Sýnir færslur með efnisorðinu veður. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu veður. Sýna allar færslur

4. júl. 2011

Fyrsta dýfan

Tók hjólið hennar Jóhönnu í gær (bremsurnar á mínu eru bilaðar) og tók stefnuna á Askimbadet. Var ekkert búinn að hreyfa mig frá því daginn áður en Nói fæddist og fannst ég verða að koma blóðinu á hreyfingu og reyna dáldið á hjartað og allt þetta. Svo ég tók smá power-hjólatúr. Askimbadet er í um 8 km fjarlægð frá Godhemsplatsen og ég náði að hjóla þangað á um 20 mínútum, sem verður að teljast býsna gott! Þegar þangað var komið var lítið annað að gera en að henda sér í sjóinn. Það var ferlega gott, þó að vatnið hafi verið í það kaldasta (18 gráður). En fullkomin fyrsta dýfa ársins.

5. apr. 2011

Sigurðarmál

Það er komið að Sigurðarmálum.

Minnugir lesendur bloggsins sjá nú kannski að hin árlega vorumfjöllun er óvenju seint á ferð í ár. Hún hefur yfirleitt komið í miðjum mars en nú er liðið smá á apríl. Ég reit reyndar á Facebook 22. mars: „Fokk! Ég held að vorið hafi verið að detta inn.“ Það varð vissulega breyting á veðrátttunni um það leyti en hún var nú samt óskaplega takmörkuð. Það er kannski hægt að segja að það hafi farið hægt af stað þann daginn. Þetta er samt nokkuð síðar, kannski viku síðar en yfirleitt og umskiptin sumsé hægari. En ég ætla að segja að vorið sé komið hér í Gautaborg. Og þó fyrr hefði verið. En þetta er enn það ómerkilegt að það kallar ekki á vorvísu strax.

30. mar. 2010

Sigurðarmál og hlaupaannáll

Það má kalla þenna dag í dag vordag, þrátt fyrir að hitinn hafi verið rétt yfir frostmarki þegar ég fór á fætur. Hann datt þó upp í tæpar tíu um ellefu og þá dustaði ég rykið af hlaupaskónum og dró fram níðþröngu joggingbuxurnar.

Nú er ég sveittur og sæll

30. mars fyrir þremur árum var eiginlega komið hálfgert sumar hér í bæ. osei.

17. mar. 2010

Sigurðarmál

M.ö.o. veðurblogg!

Tryggir og minnugir lesendur þessa bloggs ættu að kannast við hina árlegu vorumfjöllun mína. Undanfarin ár hef ég, að mestu ómeðvitað þar til í fyrra, skráð samviskusamlega vorkomu hvar ég bý hverju sinni. Hún hefur yfirleitt verið um þetta leyti. Í miðjum mars. Hér í Gautaborg í hið minnsta.
Nú er miður mars og gott betur en ekki er hægt að segja að það bóli mikið á vorkomu. Snjóskaflar sjást utan við gluggann minn, himininn er vetrargrár og hitinn rétt ullast uppyfir núll eða lafir í fimmunni yfir hádaginn. Ekki er hægt að sjá að veðurkortin boði nokkuð gott í þessum efnum á næstunni.
Við, heimilisfólkið á Godhemsplatsen 2B, íbúð 40, erum fyrir löngu orðin þreytt á þessum vetri. Jafnvel ég sem þó slapp í vorloftið á Íslandi um stund. Langþráð er vorið.

19. mar. 2009

Vorvísa

Þessi er akkúrat fimm ára gömul. Hún á akkúart jafnvel við núna hér í Gautaborg og í Amsterdam 15. mars 2004.

Það er sólskin úti og sumarhjörtun tifa,
syngjandi fuglar á trjánum allt í kring.
Á degi sem þessum er dásamlegt að lifa
svo dansandi glaður af ánægju ég syng.


Seisei já!


Köben um helgina. Það er klárt mál.

15. mar. 2009

Annálar

Gildi bloggins verða mér ljós um þetta leyti á hverju ári. Ég er nefnilega stundum veðurbloggari, einkum þegar veðrið er gott. Ég hef náð, kannski fyrir tilviljun, að dokúmentera á hverju ári, vorkomuna.

Í dag röltum við Jóka niður í bæ. Við höfðum litið út um gluggan þegar við röltum á fætur um morguninn og sagt hvort við annað: Vorið er víst bara komið.

Á leiðinni í bæinn vorum við að velta því fyrir okkur hvort það væri ekki nokkuð fyrr á ferðinni en vanalega. Reyndum að rifja upp hvenær vorið bankaði á í fyrra. Þá hugsaði ég með sjálfum mér að ég gæti eflaust flett því upp á blogginu mínu.

Viti menn: Þann 4. mars í fyrra rita ég langa skýrslu um þessi mál, í tilefni af því að mér finnst vorið vera að koma. "Styttist í það?" Nefnist færslan

12. mars 2007 reit ég færslu með heitinu "Nálgast vorið?". 24. mars tala ég svo um fyrsta opinbera vordaginn.

2006 var ég á Íslandi og skrifaði ekkert um vorkomu, enda ekkert vor á Íslandi, bara vetur og sumar.

2005 var ég í Amsterdam. Ég tilkynni um vorkomu þann 15. mars, sem er nú svipað og hér í Gautaborg síðustu tvö ár, þrátt fyrir að liggja töluvert sunnar. Ég held hins vegar að skilgreining á vori hafi verið nokkuð strangari hjá mér þá, því fyrsta vordaginn tilkynnig ég um 19 gráður (á móti 9 gráðum í Gautaborg).

Árið 2004 skrifa ég vorfærslu 1. mars og 17 mars held ég því hreinlega fram að sumarið sé komið.

Lengar aftur nær ekki þetta blogg. Enda hafði ég fram að því verið á Íslandi á "vorin".

En sum sé. Vorið hefur síðustu árin komi um miðjan mars. Eins og í ár

30. júl. 2008

Rammstein

Rammstein-safnið mitt kom líka í ljós við geisladiskasafnsendurröðunina. Auðvitað er bara hægt að spila Rammstein á hæsta styrk, Jóhönnu og nágrönnum mínum til ama. Málararnir sem eru hér á vinnupöllum fyrir utan gluggan virðast skemmta sér og dilla sér við massívan og graðan gítartaktinn.

Annars verður ekkert lát á þessari eindæma veðurblíðu hér. Um 30 stiga hiti þriðja daginn í röð. Svo les maður um 10 gráðum minni hita á Íslandi og kætist líka við það.

Jú, þetta er ágætt og sannkallað.

4. mar. 2007

Hjörtur og hirtirnir


Það viðrar svo vel hér í Gautaborg í dag svo ég fékk mér göngutúr um Slottsskogen hér við hliðina. Þegar ég var á vappi á milli trjánna tók ég þessa mynd. Ef vel er að gáð má sjá dádýr á miðri myndinni. Þau búa þarna í skóginum og hoppa glöð og fegin um.

Það er reyndar merkilegt að steinsnar frá þar sem ég fann dádýrin una sér frjáls í skóginum voru hirtir lokaðir innan girðingar skógargestum til yndisauka.

Ásamt páfuglum, öndum hestum og öðrum dásemdum náttúrunnar.

Lífið er alveg ágætt stundum... sérstaklega þegar veðrir er svona yndislegt.