Sýnir færslur með efnisorðinu nördaskapur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu nördaskapur. Sýna allar færslur

16. mar. 2013

Spårvagn

Ég er mikill áhugamaður um almenningssamgöngur (mikið svakalega er orðið almenningssamgöngur langt). Ég vil helst búa í borg þar sem eru sem flestar tegundir almenningsvagna; strætó, sporvagnar og lestir, ofan- sem neðanjarðar. Ekki spillir fyrir ef einnig eru ferjur eða fljótabátar. Hér í Gautaborg er allt framangreint nema neðanjarðarlestir. Það er slíkt kerfi í Stokkhólmi, Tunnelbanan. Ég var eitthvað, einu sinni, að velta því fyrir mér hvort það hefðu aldrei verið hugmyndir um neðanjarðarlest í Gautaborg. Spurði Gautaborgara sem svöruðu svo að það væri ekki hægt: allur leirinn skilurðu.

Svo var ég að vafra um internetið, eins og maður gerir stundum, og lenti á stórmerkilegum þætti í Sveriges Radio, sem fjallar um einmitt þetta, hversvegna enginn neðanjarðarlest væri hér. Fyrir ykkur sem lesið þetta blogg, skiljið sænsku og hafið áhuga á almenningssamgöngum (les. Sigurður) lími ég hér tengil á þáttinn.

Er vagnstjórinn að bora í nefið?


9. okt. 2012

Hjólandi í umferðinni

Ég boðaði umfjöllun um hegðun hjólreiðafólks í umferðinni.

Eins og lesendur hafa tekið eftir, hef ég nokkuð kvartað yfir slöku aðgengi fyrir hjólandi og bent á leiðir sem bæta mætti til að liðka fyrir reiðhjólaumferð. Það er víða beinlínis hættulegt að vera á hjóli í umferðinni.

En það er ekki bara slæmt aðgengi sem skapar hættur fyri hjólreiðafólk. Oft er það hegðun þess sjálfs sem skapar mestu hættuna. Því miður virðist sem að margt hjólreiðafólkið, annað hvort kann ekki að hjóla, eða virðist einfaldlega ekki þekkja þær (fáu) reglur sem gilda um hjólandi í umferðinni.

Þeim er kannski vorkunn. Umferðarreglurnar eru ekki beinlínis skýrar hvað þetta varðar og eiginlega alveg úr takti við raunveruleikann. T.d. eiga hjólandi að hjóla á götunni en þeira mega líka hjóla á gangstéttinni. Þá ber þeim að hjóla hægra megin og í sömu átt og bílaumferð, en það er þó ekki alltaf skylda.

Það er of algengt að fólk hjóli á gangstétt. Það er mjög víða að pláss á götum er alveg nóg þar sem fólk streitist samt við að hjóla á gangstéttinni. Þá nota fæstir bjöllu til að láta vita þeir að geysast framhjá á hjóli. Það er stórhættuleg hegðun.

Á vefnum hjólreiðar.is er að finna mikið magn gagnlegra upplýsinga um hjólreiðar. Þar má m.a. finna langa og ítarlega grein um rétta hegðun hjólandi í umferðinni. Það er því óþarfi að ég fjalli í löngu máli um það hér heldur vísa ég umrædda grein.

Þá vísa ég í 39. og 40 grein umferðarlaga þar sem fram koma sérreglur um reiðhjól.

Í lokin læt ég mér nægja að nefna nokkur atriði sem ekki virðist vanþörf á að minna á, miðað við það sem ég hef séð af samferðafólki mínu í umferðinni:

1. Hjólaðu á götunni og haltu þig eins langt til hægri og þú getur. Ef umferð bíla er of hröð eða þung máttu hjóla á gangstéttinni, en þá verðurðu að taka tillit til gangandi vegfarenda, sem hafa forgang. Þú átt að víkja fyrir þeim, ekki öfugt!
2. Notaðu ljós, að framan og aftan.
3. Notaðu bjöllu. Það er ekki dónaskapur heldur sjálfsögð kurteisi.
4. Gefðu merki þegar þú beygir, með því að rétta út arminn í þá átt sem þú ætlar.
5. Á sumum gangstéttum má ekki hjóla og þá er það merkt sérstaklega. T.d. má ekki hjóla á gagnstéttinni við Laugaveg og Bankastræti, milli Hlemms og Læjargötu, hvorki upp né niður.

Annars vísa ég aftur í greinina á hjólreiðar.is

Góðar stundir

7. okt. 2012

Feðgar á ferð II

Við feðgar fórum á labb eins og oft áður og ég vopnaður myndavélinni. Í þetta sinn lá leiðin vestureftir, úr Síðumúla og niður í bæ. Leiðin var reyndar í flesta staði hin ágætasta til göngu. Breiðir og góðir stígar á milli húsa og yfir tún. Aðgengi fyrir kerruna yfirleitt gott, engir götukantar að þvælast fyrir okkur eða ljósastaurar á miðri gangstétt.

Þó voru nokkrir punktar sem vert er að minnast á:

Gatnamót Miklubrautar og Lönguhlíðar

Þessi gatnamót eru galin! Það er svo sem altalað. Þarna er troðið fimm akreinum á milli húsanna og svo gangstétt nánast oní götunni. Með aukinni hjólamenningu er svo orðin töluverð hjólaumferð þarna, sér í lagi meðfram Miklubrautinni. Þarna er hins vegar engin merkt hjólaleið (hún er hins vegar á Lönguhlíðinni, efni í annan pistil), svo tæknilega ætti hjólreiðafólk að hjóla á götunni. En það gerir nú enginn heilvita maður, enda lífshættulegt. Svo allir hjóla á gangstéttinni. Sú umferð fer nær öll norðanmegin, þó að mun meira pláss sé sunnanmegin. En þar er enginn almennilegur hjólastígur, heldur bílastæði og háir götukantar. Kannski helgast þetta líka af því að þessi umferð hjólandi kemur vestanúr eftir Gömlu Hringbraut, þar sem henni er beint undir Snorrabraut og meðfram Klambratúni (hugmyndin var held ég að beina henni undir Bústaðaveginn og suðurmeð Miklubraut, en þá þarf að taka á sig hressilegan krók, sem fæstir gera).

Jæja, þá er ég búinn að útskýra og afsaka umferð hjólandi þarna. Þá get ég birt hina myndina:

Þetta er sum sé tekið í vestur á gagnamótum Miklubrautar og Lönguhlíðar. Hér hef ég hjólað sjálfur, bæði til austurs og vesturs. Um daginn var ég að hjóla úr vinnunni og mætti einmitt öðrum hjólandi, akkúrat þar sem þessi á myndinni er. Þar lá við slysi. Hvorugur okkar var á miklli ferð, engu að síður þurftum við að sveigja hart hvor hjá öðrum til að rekast ekki á og þá munaði litlu að hinn aðilinn stýrði beint út á götu.

Það blasir auðvitað við að þetta horn hentar enganveginn til hjólreiða. Þrátt fyrir það er umferð hjólandi hér heilmikil allan daginn, eins og ég útskýri hér að ofan. Þetta verður að laga. Auðvitað ætti bílaumferðin að fara niður í stokk hér, sem ég held reyndar að sé áætlað. En það er langt þart til slíkar framkvæmdir hefjast og áður en það er gert þarf að laga þetta horn. Þetta er ekki bara hættulegt vegna hjólandi umferðar. Gangandi vegfarendur eru hér í hættu.

Best væri auðvitað að almennileg hjólabraut yrði útbúin, helst sunnanmegin við Miklubrautina. En í millitíðinni ætti a.m.k. að koma einhverju grindverki fyrir til að verja gangandi vegfarendur, og svo einhverri hraðahindrun til að hægja á umferð hjólandi. Þetta þarf ekki að að vera flókið eða kosta mikið.

Rauðarárstígur - Miklabrauð

Þegar áfram er haldið í vestur kemur maður fljótlega að horni Rauðarárstígs og Miklubrautar. Þar er ekki mikið pláss heldur en þar er þó smá grindverk eða múr sem aðskilur betur gangandi og akandi. En hér er sömuleiðis hætta á ferðum sökum blandaðrar umferðar hjólandi og gangandi. Hér er aðgerða þörf. Aftur væri besta lausnin að almennileg hjólaleið væri sunnanmegin og hér væri aðeins umferð gangandi. Þá þyrfti ekki að gera mikið hér til að bæta aðgengi.



Að öllu þessu sögðu er kannski rétt að fjalla um hegðun hjólreiðafólks í umferðinni og þær reglur sem um það gilda. Efni í næsta pistil!


25. sep. 2012

Af klaufalegu skipulagi

Hún fékk heldur betur ágætis athygli, bloggfærslan mín um Amtmannsstíginn. Ég tvíeflist við þetta og held bara áfram að benda á það sem betur mætti fara í borginni. Það eru þessi litlu atriði, sem skipta máli í stóra samhenginu. Áður en ég bendi á næsta atriði má ég til með að nefna að það er margt spennandi á döfinni í skipulagsmálum borgarinnar og spennandi verkefni sem eru þegar í gangi. Þar má nefna hjólabrautina miklu sem leggja á frá Hlemmi og austur að Elliðaárósum. Ég gekk yfir hluta framkvæmdasvæðisins í Laugardalnum í dag og tók mynd:

Hér má sjá hvernig hjólastígurinn verður breikkaður þannig að umferð gangandi og hjólandi verður betur aðskilin. Það er mikilvægt öryggisatriði, eigi hjólið að verða að alvöru samgöngutæki, því hröð umferð hjólandi og hæg umferð gangandi fer enganveginn saman. Bravó fyrir þessu og ég hlakka til að nýta mér þessa leið þegar hún verður fullkláruð. Þetta er einmitt önnur af þeim leiðum sem ég get valið til og frá vinnu.
Hin leiðin er meðfram Hringbraut og Miklubraut, en þá leið þarf að stórbæta til að bæta öryggi.

Þessi mynd er tekin á Gömlu Hringbraut, við strætóstoppistöðina BSÍ. Hér birtast nokkur dæmi um það sem laga þarf víða á hjólabrautum borgarinnar, og sem einmitt er verið að taka í gegn á áðurnefndri leið frá Hlemmi og austureftir. 
Hér sést dæmi um það þegar göngustígur og hjólabraut fara saman án nokkurrar aðgreiningar. Það er, sem fyrr segir, óæskilegt og af því stafar slysahætta. En það er ekki nóg með það. Eins og sést er ljósastaur á miðri brautinni! Það er ekki aðeins afar undarlegt, heldur stórhættulegt. Reyndar er í þessu tilfelli strætóstoppistöð þarna við hliðina með óvenjustórum „brautarpalli“
og geta því hjóland
i og gangandi sneitt framhjá staurnum án stórkostlegra vandræða. En þar komum við að enn einu atriðinu, sem þarf að laga mjög víða í borginni: Brautin liggur í gegnum strætóstoppistöð. Það eitt er frekar óheppilegt, því til að stíga út úr skýlinu og inn í strætó þurfa farþegar fyrst að fara yfir hjólabrautina. Þar er slysahætta. (Þetta veit ég að er eitt af þeim atriðum sem lagað verður á áðurnefndri braut frá Hlemmi.) Þetta tilfelli við stoppistöðina BSÍ er því marföld slysagildra. Hér fara saman hjólabraut og göngustígur (einn mínus) sem liggja í gegnum strætóstoppistöð (annar mínus) með ljósastaur á miðri brautinni (þriðji mínusinn). Á pappírum kann þetta að hljóma hagkvæmt. Að nýta malbik, steypu, lýsingu og pláss eins og kostur er. En í framkvæmd er þetta galið. Flytja þarf brautina afturfyrir skýlið og sveigja framhjá staurnum, án þess að sú sveigja verði of kröpp og svo aðskilja betur umferð gangandi og hjólandi.

Laga, takk!

Bætt við kl 22:58
Eftir að hafa skoðað umræddan stíg betur komst ég að því að það er nú ekki alveg á tæru hvort hann sé skilgreindur sem hjólabraut eða ekki. Það eru a.m.k. ekki nein skilti sem gefa það til kynna. Hins vegar er leiðin sjálf, þ.e. Gamla Hringbraut, skilgreind sem hjólaleið skv. korti um hjólaleiðir í Reykjavík. Þar er hins vegar ekki alveg ljóst hvort það sé gatan sjálf eða stígurinn sem eru ætluðu ndir hjólreiðar. Umferðarlögin eru ekkert sérlega skýr hvað þetta varðar. Hjólreiðafólk á að hjóla hægramegin á götu en má hjóla á gangstétt eða gangstíg, fylgi því ekki hætta fyrir gangandi vegfarendur. Ég get ekki fundið neitt þar sem fjallar um merktar hjólabrautir. Ákvæði um hjólreiðar í umferðarlögum er reyndar efni í annan pistil. Svo virðist sem fæst hjólreiðafólk þekki umferðarreglunar hvað þetta varðar. Það fer a.m.k. ekki eftir þeim.


Amtmannsstígur

Göturnar í miðbænum eru margar hverjar gamlar og rótgrónar. Þær eru oft þröngar sem helgast af því að fólk þurfti jafnan minna pláss í gamladaga en það þarf í dag. Göturnar í Þingholtinu eru t.d. þannig. Þær voru ekki troðnar fyrir bíla í upphafi, heldur bara gangandi fólk og hesta, jafnvel annan búfénað. Það er því undarlegt að sjá hvernig þessar götur hafa með tíð og tíma þurft að laga sig að bílaumferð. Nú er málum háttað þannig og hefur reyndar verið um nokkurt skeið, að skipulag þessara gatna virðist algjörlega miðað að bílum. Eina götu geng ég oft í viku. Hinn gamla Amtmannsstíg. Götu sem er svo gömul, að heitið á henni vísar til stöðuheitis sem er ekki lengur til og fæstir vita í raun hvað stendur fyrir. En það er önnur saga. Amtmannstígur er ein af þessum fallegu götum sem hefur þurft að laga mynd sína að þörfum bílsins. Það hefur haft nokkur áhrif á aðgengi fótgangandi í götunni. Ég tók nokkrar myndir af göngu minni með son minn þar í dag. Sjón er sögu ríkari:

Hér er gengið framhjá Bernhöftstorfunni og litið upp í Þingholtið. MR er á hægri hönd. Húshornið næst á myndinni er það sem hýsir veitingastaðinn Humarhúsið. Gangstéttin fram að þessu er fín og hæfilega breið svo að t.a.m. tveir barnavagnar geta mæst. En svo vandast málið. Húsið skagar fram í gangstéttina svo eftir verður ein og hálf hellubreidd og svo kantsteinninn.


Ojæja, höldum göngunni áfram:
Hér hef ég rétt gengið yfir Skólastræti á leið minni upp holtið. Hér fær gatan enn að éta upp gangstéttarplássið. Tröppur að húsadyrum þrengja svo að gangandi umferð nær húsunum og þegar ofar dregur er búið að koma fyrir járngrindum, sem væntanlega eiga að verja gangandi vegfarendur og hús fyrir bílaumferðinni, en gera það að verkum að ekki er hægt að koma t.d. barnavagni með góðu móti eftir gangstéttinni:











Hér erum við feðgar bara komnir í heilmikil vandræði. Hér er ekkert pláss fyrir barnavagninn. Hvernig myndi t.d. blindum eða fólki í hjólastólum ganga að komast leiðar sinnar hér? Slíkir vegfarendur eiga kannski bara að vera annars staðar.
Hér kaus ég að flytja mig yfir götuna og á gangstéttina hinum megin þar sem plássið var ögn meira. En svo var ekki lengi:


Fljótlega kem ég að horni Amtmannsstígs og Þingholtsstrætis og þar virðist einfaldlega ekki ætlast til þess að fólk sé á gangi yfir höfuð. Gangstéttin hreinlega hverfur undir malbik bílanna. Hér neyðist ég að ganga með barnavagninn á götunni og ekki dugir að flytja mig yfir götuna því plássið er varla meira þeim megin þegar ofar er komið.

Nú spyr ég. Þarf gatan að vera svona? Þarf gatan að vera tvístefnugata? Er þörf á öllu þessu plássi fyrir bílaumferðina? Hún er varla mikil eða svo hröð að ekki megi þrengja að henni. Hámarkshraði í götunni er 30 km/klst. Þarf yfir höfuð að aðskilja umferð gangandi og akandi með svona skýrum hætti? Mætti ekki gera Amtmannsstíg að vistgötu þar sem öllum samgöngumátum væri jafnhátt undir höfði gert? Maður gæti svo sem gengið bara á götunni þarna, en þá er maður eiginlega samt bara fyrir. Bílstjórar eru þarna ekki beinlínis hvattir til að taka tillit til gangandi. Gatan er skilgreind sem umferðargata þar sem gangandi vegfarendur eiga að halda sig á gangstéttinni, þó það fari nú lítið fyrir henni.

Mætti ekki breyta þessu? Fara t.d. þá leið sem farin var í Grjótaþorpinu. Þar má keyra bíla um þröngar götur, án þessa að það sé á kostnað umferðar gangandi. Eiginlega bara mjög vel heppnað:

Úr Gjótaþorpi, vísað er í myndina á vefnum Virtual Tourist.






Þess má geta að ég færði inn tillögu á vefinn betrireykjavik.is um að gera Amtmannsstíg að vistgötu. Áhugasamir mega veita henni atkvæði sitt.

15. sep. 2011

Búnsósulandið

Ég nenni ekki að gagnrýna íslenska fjölmiðla. Bendi þess í stað á stórgóða fjölmiðlarýni Marra á Smugunni. Nei, ég ætla þess í stað að fjalla um hina stórgóðu fjölmiðlun hér í Svíþjóð. Svíar eru meistarar í gerð sjónvarpsefnis og skarar þar sænska ríkissjónvarpið (SVT) framúr. Umræðuhefðin hér í Svíþjóð er nefnilega upplýst og gagnrýnin samræðuhefð, eins og ég hefi nefnt áður á þessum bloggi, þar sem hlutirnir eru ekki bara málaðir svart og hvítt heldur reynt að nálgast viðfangið frá mörgum hliðum.

Ég get, og mun, fjalla um nokkra þætti í sænska sjónvarpinu sem íslenskt fjölmiðlafólk getur tekið sér til fyrirmyndar en nú ætla ég að fjalla um einn þátt sem ég sá um daginn: Landet Brunsås, sem mætti kalla Brúnsósulandið á gamla góða. Þættirnir snerta kannski ekki íslenska þjóðarsál beint, enda fjalla þeir um sænska matarmenningu. En það er þó margt sameiginlegt með sænskri og íslenskri matarmenningu, t.d. gengdarlaus kjötneysla og áhersla á unnar matvörur. Í þættinum er kafað í matarmenningu landans, ráðist á mýtur og hlutirnir settir í samhengi. Þetta er þjóðfélagsgagnrýni sem kemur við kauninn á fólki því ráðist er á allt að heilaga stund á hverju heimili, kvöldmatartímann og persónulegar venjur.

Þessir þættir eru ágætis dæmi um ákveðið stef sem er áberandi í sænskum fjölmiðlum: Beitta samfélagsgagnrýni.
Svíar virðast óþreytandi við að benda það sem miður er og betur mætti fara. Þeir spyrja sig í sífellu: Er þetta rétt, er þessu best hagað svona, getum við gert betur, hvers vegna eru hlutirnir svona? Samt sem áður, og líklega þess vegna, búa Svíar í einu huggulegasta og öruggasta samfélagi veraldar. Það er ekki vegna þess að þeir séu svo óskaplega ánægðir með sjálfa sig og nota hvert tækifæri til að upphefja sig (slíkt er beinlínis bannað samkvæmt óformlegum venjum samfélagsins). Nei, þeir gagnrýna hátt og snjallt, og ekki með því að rífast um hlutina, nei, heldur ræða þá. Þetta mega Íslendingar temja sér og íslenskir fjölmiðlar ýta undir.

(En auðvitað eru Svíar óskaplega ánægðir með sig sjálfa í laumi.)

Hér er svo linkurinn á þættina. Veit svo sem ekki hvort hægt sé að horfa á þetta fyrir utan Svíþjóð.

Tack fyrir.

16. feb. 2011

Af Google

(#twitter) Mér finnst Google alveg ágætt. Ég er mestmegnis gúglaður.

Í nokkurn tíma hefi ég vitað hvernig leita skal eftir síðum undir tilteknu landsléni, nú eða finna út hvað eitt gallon eru margir lítrar, eða reikna út flókin dæmi eða finna skilgreiningar á hinu og þessu eða fletta upp sýningartímum í bíó.

Nýlega uppgötvaði ég nokkrar leitaraðgerðir á Google:

T.d. að tékka á stöðunni á tilteknu flugi, sjá hvenær sólin kemur upp á einhverjum stað eða hvað klukkan er í fjarlægri borg.

Allt þetta með einni leit og niðurstaðan birtist efst án þess að maður þurfi að smella sig neitt áfram.

Svona finnst mér skemmtilegt.

4. feb. 2011

Hráskinnaleikur?

(#twitter) Á undanförnum dögum hef ég heyrt marga segja eitthvað misgáfað um tónlistarmenntun og tónlistarlíf í landinu. Nokkrir aular voru eitthvað að skammast út í styrki til tónlistarmála og sögðu sem svo: Bíddu, er ekki tónlist að skila svo rosalegum tekjum? Hvers vegna þarf hún þá að vera á styrkjum?

Hálfvitar.

Annars hef ég verið að velta fyrir mér orðinu „hráskinnaleikur“.
Eftir því sem ég best veit er hráskinnaleikur upphaflega leikur þar sem nokkrir stilla sér í hring, umhverfis einn í miðjunni og kasta svo á milli sín bolta sem sá í miðjunni á að reyna að ná með einum eða öðrum hætti.

Hráskinnaleikur hefur oft verið notað sem líking um starfsaðferðir í stjórnmálum, enda ekki skrítið. Pólitískur hráskinnaleikur myndi þá væntanlega vísa til þess að einstaklingur eða flokkur reyni hvað sem er til að ná völdum eða áhrifum og beitir til þess ýmsum brögðum.


Hins vegar hefur mér heyrst fólk nota þetta hreinlega bara yfir allt sem stjórnmálamenn gera. Ef stjórnmálamaður gerir eitthvað er það bara kallað hráskinnaleikur. Það má vel vera að eitthvað sé til í því. Kannski er pólitíkin bara eintómur hráskinnaleikur. En svo má líka vera að fólk einfaldlega þekki ekki alveg merkingu orðsins.

Klækjabrögð, prettir, lygar og pólitískt ofbeldi, getur í mínum huga allt verið dæmi um hráskinnaleik í stjórnmálum.

Margir nota orðið hins vegar um hluti sem ég myndi frekar kalla þvaður, röfl, deilur um keisarans skegg, málþóf, leikræna tilburði, tímasóun, rifrildi o.s.frv.

18. maí 2010

Dýrafjörður

Ég heyrði Sölva Tryggvason taka sér í munn máltækið „Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar“ um daginn. Hann fór rétt með upprunann þegar hann vísar í sögu Gísla Súrssonar. Hins vegar fór hann rangt með máltækið sjálft. Hann notaði það í sömu merkingunni og að öll spjót bærust nú að Lúxemborg. Að öll vötn falli til Dýrafjarðar vísar til þess að ekki verði aftur snúið.

Í þessu samhengi má líka nefna að enska máltækið „All roads lead to Rome“ merkir allt annað en hið svipaða íslenska. Þar er átt við að margar leiðir séu að sama markmiðinu.

(#twitter)

23. mar. 2010

Sænsk orð I

Ýmis sænsk orð eru fyndin. Ötli ég noti ekki blogginn þennan til að varpa ljósi á þau nokkur. Hið fyrsta fyrir valinu er:

knivhuggen

Sum sé lýsingarháttur þátíðar af sögninni knivhugga sem í beinni þýðingu á íslensku væri hnífhöggva.

Þetta þykir mér frábært orð. Það kemur býsna oft fyrir í fréttum hér. Menn eru hnífhöggnir hér hverja helgi að því er virðist. Menn eru líka stundum hnífstungnir (knivstucken), en þó yfirleitt hnífhöggnir. Hver munurinn er nákvæmlega á að vera hnífhöggvinn og hnífstunginn veit ég ekki. Jóhanna telur að það fari eftir beittu afli. Ég tel að það fari eftir hvernig haldið er á hnífnum, þ.e. hvort hnífsblaðið standi utan- eða innanhandar.

18. mar. 2010

Skráargatið


Ég var að hlusta á Samfélagið í nærmynd í gær (þökk sé IE-flipanum). Þessi þáttur er frábær að því leyti að þar er stöðugt verið að benda á góða hluti og hvað mætti betur fara í íslensku samfélagi. Þáttastjórnendur virðast hafa svipaðan áhuga og ég á endurvinnslumálum, skipulagsmálum, hollustumálum o.þ.h. Um daginn var t.d. verið að ræða um tækifæri í íslenskum landbúnaði sem felast í að selja beint frá býli og leggja áherslu á verslun í heimabyggð. Meira um það seinna. Í gær var hins vegar verið að ræða um skráargatið, í kjölfar umfjöllunar í neytendablaðinu. Merkið þekki ég vel, enda upprunnið í Svíþjóð, og ég kíki iðulega eftir því þegar ég versla matvöru.
Í umfjöllun neytendablaðsins kemur fram að búið sé að taka merkið upp í Noregi og Danmörku auk Svíþjóðar. Íslensk stjórnvöld hafi verið hvött til að vera með en af því hafi ekki orðið. Í máli talsmans neytendasamtakanna í Samfélaginu í gær kom fram að það væri aðallega vegna þess að íslenskir framleiðendur væru á móti því. Þetta þótti mér allrar athygli vert og finnst ástæða til að kanna betur. Hvers vegna vilja íslenskir framleiðendur ekki merkja vörurnar sínar með sérstöku hollustumerki? Er það vegna þess að íslensk matvæli eru upp til hópa óholl? Erum við ekki alltaf að grobba okkur af því hvað íslenskur matur sé góður og að matvæli frá öðrum löndum séu beinlínis hættuleg? Hvað er málið?

17. mar. 2010

Sigurðarmál

M.ö.o. veðurblogg!

Tryggir og minnugir lesendur þessa bloggs ættu að kannast við hina árlegu vorumfjöllun mína. Undanfarin ár hef ég, að mestu ómeðvitað þar til í fyrra, skráð samviskusamlega vorkomu hvar ég bý hverju sinni. Hún hefur yfirleitt verið um þetta leyti. Í miðjum mars. Hér í Gautaborg í hið minnsta.
Nú er miður mars og gott betur en ekki er hægt að segja að það bóli mikið á vorkomu. Snjóskaflar sjást utan við gluggann minn, himininn er vetrargrár og hitinn rétt ullast uppyfir núll eða lafir í fimmunni yfir hádaginn. Ekki er hægt að sjá að veðurkortin boði nokkuð gott í þessum efnum á næstunni.
Við, heimilisfólkið á Godhemsplatsen 2B, íbúð 40, erum fyrir löngu orðin þreytt á þessum vetri. Jafnvel ég sem þó slapp í vorloftið á Íslandi um stund. Langþráð er vorið.

16. mar. 2010

IE í Chrome

Ég nota Google Chrome. FireFox hætti að virka hjá mér af einhverjum óútskýranlegum ástæðum. Ég hatast við InternetExplorer. Hins vegar eru nokkrir aular sem sníða vefina sína enn eingöngu að IE. T.d. Rúv, sem ég fer oft inn á. Það er ekki hægt að spila útvarpið eða sjónvarpið með Chrome. Í kjölfarið hætti ég eiginlega að horfa eða hlusta á Rúv. Síðan fann ég þetta. Viðbót við Chrome sem gerir manni kleift að opna IE inni í flipa án þess að þurfa að yfirgefa Chrome. Það er meir að segja hægt að kenna skepnunni að opna Rúv í þannig flipa. Þá þarf ég bara að slá ruv.is inn í Chrome og babbarei: Ég get hlustað á rúv án nokkurra vandræða.

Þetta er gott. En vefstjórinn hjá Rúv ætti nú samt að gera vefinn Chrome-hæfan

12. mar. 2010

Endurlífgun bloggsins (einu sinni enn)

Kæru lesendur (sem sagt Siggi og Berglind)


Enn einu sinni held ég á vit endurlífgunartilrauna bloggsins. Þeir sem fylgst hafa með þessum bloggi (já, beygist eins og lókur) vita að slík umsvif eru ekki endilega merki um tíðari færslur eða vitsmunalegri umræðu hér. Mestmegnis bara fikt og dund af minni hálfu við að skoða nýjar víddir netsins.

En sjáum til.

Annars tók ég upp á því í gærkvöldi að búa mér til sinnep. Það er bæði einfalt og flókið. Sérlega einföld uppskrift en sérlega flókið að ná hlutföllunum rétt. Enn flóknara verður dæmið þar sem sinnep er þess eðlis að það er eiginlega ekki hægt að smakka sig áfram. Eftir þriðja smakk er maður eiginlega búinn að missa allt bragðskyn. Fyrir nú utan að sinnep nær ekki rétta bragðinu fyrr en töluvert eftir blöndun, það þarf að fá að setjast aðeins og jafna sig.

En svona er uppskriftin mín nokkurnvegin:

Sinnepsduft (enskt)
Kalt vatn (sænskt)
Eplaedik (sænskt)
Viskí (japanskt, sjá fyrri færslu)
Salt (franskt)
Basillika (uppruni óþekktur)
Chili pipar (þýskur)
Hunang (danskt)

Hlutföllin eru meira eða minna einn hluti vökva á móti tveimur af dufti. Svo er bara að passa að hafa ekki of mikið af ediki og viskíi á kostnað vatns og að edikið og viskíið vegi ekki út hvort annað. Hunang svo bara eftir því hversu sætt sinnepið á að vera. Eiginlega ætti að vera smá hvítvín í þessu líka, en ég átti ekkert hvítvín í gærkvöldi útaf helvítis sýstembólaginu.

10. mar. 2010

Nördafærsla: Yamazaki


Eftir að hafa verið eiginlega fastur í Islay viskíi frá byrjun, með smá Speyside útúrdúrum af og til hafði ég mig loks í að kaupa eitthvað nýtt og skemmtilegt. Fjárfesti í einni japanskri um daginn: Yamazaki. Það var kannski einkum verðflokkurinn sem leiddi mig út í þau ævintýri. Sum sé frekar í ódýrari kantinum. Settist niður til að smakka í gærkvöldi:


Nös: Einkennandi viðarkeimur og síðan hunang og sítrus sem slæðist inn eftir því sem nefið mýkist. Jafnvel örlítil vanilla og kanill þarna einhversstaðar.

Palata: Viðarstemmingin ennþá ráðandi. Sítrusinn fylgir á eftir eins og áður. Ekki laust við smá seltu í lokin. Töluvert bit í því, enda bara 10 ára gemlingur.

Eftirbragð: Kemur skemmtilega á óvart eftir frekar mikla hógværð í nös og palötu. Ekkert sérlega ríkt, en milt, olíukennt með hunangskeim. Kallar strax á meira.

25. apr. 2007

Daglegt mál

Að hlaupa upp til handa og fóta

Samkvæmt íslenzku orðtakasafni Halldórs Halldórssonar ku eiginleg merking þessa orðtaks vera að bregðast á skjótan hátt við einhverjum til greiða. Það er enda sú notkun sem mér er töm. Þannig mætti segja: „Ég dæsti nú bara svona og hvíslaði með sjálfum mér hvað ég væri kaffiþyrstur og þá var nú hlaupið upp til handa og fóta og lagað kaffi, sett í pönnukökur og postulínið tekið fram!“

Ef orðtakinu er gúgglað má sjá að margir nota það í merkingunni, að gera úlfalda úr mýflugu, að fjargviðrast yfir e-u, að býsnast yfir e-u, að gera verður um e-ð út af e-u, að gera rekistefnu vegna e-s, gera mikið úr e-u, æsa sig (af óþarfa) yfir e-u o.s.frv.