Sýnir færslur með efnisorðinu borgarstjórn. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu borgarstjórn. Sýna allar færslur

25. sep. 2012

Af klaufalegu skipulagi

Hún fékk heldur betur ágætis athygli, bloggfærslan mín um Amtmannsstíginn. Ég tvíeflist við þetta og held bara áfram að benda á það sem betur mætti fara í borginni. Það eru þessi litlu atriði, sem skipta máli í stóra samhenginu. Áður en ég bendi á næsta atriði má ég til með að nefna að það er margt spennandi á döfinni í skipulagsmálum borgarinnar og spennandi verkefni sem eru þegar í gangi. Þar má nefna hjólabrautina miklu sem leggja á frá Hlemmi og austur að Elliðaárósum. Ég gekk yfir hluta framkvæmdasvæðisins í Laugardalnum í dag og tók mynd:

Hér má sjá hvernig hjólastígurinn verður breikkaður þannig að umferð gangandi og hjólandi verður betur aðskilin. Það er mikilvægt öryggisatriði, eigi hjólið að verða að alvöru samgöngutæki, því hröð umferð hjólandi og hæg umferð gangandi fer enganveginn saman. Bravó fyrir þessu og ég hlakka til að nýta mér þessa leið þegar hún verður fullkláruð. Þetta er einmitt önnur af þeim leiðum sem ég get valið til og frá vinnu.
Hin leiðin er meðfram Hringbraut og Miklubraut, en þá leið þarf að stórbæta til að bæta öryggi.

Þessi mynd er tekin á Gömlu Hringbraut, við strætóstoppistöðina BSÍ. Hér birtast nokkur dæmi um það sem laga þarf víða á hjólabrautum borgarinnar, og sem einmitt er verið að taka í gegn á áðurnefndri leið frá Hlemmi og austureftir. 
Hér sést dæmi um það þegar göngustígur og hjólabraut fara saman án nokkurrar aðgreiningar. Það er, sem fyrr segir, óæskilegt og af því stafar slysahætta. En það er ekki nóg með það. Eins og sést er ljósastaur á miðri brautinni! Það er ekki aðeins afar undarlegt, heldur stórhættulegt. Reyndar er í þessu tilfelli strætóstoppistöð þarna við hliðina með óvenjustórum „brautarpalli“
og geta því hjóland
i og gangandi sneitt framhjá staurnum án stórkostlegra vandræða. En þar komum við að enn einu atriðinu, sem þarf að laga mjög víða í borginni: Brautin liggur í gegnum strætóstoppistöð. Það eitt er frekar óheppilegt, því til að stíga út úr skýlinu og inn í strætó þurfa farþegar fyrst að fara yfir hjólabrautina. Þar er slysahætta. (Þetta veit ég að er eitt af þeim atriðum sem lagað verður á áðurnefndri braut frá Hlemmi.) Þetta tilfelli við stoppistöðina BSÍ er því marföld slysagildra. Hér fara saman hjólabraut og göngustígur (einn mínus) sem liggja í gegnum strætóstoppistöð (annar mínus) með ljósastaur á miðri brautinni (þriðji mínusinn). Á pappírum kann þetta að hljóma hagkvæmt. Að nýta malbik, steypu, lýsingu og pláss eins og kostur er. En í framkvæmd er þetta galið. Flytja þarf brautina afturfyrir skýlið og sveigja framhjá staurnum, án þess að sú sveigja verði of kröpp og svo aðskilja betur umferð gangandi og hjólandi.

Laga, takk!

Bætt við kl 22:58
Eftir að hafa skoðað umræddan stíg betur komst ég að því að það er nú ekki alveg á tæru hvort hann sé skilgreindur sem hjólabraut eða ekki. Það eru a.m.k. ekki nein skilti sem gefa það til kynna. Hins vegar er leiðin sjálf, þ.e. Gamla Hringbraut, skilgreind sem hjólaleið skv. korti um hjólaleiðir í Reykjavík. Þar er hins vegar ekki alveg ljóst hvort það sé gatan sjálf eða stígurinn sem eru ætluðu ndir hjólreiðar. Umferðarlögin eru ekkert sérlega skýr hvað þetta varðar. Hjólreiðafólk á að hjóla hægramegin á götu en má hjóla á gangstétt eða gangstíg, fylgi því ekki hætta fyrir gangandi vegfarendur. Ég get ekki fundið neitt þar sem fjallar um merktar hjólabrautir. Ákvæði um hjólreiðar í umferðarlögum er reyndar efni í annan pistil. Svo virðist sem fæst hjólreiðafólk þekki umferðarreglunar hvað þetta varðar. Það fer a.m.k. ekki eftir þeim.


Amtmannsstígur

Göturnar í miðbænum eru margar hverjar gamlar og rótgrónar. Þær eru oft þröngar sem helgast af því að fólk þurfti jafnan minna pláss í gamladaga en það þarf í dag. Göturnar í Þingholtinu eru t.d. þannig. Þær voru ekki troðnar fyrir bíla í upphafi, heldur bara gangandi fólk og hesta, jafnvel annan búfénað. Það er því undarlegt að sjá hvernig þessar götur hafa með tíð og tíma þurft að laga sig að bílaumferð. Nú er málum háttað þannig og hefur reyndar verið um nokkurt skeið, að skipulag þessara gatna virðist algjörlega miðað að bílum. Eina götu geng ég oft í viku. Hinn gamla Amtmannsstíg. Götu sem er svo gömul, að heitið á henni vísar til stöðuheitis sem er ekki lengur til og fæstir vita í raun hvað stendur fyrir. En það er önnur saga. Amtmannstígur er ein af þessum fallegu götum sem hefur þurft að laga mynd sína að þörfum bílsins. Það hefur haft nokkur áhrif á aðgengi fótgangandi í götunni. Ég tók nokkrar myndir af göngu minni með son minn þar í dag. Sjón er sögu ríkari:

Hér er gengið framhjá Bernhöftstorfunni og litið upp í Þingholtið. MR er á hægri hönd. Húshornið næst á myndinni er það sem hýsir veitingastaðinn Humarhúsið. Gangstéttin fram að þessu er fín og hæfilega breið svo að t.a.m. tveir barnavagnar geta mæst. En svo vandast málið. Húsið skagar fram í gangstéttina svo eftir verður ein og hálf hellubreidd og svo kantsteinninn.


Ojæja, höldum göngunni áfram:
Hér hef ég rétt gengið yfir Skólastræti á leið minni upp holtið. Hér fær gatan enn að éta upp gangstéttarplássið. Tröppur að húsadyrum þrengja svo að gangandi umferð nær húsunum og þegar ofar dregur er búið að koma fyrir járngrindum, sem væntanlega eiga að verja gangandi vegfarendur og hús fyrir bílaumferðinni, en gera það að verkum að ekki er hægt að koma t.d. barnavagni með góðu móti eftir gangstéttinni:











Hér erum við feðgar bara komnir í heilmikil vandræði. Hér er ekkert pláss fyrir barnavagninn. Hvernig myndi t.d. blindum eða fólki í hjólastólum ganga að komast leiðar sinnar hér? Slíkir vegfarendur eiga kannski bara að vera annars staðar.
Hér kaus ég að flytja mig yfir götuna og á gangstéttina hinum megin þar sem plássið var ögn meira. En svo var ekki lengi:


Fljótlega kem ég að horni Amtmannsstígs og Þingholtsstrætis og þar virðist einfaldlega ekki ætlast til þess að fólk sé á gangi yfir höfuð. Gangstéttin hreinlega hverfur undir malbik bílanna. Hér neyðist ég að ganga með barnavagninn á götunni og ekki dugir að flytja mig yfir götuna því plássið er varla meira þeim megin þegar ofar er komið.

Nú spyr ég. Þarf gatan að vera svona? Þarf gatan að vera tvístefnugata? Er þörf á öllu þessu plássi fyrir bílaumferðina? Hún er varla mikil eða svo hröð að ekki megi þrengja að henni. Hámarkshraði í götunni er 30 km/klst. Þarf yfir höfuð að aðskilja umferð gangandi og akandi með svona skýrum hætti? Mætti ekki gera Amtmannsstíg að vistgötu þar sem öllum samgöngumátum væri jafnhátt undir höfði gert? Maður gæti svo sem gengið bara á götunni þarna, en þá er maður eiginlega samt bara fyrir. Bílstjórar eru þarna ekki beinlínis hvattir til að taka tillit til gangandi. Gatan er skilgreind sem umferðargata þar sem gangandi vegfarendur eiga að halda sig á gangstéttinni, þó það fari nú lítið fyrir henni.

Mætti ekki breyta þessu? Fara t.d. þá leið sem farin var í Grjótaþorpinu. Þar má keyra bíla um þröngar götur, án þessa að það sé á kostnað umferðar gangandi. Eiginlega bara mjög vel heppnað:

Úr Gjótaþorpi, vísað er í myndina á vefnum Virtual Tourist.






Þess má geta að ég færði inn tillögu á vefinn betrireykjavik.is um að gera Amtmannsstíg að vistgötu. Áhugasamir mega veita henni atkvæði sitt.

27. okt. 2011

betrireykjavik.is

Fyrir nokkrum dögum var hleypt á netið nýrri og bættri útgáfu af Betri Reykjavík. Þetta er hugmyndavettvangur til að bæta borgina okkar og mun, ef staðið verður við stóru orðin, geta haft áhrif á ákvarðanatöku í borginni. Vefurinn snýst um að fólk kemur með hugmyndir og sem svo er hægt að ræða og gefa atkvæði sitt. Í lok hvers mánaðar verður fimm vinsælustu hugmyndum gefið pláss á viðkomandi vettvangi innan borgarkerfisins. Þannig geta notendur vefsins haft bein áhrif á dagsskrá nefnda og sviða. Þetta er frábært framtak.

Ég er sérlega áhugasamur um að gera Reykjavík að betri borg og hef talsvert beitt mér þarna inni og var um langan tíma tillaga mín um að fjölga sölustöðum strætómiða í fimmta sæti. Sem þýðir að hún yrði send til umfjöllunar, væntanlega í stjórn Strætó.

Mér sýnist hún vera að lúta í lægra haldi fyrir hugmynd um að strætó gangi fram yfir miðnætti alla daga, sem er svo sem ekki síðri hugmynd. En mikið væri nú gaman að sjá hugmyndina mann tekna til umfjöllunar.

Hér má sjá fimm efstu hugmyndirnar þessa stundina:

18. ágú. 2008

Starfhæfur meirihluti

Í kjölfar þessara pælinga sem laust niður í huga okkar feðga um svipað leyti:

Hvergi í sveitastjórnarlögum er talað um að virkur meirihluti þurfi að fara með stjórn borgarinnar. Það kemur heldur ekki fram í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar. Sú þörf, sem ég hef heyrt endurtekið talað um, að mynda starfhæfan meirihluta, virðist því alls engin skylda borgarfulltrúa heldur eingöngu hefð.

Það er eingöngu talað um að oddviti sveitastjórnar (forseti borgarstjórnar) þurfi að fá meiri hluta atkvæða í borgarstjórn. Hins vegar fái enginn einn meiri hluta atkvæða er kosið um þá tvo sem flest fengu atkvæðin. Fái hvorugur þeirra meiri hluta atkvæða nær sá kjöri sem flest hlýtur atkvæðin. Meirihlutinn er því óþarfur.

Sú leið að tveir eða fleiri flokkar komi sér saman um að myndar meirihluta er því aðeins til að tryggja að koma sínum fulltrúum í embætti og einhverjum sinna málefna á dagskrá. Vel má vera að þetta sé þægilegasta leiðin og tryggi ákveðinn stöðugleika innan borgarstjórnar. En eins og mál voru komin í borgarstjórn Reykjavíkur má spyrja sig hvort ekki hefði bara verið rétt að sleppa meirihlutamyndun og að hver borgarfulltrúi væri, eins og lög gera ráð fyrir, ekki bundinn neinu nema eigin sannfæringu. Auðvitað er eðlilegt að borgarfulltrúar starfi samkæmt stefnu þess flokks sem þeir eru fulltrúar fyrir enda líklegt að sannfæring einstaka borgarfulltrúa sé svipuð og stefna flokksins.

Það hefði verið spennandi að sjá hvernig slíkt fyrirkomulag hefði reynst og ábyggilega gengið betur ofan í borgarbúa sem langþreyttir eru á þessu pólitíska drullumalli sem hrært hefur verið saman undanfarna mánuðina.

En þessu liði er of umhugað um völd til að láta á það reyna að ná kjöri í embætti með óbundnum kosningum innan borgarstjórnar. Það er náttúrlega bara naív að láta sig dreyma um svona hluti.

17. ágú. 2008

Ef kosið væri nú

Ef kosið væri nú myndi Sjálfstæðisflokkur fá fjóra borgarfulltrúa, Samfylking átta og Vinstri Græn fengju þrjá. Spennandi. Samfylking gæti þannig séð verið ein í meirihluta en það væri þó ósennilegt að slíkt myndi gerast miðað við sáttina sem ríkir á milli vinstriflokkanna tveggja í borgarstjórn, þessa stundina.

En kosningar eru ekki nú og ekki fyrr en eftir tvö ár og margt getur gerst. Sjálfstæðisflokkur mun áreiðanlega endurheimta einhvern trúverðugleika í millitíðinni. Hanna Birna virðist vera að sanna sig nokkuð og á líklega bara eftir að styrkjast. Þó held ég að það verði erfitt fyrir flokkinn að endurheimta fyrra fylgi. Hins vegar er held ég ljóst að F-listinn sé búinn að vera í borgarstjórn. Svo fer það eftir Óskari hvort hann Framsóknarflokkurinn muni koma manni að. Það verður tvísýnt.

Spurning yrði líka hvað Margrét Sverris gerir. Hún gæti farið í sérframboð og ætti jafnvel séns á að detta inn.

Hvað sem verður er ljóst að valdahlutföllin hafa breyst í Reykjavík. Miðað við festuna og öryggið í framkomu Dags og Svandísar og þann trúverðugleika sem þau hafa áunnið sér verður erfitt fyrir þau persónulega að missa fylgi. Spurning hvort flokkarnir að baki þeim nái að tækla erfið málefni og halda því mikla samlyndi sem hefur myndast þeirra á milli í borgarstjórn.
Ég tel að meirihluti með níu borgarfulltrúum vel raunhæfur fyrir Vinstri græn og Samfylkingu. Sjálfstæðis flokkur með sex og Framsókn þurrkast út. F-listi býður ekki fram.

Nú er bara að bíða í tvö ár til að sjá hvor þessi spá reynist sönn.

14. ágú. 2008

Í þessum skrifuðum er víst ekki búið að mynda nýjan meirhluta en þó búið að slíta meiri hluta F-lista og Sjálfstæðismanna. Boltinn er í höndum Óskars og Framsóknar. Auðvitað væri réttast að hafna boði um samstarf. Hvað myndi gerast ef enginn vildi stíga í dans við Sjálfstæðisflokk eða F-lista? Væri hægt að hafa borgarstjórn án virks meirihluta? Gætu borgafulltrúar bara kosið í embætti sín á milli án þess að eitthvað samkrull væri í gangi? Væri það lausn? Væri það s.k. þjóðstjórn? Kosning um málefni færi eftir samanlögðum styrk flokka sem hefðu svipaða stefnu í viðkomandi máli. Er það virkara og eðlilegra lýðræði. Væri slíkt yfir höfuð hægt? Auðvitað væri þá verið að gefa sér að borgarfulltrúar hefðu í sér þann manndóm og styrk til að hlaupa ekki bara í eitthvað meirihlutasamtarf bara til að fá einhver völd. Sem þeir hafa fæstir.

Pælingar - farinn að hlusta á fréttir

30. júl. 2008

Vitleysisgangur

Hann er nú meiri sauðurinn þessi borgarstjóri í Reykjavík.

Annars er ég á báðum áttum í stóra listaháskólamálinu. Ég á erfitt með að sjá hvernig hægt er að byggja listaháskólahús sem myndi almennilega sóma skólanum um leið og haldið er í þessi þrjú hús þarna á reitnum. Er slík samsuða ekki dæmd til að verða að einhverju moðverki sem yrði sérdeilis engin bæjarprýði? Ég hef amk ekki hugmyndaflug í slíkt ævintýri. Ef það er ætlun manna að halda í öll hús sem kalla má "gömul" á Laugaveginum er ég líka hræddur um að það verði bara til að hamla gegn uppbyggingu á götunni. Væri ekki nær að reyna að halda einshverskonar innra samræmi á tilteknum köflum á Laugaveginum frekar enn að hafa bárujárnshús dreifð inn á milli einhverra steinkubba? Pæling. Kaflinn þar sem hús Listaháskólans á að rísa er t.d. umsettur svona kubbahúsum. T.d. herrahúsinu eða hvað það heitir þarna á hinu horninu. Er svo ekki há steinbyggining beint á móti. Væri ekki alveg málið að flytja þessi gömlu hús bara og svo smella listaháskólabyggingu inn á reitinn sem myndi mynda einhverja heild við húsin í kring á flottan og framúrstefnulegan hátt.

Hmmm - annars er ég almennt á því að reykjavík fái að halda í flest af sínum fallegu bárujárnshúsum. Svei mér þá - líka bara að bárujárnsklæða ný hús svona til að halda samræmi.