvæða er kosið um þá tvo sem flest fengu atkvæðin. Fái hvorugur þeirra meiri hluta atkvæða nær sá kjöri sem flest hlýtur atkvæðin. Meirihlutinn er því óþarfur.

Sú leið að tveir eða fleiri flokkar komi sér saman um að myndar meirihluta er því aðeins til að tryggja að koma sínum fulltrúum í embætti og einhverjum sinna málefna á dagskrá. Vel má vera að þetta sé þægilegasta leiðin og tryggi ákveðinn stöðugleika innan borgarstjórnar. En eins og mál voru komin í borgarstjórn Reykjavíkur má spyrja sig hvort ekki hefði bara verið rétt að sleppa meirihlutamyndun og að hver borgarfulltrúi væri, eins og lög gera ráð fyrir, ekki bundinn neinu nema eigin sannfæringu. Auðvitað er eðlilegt að borgarfulltrúar starfi samkæmt stefnu þess flokks sem þeir eru fulltrúar fyrir enda líklegt að sannfæring einstaka borgarfulltrúa sé svipuð og stefna flokksins.

Það hefði verið spennandi að sjá hvernig slíkt fyrirkomulag hefði reynst og ábyggilega gengið betur ofan í borgarbúa sem langþreyttir eru á þessu pólitíska drullumalli sem hrært hefur verið saman undanfarna mánuðina.

En þessu liði er of umhugað um völd til að láta á það reyna að ná kjöri í embætti með óbundnum kosningum innan borgarstjórnar. Það er náttúrlega bara naív að láta sig dreyma um svona hluti.